Hverju breytir ný stjórnarskrá? 3/3

 

Ný íslensk stjórnarskrá breytir öllu

Eftirlætis röksemd þeirra sem ekki vilja endurskoða stjórnarskránna nú um daga er að önnur stjórnarskrá hefði engu breytt um hrunið, enda hefði engum dottið í hug í miðjum ósköpunum að breyta henni eða kenna henni um. Þetta er býsna áhugavert viðhorf og endurspeglar þann núllstatus sem stjórnarskráin hefur í hugum fólks hér á landi, alla vega í vissum kreðsum.

Það má hins vegar til sanns vegar færa að önnur stjórnarskrá hefði engu breytt, það er að segja ef ekki hefði verið farið eftir henni - rétt eins og ekki er farið eftir núverandi stjórnarskrá eins og ég fór yfir í fyrstu grein í þessum flokki. Það er því tvennt sem þarf til - nýja stjórnarskrá og vilja til að fara eftir henni, eins og farið var í í grein númer tvö.

Í fyrsta lagi: Hvað er stjórnarskrá?

Í Danmörku er stjórnarskráin kölluð "Grundlov" - grunnlög eða grundvallarlög, sem endurspeglar býsna vel vægi þessara laga: Þetta eru lög sem eru grundvöllur allra annarra laga landsins. Í þröngum skilningi orðsins "lög" væri hægt að ímynda sér að verið sé að tala um eitthvað sem er auðskiljanlegt og í hendi, jafnvel illtúlkanlegt, en þegar stjórnarskrár annarra landa eru lesnar rekur maður sig fljótlega á það að hér hangir meira á spýtunni. Þar er fjallað um réttindi og skyldur borgara, mannréttindi, hamingju, spillingu, neyðaráætlanir, jafnræði, trúarbrögð, hjónabönd, tjáningarfrelsi, menntun osfrv. osfrv. Margt sem ekkert hefur með stjórnsýslu að gera, heldur lífið sem borgarar landsins lifa. Í sem stystu máli mætti segja að stjórnarskrá eigi að snúast um upplifun borgaranna og daglegt líf, en ekki upplifun lögfræðinga og stjórnvalda af borgurum og hvernig á að deila völdum til að meðhöndla þá. Þegar Ísland eignast svoleiðis stjórnarskrá, þá verður farið eftir henni, og þá getur hún breytt þjóðfélaginu.

Það er nota bene ekki einungis um grundvallarlöggjöf að ræða, heldur grundvöll þess siðferðis sem við viljum lifa eftir og grunnhugsun þess þjóðfélags sem við viljum vera hluti af. Lög- og stjórnskipunarfræði eru góðra gjalda verð - en þær fræðigreinar eru einskis virði fyrir þjóð sem ekki veit eftir hvaða gildum hún ætlar að lifa eftir. Frelsi, jafnrétti og bræðralag eru grunngildi frönsku þjóðarinnar og þau eiga sinn heiðursstað í stjórnarskrá þeirra. Íslendingar þurfa einnig að endurspegla sjálfsmynd sína og þau manngildi sem þeir telja eftirsóknarverð á jafnkraftmikinn hátt og byggja nýtt þjóðfélag á þeim grunni. Það eru hin raunverulegu grundvallarlög.

Stjórnlagaþingfrumvarp setur falskan tón

Texti er aldrei saminn í tómarúmi, hvort sem það er ný stjórnarskrá, lög um stjórnlagaþing, skáldsaga eða hvaða annar texti sem er. Texti er saminn í samfélagslegu og hugmyndafræðilegu samhengi. Þýska stjórnarskráin, svo dæmi sé tekið, var samin að lokinni síðari heimstyrjöldinni. Andrúmsloftið á þeim stað og tíma endurspeglaði nánast fullkomið niðurbrot mannsandans í þjóðfélagi sem þurfti að vinna sig út úr einu mesta óréttlætisástandi sem veröldin hefur kynnst. Enda eru upphafsorðin þessi: "Die Würde des Menschen ist unantastbar. Sie zu achten und zu schützen ist Verpflichtung aller staatlichen Gewalt. Þýðingin gæti væri einhvern vegin svona: Mannleg reisn er friðhelg. Skylda alls ríkisvaldsins skal vera að virða hana og vernda. Þetta væru verðug byrjunarorð í öllum stjórnarskrám heimsins. 

Í okkar tilfelli er verið að semja stjórnarskrá í andrúmslofti tortryggni og vantrúar á stjórnmál og stjórnmálamenn. Það endurspeglast, eins og gefur að skilja, í lögum til stjórnlagaþings sem til stendur að vinna nýja stjórnarskrá eftir. Í lögunum eru sérstaklega til tekin átta atriði sem stjórnlagaþingið á að taka til umfjöllunar. Ekkert þeirra hefur með mannlega reisn eða mannréttindi yfir höfuð að gera, heldur er stjórnskipulag og valddreifing þar í algeru aðalhlutverki (sjá 3 gr. laga til stjórnlagaþings). Það liggur í augum uppi að ný stjórnarskrá verður að innihalda atriði eins og "Undirstöður íslenskar stjórnskipunar", "Skipan löggjafarvalds og framkvæmdavalds…" og ákvæði um sjálfstæði dómstóla - það er að segja að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins, en að þessu slepptu er fátt sem stjórnlagaþinginu er lagt fyrir af lögunum að dæma - ef frá eru talin utanríkismál og auðlindamál (sem var bætt við á síðari stigum frumvarpsins).

Þessar hálfneyðarlegu eyður í lögunum eru í sjálfu sér ekki mikilvægar fyrir stjórnlagaþingið - því það ræður sér auðvitað sjálft ef það kýs að ráða sér sjálft og getur haft allt þetta inni í nýrri stjórnarskrá, en það er góð áminning fyrir verðandi stjórnlagaþingmenn því stjórnlagaþingfrumvarpið endurspeglar einungis ástandið í þjóðfélaginu eins og það er núna, en ekki það sem þarf að standa í grundvallarlögum sem mun þjóna okkur, börnum okkar og barnabörnum og öllum þeim sem kjósa að lifa á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Þó að þýska stjórnarskráin sé af mörgum talin sú besta sem hefur verið skrifuð er hún afsprengi aðstæðna, og enn ein ofvirk viðbrögðin við hruninu er ekki það sem íslenska þjóðin þarf á að halda núna. Við þurfum bestu stjórnarskrá sem hægt er að semja fyrir okkar sérstaka land og landsmenn til framtíðar.

En hverju getur þá ný stjórnarskrá breytt?

Hvers virði væri ný Íslensk stjórnarskrá sem allir Íslendingar geta samsamað sig með? Hún eyðir ekki uppsafnaðri tortryggni til margra ára á einum degi. Hún þurkar ekki á augabragði upp afleiðingar vanhæfni þeirra sem komu okkur í þá vondu stöðu sem við erum í nú eða menntar þjóðina betur eða setur fleiri lærisneiðar í ískápinn eða stærri fiska í sjóinn. Hún gæti hins vegar verið byrjunin á því að Íslendingar uppgötvi sjálfa sig sem þjóð án þess að grípa til óyndisúrræða sem jafnan er gert í hátíðarræðum þegar digrir embættisbarítónar veina ræður í míkrófóna um sterku, fallegu bókaþjóðina sem skarar framúr öllum öðrum þjóðum á langflestum sviðum, að því gefnu að miðað sé við höfuðtölu. Hún getur tryggt mannréttindi, lýðræði og góða stjórnarhætti, jöfnuð, frelsi og tækifæri. Hún getur sagt okkur hver við erum og hvert við viljum stefna. Hún getur verið okkar sköpun og sköpunarverk. Hún getur verið við sjálf eins og við viljum sjálf vera.

Ef þetta tekst - þá getur hún breytt öllu sem einhvers virði er að breyta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ég tel að vandamál okkar í dag - megi rekja til vanvirðingar fyrir fjárrmálaákvæðum stjórnarskrár 40. og 41 gr.

Þetta má rökstyðja - en ég geri það ekki hér og nú.

Það er til lítils að "breyta stjórnarskránni" ef virðinguna fyrir henni vantar og agaleysið heldur áfram - að þessu leyti.

Kristinn Pétursson, 26.8.2010 kl. 01:58

2 identicon

Það má alveg halda því fram að ný stjórnarskrá ein og sér breyti engu. En ég held að hún sé nauðsynlegt fyrsta skref. Að minnsta kosti ef vel tekst til. Og ég ætla að halda því fram að betri stjórnarskrá hefði kannski ekki komið í veg fyrir að hrunið, en það hefði orðið eins stórt.

Valgarður Guðjónsson (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 12:05

3 identicon

Góð grein :-) Mannréttindi, verða að vera grunndvöllurinn ! ásamt þjóðfélasstrúktúr, því ef Mannréttindum er ábótavant þá eu minni en engar líkur á að´Almenningur fari eftir ! Réttur til mannsæmandi lífs sem og Virðing fyrir öllum er Lykilorð :-)

 Annars sorglegt að sjá þessi lög Allt gert til að ringla Almenning, ógildingar veða sennilega fleiri en nokkurntíman hefur hér sést !

 Að hver einstaklingur meigi bara vera meðmælandi hjá einum frambjóðanda (þarf minnst 30, mest 50) gæti erviðað frambjóðendum mjög að ná undirskriftum, og alltof fáir vita að aðeins má vera meðmælandi hjá EINUM frambjóðanda, allar undirskrifir ógildar ef skrifar tvisvar ! kannski skiljanleg regla er Alþingis eða Sveitastjórna er þar sem einungis má kjósa EINN lista, en þrátt fyrir að geta kosið allt að 25 í Stjórnlagakosninngum, má aðeins vera meðmælandi hjá EINNUM frambjóðenda !

 Kynning verður í algeru lágmarki og engar tímasetninngar varðandi það nema með birtingu á Frambjóðendum á Heimasíðu 24 dögum fyrir kjördag ! eða 16 dögum eftir að framboðsfrestur rennur út !

 fyrir utan allt klúðrið er varðar þingið sjálft, en 2 mán rétt duga til að "hrista" fólk saman, aðkeypt Sérfræði vinna td verður ALLDREI nægilega vönduð innan þessa tímaramma, og svo að Alþingi fái Frumvarp beint á aðkomu Almenning í millitíðini, er svo til að toppa yfirnáttúrulega slæmt skipulag á þessum mikilvægustu vinnu Lýðveldisinns !

 "Hroðvirka vilja þeir hafa hana og hroðvik verður hún" það er bara ekki fræðilegur möguleiki að "sanngjörn" Stjórnarskrá líti dagsinns ljós undir þessum Lögum !

 EN eitt fallið hjá Ríkistjórn á ótrúlega einföldu máli ! sorglegt en satt

GretarEir (IP-tala skráð) 26.8.2010 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og tólf?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband