Stjórnlagaþing - einkunnargjöf

Þá eru kosningar til stjórnlagaþings afstaðnar og tími til að gefa aðilum sem komu að málinu einkunn fyrir frammistöðuna. Einkunnir eru gefnar á skalanum 1-10.

Fjölmiðlar: 2

Fjölmiðlar sýndu málinu fádæma áhugaleysi. Mun meiri kraftur hefur farið undanfarið í slúður um kynferðismál presta og íþróttaumfjöllun útlenskra spriklara. Ríkissjónvarpið féll fullkomlega á prófinu. Fyrir utan einn ágætis þátt á fimmtudaginn var ekkert fjallað um stjórnlagaþingskosningar ef frá er talinn þáttur Egils Helgasonar. Útvarpið tók við sér undir lokin, en hafði þó staðið sig sæmilega - í það minnsta sýnt áhuga. Stóru fjölmiðlar fá þessar einkunnir: Fréttablaðið: 2, Stöð 2: núll, Morgunblaðið: núll, Fréttatíminn: núll, DV: 5, Bylgjan: 1. Fjórða valdið er ónýtt.

Stjórnmálaelítan: 1

Enginn alþingismaður / kona gaut svo mikið sem hornauga að málinu. Stjórnarskrárfélagið hélt vikulega fundi síðustu tvo mánuðina og mættu uppundir 100 manns á hvern fund. Þar af voru 0 (núll) alþingismenn. Almennt flokksfólk var álíka fjölmennt á fundina. Áhugi stjórnmálastéttarinnar af stjórnarskrármálum er nánast enginn - þau vita að þau fá tækifæri til að eyðileggja niðurstöður stjórnlagaþingsins fyrr eða síðar. Jóhanna Sigurðardóttir var einna helst spræk í greinarskrifum. Hún fær 1 í sinni viðleytni - aðrir fá núll.

Háskólinn: núll

Það er skemmst frá því að segja að Háskóli Ísland, hvers tilgangur er samkvæmt lögum að "miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar" gerði ekkert (já, ekki nokkurn skapaðan hlut) til að fræða almenning um stjórnarskrármálefni. Skömm Háskóla Íslands er ævarand og það er ljóst að sú stofnun hefur ekki tekið hlutverk sitt alvarlega, hvorki fyrir hrun né eftir. Eftir hrun hélt Háskóli Íslands fyrirlestraröð þar sem starfsmenn skólans kepptust við að benda á hvað aðrir eru vondir í að sinna aðhaldshlutverki sínu. Á aðra háskóla á þessu landi tekur ekki að minnast að öðru leyti en því að stjórnlaganefndin fékk aðstöðu í Bifröst fyrir 1 fund.

Stjórnlaganefnd: 10

Enn sem komið er er stjórnlaganefndin eina apparatið sem hefur staðið sig í þessum prósess, og hefur gert það með láði. Nánast launalausir nefndarmenn (já - stjórnvöld GLEYMDU að gera við þau samning - nefnd sem átti að vinna vinnu sem sparar 50 milljónir í undirbúning og kynningu) hafa staðið sig með einstakri prýði. Þeir hafa keppst við að vinna faglega, koma fram þar sem það hefur átt við, tala stjórnarskrármálefni upp og almennt sýnt af sér stórkostlega ósérhlífni og metnað í hvívetna. Ef fálkaorðan væri ekki orðin skammarverðlaun ætti umsvifalaust að prýða þessu fólki þeirri orðu.

Dómsmála og mannréttindaráðuneytið: 2

Þetta ráðuneyti gerði það sem lög ætluðust til af því, en ekki meir. Þar var enginn metnaður til að veita þessu máli þá athygli sem það á skilið. Það eina sem ráðuneytið gerði sem ekki var beinlínis krafist af þeim í lögum var að búa til virkni á heimasíðu þar sem kjósendur gátu búið til sinn eigin kjörseðil. Slegið var á útréttar hjálparhendur.

 

Og svo er fólk hissa yfir dræmri kjörsókn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð greining hjá þér

ASE (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 10:45

2 identicon

Daði, ég held að hluti af skýringu dræmrar kjörsóknar sé auk þess almenn leti fólks sem telur það of mikið eftir sér að uppfræða sjálft sig. Á kjörstað varð ég einni var við leti í því formi að fólk nennti ekki að bíða í röðinni og fór. Það sum sé nennti ekki að grípa einstakt tækifæri til að taka þátt í virku lýðræði þar sem það kostaði 40 í biðröð. Það er svo dapurlegt.

Þórir Jónsson Hraundal (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 11:47

3 identicon

Þú verður bara að afsaka en mér finnst frekar móðgandi að fólk álíti mig lata fyrir að hafa ekki farið að kjósa. Þessi kosning kemur á ótrúlega slæmum tíma fyrir námsmenn til dæmis. Ég er í fullu að vinna að lokaverkefni og margir aðrir að lesa fyrir próf, heldur þú virkilega að ég hafi tíma til þess að lesa mér um 500 manns sem eru í prófkjöri þegar ég hef ekki tíma til þess að lifa utan skólans?

Ég er öll fyrir persónukjör en ég hef hreinlega ekki tíma og ekki efni á því að vera lesa mér til um allt þetta fólk hvað þá að bíða í röð þegar um framtíð mína er að ræða. Það hefði verið betra að halda þessar kosningar í byrjun annar svo námsmenn gætu almennilega tekið þátt. En nei, stjórnvöld ákvaðu að gera þetta núna bara svo þetta sé gert ómerkt og ekki tekið til greina. Þau eru hrædd við þetta beina lýðræði og ef beint lýðræði skildi kalla því þau hafa enn valdið til þess að fleygja þessu fyrir borð hvenær sem þetta kemur inná þing.

S. (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 12:15

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir þetta Daði og takk kærlega fyrir þinn stóra og óeigingjarna þátt í því sem stjórnarskrárfélagið gerði fyrir þessar kosningar.  Allir stjórnarmenn þar eiga þakkir skilið. A+

DV og Svipan stóðu sig vel, en stóru nöfnin í fjölmiðlun, Fréttablaðið og Morgunblaðið gerðu nær ekkert.  Mogginn reyndi að græða á þessu öllu saman og freistaði frambjóðendum með rándýrum auglýsingum.  Alla hugsjón vantaði í þessi "stóru" blöð.  Þessi blöð nærast á velvild landsmanna gagnvart þeim, en nú þegar þau höfðu tækifæri til að gefa eitthvað stórt til baka, t.d. með útgáfu sérblaða um kosningarnar eða gefa frambjóðendum heila opnu til greinaskrifa í 2-4 vikur, gerðist ekkert.  Veittur var afsláttur af auglýsingum, 25% hjá Fbl. en hvort að það er eitthvað meiri afsláttur en allir aðrir fá er spurning. 

Svo er það blessaður forsetinn.  Hvar var hann?  Væri það óviðeigandi að hann hefði komið fram í sjónvarpi kvöldið fyrir kosningar og fjallað um mikilvægi lýðræðisins og þess að sjórnarskráin sé samin af því fólki sem er ekki við völd hverju sinni?  Það voru ekki nein hitamál og hasar sem komu fólki á kjörstað, en e.t.v. hefði beiðni frá þjóðhöfðingjanum þar sem höfðað væri til hins fallega og reisnar okkar sem lýðræðisþjóðar, hreyft við fleira fólki til að kjósa.  Kannski til of mikils ætlast af forseta.

Þátttökuleysið er mikil vonbrigði.  Nú er að sjá hvernig úrslitin verða.  Vonandi ekki önnur vonbrigði.

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 28.11.2010 kl. 12:36

5 identicon

Fyrirgefðu S, en ég held að þú hafir staðfest minn punkt. Það hafa allir mikilvægum verkefnum að sinna, en að láta það stöðva sig í að grípa einstakt tækifæri til að hafa áhrif á grundvallarhugmyndir samfélags okkar er það sem ég er að gagnrýna. Það kostaði mig t.d. ekki nema nokkrar klukkustundir að fá grófa hugmynd um hvar fólk stæði, svo var t.d DV með afar hentugt tæki þar sem maður gat borið saman hugmyndir sínar og frambjóðenda. Það hefði ekki átt að taka langan tíma að velja t.d. einhverja 5-10 sem maður var sammála í grófum dráttum.

Þórir Jónsson Hraundal (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 13:15

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Frammistaða háskólans var eiginlega verri en engin. Því það litla sem þaðan kom var litað með hlutdrægni.

Ég talaði við fjöldafólks fyrir kosningarnar og hef þannig að einhverju leyti púlsinn á þessu. Margir þeirra sem sögðust ekki ætla að kjósa báru því við að þeir kæmu ekki nálægt pólitík.

Afstaða þessa fólks endurspeglar hversu illa það er sett inn í gildi stjórnlagaþingsvinnunar. Stjórnmálastéttin, fjölmiðlar og háskólinn ber þarna mikla ábyrgð.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.11.2010 kl. 13:23

7 Smámynd: Daði Ingólfsson

Kæra S

Ég er algerlega ósammála þér. Ef þú hefur ekki getað litið upp úr bókunum í tvær klukkustundir - sem er sá tími sem ég heyrði flesta segja að tæki að velja sér frambjóðendur - þá hefur þú ekki verið nógu dugleg að læra yfir önnina. Þó að ofantaldir hafi staðið sig herfilega er það engin afsökun fyrir fólk að mæta ekki á kjörstað.

Daði Ingólfsson, 28.11.2010 kl. 14:46

8 Smámynd: Daði Ingólfsson

Takk fyrir Svanur

Ég er líka sammála þér um forsetann. Þátttöku- og áhugaleysi hans er til skammar.

Svipan stóð sig afar vel í öllu þessu ferli. Þau höfðu frumkvæði af því að spyrja frambjóðendur um afstöðu þeirra og birtu fjöldan allan af greinum og pælingum. DV stóð sig vel með heimasíðuna en var í því að birta myndir af fræga fólkinu í framboði - sem er einstaklega skaðlegt í svona ferli. 

Daði Ingólfsson, 28.11.2010 kl. 14:50

9 identicon

Fannst líka framhaldsskólarnir klikka en margir þeirra bönnuðu veggspjöld á skólalóðinni.

Vergangur.Reykjavikurson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 14:55

10 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Takk Daði. Hjartaræturnar funhitnuðu

Aðalheiður Ámundadóttir, 28.11.2010 kl. 15:25

11 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ég er einn þeirra sem var fúll á móti lengst framan af.

Framkvæmdinni fannst mér ábótavant. Of stuttur tími fannst mér fyrir fólk að gera upp við sig hvort það vildi bjóða sig fram. Reyndar buðu sig það margir fram að kannski mér hafi skjátlast þarna.

Hitt, sem mér þótti verra, var sá stutti tími sem fólki var ætlaður til að kynna sig og tel ég hann stærstu ástæðu þess hve margir voru óvissir hverja þeir ættu að velja. Ég sjálfur þar á meðal. Ég valdi því minn lista með slembivali af úrtaki fólks sem virtist þokkalega í vit stígandi, án þess ég hefði fyrir því fulla vissu.

Fram til mánudagsins s.l. ætlaði ég ekki að kjósa, en þegar ég áttaði mig á mikilvægi þess að þjóðin sjálf semdi sína stjórnarskrá, vildi ég ekki sjá fram á að naga mín handabök til dauðadags yfir að hafa vísvitandi sleppt tækifærinu á að eiga þátt í því að gera slík stjórnrskrá verði til.

Brjánn Guðjónsson, 28.11.2010 kl. 16:09

12 identicon

íslendingar gáfu lýðræði fingurinn í gær og misstu af einstöku tækifæri til að hafa áhrif á framtíðina og sanna fyrir alþingi og alþjóðasamfélaginu að hér býr fólk sem vill taka til hendinni og taka þátt í að skapa samfélag sem tekur á málum í því þjóðfélagi sem við viljum búa í. því miður eru allt of margir eins og S sem sitja og nöldra og skammast yfir stjórnvöldum, þjóðfélaginu og ástandinu en er svo um leið hluti vandamálsins með sinnuleysi, þrælsótta og leti að kynna sér ekki málin og um hvað þetta snérist. fólk sem heimtar þjóðaratkvæðagreiðaslur um öll málefni og jarmar í Forseta Íslands að vera sá ventill sem við sjálf eigum að vera brást þjóðinni í gær með því að gefa skít í mikilvægustu þjóðaratkvæðagreiðslu allra tíma. ´dagurinn í dag er sorgardagur og ég get ekki lýst vonbrigðum mínum með þjóðina sem ég hef verið svo stollt af að tilheyra hingað til.

thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 16:23

13 Smámynd: Daði Ingólfsson

Brjánn - ég er sammála þér í öllum atriðum. Framkvæmdin er öllum til skammar sem að stóðu. Stjórnlagaþinglögin eru skandall, áhugi stjórnmálaelítunnar er fyrir neðan allar hellur, hraðinn hefur verið allt of mikill, allir sem síst skyldi hafa brugðist - með bravör. Næsta mál eru reglurnar sem alþingi er að semja fyrir stjórnlagaþingið. Ef þær verða of nákvæmar og bindandi fyrir þingið er útséð með hvað alþingi í raun vill út úr þessu: ekkert.

Það sem gæti bjargað málunum væri þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöður stjórnlagaþingsins áður en alþingi fær það til eyðileggingar. Ég er ekki hræddur við þátttöku í þeim atkvæðagreiðslum - það væri mun meira konkret en þessar.

Þú færð risaprik fyrir að snúast hugur og kjósa. Ef ráðamönnum þessarar þjóðar væri gæddur þessi eiginleiki (að snúast hugur eftir yfirlegu), þá væri þeim etv. við bjargandi.

Daði Ingólfsson, 28.11.2010 kl. 16:27

14 identicon

Athyglisverð greining, mig langar þó að nefna...

Mér fannst Rás2 gera þokkalega tilraun til að sinna málinu, en hlutleysið, varð til þess að umfjöllunin snerist fyrst og fremst um rammann, ekki frambjóðendur. Viðtölin á Rás1 var virðingarverð tilraun. X-ið gerði vel, amk. síðustu vikuna og leyfði sér einfaldlega að taka afstöðu til hvaða frambjóðendur væru áhugaverðir. Vefmiðlarnir sinntu sínu margir vel, sérstaklega DV og Svipan, og svo voru áhugaverðar umræður á Eyjunni.

Tvennt má skoða til viðbótar.

Stjórnarskrárfélagið gerði margt vel en tækin kannski ekki mörg.

En svo er spurning hvaða einkunn frambjóðendur sjálfir fá? Ég tók þá ákvörðun að reyna að skrifa greinar annars vegar og hins vegar láta vita af mér hjá með því að hafa beint samband. Var ekki mjög virkur að öðru leyti, enda nægilega tímafrekt.

Valgarður Guðjónsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 17:56

15 identicon

Varðandi áhugaleysi þingmanna Mig mynnir að Birgitta Jónsdóttir hafi talað fyrir stjórnlagaþingi og ég hef margoft heirt Pétur Blöndal lysa kostum Stjórnlagaþing

Halldór Sigurþórsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 18:32

16 Smámynd: Daði Ingólfsson

Jú, Halldór. Þór Saari talaði líka vel um þetta og Birgir Ármanns tjáði sig svo um að það þyrfti að láta stjórnarskránna í friði ef frá væru skilin nokkrir tugir atriða. Þetta togar einkunnina upp í 1,4 - sem námundast aftur niður í 1.

Daði Ingólfsson, 28.11.2010 kl. 21:15

17 Smámynd: Daði Ingólfsson

Ég verð reyndar að bæta við að mín eigin fyrirsögn "Stjórnmálaelítan" truflaði sjálfan mig í þessari málsgrein. Ég get engan vegin séð þingmenn Hreyfingarinnar sem hluta af þessari elítu... en - rétt, þetta var ekki nógu nákvæmt hjá mér.

Daði Ingólfsson, 28.11.2010 kl. 21:59

18 identicon

Andskotans vitleisingjar eruð þið nú öll verð ég nú bara að seigja.

Þórir: "að grípa einstakt tækifæri til að hafa áhrif á grundvallarhugmyndir samfélags okkar"

 Daði: "Þátttöku- og áhugaleysi forseta okkars er til skammar"

 Thora: "Íslendingar gáfu lýðræði fingurinn í gær og misstu af einstöku tækifæri til að hafa áhrif á framtíðina"

HALLÓ! Þetta voru "bara" kostningar til stjórnlaga þings, þings sem er án allra valda og hefur "ekkert" að segja!

Og hver er skipan og verkefni þess?...

"Þing þess er haldið í heyranda hljóði og eins og Alþingi segir að tillögur þess gætu síðan verið lagðar lagðar fyrir dóm þjóðarinnar ef þær nytu nægilegs stuðnings. Þjóðin hefði síðan ætíð síðasta orðið í allsherjaratkvæðagreiðslu um tillögurnar."

 Verkefni þess er semsagt það sama og Alþingis, þess sama Alþingis sem við setjum á stofn með frjálsum kosningum!

Alþingi er kosið af þjóðinni og haldið í heyrandi hljóði  og þar með tillögur þess ávalt lagðar fyrir dóm þjóðarinnar. Ef til ósættar kemur getum forseti "gripið inn í" að ósk þjóðarinnar.

Við höfum ekkert með "enn eitt" þingið að gera og það sannar áhugaleysi allra!

Stór orð ykkar vitnað í hér að ofan eru menntafólki sem ykkur öllum til "háborinnar skammar" og vitna í ekkert annað en grunnhyggju.

Lifið heil í frjálsu samfélagi!

Kalli Dan. (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 22:06

19 identicon

Orð þín eru sem betur fer sjálfdæmd, Kalli Dan.

Þórir Jónsson Hraundal (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og núlli?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 430

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband