Nýju frasar keisarans

Nýjasti tískufrasinn er að "líta í eigin barm". Annar er að "axla ábyrgð" og þriðji er "heiðarlegt uppgjör". Þetta kemur nú í staðinn fyrir "efnahagslegur stöðugleiki", "árangur áfram, ekkert stopp" og annað sem forkólfar stjórnmálaflokka töldu að félli í kramið hjá lýðnum. Mér er til dæmis hulið hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir ekki áfram undir slagorðinu "efnahagslegur stöðugleiki" þar sem stefna hans brást í engu (bara ónafngreindir einstaklingar).

Nei, nú fellur annað betur í litlu atkvæðin: "Þjóðarsátt 2010 - samstaða um endurreisn" segja hinir öfgalýðræðissinnuðu Framóknarmenn, "Þjóðstjórn" hvíslar Hanna Birna, "tökum til hendinni" segir hið yfirgengilega þrifna Samfylkingarfólk. Og fólk stendur í kringum þessa nöktu bossa og ræður sér ekki fyrir kæti, bendir og dáist að stórfenglegum klæðaburði þeirra - nú á allt að breytast, þau hafa lært af reynslunni.

Kæru landar. Stjórnmálamenn eru allsberir. Þeir hafa ekki sagt eitt aukatekið orð satt undanfarin ár og það bendir nákvæmlega ekkert til þess að þeir geri það nú. Ég er að reyna að hljóma ekki of heimskulega, en það sem vakir fyrir þessu fólki eru völd - þeim er hjartanlega sama um ykkur. Prófaðu að senda tölvupóst til þingmannsins þíns - efsta mannsins í þínu kjördæmi, óháð flokkum - um eitthvað sem hvílir á þér varðandi stjórnsýsluna. Ég segi það með fullkominni vissu - þú færð nánast örugglega ekkert svar. Ég mæli með því að þetta sé gert, því það er partur af eðlilegu fulltrúalýðræði, en því miður er niðurstaðan nánast alltaf sú sama - þangað til að kemur að kosningum... en þá færðu ekki bara svar, heldur pulsu líka og blöðru og mann sem syndir á naríunum í sjónum og syngur þjóðsönginn á meðan.

Kíkjum aðeins á frasana í þessu samhengi. Byrjum á að "líta í eigin barm". Getur einhver bent á einhvern stjórnmálamann sem hefur litið í eigin barm? Nei. Það hefur nákvæmlega enginn litið í eigin barm. Það gerði bókstaflega enginn maður nokkuð rangt. En þess í stað hafa menn einbeitt sér að því að líta í barma annarra óháð fegurð viðkomandi barms. Birtingur komst að því eftir mikið havarí að það væri þrátt fyrir allt eftirsóknarverðast að rækta bara eigin garð í rólegheitum. Það væri mörgum holl lesning - sérstaklega þeim sem hafa nú með offorsi ráðist á garða annarra og ræktað þá af gífurlegum eldmóð ásamt því að gefa óvéfengjanleg ráð um garðrækt yfir hekkið... en standa sjálfir í foraði óræktargarðs með arfa upp að hnjám. Ekki furða að fólk treysti ekki stjórnmálamönnum.

Sá næsti er að "axla ábyrgð". Það er stutt mál að fjalla um það. Það hefur enginn axlað ábyrgð. Punktur.

Sá þriðji er "heiðarlegt uppgjör". Jú, þetta hafa allir farið í. Meðlimir Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins pípa sig blaá í framan yfir því hver hefur farið í heiðarlegasta uppgjörið og hver var fyrstur og gerði það best og með mestum árangri. Hinn frábæra árangur í þessari hreingerningastarfsemi er að örfáir stjórnmálamenn sem löngu voru komnir fram yfir síðasta söludag hafa "dregið sig í hlé". Ég kikna í hnjánum af hrifningu. Í staðinn höfum við fengið yngra fólk sem hlýðir forustunni í einu og öllu. Það er enginn barátta í nýja fólkinu á þingi - og það er eitthvað sem ég á í verulegum erfiðleikum með að skilja. Það er fólk á mínum aldri, jafnvel kunningjar (já, þetta er lítið land), fólk sem gekk í sömu skóla og ég og var í sömu partíum. Hvað í greflinum kom fyrir það í millitíðinni? Þetta er orðnir þreyttir, sálarlausir embættismenn áður en nokkur fær við ráðið... alveg fullkomið já ráðherra fólk. Hvað gerist eiginlega inni í þessum flokksmaskínum? Æfa þau svipbrigðaleysi af tíumetrapalli? Útúrsnúninga með frjálsri aðferð? Málalengingar á slá? Spretthræsni?

Ég veit það ekki. En ég veit að keisarinn er allsber og þjófarnir komust undan með gullið. Það er undir okkur að hrópa sannleikann upphátt - annars erum við samsek í þessum siðblindingsleik og gullkistur ríkisins verða bara tæmdar aftur og aftur og aftur og aftur af sniðugum þjófum sem vita hvernig þeir eiga að höndla hégómafulla ráðamenn og embættishyski þeirra.

Hjálp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

„Gefum ráðhústökuliðinu verðskuldað hlé“ og kjósum „sjálfbært gegnsæi“!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.5.2010 kl. 02:05

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

heyr heyr

Birgitta Jónsdóttir, 17.5.2010 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband