Von

Besti flokkurinn

Undanfarin tvö ár hefur verið nánast alger pólitísk auðn á Íslandi. Litlir hópar hafa reynt að taka sig saman og hrópa og veifa höndum, en fátt hefur gengið upp og haft veruleg áhrif. Fólk var vongott um að hlutirnir myndu breytast eftir Búsáhaldabyltinguna, en allt fór strax í sama farið aftur. Ný stjórn tók við þar sem sú gamla hafði skilið við. Engu mátti breyta því það var ekki hefð fyrir því. Landinu var og er stjórnað af hefðum, sérhagsmunum og vanhæfni. 

Nú hefur fæðst ný von í brjóstum Reykvíkinga - og sennilega landsmanna allra. Það fannst loksins viljug persóna sem var hafin yfir allan vafa til að taka að sér það tröllaukna verkefni að sameina fólkið gegn þeirri vanstjórn sem hefur riðið húsum á síðustu áratugum og leiða það til móts við eitthvað nýtt. Já - bara eitthvað nýtt. Það breytir ekki öllu hvað það er - bara að það sé eitthvað annað en hefur verið. Í allra versta falli verður gaman. Því það er alveg á hreinu að nýja (besta) fólkið getur ekki klúðrað hlutunum jafn stórfenglega og þeir sem nú deila með sér völdum. 

Jón Gnarr 

Þessi ólíklega persóna er leikari og hugmyndasmiður. Hann hefur glatt Íslendinga meira en aðrir menn, jafnvel jafn mikið og verstu stjórnmálamennirnir hafa reitt sömu þjóð til reiði. Hann hefur sýnt fádæma sköpunarkraft í verki, komið sér á framfæri í veröldinni á eigin verðleikum og aldrei dottið ofan í fúlan pitt ásakanahefðarinnar. En það mikilvægasta af öllu er að hann kemur ekki fram fyrir alþjóð fullur af hroka og þaulæfðri, fínslípaðri málsnilld, heldur af sinni óviðjafnanlegu nördalegu einlægni, því það er það sem hann er þrátt fyrir allt - nörd, eins og við hin. 

Gömlu kerfin

Það hefur skapast hefð fyrir því að mesta látunstungan vinnur. Sá einstaklingur og þeir flokkar sem ná að plata flest fólk til að trúa sér vinna hnossið. Þeir hafa komið sér upp stefnuskrám og málefnalistum, stjórnarsáttmálum, nefndarálitum, þingsályktunartillögum, minnihlutaálitum og allskonar öðrum einkennilegum uppfinningum til að skýla þeirri staðreynd að þeir eru bara í frekar ógeðfelldum valdaleik. Þeir hafa sett reglurnar sjálfir (þessir "þeir" sem ég er að tala um ganga daglega undir nafninu "flokksmeðlimir") og sníða þær eftir því hvernig valdataflið spilast. Þetta hefur gert nýjum öflum nær ókleift að breyta kerfinu. Það hefur komið upp krafa um beint lýðræði - kæft í fæðingu. Það hefur komið upp krafa um persónukjör - kæft í fæðingu. Það hefur komið upp krafa um nýja stjórnarskrá  - kæft í kjaftæði. Það hefur komið upp krafan um að Íslendingar eigi eigin auðlindir - kæft í fæðingu og allt selt. Það hefur komið upp krafa um afsagnir - kæft, kæft, kæft. 

xd_skipurit_temp

En nú er komið eitthvað sem ekki verður kæft. Þetta nýja er ferskt og óspillt og lætur ekkert vont inn fyrir sín skilningarvit. Þetta er ekki bara besti flokkurinn - þetta er góðasti flokkurinn líka. Óspilltasti flokkurinn - eini flokkurinn með engan farangur nema von um að geta gert borgina betri. Hvernig í veröldinni er hægt að vera á móti þessu framtaki? Jú, það er hægt ef maður er í öðru fótboltaliði. Nú eru líka öll hin liðin á fullu að finna út hvernig þau geta unnið leikinn á lokasprettinum. Það lítur ekki í eigin barm í eitt andartak - NEI - þau gerðu ekkert rangt! Það er óhugnanlegt að sjá þetta ennþá. Þau hafa ENNÞÁ EKKERT LÆRT! Fyrstu viðbrögð voru panikk - "hvað með börnin"? "Eru þetta hæfir aðilar til að stjórna borg?", "Þau eru ekki með neina stefnu!". Svo byrja spindoktorarnir í vinnunni með sín undirförulu ráð, hönnuð til að grafa undan trúverðugleika annars fólks. Gallinn er bara sá að vopnin eru slegin úr höndum þessara undirförlu ráðgjafa - því það er ekki hægt að berjast gegn brosi. Það er ekkert sem hægt er að gera til að sannfæra fólk um að gömlu flokkarnir séu þrátt fyrir allt betri til að stjórna borginni - af þeirri einföldu ástæðu að fólk er ekki fífl - eins og þeir hafa hingað til haldið.

Ekki fleiri innantóm loforð takk - bara meiri gleði

Nú breytast stjórnmál á Íslandi fyrir fullt og allt. Um það er ég algerlega sannfærður. Héðan í frá verður ekki hægt að vaða uppi með innantóm loforð og skrúðmælgi. Það verður hlegið af gömlu aðferðunum. Ýstruliðið er á leiðinni út. Nú verður bara að koma alþingiskosningum á koppinn eins fljótt og lifandi er kostur á til að grýta sjálftökuliðinu út. Undirstaða valdastrúktúrs þeirra er hruninn - og það er bros Besta flokksins sem ýtti skriðunni af stað. Hvern hefði grunað að það væri gleðin, en ekki reiðin, sem kæmi þessu til leiðar? Hvern hefði grunað að Jón Gnarr mundi leiða þjóðina út úr þessum hrikalegu ógöngum sem flokkakerfið og þjónustuhyski þess hefur komið okkur í? Ekki mér. Ef einhver hefði spurt mig fyrir hálfu ári síðan hefði ég veinað úr hlátri. Það fyndna er að ég er veinandi úr hlátri eftir sem áður... og mun halda áfram að hlæja og hlæja og hlæja alla leiðina inn í kjörklefann. Þá mun ég kjósa Æ - fyrir börnin.

Takk Jón Gnarr.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ef ég væri kjósandi í Reykjavík kysi ég hiklaust Besta flokkinn, og ástæðurnar eru nákvæmlega þessar sem þú nefnir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.5.2010 kl. 00:10

2 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Takk fyrir æðislegan pistil

Steinar Immanúel Sörensson, 22.5.2010 kl. 00:12

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Því miður get ég ekki kosið hann en þessi pistill er réttur. Og upphaf þess sem koma skal. Fyrir börn mín verður áframhald af þessu. Ýstruliðssamlíking þín segir allt. Það er game over hjá þessu pakki.

Ævar Rafn Kjartansson, 22.5.2010 kl. 00:59

4 identicon

Góður pistill Daði. Já svo sannarlega eru betri tímar framundan

Sólveig Dagmar Þórisdóttir (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 01:08

5 Smámynd: Þór Saari

Góður pistill Daði. Fjórflokkurinn er handónýtur það þarf bara að koma því rækilega til skila. Endurnýjað Alþingi er bráðnauðsynlegt.

Þór Saari, 22.5.2010 kl. 01:12

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Æ - fyrir börnin!

Góður pistill.

Sigurður Hrellir, 22.5.2010 kl. 01:20

7 Smámynd: Sævar Einarsson

Takk fyrir frábæran pistil, þetta segir allt sem segja þarf og rúmlega það :)

Sævar Einarsson, 22.5.2010 kl. 01:29

8 identicon

Bara best hjá þér. Nákvæmlega sammála.

Var á opnum kosningafundi allra framboða í Grafarvogi í gær.                                Þar sögðu fulltrúar 4flokksinns (og reyndar ónafngreindur annar fulltrúi)                                                                                                                Já en þið eruð BARA grín framboð (við fulltrúa Besta)                                        Við erum atvinnu stjórnmálamenn!

4 flokkurinn hefur altaf boðið okkur upp á FAG STJÓRNMÁLAMENN í gegn um tíðina.
T.d. Dýralæknir sem fjármálaráðherra í hrunastjórninni og Sagnfræðing sem Viðskiftaráðherra.. Núverandi fjármálaráðherra er vörubílsjóri og Jarðfræðingur
Fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra, núverandi bjöllusauður á Alþingi Ásta R. Jóhannesdóttir (Forseti Alþingis) Plötusnúður í Glaumbæ, auk þess í Tónabæ og Klúbbnum.
Núverandi Forsætisráðherra og fyrrverandi Félagsmálaráðherra. Flugfreyja með verslunarpróf. Sem er ótalandi á öðrum tungumálum en Íslensku og heyrist einkennilega, mjög lítíð í henni á hinu ylhýra.
Og svo mætti lengi telja.

Heldur einhver hér, að þetta hæfileikaríka fólk sem Besta og hin framboðin utan 4 flokka samspillingarinnar, tefla fram geti ekki gert nákvæmlega ……

Mikklu betur en spillingar flokkarnir????????????????

Það sem Ísland þarf er að losna við flokka samspillinguna.

Og þjóðin þarf að fá að taka þátt í þeirri lýðræðisuppbyggingu sem er nauðsynleg til að uppræta spillinguna.

4flokkurinn stóð saman um að neyta okkur um t.d. Persónukjör. Og það er að koma í bakið á þeim núna.
Sömuleiðis um Þjóðaratkvæðagreiðslur

Og Stjórnlagaþingið á að vera sniðið að FLOKKONUM, en ekki Þjóðinni, fólkinu í landinu.

Ég styð alla aðra en 4 flokka samspillinguna.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 01:47

9 Smámynd: Daði Ingólfsson

Nákvæmlega Arnór. Atvinnustjórnmálamenn eru óhæfir til að stjórna, einmitt vegna þess að þeir eru atvinnustjórnmálamenn. Taktu Steinunni Valdísi sem dæmi - hún hefur aldrei starfað utan stjórnmála - og verður svo ferlega hissa þegar fólk vill losna við hana! En það er öðrum þræði skiljanlegt, atvinnuhorfur í dag eru slæmar, sérstaklega fyrir fólk með enga starfsreynslu.

Daði Ingólfsson, 22.5.2010 kl. 07:21

10 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Takk Daði fyrir frábæran pistil, og TAKK Jón Gnarr fyrir afhjúpunina, sannleikann, kærleikann og gleðina, þú ert bestur.

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.5.2010 kl. 08:44

11 identicon

Frábær pistill. Er alveg sammála þér um Jón Gnarr. Einlægur strákur sem kemur ekki úr fjötrum flokka-ættanna. Veðja á hann.

Rósa (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 10:54

12 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Okkur veitir svo sannarlega ekki af meiri gleði í íslenska pólitík eins ömurleg og hún hefur alla tíð verið. Spilling og óheiðarleiki hefur ráðið ríkjum og skapað vonleysi meðal þjóðarinnar. Húrra Jón Gnarr og Besti flokkurinn lengi lifi ! 

Margrét Sigurðardóttir, 22.5.2010 kl. 10:58

13 identicon

Takk fyrir góðan pistil Daði.... Gott gengi Besta smkv skoðanakönnun sýna okkur að fólk er að vakna og var kannski aldrei eins mikið sofandi og ég hélt. Líklega vantaði því bara farveg til að sýna hug sinn.

Þvílík gleði að sjá loksins glitta í breytingar

Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 11:15

14 Smámynd: Sævar Einarsson

Eftir 29 maí 2010 þarf að knýja fram alþingiskosningar, það er alveg á kristaltæru.

Sævar Einarsson, 22.5.2010 kl. 11:22

15 Smámynd: Daði Ingólfsson

Já. Nýjar alþingiskosningar strax. Þessar kosningar sýna svart á hvítu að hefðbundnu flokkarnir eru í raun fylgislausir.

Það er undir okkur komið að krefjast þess.

Daði Ingólfsson, 22.5.2010 kl. 13:01

16 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Frábær pistill!

Kjósum hyskið burt. Kjósum Æ.

Brjánn Guðjónsson, 22.5.2010 kl. 14:21

17 identicon

Það er einmitt sú staðreynd að þjóðin er að sjá hvað nýtt og utanaðkomandi fólk, eins og Hreyfingin getur gert. Fólk sem er trútt samvisku sinni og vinnur af heilindum fyrir þjóðina og samkvæmt stefnuskrá, en ekki fyrir SIG og FLOKKINN.
Eins og Hreyfingarþingmennirnir, hafa sýnt.

Það hefur aftur gefið fólki von gegn 4flokknum.

Þvert á það sem spunameistarar 4flokka samspillingar reyndu að telja fólki trú um, að missættið sem klauf Hreyfinguna frá Borgarahreyfingunni, yrði til þess að eiðileggja öll ný framboð.

Það sannar Besti flokkurinn að það var lýgi.

Og eingöngu til þess fallið að eiðileggja fyrir öðrum en 4flokknum sjálfum. Rétt eins og 5% reglan sem þeir settu á til að halda öðrum frá Alþingi. Og þeir vilja ekki afnema.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 14:36

18 identicon

Frábær pistill. Flott!

Sveinn (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 14:47

19 Smámynd: Mörður Ingólfsson

Mæltu manna heilastur. Það er kominn tími til að við fáum fólk til starfa við að gæta sameiginlegra hagsmuna okkar sem ekki hefur eytt ævinni í að sækjast eftir völdum. Atvinnumennska í stjórmálum er krabbamein. Sá sem hefur gert eftirsókn eftir völdum að inntaki lífs síns mun ekki geta forgangsraðað í samræmi við aðra hagsumuni en þá, að öðlast völd eða halda þeim. Eins og ótal andstyggileg dæmi sanna hér á eyjunni okkar.

Mörður Ingólfsson, 22.5.2010 kl. 16:07

20 identicon

Takk fyrir skemmtilegan pistil. Besti flokkurinn er óneitanlega skemmtilegt framtak sem hefur kætt mig og aðra. Aftur á móti finnst mér stór munur á því að fagna framboðinu eða að x-a við listann í kjörklefanum. Það sem veldur mér áhyggjum er hversu lítið við í raun vitum um hvað hann stendur fyrir. Það er augljóst að sumir á framboðslistanum er að grínast, aðrir virðast ekki vera að grínast, t.d. Páll Hjaltason arkítekt, sjöundi maður á lista. Þar sem fátt er í hendi þegar kemur að Besta flokknum (nema að efsti maður á lista hefur heitið því að svíkja öll kosningarloforð) finnst mér afstaða Páls (sem er augljóslega ekki að grínast) vega þeim mun þyngra. Eftirfarandi hefur hann að segja um skipulagsmál og nægir mér til að kjósa þennan flokk ekki:

"Húsverndarmál hafa hins vegar verið lengi í mjög öruggum farvegi og fyrir löngu búið að varða þau gömlu hús sem hafa eitthvað menningargildi. Stofnanir eins og Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur, Húsafriðunarnefnd, Mynjasafn Reykjavíkur, og Fornleifanefnd hafa verið lengi við líði og unnið gott starf.

Ég var að fara yfir það í huganum fyrir þennan fund hvort einhverjar sögulegar byggingar hefðu verið rifnar eða illa skemmdar síðustu áratugi. Ég mundi ekki í svipinn eftir neinu nema Fjalakettinum og nokkrum eldsvoðum."

Jóhanna (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 22:05

21 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Jóhanna, veistu eitthvað fyrir hvað hinir  flokkarnir standa þegar það vellur yfir tennurnar í þeim bullið og lýgin áratugum saman, finnst þér ekki einhver munur vera á að segja satt hvað sem svo sagt er en satt, eða eintóm innihaldsleysa og lýgi samanber fjórflokkurinn?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 22.5.2010 kl. 22:16

22 Smámynd: Daði Ingólfsson

Sæl Jóhanna.

Ég skil áhyggjur þínar mjög vel og hef hugsað talvert mikið um þetta sjálfur. Fólk virðist hafa áhyggjur af einstaklingum þarna, aðallega vegna reynsluleysis í pólitík, en aðrir hafa lýst áhyggjum af einstaka frambjóðendum og hvað þeir standi fyrir. Fyrir mér er þetta svolítið á sömu bókina lært. Frambjóðendurnir sem er að tjá sig þarna eru óvanir í pólitík og láta óvanalega hluti frá sér fara, kannksi í bríaríi. Þegar þú spyrð forsvarsmenn flokkana sömu spurninga færðu þaulæfða froðu sem, þegar og ef maður skilur hana yfirleitt, er merkingarlaus fagurgali fyrir kosningar en pólitísk skiptimynt eftir kosningar. Munurinn á svörum Besta flokksins og hefðbundinna flokka er því, að mínu mati, að þú færð eitthvað sem nálgast heiðarleg svör frá þeim fyrri (en ekki endilega "svar flokksins" - það getur líka meira en verið að viðkomandi sé fær um að skipta um skoðun, sem er afar vanmetinn eiginleiki hjá fólki í stjórnmálum) en hjá hinum síðari færð þú eitthvað sem er verra en ekkert.

Þú getur í versta falli strikað yfir þann frambjóðanda sem þér líkar ekki við (skv. 58. gr. laga um kosningar til sveitastjórna: "Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans."), kosið eitthvað af hinum óhefðbundnu framboðunum eða skilað auðu - en þú ert að taka þátt í áframhaldandi óbreyttu pólitísku ástandi ef þú kýst einn af þessum fjórum hefðbundnu flokkum.

Ég vona að þetta gerir þér kleift að kjósa Besta flokkinn í kosningunum eftir viku. En ef ekki - þá vona ég í fyllstu einlægni að sá flokkur sem þú kýst breyti starfsháttum sínum til hins betra.

Daði Ingólfsson, 22.5.2010 kl. 22:38

23 identicon

Sæll Högni Jóhann. Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara. Er Besti flokkurinn að "segja satt hvað sem svo sagt er en satt"? Ef punkturinn þinn er sá að stjórnmálamenn hafi svikið okkur og logið að okkur og að við séum gjörsamlega þreytt á því þá er ég algjörlega sammála þér. Íslendingar sýndu (loksins, loksins) með þessari svokölluðu Búsáhaldabyltingu að þeir geta krafist þess að spillingaröfl víki. Aftur á móti er ég ekki tilbúin til að kjósa sprellara (með trjójuhesti á borð við Pál Hjaltason á leið inn) bara vegna þess að þeir eru eitthvað nýtt, sama hversu skemmtilegir mér finnast þeir. Ég kýs ekki paródíu af því sem undan hefur farið. Mér finnst ég eiga betur skilið.

Jóhanna (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 22:39

24 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég á alveg eins von á því að VG eigi það bara eftir sem lokaúrræði að grafa upp skiltin með "Vanhæf ríkisstjórn" og krota "borgar" yfir "ríkis" og fara að berja á búsáhöld og baula "Vanhæf borgarstjórn" sem hún vissulega er! EN VG er líka vanh(æ)ft afl með atvinnupólitíkusum og stútfullt af spillingu svo ég tali nú ekki um öfgafullar skoðanir með Sóleyju Tómas atkvæðasmalara í forsvari VG í Reykjavík.

Sævar Einarsson, 22.5.2010 kl. 23:41

25 Smámynd: Einhver Ágúst

Takk fyrir komuna í dag og takk fyrir hlýlegann og góðann pistil....ég stóð í dag í svo mörgum samtölum við kjósendur af ótrúlega mismunandi tagi, borgarstarfsmenn, verkfræðingar, nokkrir hörðustu anarkistar landsins, börn, kokkar og allskonar. Ég hef ekki talað svona mikið, um svona margt og við svona marga á ævi minni og hef ég nú alltaf verið talinn frekar laus um málbeinið(enda varð ég bloggari fyrir rest).

Og það sem umlykur mig er þessi von og gleði, ólýsanlega falleg og góð tilfinning. Við höfum nefnilega eftir mikið vonbrigði yfirgefið og ekki leyft okkur þann munað að upplifa VON....von og vonbrigði eru grundvallaratriði fyrir mér í því að vera manneskja.

Um það er kosið nú!

Bestu kveður Gústi 13 sæti Besta flokksins

Einhver Ágúst, 23.5.2010 kl. 02:32

26 identicon

TAKK

sem betur fer er ég kjósandi í Reykjavík

á laugardag ætla ég að XÆ

fyrir börnin

takk Daði

Takk Jón Gnarr

kv

Maggi

Magnús Ágústsson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 13:36

27 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Er sáttur við þetta svar Jóhanna.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.5.2010 kl. 13:39

28 Smámynd: Sævar Einarsson

Jóhanna: þú átt skilið smá af gleði og dass af brosi :) brostu, vertu hress og ekki láta taka þig í ósmurt þó þér verði boðið frítt sleipiefni fra einhverjum af þessum fjórflokkum því að ... það verður tekið af þér daginn eftir kosningar.

Sævar Einarsson, 23.5.2010 kl. 14:09

29 identicon

Takk fyrir frábæran pistil.En hvað pistilin sem Jóhanna skrifar langar mig að koma með smá ábendingu.Mér hefur oft fundist stjórnmálamenn einmitt geta nýtt sér gleymsku okkar kjósenda.Ég vill benda á máli mínu til stuðnings á sölu á einni merkustu lóð og mannvirki sem Reykvíkingar áttu,en það fór eins og það fór vegna pólítískra vensla og klíkuskapar og enginn ábyrgur hvað það varðar.Ég er að tala um lóðina og gamla fjósið og hlöðuna sem blómabúðin Alaska í Breiðholti var starfrægt og rekin á sínum tíma.Ég held að ég fari rétt með að þetta hafi verið ein elsta kirkjujörð á íslandi eða með þeim elstu,og þarna var okkar fyrsti biskup íslendinga og þetta var að mig minnir með stærri jörðum á landinu þá.En eflaust er mörgum sama um svonalagað en ekki mér.Mér finnst að við íslendingar eigum að varðveita okkar sögulegu minjar og ekki að láta þær vera falar flokksgæðingum stjórnmálamanna,bankamanna eða sterkríkra fésýslumanna.Nú eigum við almenningur að nýta tækifærið og snúa blaðinu við og hætta að láta bjóða okkur svonalagað.A.T.H...Búnaðarbankinn eignaðist þessa lóð vegna gjalþrots og seldi sínum vildarmanni lóðina fyrir lítið ath. lóðin fór ekki á uppboð hjá ríkisbankanum þannig að hver sem var gæti boðið í eins og ég hélt að væri venjan þegar um ríkisfyrirtæki væri um að ræða.Vildarvinurinn átti lóðina í ca:2 ár og seldi hana með met hagnaði til byggangafélags.Þegar svo byggingarfélagið kom með sín tæki og tól til að hefja framkvæmdir hafði ég samband við árbæjarsafnið og spurðist fyrir hvort þeir viss af þessu og þetta hefði verið gert með þeirra samráði kom árbæjarsafnið af fjöllum.Já eitt stórt grín þess vegna er betra að hafa atvinnugrínara við stjórnvöldin eins og Jón Gnarr sem lofar öllu fögru og svíkur allt en hann er heiðarlegur og það er það sem okkur hefur skort heiðarlega stjórnmálamenn.Því hann segist hiklaust ekki ætla að standa við neitt og þetta snúist fyrst og fremst um að hann sjálfur hafi það gott og njóti góðs af þessu öllu saman,er hægt að hugsa sér einlægari og heiðarlegri mann það held ég ekki.Og þeir gerast ekki betri stjórnmálamennirnir en hann hvað þetta varðar en sorglegasta við þetta er þá það að það mun ekkert breitast allt sama grínið, nema það að fólk veit hvað það er að kjósa og verður þar að leiðandi ekki fyrir vonbrigðum.

Sveinn þorsteinsson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 15:05

30 Smámynd: Óskar Arnórsson

Frábær pistill. Jón Gnarr reddar þessu....

Óskar Arnórsson, 23.5.2010 kl. 15:45

31 Smámynd: Þór Jóhannesson

Vinstri-fúlir reyna að klína hægrimennsku á Jón Gnarr og hægri-fúlir reyna að klína vinstrimennsku á Jón Gnarr. Þeir kunna ekkert annað. Besti flokkurinn hefur sýnt að hann er hafinn yfir þessa skítkasts umræðu og Jón Gnarr er augljóslega flottur leiðtogi sem mun sóma sér vel í stóli borgarstjóra.

En það sem mestu náli skiptir er þegar við setjum X við Æ þann 29. maí að þá tökum við þátt í stærstu og lýðræðislegustu byltingu sem gerð hefur verið á Íslandi. Þess vegna eru það forréttindi að fá að kjósa í Reykjavík eftir 6 daga.

X-Æ

Þór Jóhannesson, 23.5.2010 kl. 17:26

32 Smámynd: Óskar Arnórsson

Allir fúlir í hvaða flokki sem er, komast ekkert með neikvæðni eða neinn leikaraskap. Reynsla af raunveruleikanum og vilji til að vera jákvæður hefur Jón G. nóg af...hann hefur alla stjórnunarhæfileika og er leiðtogi í eðli sínu. Og skilur þarfir hópsins í staðin fyrir þetta endalausa hagsmunapot sem þarf að eyða...

Óskar Arnórsson, 23.5.2010 kl. 20:05

33 identicon

Er Jón Gnar kannski Gandí?

Polli (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 22:12

34 Smámynd: Daði Ingólfsson

Ég held að það sé orðum aukið Polli. En hann er víst liðtækur í bowling.

Daði Ingólfsson, 23.5.2010 kl. 22:33

35 identicon

er þetta nýr borgaraflokkur sem braust fram vegna óánægju og allir ætluðu að kjósa? en sem betur fer fengu þau ekki hreinan meirihluta, það hefði verið stórslys

hk (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 01:12

36 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Slysin hafa nú orðið mörg og sum hver af mannavöldum og jafnvel með ásetningi og eitt það stærsta í nútímanum er að Samfylkingin skuli hafa lent í ríkisstjórn svo verra hefði það nú ekki geta orðið.

En svo er annað sem en gerist líka þó svo að okkur fari Fram í ýmsu þá fer ekki öllum Fram og enn eru til gungur og eða bara aumingjar sem geta ekki og þora ekki að kasta skít undir eigin nafni samanber þetta hk hér að ofan.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 24.5.2010 kl. 13:30

37 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Vinkona mín ein úti á landi segir það mannréttindabrot að fá ekki að kjósa Besta flokkinn.

Góð ábending til þeirra sem búa úti á landi er að bæta einum kassa neðan við neðstu línuna og merkja X   of skrifa Besti flokkurinn.   Sjálf myndi ég gera ógilt með þessum hætti ef ég gæti ekki kosið Besta Flokkinn.  ÉG á því láni að fagna að búa í Reykjavík.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 24.5.2010 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband