21.8.2010 | 10:27
Hverju breytir ný stjórnarskrá? 1/3
Til eru þeir sem ekkert vilja frekar en að halda í okkar löngu úreltu stjórnarskrá og finnst bara aldeilis fínt plagg. Þeir hinir sömu vilja eyða peningunum í annað og tala digurbarkalega um að ný stjórnarskrá hefði engu breytt um hrunið. Þeir hafa nokkuð til síns máls. Ný stjórnarskrá - jafnvel besta stjórnarskrá sem hægt er að hugsa sér - gerir ekkert gagn, nema eftir henni sé farið. En hvað er það sem ekki er farið eftir í okkar núverandi stjórnarskrá, hvernig er hægt að gera nýja stjórnarskrá þannig úr garði að farið verði eftir henni og hverju gæti ný stjórnarskrá breytt? Þessum þremur spurningum ætla ég að leitast við að svara í jafnmörgum greinum á næstu dögum, en hér er sú fyrsta. Lesendum er bent á að skrifa athugasemdir um fleiri stjórnarskrárbrot, og mun ég leitast við að bæta þeim við plaggið eftir því sem tilefni er til. Stjórnarskránna má finna hér.
Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, brotin ákvæði
"2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið."Í praxis kemur forseti nánast ekkert nálægt hvorki löggjafarvaldi né framkvæmdavaldi. Hann hefur nánast einungis táknrænt hlutverk í skipan framkvæmdavaldsins (einungis forsætisráðherra - hann skiptir sér ekkert að hinum ráðherrableðlunum). Forsetinn kemur heldur eiginlega ekkert nálægt löggjafarvaldinu, með tveimur undantekningum í sögu lýðveldisins - þegar núverandi forseti neitaði að skrifa undir lög um fjölmiðla annars vegar og Icesave hins vegar. Þetta er býsna alvarlegt því í þessari grein er í raun eini staðurinn sem hefur með þrískiptingu valds að gera - og er býsna mikilvægt atriði í lýðræðisríkjum. Eins og staðan er núna sér löggjafarvaldið (eða svokallaður meirihluti (orð sem hvergi er í stjórnarskránni, ekki frekar en minnihluti eða stjórnarandstaða eða stjórn) um framkvæmdavaldið. Þetta er klárt stjórnarskrárbrot.
"15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim." Þetta þýðir að forsetinn getur skipað Soffíu frænku sína sem ráðherra, sýnist honum svo. Hann getur líka ákveðið að fækka ráðherrum eða fjölgað og ákveðið hvað þeir geri. Fyrir venjulegt fólk þýðir þetta að löggjafarvaldið eigi alls ekki að koma nálægt skipan ráðherra, heldur forsetinn. Þessu er þveröfugt farið og því skýrt brot á annari grein eins og talað er um hér á ofan. Í staðinn ákveður einhver óskilgreindur meirihluti löggjafarvaldins hver á að vera ráðherra yfir hverju, hversu margir ráðherrar eigi að vera og hvað þeir eiga að gera. Furðulegt. Svo fær forseti bara lista yfir ráðherra, kvittar á blaðið í ægilega fínni athöfn og svo er tekin litmynd.
"16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði." Seinna ákvæði þessarar greinar er brotið eftir behag. Nægir að nefna ákvörðun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að styðja herför Bandaríkjanna gegn Írak.
"41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum." Þetta ákvæði er strangt til tekið ekki brotið, en það er sveigt hressilega framhjá því með "skúffupeningum" ráðherra. Það eru fjármunir sem hafa verið notaðir markvisst í sérhagsmuna- og kjördæmapot ráðherra.
"48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Þetta er sú grein sem mest er brotin. Þegar svokallaður meirihluti verður til verður til eitthvað sem heitir "stjórnarsáttmáli" sem er enn eitt fyrirbærið sem á sér hvergi stoð í stjórnarskrá eða öðrum lögum. Þessi sáttmáli er einhvers konar málamiðlun fyrir flokkana sem eru í meirihluta - og þar með útþynning á stefnuskrá flokksins fyrir kosningar ("stefnuskrá" er líka annað orð sem ekki á sér stað í stjórnarskrá eða lögum). Með öðrum orðum, þinmenn eru látnir gangast undir stefnuskrá flokks, sem er meira eða minna í takt við þeirra eigin sannfæringu, og svo er þeirri stefnuskrá blandað saman við eina eða tvær aðrar stefnuskrár - og þar með orðið frekar ógeðfelt jukk sem ekkert hefur með sannfæringu eins einasta þingmanns að gera. Svo eru sett lög um þetta og stjórnarþingmenn nánast þvingaðir til að kjósa í takt. Í málum sem ekki eru í stjórnarsáttmála flokka gildir heldur ekki samviska þingmanna í praxis, heldur útkoma úr pólitísku baktjaldamakki formanna og annarra framámanna stjórnmálaflokka. Þegar alþingismenn ekki fara eftir þessum óskrifuðu reglum fá þeir stimpilinn "óstjórnhæfir", sem er býsna athyglivert hugtak séð í samhengi þessa ákvæðis stjórnarskránnar.
"67. gr. [Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess." Set þetta hér inn með vísan í mál Helgu Bjarkar sem var svipt frelsi nýlega fyrir engar sakir fyrir framan stjórnarráðið. Hún fékk ekki að vita ástæður þess að hún var svipt frelsi. Fleiri dæmi mætti auðveldlega týna til.
"75. gr. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa." Kvótalögin takmarka rétt þegnanna til að stunda fiskveiðar og hvað sem mönnum kann að finnast um iðnaðarlögin ("2. gr. Enginn má reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi lögum þessum samkvæmt."), þá er vandséð að þessi lög standist fyrrgreinda stjórnarskrárgrein. Þetta þýðir í raun að það er hægt að takmarka atvinnuþátttöku með lagasetningu og yfirskrifa þannig stjórnarskránna.
Hægt er svo að deila um aðrar greinar, og sjálfsagt væri hægt að sýna fram á með sannfærandi rökum að margar aðrar greinar stjórnarskrárinnar séu brotnar reglulega. Bið ég lesendur um að setja það fram og rökstyðja í athugasemdum.
Næsta grein verður um hvernig verður hægt að gera stjórnarskrá sem farið verður eftir, og þriðja greinin mun fjalla um hverju ný stjórnarskrá geti breytt fyrir okkur - og fengist verður við spurninguna hvort önnur stjórnarskrá, sem farið væri eftir, hefði bjargað okkur frá hruni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2010 kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.7.2010 | 17:05
Hinn einlægi áhugi stjórnmálamanna á stjórnmálum
Mestu pólitísku snillingar síðustu áratuga hafa notað dáleiðandi aðferðir til að tala sig í kringum hlutina - svara út í hött og einhverju allt öðru en spurt var um. Fjölmiðlamenn hafa margir haldið að þeir séu rosalega harðir og flottir þegar þeir spurja já / nei spurninga um flókin mál og eru svo fullir vandlætingar þegar viðmælendur þeirra láta ekki móðga vitsmuni sína eða annarra með slíku lýðskrumi. Áhorfendur sitja svo eftir með óbragð í heilanum og skipta yfir á Seinfield eða annað deyfandi.
Þeir bestu reyna að koma sér markvisst framhjá því að fjalla um óþægileg mál. Fyrsta regla pólitíkusa er að ræða ekkert óþægilegt nema að þeir komist ekki upp með annað, og þá jafnvel ekki. Niðurstaðan er einn stanslaus fagurgali um eitthvað sem skiptir engu máli. Fáir taka afstöðu til neins opinberlega. Ef málin gerast gruggug er stofnuð nefnd sem á að fara yfir málið (og væntanlega móta afstöðu pólitíkusana) og svo eru jól og svo kosningar. Engin afstaða, engin ábyrgð, engin stjórn, engar aðgerðir.
Takið til dæmis eftir því hversu iðnir alþingis- og sveitastjórnarmenn eru á bloggsíðum, á Facebook og í athugasemdakerfum netmiðlanna. Þeir tala um veðrið og yndislega æskuna í grunnskólum landsins, fótbolta, börnin, tónlist, bíómyndir osfrv. í færslum sínum á Facebook en eru fullkomlega fjarverandi annars staðar. Það er eins og þetta fólk hafi ekki snefil af áhuga á stjórnmálum!
Ég er til dæmis með alla þingmenn sem nota Facebook sem vini auk margra annarra pólitíkusa. Þar varpa ég oft og iðulega fram skoðunum og legg upp í pólitíska samræðu. Það spinnast oft góðar umræður um það, en aldrei taka stjórnmálamennirnir þátt. Tugir sjálfstæðismanna, VG-fólks, framsóknar- og Samfylkingarfólks þegja þunnu hljóði um landsins gagn og nauðsynjar, en nota miðilinn til að koma á framfæri gleði sinni með einhvern lit á Esjunni á ákveðnum tíma eða auglýsa eftir fari fyrir frænku sína sem er á leið norður. (Ég undanskil þingmenn Hreyfingarinnar þegar ég tala um hefðbundna stjórnmálamenn, því það eru þau ekki).
Stjórnmálamenn bera það eflaust fyrir sig að þau noti Facebook miðilinn sem sitt einkarými til að halda sambandi við fjölskyldu og vini... en þegar nálgast kosningar kemur nú aldeilis annað hljóð í strokkinn - fyrir nú utan að flest þeirra eiga þúsundir "vina" á þessum vettvangi. Alger fjarvera þeirra frá nútímalegum samskiptamátum eins og athugasemdakerfum bloggsíðna og fjölmiðla rennur stoðum undir þetta. Eru þau of fín fyrir svona samskipti? Hafa þau vondan málstað að verja? Hafa þau kannski bara ekki áhuga á að taka þátt í stjórnmálaumræðum nema í sjónvarpssal? Vilja þau ekki gefa upp afstöðu sína í einstökum málum? Af hverju ekki? Af hverju eru þau ekki ofurnotendur síðna eins og betrireykjavik.is og skuggathing.is? Er þetta ekki fólkið sem á að leita sér fanga sem víðast? Er eitthvað ófínt að spjalla opinberlega við fólk á þessum vettvangi? Fyrir nú utan að þeir sem eyða tíma sínum í að senda þingmönnum sínum úr hefðbundnu stjórnmálaflokkunum tölvupóst geta verið 99.9% vissir um að fá aldrei svar.
Ég veit ekki hvert svarið er við þessu. Mér finnst bara undarlegt að í þessu einkennilega ástandi í þjóðfélaginu þegar allir vita allt í einu allt um verga landsframleiðslu, AGS, fjármálakerfi, auðlindir og dómsmál og pólitísk umræða blómstrar alls staðar sem hún brýst fram, þá þegja yfirmenn landsins og stjórnendur þunnu hljóði nema í fínum sjónvarps- og útvarpsviðtölum og birta einstaka sinnum greinar í blöðum.
Nýja Ísland er með stjórnmálamönnum sem þora að tjá sig um stjórnmál hvar og hvenær sem er. Maður bíður og vonar.
4.6.2010 | 00:42
Dauði lýðræðisins
Ég hef í höndunum drög að nefndaráliti um mikilvægustu lög sem verða samþykkt á okkar ævidögum. Það hefur með að gera fyrirkomulag um hvernig eigi að semja nýja stjórnarskrá fyrir okkar hugmyndafræðilega gjaldþrota land. Frumvarpið áður en það komst í nefndina var skelfilegt og hrikalega stofnanalegt og bersýnilega ekki samið með það í huga að stjórnvöld hafa komið okkur í þá stöðu að nafn landsins okkar er notað í brandara um ömurlega hagsýslu og óráðdeild. Þá skrifaði ég þessa umsögn í nafni Hreyfingarinnar og mætti í framhaldi af því á niðurlægjandi fund í allsherjarnefnd þar sem fulltrúar almennings (alþingismenn, ef einhver er í óvissu) höfðu ekki lesið umsögnina og höfðu þrennt um málið að segja: Tveir vildu koma því sérstaklega á framfæri að þeir væru móðgaðir yfir því að ég hafði sagt að traust á stjórnmálamönnum væri lítið. Einn spurði hina sem sátu með mér hvort þeim þætti allt í fína að fresta stjórnlagaþingi (gerði af einhverjum stórundarlegum ástæðum ráð fyrir að mér þætti það barasta sjálfsagt) og einn spurði hvort okkur þætti það ekki frábær hugmynd hjá sér að koma almenningi meira í málið (sem við allir þrír sem sátum fundinn sem gestir höfðum hamrað á í heilan klukkutíma). Sem sagt - alger tímasóun.
Svo leið og beið, og nú kemur úrskurður úr nefndinni (eða alla vega drög). Það er skemmst frá því að segja að það er ekkert gert til að koma til móts við þá kröfu að almenningur hafi aðkomu að stjórnarskrárgerðinni ef frá er talið þessi einkennilegi samansetningur: "Stjórnlagaþing skal á fyrsta starfstímabili sínu halda fundi í öllum kjördæmum til þess að kalla eftir sjónarmiðum og tillögum almennings." Vei. Hvernig fundi? Hversu marga? Hvernig verður unnið úr upplýsingunum? Hvaða vægi hafa tillögur almennings? Hvernig verður það ferli gegnsætt? Af hverju má bara hitta almenning í fyrstu lotu? Að öðru leyti er þetta bara sama jukkið og viðgengst inni á Alþingi.
Það á að búa til nýja snobbstofnun sem á að koma með snobbbreytingartillögur til snobbalþingis og skála svo í dýrasta kampavíni þegar þessi óviðurkvæmilegi gjörningur er búinn og snúa sér að næstu styrkjum. Þetta á að vera MíníAlþingi með mínífulltrúum sem fá að "vinna ákveðna grunnvinnu og undirbúa frumvarp til stjórnarskipunarlaga fyrir Alþingi" - sem sagt, meirihluti Alþingis ætlar að fara með feitu puttana sína í þetta eftirá og laga að flokkakerfinu sínu, svo þau missi nú örugglega ekki spón úr aski sínum.
Og það sem meira er. Alþingi ætlar ekki bara að breyta þessu eftirá. Þau ætla að setja dagskránna - ákveða hvað stjórnlagaþingið á að tala um. Þau ætla að setja dagsetningar hvenær stjórnlagaþingið á að hittast, setja því tímaramma, segja til hvernig þau eigi að haga eigin skipulagi og skera fjármuni við nögl eins mikið og hugsast getur:" Til þess að draga úr kostnaði er nú lagt til að umfang stjórnlagaþingsins verði nokkuð minna en áður var stefnt að og starfstími þess styttri", "Til þess að nýta starfstíma og skilvirkni þingsins sem best og draga úr kostnaði er nánar afmarkið í frumvarpinu á hvaða tímabilum þingið kemur saman og heldur fundi" og "Lagt er til að þingið verði skipað 2531 fulltrúa en með því ætti að nást nokkur breiður hópur fulltrúa þjóðarinnar auk þess sem halda má kostnaði í skefjum"(allt úr athugasemdum við upprunalega frumvarpið). Samtals eiga herlegheitin að kosta 362,3 til 442 milljóna. Töluvert lægri fjárhæða en kostar að búa til eina skítaauglýsingaherferð um hvað Ísland sé æðislegt. Þar sér maður hvar metnaður þessarar ríkisstjórnar liggur.
Ég er gersamlega búinn að missa trú á að þessi ríkisstjórn komi með eitthvað að viti. Þau selja auðlindirnar, þau búa til skaldborg um sinn eigin valdastrúktúr, þau taka ekkert skref í lýðræðisátt og ganga, fram fram aldrei að víkja, beint í hendurnar á AGS og ESB. Og Sjálfstæðisflokkurinn er á móti öllu sem hefur með stjórnarskrárbreytinar að gera yfirleitt - finnst það tíma- og peningasóun, lesið greinarnar eftir Þorstein Pálsson og Birgis Ármannssonar ef þið eruð í vafa um lýðræðisást þessara manna og vilja til breytinga.
Hvað á maður að gera þegar stjórnmálamenn sjá ekki sentimetra út fyrir eigin hagsmuni og valdapot? Hvað á maður að gera þegar persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur eru léttvæg skiptimynt á vogarskálum valdakerfisins? HVAÐ Á MAÐUR AÐ GERA???!!!???
HJÁLP!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
29.5.2010 | 09:58
Að gera upp hug sinn
Nú er komið að þeirri goðsagnakenndu stund að "kjósendur geri upp hug sinn". Stjórnmálamenn tala um þetta í ræðum og í sjónvarpi hvenær sem færi gefst á. Kjósendur eru að gera upp hug sinn um tvennt: Fortíðina og framtíðina. Hvorugt er sérstaklega bjart því miður.
Skoðum því hvað hugur okkar (allavega minn) hefur sagt undanfarin fjögur ár.
1. Stjórnmálamönnum er ekki treystandi fyrir völdum. Þetta sannast best á makalausum borgarstjórnarballet sem hefur verið dansaður, með eða án Villa, síðustu fjögur árin. REI málið, golfvallarmálið, spillingarmálin, pólitískar ráðningar, nám í Edinborg á fullum launum, flótti til Malavi, flótti yfir í Alþingi (var fólkið ekki kosið til fjögurra ára?), flótti frá kjósendum.
2. Stjórnmálamönnum er ekki treystandi fyrir völdum. Fólki í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og síðast Samfylkingunni hefur tekist að fyrirgera trausti almennings á þessari stétt til langframa með því að setja þjóðina á hausinn. Þrátt fyrir yndislegar yfirlýsingar um að líta í eigin barm hefur engin borið ábyrgð ennþá. Steinunn Valdís sýnir þó gott fordæmi á síðustu metrunum. Það er kristaltært að þessi stétt einstaklinga er siðlaus. Þau eiga öll að fara og leyfa fólki sem ekki er uppalið í flokkakerfinu að komast að til að fá nýjan og betri anda og venjur í stjórnmál á Íslandi. Hér eru Vinstri Grænir góðfúslega undanskildir - í bili að minnsta kosti.
3. Stjórnmálamönnum er ekki treystandi fyrir völdum. Dæmin sanna að stjórnmálamenn gera hvað sem er fyrir völd. Munið eftir þegar Ingibjörg Sólrún lofaði að fara ekki í landsmálin? Hún gerði það samt. Muniði eftir þegar Ingibjörg Sólrún fór með ESB sem helsta kosningamál í þarsíðustu alþingiskosningar og hætti svo við alltsaman til að fá ráðherrastól? Þá fór hún umsvifalaust að spreða milljónatugum í gæluverkefni Halldórs Ásgrímssonar að koma sér eða sínum í eitthvað herráð í útlöndum. Muniði þegar Davíð Oddsson og Haldór Ásgrímsson komu okkur í stríð gegn okkar vilja? Muniði þegar Sif Friðleifs var umhverfisráðherra og fannst Kárahnjúkasvæðið "ekkert spes" og lét drekkja því? Muniði þegar Sjálfstæðisflokkurinn dubbaði Ólaf F. í sjakket og setti borgarstjórahúfuna á hann? Eða eruð þið búin að gleyma þessu öllu?
Lítum þá til framtíðar:
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að hækka útsvar. Hann ætlar hins vegar að hækka gjaldskrár. Frábært - loksins réttlæti. Hann ætlar að vinna saman með öllum flokkum. je-right. Ég er hvorki meira né minna en laf-dauð-skíthræddur að Sjálfstæðisflokkurinn geri það sem hann er vanur að gera: hygla vinum sínum, stunda óábyrga fjármálastefnu og kalla það stöðugleika og kenna svo öðrum um.
Samfylkingin ætlar að fókusera á atvinnumál. Fínt. Nema mig grunar að Steinunn Valdís verði fyrsti umsækjandinn til að fá það djobb sem hún kýs. Vá hvað ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Pólitískar ráðningar ætti að vera Ólympíugrein, því þá fengjum við íslendingar örugglega gull. Hér áður fyrr þurfti maður að vera í réttum flokki til að fá lán í banka. Nú þarf maður að vera í réttum flokki til að fá vinnu.
Vinstri Grænir eru gott fólk. VG er þó flokkur eins og hinir flokkarnir, en með langheilbrigðustu hugmyndafræðina. Þau eru hins vegar með steintröll eins og Jón Bjarnason innbyrðis, sýndu fádæma dómgreindarskort með því að senda gamlan pólitíkus í Icesave viðræðurnar í stað reyndra samningamanna og eru nú komin á fullt í sjálfréttlætingarleikinn á þingi. Ég vona heitt og innilega að þau taki sig á, en eins og staðan er núna á fólk eins og Lilja Mósesdóttir ekkert heima í þessum flokki.
Framsóknarflokkurinn. Ég ætla ekkert að segja um trúverðugleika Framsóknarflokksins. Verk hans dæma þann flokk í gröfina. Megi hann hvíla í friði.
Besti flokkurinn. Ég hef ekki leynt hrifningu minni á þessu framtaki. Þegar horft er til fortíðar er ekkert sem hægt er að setja út á. Þegar horft er til framtíðar sér maður von um ný, frasalaus vinnubrögð með samvinnu við annað venjulegt fólk. Ég held að tilkoma Besta flokksins í borgarstjórn verði eins og ferskur andblær.
Frjálslyndi flokkurinn. Því miður hefur þeim ekki tekist að koma sínum málum á framfæri.
Reykjavíkurhreyfingin. Baldvin Jónsson kom frábærlega frá kosningaþættinum í RÚV í gær. Hér er framtíðarmaður á ferð. Engin lík í farangrinum - bara ágætlega frjóar hugmyndir um hvað skuli gera á næstu árum. Ég vona að Baldvin komist í borgarstjórn.
Ólafur F. No comment.
Í dag gera kjósendur upp hug sinn. Svo vilja hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir "fá frið" til að stjórna næstu fjögur árin. Það þýðir að kjósendur eigi að halda sér á mottunni. Ég vil ekki þannig áfram. Ég vil breytingar og nýtt blóð (ekki Framsóknarblóð þó). Ég treysti ekki fólki úr stjórnmálaskólum flokkana. Ég vil allskonar breytingar. Og nú er tækifærið fyrir mig að koma þeim að.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.5.2010 | 00:56
Flöskustútur og samtalsmeðferðir
Fólkið sem ég sá í "Spjallið með Sölva" í kvöld er undarlegur samsöfnuður. Öll eiga þau það sameiginlegt að vilja stjórna einhverju. Það kom ekki alveg fram í þættinum hvers vegna þetta fólk vildi stjórna. Ég saknaði þess svolítið. Ég veit heldur ekki hvort þau séu dugleg að stjórna. Sennilega ekki - því það er allt í klessu, bæði í landinu, borginni og flokkunum (nema nýju framboðunum - ennþá að minnsta kosti).
Þau voru hins vegar dugleg að benda á hvað hin væru vond í að stjórna. Og tækju í sífellu vitlausar ákvarðanir - í það minnsta flokkarnir þeirra. Það fyllti mig heldur ekki ró, né sannfærði mig um stjórnunarhæfileika fólksins. Lengst til vinstri í salnum var kona sem virtist vilja fólki vel almennt, en var ekki sleip í þrætubókarlist. Maður sem stóð við hlið hennar var sleipari, og virtist vilja fólki að minnsta kosti jafnvel. Sá þriðji var mjög ókurteis - ekki náungi sem maður vildi setjast við hliðina á í fermingarveislu. Svakalega óþægilegur maður - vá. Fjórði virtist hafa það á tilfinningunni að hann þyrfti að tala sig út úr öllum spurningum... eins og hann væri nýkominn frá því að halda framhjá. Svo var kona sem var rosalega sjænuð í talandanum. Ég mundi vilja hafa hana sem lögfræðing í skilnaðarmáli. En ef hún væri móðir mín væri ég alger taugahrúga. Svo kom dagfarsprúðasti kandídatinn. Hann reyndi að svara spurningunum sem að honum voru beindar án mikilla málalenginga. Þessi maður hefur bersýnilega tekið fermingarfræðsluna mjög alvarlega. Við hlið hans var mjó stúlka sem ég var hræddur við. Svo lengst til hægri var Altunga lifandi kominn. Ég var ekki hræddur við hann - hann var bara krúttlegur.
Þetta fólk sat og svaraði spurningum um hvert af hinu fólkinu það vildi vinna saman með. Stemningin var svolítið svipuð og í leiknum flöskustút, þar sem maður þarf stundum að kyssa mjög ljóta stúlku.
Það kom ekki beinlínis fram í þættinum, en íbúum í Reykjavík stendur til boða að velja hver af ofantöldum á að stjórna bænum næstu fjögur árin. Mér fannst ég ekkert sérstaklega nær um það eftir að hafa horft á þetta, en veit nú heilmikið meira en áður um hvernig þessir einstaklingar koma fram við annað fólk. Það var í flestum tilfellum ekki eftir stöðlum sem ég mundi ala barnið mitt upp eftir. Nema fermingardrengurinn og þessi tvö lengst til vinstri - nýja fólkið. Það virtist vera prýðisfólk. Hin voru öll frekar reið og pirruð yfir þessu öllu saman og ættu að fara í samtalsmeðferð.
Svona þættir eru mjög skrýtnir. Þarna stóðu átta fullorðnar manneskjur við skrýtin lítil borð með skrýtin lítil vatnsglös og svöruðu skrýtnum litlum spurningum. Öll horfðu þau framávið (ekki í hring um hringborðin) og áttu í erfiðleikum með hvar þau áttu að vera með hendurnar. Þeim hefur áreiðanlega liðið mjög illa. Ætli einhver hafi þurft að pissa? Kannski var það þessvegna sem það voru svona mörg auglýsingahlé?
Æ ég er þreyttur á þessu öllu. Ég vildi óska að það væru einhverjar fréttir af því hvað fólkið er að meina. Það virðist ekki treysta hvert öðru. Það er leiðinlegt. En það er ekkert í fréttum nema um hraðamet slátturvéla. Ég var vongóður um að heyra um hvað frambjóðendunum finnist um leikskólamál í frétt um fund þeirra með leikskólakennurum. En fréttin var bara um að fundurinn hafi verið haldinn og að það sé nú verri sagan þetta með niðurskurðinn til leikskóla.
Ég átti einu sinni kött sem hét Branda. Hann var svart fress. Mér líður svolítið þannig núna. Samt er ég búinn að ákveða hvað ég á að kjósa! Aumingja hinir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2010 | 23:50
Í fréttum er ekkert helst
Þegar þetta er skrifað eru sex dagar þar til fyrstu tölur hafa birst í sveitastjórnarkosningum 2010. Um það er ekkert skrifað í blöðum né fjallað í fréttatímum sjónvarpsstöðva. Það er ein og ein bloggfærsla sem tekur á þessu, sérstaklega um Besta flokkinn hitt eða Besta flokkinn þetta. En generalt er eins og ekkert sérstakt sé á döfinni. Jújú, skrímslin eru svosem á stjái - Agnes Braga veifar litlu bláu höndinni sinni, fuglahvíslið á AMX er með lélegustu tilraun til mannorðsmorðs sem sést hefur síðan Ólafur F var beðinn um læknisvottorð og hinir og þessir hnýta í Pál Hjaltason (7. sæti), því hann sagði eitthvað slæmt um gömul hús og einhverjum finnst hann vera vondur arkitekt.
Ekki fréttir
Fréttirnar eru hins vegar um gosið (sem er hætt eða ekki hætt), hraðamet á slátturvél, gráðugir fyrrum lóðaeigendur, eitthvað um gjaldeyrishöft og (jú, gefum þeim séns) "Góður andi yfir frambjóðendum og sjálfboðaliðum á kosningamiðstöðvum í Reykjavík" (sjöunda frétt á ST2, aðallega um vöfflur og grill) og "Frambjóðendur önnum kafnir" (sjöunda frétt á RÚV (aðallega um grill og vöfflur). Ekkert um tímamót í íslenskum stjórnmálum. Ekkert um stefnu flokkanna eða hreyfingar á milli þeirra, ekkert um hugmyndafræðilegan mun á framboðum, ekkert um frambjóðendur. Það er spjallað í dægurmálaútvarpsþáttum um þetta, en ekkert því virðist vera fréttnæmt. Égersvoaldeilisshlessa. Er það bara frétt þegar ný skoðanakönnun kemur út? Er virkilega ekkert af frambjóðendum og stjórnmálaflokkum að frétta sex dögum fyrir kosningar þegar sögulegustu úrslit á lýðveldistímanum eru yfirvofandi á höfuðborgarsvæðinu? Getur verið að almenningur hafi engan áhuga á þessu? Verður það afsökun fjölmiðla? Eru ekki starfskraftar í þetta? Hvað er í gangi?
Ég er svo sem ekki með yfirlit yfir hvað venjulega er fjallað um sex dögum fyrir kosningar, en ég veit að ef flúnkunýr flokkur með engum gamalkunnum stjórnmálamanni mundi skyndilega dúkka upp með meirihluta í Kaupmannahöfn eða London eða Osló eða Lichtenstein, þá væri fjallað um það í fréttatíma sex dögum fyrir kosningar. Fréttamenn gætu t.d. spurt kjósendur hvers vegna þessi viðsnúningur, þeir gætu spurt frambjóðendur hvað þeir stæðu fyrir og hvar það sé að klikka (í tilfelli gömlu flokkanna), stjórnmálaspekinga um hvort það væru fordæmi fyrir þessu eða hver túlkun á þessari furðulegu stöðu, embættismenn um hvort þeir sæju stórvægilegar breytingar framundan o.s.frv. o.s.frv. En nei - EKKERT. EKKI EITT AUKATEKIÐ ORÐ! Var ekki einhver einhvern tíman að tala um hlut fjölmiðla í hruninu? Nú er tækifæri til að líta hressilega í eigin barm, svo ég taki mér í munn þennan úttuggna frasa sem er nýjast og flottast að setja í fínar ræður. Ef einhvern tíman er gómsætur fréttamatur í trogum, þá er það núna.
Hjálp!
Gæti verið að fjölmiðlamenn viti bara ekki hvaðan á sig stendur veðrið? Eru þeir jafnringlaðir og Sjálfstæðiskandídatar í Reykjavík? Gæti verið að þeir séu í yfirvinnubanni vegna fréttaofáts undanfarin misseri? Ég verð að viðurkenna að mig brestur algerlega svör.
Gæti einhver góðhjartaður uppfrætt mig á þessari stöðu?
Takk takk - Einn ringlaður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2010 kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2010 | 22:58
"Þið í Besta flokknum"
Jæja - þá er maður kominn með stimpil.
Ég hef talað fallega um Besta flokkinn um nokkurt skeið og er því opinberlega orðinn "þið í Besta flokknum". Loksins náðist að hólfa mig niður og nú á ég að verja allt sem Besti flokkurinn gerir og gerir ekki. Segir og segir ekki. Stendur fyrir og stendur ekki fyrir. Ég er kominn á sinn stað. Ástæðan er eitthvað sérkennilegt hópamyndunarblæti sem þátttakendur í stjórnmálaumræðu virðist haldnir. Einn fyrir alla og allir fyrir einn!
Flokkshundar
Ég hef tekið eftir því að þegar maður talar við einhvern sem er viðriðin stjórnmálaflokk á einhvern hátt, þá setur viðkomandi sig strax í varnargírinn og ver út í rauðan dauðann allt sem flokkurinn hefur nokkru sinni gert og byrjar að kenna öðrum um. VG kenna Samfylkingunni um það sem miður fer í landsstjórninni, Samfylkingingarfólk kennir VG um. Framsókn kennir Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum um, Sjálfstæðisflokkurinn reynir að klína sem mestu á bæði Framsókn og Samfylkinguna, en allir kenna þeir "gáleysislegri hegðun bankamannana" um. (útlendingar sem setja þetta í Google translator - þessir "flokkar" sem ég er að lýsa að ofan eru ekki deildir á leikskóla - þetta eru hópar fólks sem stjórna landinu). Það er reyndar svolítið merkilegt að gerast núna, því þeir sem halda með framsóknarflokknum hafna fortíð flokksins með öllu og fussa sumir og sveia yfir þeim hryllilegu voðaverkum sem forverar þeirra hafa framið - en áfram skal haldið, stefnan er svo meiriháttar góð að það er ekki hægt að leggja niður flokkinn og byrja á nýjum grunni.
Alla vega. Ég er kominn með stimpil. Nú er hægt að klína gerðum annarra á mína persónu. Ég hef misst sjálfstæði mitt. En því miður verð ég strax að tilkynna að ég ætla ekki að verja einn einasta verknað Besta flokksins, hvorki fyrir né eftir kosningar. Ef þeir gera eitthvað sem mér finnst vera vitleysa, þá gagnrýni ég þá, rétt eins og ég gagnrýni hina flokkana. Ég ætla að mótmæla kröftuglega ef þeir ætla til dæmis að rífa gömul falleg hús í miðbænum og reisa hallir - eins og hinir flokkarnir hafa verið duglegir við að gera og enn duglegri við að sverja af sér. Ég ætla að mótmæla ef þeir ætla í alvöru að loka ísbjörn í búr í húsdýragarðinum. Og ég verð brjálaður ef þeir skipa ófaglega í nefndir og ráð og fara að einkavinavæða kerfið - eins og hinir flokkarnir hafa gert hingað til og finnst djöfullegt að geta ekki haldið áfram að gera. Ég ætla með öðrum orðum ekki að halda með þeim eins og fótboltaliði - eins og ég hef reyndar lofað hátíðlega sem partur af gríninu.
Það versta sem gæti gerst
Árangur Besta flokksins er hins vegar óumdeilanlega stórfenglegur það sem af er. Forsprakkar hinna flokkanna reyna ekki einu sinni að neita því. Þeir (auðvitað sérstaklega Jón Gnarr) hafa sameinað Reykvíkinga (og örugglega landsmenn alla) að baki sér gegn óheilbrigðri stjórnmálahefð. Bara það að þeir hafi í trúverðugri skoðanakönnun mælst með meirihluta í borginni viku fyrir kosningar er blátt áfram kraftaverk.
En hvað gæti gerst ef þeir ná meirihluta? Hvað gerist ef þeir ná ekki meirihluta? Jú, ef þeir ná meirihluta fáum við að sjá hvort þeir leyfa hinum borgarfulltrúunum að vera memm. Við fáum að sjá hvort þeir standi faglegar að málum og ópólitískar. Ég hef miklar vonir um að það verði betra en nú er. En ef þeir ná ekki meirihluta gerist líka svolítið kraftaverk. Það þýðir einfaldlega að þeir verða annað hvort í borgarstjórnarmeirihluta með öðrum flokki (sem er fróðlegt og vafalaust gott fyrir fjölbreytileikann sem á að vera í lýðræðisþjóðfélagi), eða þeir verða einir í stjórnarandstöðu. Ef þeir verða einir í stjórnarandstöðu þurfa allir hinir flokkarnir að vinna saman. Það hefur ekki gerst áður, og ef það er þetta sem þarf til til, þá er það hið besta mál og ágætasta útkoma.
Með öðrum orðum, það versta sem gæti gerst er frábært!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2010 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.5.2010 | 23:04
Von
Undanfarin tvö ár hefur verið nánast alger pólitísk auðn á Íslandi. Litlir hópar hafa reynt að taka sig saman og hrópa og veifa höndum, en fátt hefur gengið upp og haft veruleg áhrif. Fólk var vongott um að hlutirnir myndu breytast eftir Búsáhaldabyltinguna, en allt fór strax í sama farið aftur. Ný stjórn tók við þar sem sú gamla hafði skilið við. Engu mátti breyta því það var ekki hefð fyrir því. Landinu var og er stjórnað af hefðum, sérhagsmunum og vanhæfni.
Nú hefur fæðst ný von í brjóstum Reykvíkinga - og sennilega landsmanna allra. Það fannst loksins viljug persóna sem var hafin yfir allan vafa til að taka að sér það tröllaukna verkefni að sameina fólkið gegn þeirri vanstjórn sem hefur riðið húsum á síðustu áratugum og leiða það til móts við eitthvað nýtt. Já - bara eitthvað nýtt. Það breytir ekki öllu hvað það er - bara að það sé eitthvað annað en hefur verið. Í allra versta falli verður gaman. Því það er alveg á hreinu að nýja (besta) fólkið getur ekki klúðrað hlutunum jafn stórfenglega og þeir sem nú deila með sér völdum.
Jón Gnarr
Þessi ólíklega persóna er leikari og hugmyndasmiður. Hann hefur glatt Íslendinga meira en aðrir menn, jafnvel jafn mikið og verstu stjórnmálamennirnir hafa reitt sömu þjóð til reiði. Hann hefur sýnt fádæma sköpunarkraft í verki, komið sér á framfæri í veröldinni á eigin verðleikum og aldrei dottið ofan í fúlan pitt ásakanahefðarinnar. En það mikilvægasta af öllu er að hann kemur ekki fram fyrir alþjóð fullur af hroka og þaulæfðri, fínslípaðri málsnilld, heldur af sinni óviðjafnanlegu nördalegu einlægni, því það er það sem hann er þrátt fyrir allt - nörd, eins og við hin.
Gömlu kerfin
Það hefur skapast hefð fyrir því að mesta látunstungan vinnur. Sá einstaklingur og þeir flokkar sem ná að plata flest fólk til að trúa sér vinna hnossið. Þeir hafa komið sér upp stefnuskrám og málefnalistum, stjórnarsáttmálum, nefndarálitum, þingsályktunartillögum, minnihlutaálitum og allskonar öðrum einkennilegum uppfinningum til að skýla þeirri staðreynd að þeir eru bara í frekar ógeðfelldum valdaleik. Þeir hafa sett reglurnar sjálfir (þessir "þeir" sem ég er að tala um ganga daglega undir nafninu "flokksmeðlimir") og sníða þær eftir því hvernig valdataflið spilast. Þetta hefur gert nýjum öflum nær ókleift að breyta kerfinu. Það hefur komið upp krafa um beint lýðræði - kæft í fæðingu. Það hefur komið upp krafa um persónukjör - kæft í fæðingu. Það hefur komið upp krafa um nýja stjórnarskrá - kæft í kjaftæði. Það hefur komið upp krafan um að Íslendingar eigi eigin auðlindir - kæft í fæðingu og allt selt. Það hefur komið upp krafa um afsagnir - kæft, kæft, kæft.
En nú er komið eitthvað sem ekki verður kæft. Þetta nýja er ferskt og óspillt og lætur ekkert vont inn fyrir sín skilningarvit. Þetta er ekki bara besti flokkurinn - þetta er góðasti flokkurinn líka. Óspilltasti flokkurinn - eini flokkurinn með engan farangur nema von um að geta gert borgina betri. Hvernig í veröldinni er hægt að vera á móti þessu framtaki? Jú, það er hægt ef maður er í öðru fótboltaliði. Nú eru líka öll hin liðin á fullu að finna út hvernig þau geta unnið leikinn á lokasprettinum. Það lítur ekki í eigin barm í eitt andartak - NEI - þau gerðu ekkert rangt! Það er óhugnanlegt að sjá þetta ennþá. Þau hafa ENNÞÁ EKKERT LÆRT! Fyrstu viðbrögð voru panikk - "hvað með börnin"? "Eru þetta hæfir aðilar til að stjórna borg?", "Þau eru ekki með neina stefnu!". Svo byrja spindoktorarnir í vinnunni með sín undirförulu ráð, hönnuð til að grafa undan trúverðugleika annars fólks. Gallinn er bara sá að vopnin eru slegin úr höndum þessara undirförlu ráðgjafa - því það er ekki hægt að berjast gegn brosi. Það er ekkert sem hægt er að gera til að sannfæra fólk um að gömlu flokkarnir séu þrátt fyrir allt betri til að stjórna borginni - af þeirri einföldu ástæðu að fólk er ekki fífl - eins og þeir hafa hingað til haldið.
Ekki fleiri innantóm loforð takk - bara meiri gleði
Nú breytast stjórnmál á Íslandi fyrir fullt og allt. Um það er ég algerlega sannfærður. Héðan í frá verður ekki hægt að vaða uppi með innantóm loforð og skrúðmælgi. Það verður hlegið af gömlu aðferðunum. Ýstruliðið er á leiðinni út. Nú verður bara að koma alþingiskosningum á koppinn eins fljótt og lifandi er kostur á til að grýta sjálftökuliðinu út. Undirstaða valdastrúktúrs þeirra er hruninn - og það er bros Besta flokksins sem ýtti skriðunni af stað. Hvern hefði grunað að það væri gleðin, en ekki reiðin, sem kæmi þessu til leiðar? Hvern hefði grunað að Jón Gnarr mundi leiða þjóðina út úr þessum hrikalegu ógöngum sem flokkakerfið og þjónustuhyski þess hefur komið okkur í? Ekki mér. Ef einhver hefði spurt mig fyrir hálfu ári síðan hefði ég veinað úr hlátri. Það fyndna er að ég er veinandi úr hlátri eftir sem áður... og mun halda áfram að hlæja og hlæja og hlæja alla leiðina inn í kjörklefann. Þá mun ég kjósa Æ - fyrir börnin.
Takk Jón Gnarr.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
17.5.2010 | 22:55
Versti flokkurinn
Stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa skitið á sig. Þeir hafa stuðlað að stærsta arðráni sögunnar og þiggja að launum hundruðir milljóna úr ríkissjóði og öðrum sjóðum. Þeir taka við hundruðum milljóna frá hagsmunaaðilum og finnst það bara í ljómandi lagi. Ég fór á tvær kosningaskrifstofur hefðbundinna flokka um helgina og uppskar þá visku að þetta væri allt saman almenningi að kenna. Þeir höfðu kosið vitlaust - og taka ekki þátt í pólitísku starfi... þeim væri nær.
Ég tek reyndar undir það að fólk mætti skipta sér meira af pólitík - það hefur verið of mikill doði. En það þýðir ekki að þetta sé almenningi að kenna. Þetta er spilltum atvinnustjórnmálamönnum og -konum að kenna. Punktur.
Nú sækjast flokkarnir enn á ný eftir umboði almennings til að rústa lífi þeirra. Í þetta sinn á að leggja sveitarfélög landsins í eyði, og til þess þarf meðvitað samþykki borgarana. Eini munurinn núna á þessari framkvæmd er að nú eru engin kosningaloforð. Nema aldeilis furðulegar setningar eins og "Vekjum Reykjavík". Ég hef reynt að finna stefnu flokkanna í borgarmálum (er í Reykjavík sjálfur) með nákvæmlega engum árangri. Þetta er vafalaust til einhvers staðar, en það er falið mjög, mjög vel. Sem sagt - engin stefna. En ef það er stefna einhvers staðar, þá eru flokkarnir ekkert sérstaklega stoltir af henni.
Það eru til þær röksemdir gegn persónukjöri að slíkt geri erfiðara að stilla upp markvissri stefnu flokka með skýrum valmöguleikum fyrir kjósendur. Þetta er ekki tilfellið núna. Nú er engin stefna. Það ríkir stefnunleysi því öll loforð eru hjákátleg. Grín. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar gefið út að þau ætli ekki að hækka skatta. Jibbí. Reyndar - Hefur einhver heyrt um "breyttar forsendur" sem verða til þess að flokkarnir neyðast til að svíkja loforð sín? Hefur einhver heyrt um "stjórnarsáttmála" sem verður til þess að flokkarnir neyðast til að svíkja loforð sín? Hefur einhver heyrt að það hafi ekki "gefist tími á kjörtímabilinu", að "góðir hlutir taki tíma" o.s.frv.? Ég held að það sé loksins runnið upp fyrir flokkunum að fólk er minna fífl en þeir héldu - og þeir eru því komnir í tilvistarkreppu lífs síns.
Ég legg til að kjörseðlinum verði breytt í ár þannig að kjósendum verði gefinn kostur á að velja líka versta flokkinn. Það væri athyglivert að sjá hvað kæmi út úr því.
13.5.2010 | 23:52
Nýju frasar keisarans
Nýjasti tískufrasinn er að "líta í eigin barm". Annar er að "axla ábyrgð" og þriðji er "heiðarlegt uppgjör". Þetta kemur nú í staðinn fyrir "efnahagslegur stöðugleiki", "árangur áfram, ekkert stopp" og annað sem forkólfar stjórnmálaflokka töldu að félli í kramið hjá lýðnum. Mér er til dæmis hulið hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn auglýsir ekki áfram undir slagorðinu "efnahagslegur stöðugleiki" þar sem stefna hans brást í engu (bara ónafngreindir einstaklingar).
Nei, nú fellur annað betur í litlu atkvæðin: "Þjóðarsátt 2010 - samstaða um endurreisn" segja hinir öfgalýðræðissinnuðu Framóknarmenn, "Þjóðstjórn" hvíslar Hanna Birna, "tökum til hendinni" segir hið yfirgengilega þrifna Samfylkingarfólk. Og fólk stendur í kringum þessa nöktu bossa og ræður sér ekki fyrir kæti, bendir og dáist að stórfenglegum klæðaburði þeirra - nú á allt að breytast, þau hafa lært af reynslunni.
Kæru landar. Stjórnmálamenn eru allsberir. Þeir hafa ekki sagt eitt aukatekið orð satt undanfarin ár og það bendir nákvæmlega ekkert til þess að þeir geri það nú. Ég er að reyna að hljóma ekki of heimskulega, en það sem vakir fyrir þessu fólki eru völd - þeim er hjartanlega sama um ykkur. Prófaðu að senda tölvupóst til þingmannsins þíns - efsta mannsins í þínu kjördæmi, óháð flokkum - um eitthvað sem hvílir á þér varðandi stjórnsýsluna. Ég segi það með fullkominni vissu - þú færð nánast örugglega ekkert svar. Ég mæli með því að þetta sé gert, því það er partur af eðlilegu fulltrúalýðræði, en því miður er niðurstaðan nánast alltaf sú sama - þangað til að kemur að kosningum... en þá færðu ekki bara svar, heldur pulsu líka og blöðru og mann sem syndir á naríunum í sjónum og syngur þjóðsönginn á meðan.
Kíkjum aðeins á frasana í þessu samhengi. Byrjum á að "líta í eigin barm". Getur einhver bent á einhvern stjórnmálamann sem hefur litið í eigin barm? Nei. Það hefur nákvæmlega enginn litið í eigin barm. Það gerði bókstaflega enginn maður nokkuð rangt. En þess í stað hafa menn einbeitt sér að því að líta í barma annarra óháð fegurð viðkomandi barms. Birtingur komst að því eftir mikið havarí að það væri þrátt fyrir allt eftirsóknarverðast að rækta bara eigin garð í rólegheitum. Það væri mörgum holl lesning - sérstaklega þeim sem hafa nú með offorsi ráðist á garða annarra og ræktað þá af gífurlegum eldmóð ásamt því að gefa óvéfengjanleg ráð um garðrækt yfir hekkið... en standa sjálfir í foraði óræktargarðs með arfa upp að hnjám. Ekki furða að fólk treysti ekki stjórnmálamönnum.
Sá næsti er að "axla ábyrgð". Það er stutt mál að fjalla um það. Það hefur enginn axlað ábyrgð. Punktur.
Sá þriðji er "heiðarlegt uppgjör". Jú, þetta hafa allir farið í. Meðlimir Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins pípa sig blaá í framan yfir því hver hefur farið í heiðarlegasta uppgjörið og hver var fyrstur og gerði það best og með mestum árangri. Hinn frábæra árangur í þessari hreingerningastarfsemi er að örfáir stjórnmálamenn sem löngu voru komnir fram yfir síðasta söludag hafa "dregið sig í hlé". Ég kikna í hnjánum af hrifningu. Í staðinn höfum við fengið yngra fólk sem hlýðir forustunni í einu og öllu. Það er enginn barátta í nýja fólkinu á þingi - og það er eitthvað sem ég á í verulegum erfiðleikum með að skilja. Það er fólk á mínum aldri, jafnvel kunningjar (já, þetta er lítið land), fólk sem gekk í sömu skóla og ég og var í sömu partíum. Hvað í greflinum kom fyrir það í millitíðinni? Þetta er orðnir þreyttir, sálarlausir embættismenn áður en nokkur fær við ráðið... alveg fullkomið já ráðherra fólk. Hvað gerist eiginlega inni í þessum flokksmaskínum? Æfa þau svipbrigðaleysi af tíumetrapalli? Útúrsnúninga með frjálsri aðferð? Málalengingar á slá? Spretthræsni?
Ég veit það ekki. En ég veit að keisarinn er allsber og þjófarnir komust undan með gullið. Það er undir okkur að hrópa sannleikann upphátt - annars erum við samsek í þessum siðblindingsleik og gullkistur ríkisins verða bara tæmdar aftur og aftur og aftur og aftur af sniðugum þjófum sem vita hvernig þeir eiga að höndla hégómafulla ráðamenn og embættishyski þeirra.
Hjálp!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.5.2010 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Daði Ingólfsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar