Samtal við Davíð Oddsson um stjórnarskrána

Davíð: Þá er lokið þjóðfundi, þar sem þúsund manns settu saman á einum degi undirbúningslaust það sem á að vera inntakið á nýrri stjórnarskrá. Þjóðfundurinn sat í kringum 100 borð og var því í rauninni líkari velheppnaðri erfidrykkju en fundi, en mikil og almenn ánægja var sögð hafa verið með þetta fyrirkomulag.

Lýður: Já, góð líking. Fólk er einmitt einlægt og gott á erfidrykkju og lítur yfir farinn veg með opnum hug, rétt eins og við þurfum að gera núna - gera upp við fortíðina og horfa fram á við... Maður spyr til dæmis sjálfan sig grundvallarspurninga eins og "hef ég breytt rétt" og "hvað get ég gert betur" og "hvað skil ég eftir mig".

Davíð: Nú hefur enginn getað komið með frambærilega skýringu á því hvaða nauðsyn reki menn til þess að gera sérstaka atlögu að stjórnarskránni einmitt núna.

Lýður: Ha? Atlögu að stjórnarskránni? Já, hún hefur auðvitað öðlast helgisess því hún hefur gagnast okkur svo vel. Verst að það er ekki aaaaalveg farið eftir henni... en það er annað mál.

Davíð: En það er látið liggja í loftinu að það megi með einhvers konar dulrænum hætti kenna stjórnarskránni um að bankakerfið fór á höfuðið á Íslandi. Og því skuli henni breytt í grundvallaratriðum.

Lýður: Ha? Hver hefur gert það? Já, nei - þú meinar að það sé stjórnarskránni að kenna að siðferði stjórnmálamanna hafi farið á hausinn... er það ekki fulllangt gengið? Þeir hafa alveg séð um það sjálfir hjálparlaust er það ekki? Mestu grautarhausarnir halda því meira að segja fram að það þyrfti að breyta stjórnarskránni til þess að hún gæti veitt valdhöfum aðhald. En við vitum að góðir og sterkir valdhafar þurfa ekki aðhald, bara meiri völd. Þá farnast öllum svakavel.

Davíð: Það er ánægjulegt til þess að vita að engin önnur þjóð sem lent hefur í efnahagslegum ógöngum síðustu tvö árin skuli hafa fattað þetta.

Lýður: Það er nú aðallega ánægjulegt til þess að vita að engin önnur þjóð sem flaggar lýðræðisfánum hefur verið jafn óheppin með valdhafa. Hjúkk fyrir það!

Davíð: Ekki verður þó í fljótu bragði séð að þau nýmæli sem kynnt hafa verið að þjóðfundi loknum hefðu af öryggi komið í veg fyrir bankahrun ef þau hefðu verið komin í stjórnarskrána fyrir haustið 2008.

Lýður: Nei, satt er það Davíð minn. Það hefði þurft grundvallarbreytingu í siðferði og vinnubrögð stjórnmálamanna. Skrambinn að það skuli hafa vikið fyrir sérhagsmunapoti og vanhæfni. En svona er lífið, lítið sem við smælingjarnir gátum gert í því.

Davíð: Upplýst hefur verið að þjóðfundurinn vilji að „stjórnarskráin ávarpi þjóðina“, sem er nýung, því hún hefur ekki sagt neitt upphátt svo vitað sé frá 1874.

Lýður: Hahahahahahahahahaha. Ég dey... Þetta er svo fyndið ÞVÍ ÞAÐ ER SATT! Stjórnarskrár geta ekki talað! Það vita allir! Hahahaha. Hm. En hvað sagði hún annars árið 1874? Töluðu stjórnarskrár þá?

Davíð: Það á einnig að skrifa inn í stjórnarskrána að á Íslandi „búi samheldin þjóð“. Það er sniðug hugmynd. Ekkert hefur bent til þess upp á síðkastið að sú fullyrðing sé rétt, en það gæti lagast ef stjórnarskráin segir það.

Lýður: Já - best að skrifa bara ekki neitt í stjórnarskránna sem ekki er hægt að dæma menn í fangelsi eftir. Til dæmis finnst mér þetta mannréttindarugl í henni alger steypa. Og landsdómur! Bjarni Ben SAGÐI að þetta væri úreld og gamaldags lumma. Verst að hann gat aldrei breytt því... því bara þingmenn geta lagt fram frumv... æjá. Æ sleppum því.

Davíð: En má ekki skrifa líka að á Íslandi búi gáfuð þjóð og árétta í annarri málsgrein að hún sé í raun stórgáfuð miðað við höfðatölu? Og svo á að taka fram í stjórnarskrá að allir eigi rétt á atvinnu, og húsnæði. Hver ætlar að vera á móti því? Hvað á svo að gera í framhaldinu þegar einhver missir vinnunna? Fer sá í biðröð hjá nýjum umboðsmanni stjórnarskrárinnar? Eða munu Umboðsmaður Alþingis, Umboðsmaður neytenda, Umboðsmaður skuldara, Umboðsmaður barna og Umboðsmaður hljómsveita ásamt Umboðsmanni stjórnarskrár setjast niður á auka þjóðfund og fjalla um málið og vísa því til sérstakrar rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem rannsaki í leiðinni aðdraganda þess að landhelgin var færð út í 50 mílur?

Lýður: EINMITT! Það sem þjóðin þarf er ekki ný stjórnarskrá með allskonar bulli í. Hún þarf sterkan leiðtoga sem segir henni hvenær hún á að fara í stríð og hvað er gott fyrir börnin og neytendurna - til dæmis stjórnanda sem segði að frjálshyggjan sé í raun hið týnda testament og að allir skuli vera frjálsir til að græða á kvöldin og grilla á nóttunni... eða hvernig sem þetta var nú aftur. Og ALLIR eiga að fylgja honum í blindni því hann er mátturinn og dýrðin að eilífu (eða þangað til allt hrynur - þá er það í raun fjölmiðlafrumvarpinu og vinstri mönnum að kenna) AMEN.

Davíð: Þjóðfundur vill að tekið verði fram í stjórnarskránni að tryggja beri algjört jafnrétti. Hver á að leggja á endanlegan úrskurð um hvenær því sé náð? Jafnframt er tekið fram að í stjórnarskránni eigi sérstaklega að tryggja rétt minnihlutahópa. Þarf það ef áður er búið að tryggja algjört jafnrétti? Og hvað eru minnihlutahópar? Aðeins 1% þjóðarinnar er í Frímúrarareglunni og ekki nema 0,5% í Viðskiptaráði. Á stjórnarskráin að tryggja sérstaklega rétt þeirra umfram til að mynda aldraðra, sem eru um 30 prósent landsmanna eða kvenna sem eru yfir 50%?

Lýður: Nei, vitanlega ekki. Viðskiptaráð á að halda áfram að hafa 100% rétt umfram alla. Annað væri kommúnismi.

Davíð: Meginniðurstaðan virðist vera sú að inn í stjórnarskrána skuli hrúga óskilgreindum óskalistum í veikburða tilraun til að gera landið algjörlega stjórnlaust. Finnst einhverjum að á meðan ríkisstjórn situr undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur þurfi sérstakt átak til að gera landið stjórnlausara en það er?

Lýður: Nákvæmlega. Hefurðu til dæmis lesið þýsku stjórnarskránna? Pældu í því - þeir halda því blákalt fram að reisn mannsins sé eitthvað ægilega fínt og lekkert. Og hver á að ákveða hvað reisn sé? Jóhanna Sigurðardóttir? Nei onei. Það er meira að segja talað um að þýska stjórnarskráin sé sú besta í heimi! Og sú franska! Frelsi, jafnrétti, bræðralag... hvílík endemis þvæla! Amatörar.

Davíð: Tekið er fram að í stjórnarskránni eigi að fyrirskipa að öll verk eigi að byggjast á heiðarleika. Leggja beri áherslu á manngildi og mannvirðingu. Þarf ekki hundrað síðna viðauka til að útskýra hvað menn eru að fara. Af hverju er ekki sagt berum orðum að allir eigi að fara að lögum? Er það kannski vegna þess að það liggur í augum uppi? Og það sem liggur í augum uppi þarf ekki að setja í stjórnarskrá. En fara menn að lögum yfirleitt? Það er stór spurning.

Lýður: Hárrétt. Það fer enginn eftir lögum. Tökum sem dæmi ákvæðið í stjórnarskránni að þingmenn skuli fara eftir eigin sannfæringu. Bull. Þeir fara bara eftir því sem leiðtoginn segir eða því sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Annars væri landið líka stjórnlaust. Þegar ekki einusinni þingmenn geta farið eftir lögum - hví ættu þá venulegir borgarar að gera það?

Davíð: Til þjóðfundarins átti að velja 1.000 manns af handahófi úr þjóðskrá, sagði í lögunum. Var það gert? Það var nefnilega í heimildarleysi ákveðið að þúsund aðalfulltrúar samkvæmt lögum skyldu eiga 4.000 varamenn. Þetta byrjar satt best að segja ekki mjög vel.

Lýður: Það stendur reyndar "Miða skal við að þátttakendur á þjóðfundi verði um eitt þúsund talsins". Það stendur sem sagt að þátttakendurnir eigi að vera 1000 - ekki hversu margir skyldu valdir, eins og þú segir. Það var algerlega lagt stjórnlagaþingnefndinni í hendur hvernig hún fengi þessa þúsund á fundinn - bara að það skyldi gert með slembiúrtaki. Þetta byrjaði því ekki bara vel, heldur endaði vel líka. Hundleiðinlegt mál fyrir þá sem vilja þessu ferli illt.

Davíð: Og svo skal landið verða eitt kjördæmi. Því bankahrunið var auðvitað ekki síst því að kenna að vægi landsbyggðarinnar er örlítið of mikið. Eða er það ekki öruggt? Engin skýring hefur komið fram á því að einmitt nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni.

Lýður: Hver hefur sagt að bankahrunið hafi verið vegna vægi landsbyggðarinnar? Æjá, ég gleymdi að þú ert skáld í hjáverkum. Þau eru svo ægilegir sprelligosar þessi skáld. En þú ert nú lögfræðingur líka er það ekki... Er venjulega talað um að "gera atlögu að" lögum þegar þeim er breytt? Hvað gerðir þú atlögu að mörgum lögum þegar þú varst forsætisráðherra? Bíddu bíddu - stofnaðir þú ekki sjálfur til nefndar undir forystu Jóns Kristjánssonar til að "gera atlögu að" stjórnarskránni? Hvers vegna var það nú aftur? Æjá - því þú vildir breyta stjórnarskránni svo forsetinn gæti ekki verið að vasast með skítugum puttunum í frumvarpi sem þú vildir gera atlögu að. Jæja. Kominn tími til að gera atlögu að kvöldmatnum og leggjast svo í stórsókn við heimilisbókhaldið. Bæó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún hló, hún hló, hún skelli skelli hló.  Takk fyrir Daði

Ágústa Sigrún Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 21:54

3 identicon

Athyglisverð lesning - en hvaðan er texti Davíðs kominn?

Þorgeir Helgason (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 16:17

4 Smámynd: Daði Ingólfsson

Takk Þorgeir

Text Davíðs er óritskoðaður leiðari Morgunblaðsins fyrir skömmu.

Daði Ingólfsson, 28.11.2010 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og átján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband