15.4.2010 | 00:15
Ajax, Ólafur, Björgúlfur, Valgerður og dvali skynseminnar
Mér líður eins og fábjána.
Stærsti þjófur í sögu Íslands biðst innvirðulegrar afsökunar á stórfenglegri íslensku - gullaldarmáli. Hann ætlar að gera upp við lánadrottna sína. Á einhvern undraverðan hátt hefur þessi óíslenskutalandi ribbaldi breyst í iðrandi skáld á einni nóttu.
Forseti Íslands, sem eignaðist stuðningsmenn úr óvæntustu áttum þegar hann neitaði að skrifa undir skuldaviðurkenningu, hoppar hæð sína í loft upp þegar á hann er borið að hann hafi átt hlut að máli, verið partur af vandamálinu, beri ábyrgð.
Ráðherra á sjálfteknum ráðherraeftirlaunum sem gaf banka til sinna nánustu samflokksmanna neitar því staðfastlega að eitthvað hafi verið óeðlilegt við hennar vinnubrögð - það voru jú útlendingar (sérfræðingar) sem sögðu henni að allt væri í himnalagi. Það var ekki eins og hún bæri einhverja ábyrgð.
Formaður flokksins sem kom landinu í kalda kol og skuldar fjármuni sem enginn venjulegur maður skilur segir að þjóðin þurfi að siðvæðast. Alþingi muni síðan örugglega fylgja í kjölfarið. Hann segir að flokkurinn sinn hafi axlað ábyrgð með því að færri kusu hann í síðustu kosningum.
Allt þetta á einum degi - og ég hef ekki einu sinni fylgst sérstaklega vel með í dag - auk þess sem aðalfréttin var um gos.
Hvernig getur staðið á því að þau þrjú hérna að ofan hafi komist til metorða hér á landi? Hefur þetta fólk eitthvern snertiflöt við raunveruleikann? Hver er lærdómurinn sem börnin okkar geta dregið af þessu? Jú - hann er svona: Þú lýgur, svíkur og prettir, skammtar sjálfum þér laun úr vasa almennings, blandar geði við siðleysingja, mælir með þeim, veitir þeim orðu, selur þeim eigur almennings fyrir slikk og svo er alveg sama hvað þú gerir - biðst slepjulega afsökunar, réttlætir gerðir þínar, stekkur upp á nef þér... þú vinnur alltaf. Engar afleiðingar. Ekkert bögg. bíða bíða bíða. Allt gleymt. Replay.
Ajax eins og hvítur stormsveipur í eldhúsi með svörtum og hvítum flísum.
Hvað þarf til að þetta pakk vakni úr dvalanum og stígi þó ekki væri nema hálft skref inn í raunveruleika þeirra sem búa við afleiðingar gerða þeirra. Fatta þau ekki að um leið og þau opna munninn eru þau að móðga fólk út um allt land? Ólafur og Valgerður eru táknmyndir þeirrar stjórnmálatísku sem hefur riðið húsum síðustu tuttugu árin í það minnsta hér á landi. Þau gætu talað sig út úr læstu gluggalausu húsi með rimlum og skilið þungvopnaða verðina eftir í sjálfsásakandi tilvistarkreppu með tárin í augunum. Allt í lagi með það. En Björgúlfur Þór er bara vitleysingur! Hvernig má það vera að þessi stamandi hálfbjáni nái að sölsa undir sig hálft konungsríkið og lagt hinn helminginn að veði? Hvar voru látúnstungur Alþingis þá? Það eru nákvæmlega tveir möguleikar: Þeir voru annað hvort að grilla eða græða.
Og undir þessu er framtíð okkar falin. Strigakjaftar Alþingis halda áfram að þiggja mútur frá stórfyrirtækjum - því á ekki að breyta. Þeir vilja ekki að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna - því á ekki að breyta. Þeir vilja ekki að almenningur hafi aðkomu að því að semja eigin stjórnarskrá - því á ekki að breyta. En það á að fara gaumgæfilega í gegnum skýrsluna og draga af henni lærdóm - það er að segja af mistökunum sem allir hinir gerðu.
Ég er þreyttur. Ég er ringlaður. Er eitthvað sem ég er bara ekki að skilja? Vill einhver aumka sig yfir mig og útskýra þetta fyrir mér? Eða getur verið að þið séuð jafn ringluð og ég?
HJÁLP!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Daði Ingólfsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Aðferð illskunnar er að rugla þann sem vill hindra hana í að koma ætlun sinni í framkvæmd. Það er ekkert frekar hægt að skilja rök hennar en fíkilsins. Þau eru rakalaus steypa. Við verðum bara að átta okkur á því hvað við viljum. Hverju við ætlum að breyta og hvernig við ætlum að að koma þeim á. Fyrsta skrefið er að allir þeir, sem skilja ekki ruglið sem þú lýsir svo vel hér að ofan, standi saman og steypi þessum siðlausu rugludöllum ofan úr fílabeinsturnunum sem þeir hafa komið sér fyrir í.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.4.2010 kl. 01:24
Ég sveiflast á milli þess að vera ringluð eða brjáluð.... og ringluð OG brjáluð. Þetta einfaldlega getum við ekki látið bjóða okkur og ég tótalí tilbúin til að aðstoða þetta fólk við að hunskast heim
Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 09:06
Veistu að þetta er eins og að vera í martröð sem ekki er hægt að vakna úr...en í þessari martröð gerir þú þér grein fyrir að þetta er samt sem áður raunveruleikinn og það er hrikalega vond tilfinning. Ruglið bara eykst ef eitthvað er eftir útkomu skýrslunnar. Innihald skýrslunnar og svo viðbrögð gerendanna við henni sýna það svart á hvítu að þetta fólk lifir í einhverri allt annarri vídd sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Og nú þegar það er ekki lengur grunur um vanhæfi og sérhagsmunagæslu heldur staðfesting en leikritið heldur samt áfram eins og áður þá fallast mér hendur og ég veit ekki hvað við eigum til bragðs að taka. Þetta er eins og að öskra úr sér röddina á fólk sem er ekki einu sinni með eyru.....!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2010 kl. 09:22
Við þurfum að breyta heiminum....það er morgunljóst...en hvernig förum við að
Hólmdís Hjartardóttir, 19.4.2010 kl. 01:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.