19.4.2010 | 01:21
Leggjum niður Alþingi - útskýringar á íslensku
Nú er svo komið að Alþingi gerir meiri skaða en gagn. Flokksmenn forgrangsraða á eftirfarandi hátt: 1. Hvað kemur mér og mínum pólitíska frama vel? 2. Hvað lítur best út í augum forvígismanna flokksins (sem kemur frama mínum vel)? 3. Hvað kemur flokknum mínum vel (sem kemur frama mínum vel)? 4. Hvað lítur best út fyrir kjósendur flokksins (sem kemur frama mínum vel). 5. Hvað kemur þjóðinni vel (sem gæti komið frama mínum vel)?
Það eru til orð á íslensku yfir þessa tegund af hegðun: sérhagsmunapot.
Það eru til önnur orð á íslensku: spilling, undirlægjuháttur, ósjálfstæði, sveitamennska (afsakið ágæta fólk í sveitum landsins), mafía.
Þrjú frumvörp hafa komið fram sem eiga að bæta lýðræði hér á landi. Samfylkingin og VG berja sér rosalega á brjóst. Kíkjum aðeins á hver staðan er:
1. Stjórnlagaþingsfrumvarpið - http://www.althingi.is/altext/138/s/0168.html
Fyrst á íslensku: Stjórnlagaþing er hópur af fólki sem semur nýja stjórnarskrá eða breytir þeirri gömlu til betri vegar. Stjórnarskrá er það skjal sem skilgreinir grunnreglurnar í samfélaginu okkar. Stjórnarskrá er ekki endilega flókið skjal - bara nokkrar góðar reglur um skipulag sem við erum sammála um að við viljum lifa í. Til dæmis er ekki flókið að lýsa því að það þarf að skúra einu sinni í viku á heimili okkar... á sama hátt er ekki flókið að lýsa því að það þarf einhver að horfa yfir öxlina á embættismönnum til að tékka á því hvort þeir eru að gera einhverja vitleysu.
Og nú að hinu háleita "stjórnlagaþingsfrumvarpi" (flókið nafn á einföldu fyrirbæri). Það er mikið hagsmunamál fyrir flokkana að það sé einfalt að koma þeirra fólki að á stjórnlagaþingi. Af miklu örlæti hafa þeir hins vegar komið inn í frumvarpið að þingmenn mega ekki bjóða sig fram. Hins vegar er ekkert um að sveitastjórnarfólk, embættismenn sem ráðnir eru af flokkunum, fólk sem starfar innan flokkana, fólk sem styður flokkana með ráðum og dáðum og eru skráð í flokkinn, fólk sem hefur dælt peninga inn í flokkana osfrv. býður sig fram. Planið er að stjórnlagaþingið verði bitlingur fyrir duglega húrrahrópara. Og það á ekki að breyta miklu í stjórnarskránni - meira um það síðar. Frumvarpið sem nú liggur fyrir er algerlega hannað fyrir kosningamaskínur flokkakerfisins. Hver annar en hefðbundinn stjórnmálaflokkur hefur tækifæri á að kynna kandídata sína fyrir þjóðinni? Þetta hafa þeir gert í áratugi og hafa sérstakt fólk sem eru sérfræðingar í þessu. Flokkarnir hafa nefnilega svokallaða "spin" sérfræðinga starfandi hjá sér, sem sérhæfa sig í að hanna sýndarraunveruleika - nákvæmlega sömu tegund af raunveruleika og rústaði íslensku þjóðfélagi fyrir skömmu.
Það á ekki að leyfa almenningi að koma að gerð stjórnarskránnar.
Það á ekki að leyfa þjóðinni að kjósa um stjórnarskránna eða segja álit sitt á neinn hátt.
Alþingi ætlar síðan að ráða niðurstöðunni (ef eitthvað væri á móti hagsmunum flokkana) - því þetta plagg verður "ráðgefandi".
Svo er það tíminn sem frumvarpið gerir ráð fyrir að fara í þetta smotterí (að búa til nýjar leikreglur fyrir allt samfélagið sem allir eru sáttir við og sem flestir getir skrifað undir): 8-11 mánuðir. Og það er hvergi tekið fram að þessir 25-31 nefndarmaður (afsakið, stjórnlagaþingmaður) eiga að vinna í þessu í fullri vinnu - þeir geta allt eins sleppt því að vinna þetta eða tekið þetta með sveitarstjórnardjobbinu sínu eða öðru embættisverki sem hann eða hún er ráðin í af flokkakerfinu - sem sagt tvöföld laun. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þetta fólk semji í hjáverkum nýjar grunnreglur fyrir alla Íslendinga. Eða er planið etv. að breyta sem minnstu í núverandi stjórnskipan? Hmmmm látum okkur nú sjá - hverjum mundi það gagnast mest? Jú, ráðandi stjórnvöldum - því þeir eru við völd, kunna á kerfið eins og það er og sveigja það og beygja eftir kúnstarinnar reglum (eða óreglum).
Það er til íslenskt orð yfir þetta líka: óheiðarleiki
En þetta er ekki nóg. Frumvarpið inniheldur fundardagskrá stjórnlagaþingsins. Það er sem sagt ekki nóg fyrir valhafa að stytta þingið, hafa sitt fólk þar og ráða hvort það yfirleitt samþykkir þetta - það þarf líka að ráða dagskránni. Það er búið að ákveða að þingið eigi að hittast þrisvar. Já - þetta er ekki misritun - þingið á að hittast þrisvar. Þrisvar. ÞRISVAR! Á þeim fundum (og vonandi á milli þeirra) á að ákveða allt gúmmelaðið. Ég veit ekki um ykkur, en miðað við hversu sammála flokksfólk og stjórnmálamenn eru um hlutina er ég býsna svartsýnn á að það takist einu sinni að vera sammála um tegund af kleinuhringjum í kaffiteríunni á þeim tíma, hvað þá meira.
Svo er líka ákveðið í frumvarpinu um hvað eigi að fjalla á stjórnlagaþinginu. Ef einhver velkist í vafa um að núverandi valdhafar ætli að ráða nákvæmlega hvað eigi að vera í nýrri stjórnarskrá, vinsamlegast lesið 3. grein frumvarpsins: "Viðfangsefni".
Það er til orð yfir þetta á íslensku: hagsmunagæsla
Það er margt annað hægt að segja um þetta makalausa frumvarp - en kíkjum nú á næsta stórkostlega skref sem flokkakerfið ætlar að taka í lýðræðisátt:
2. Þjóðatatkvæðagreiðslufrumvarpið - http://www.althingi.is/altext/138/s/0118.html
Frábært - á nú virkilega að leyfa þjóðinni að skera úr um sín eigin mikilvægu málefni? Nei. Það er ekkert í frumvarpinu sem bendir til þess. Það eina sem þetta frumvarp fjallar um er hvernig á að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslur ef meirihluti á Alþingi krefst þess að það skuli ganga til þeirra.
Fyrsta spurning: Hversu oft hafa ráðandi stjórnvöld óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum hingað til? Svar: Aldrei
Önnur spurning: Hvenær gæti komið upp sú staða að ríkjandi stjórnvöld óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í núverandi kerfi? Svar: Aldrei - það væri "veikleikamerki".
Þriðja spurning: Hvað bendir til þess að þessi hegðun sé að breytast með nýtilkominni vinstri stjórn? Svar: Ekkert - enginn hefur talað þjóðaratkvæðagreiðslu jafn mikið niður og Jóhanna og Steingrímur töluðu niður Icesave atkvæðagreiðsluna... og það þrátt fyrir að hver einasti vanur samningamaður sem er hefði getað sagt þeim (og sagði þeim vafalaust) að þetta gæti styrkt samningsstöðu þeirra í viðræðum við Breta og Hollendinga.
Og bara til þess að allt sé á tæru: Almenningur á EKKI að eiga möguleika með NEINUM hætti að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkurt einasta mál samkvæmt þessu frumvarpi. Minni hluti þingmanna á EKKI að eiga möguleika með NEINUM hætti að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkurt einasta mál samkvæmt þessu frumvarpi.
Það er til orð yfir þetta á íslensku: Valdagræðgi
Ólíkt við stjórnlagaþingsfrumvarpið er fátt fleira hægt að segja um þetta frumvarp - það er ósköp einfaldlega skelfilegt að sjá þetta eftir allt sem á undan hefur gengið. En þá að næsta máli:
3. Persónukjörsfrumvarpið - http://www.althingi.is/altext/138/s/0109.html
Bara til að byrja með - þetta frumvarp verður aldrei að veruleika. Til þess er "tíminn til sveitastjórnakosninga of skammur". En bara til að halda því til haga - það hafa aldrei verið breytingar á kosningalögum nema rétt fyrir kosningar.
Ókei - þetta er skref í rétta átt... nema að því leyti (eins og segir að ofan) að þetta skref verður ekki stigið.
Á íslensku þýðir þetta frumvarp (í guðana bænum ekki lesa það - það er hryllileg lesning hönnuð af lögfræðingum fyrir lögfræðinga - ekki fyrir fólkið sem á að fara að lögunum) að það á náðugsamlegast að leyfa fólki að velja í hvaða röð það vill raða fólkinu í þeim flokki sem það kýs. Sem sagt - þú kýst flokk X og getur sett 1, 2, 3 osfrv. fyrir framan það fólk sem þú vilt helst kjósa.
Þetta er frábært skref framávið (ef það verður einhvern tíman tekið - sem ég persónulega stórefast um) - en lítum á það sem er EKKI í frumvarpinu:
1. Það má ekki kjósa þvert á lista. Þetta þýðir að þú kýst einn flokk - og getur raðað fólki í þeim flokki. Þú getur ekki kosið PERSÓNUR sem bjóða sig fram (óháð flokkum). Því er hugtakið persónukjör í besta falli takmarkað til að lýsa þessu frumvarpi.
2. Það er ekki hægt að bjóða sig fram framhjá flokkakerfinu. Persónur geta með öðrum orðum ekki boðið sig fram (er einhver byrjaður að hlæja að persónukjörshugtakinu núna?)
3. Það er einungis hægt að raða (1, 2, 3 osfrv. mannstu) helmingnum af listanum. Hinn helmingurinn er bókaður fyrir "heiðurssæti" fyrir afdankaða flokksmeðlimi. Þetta þýðir að í stað þess að geta valið milli 20 manns getur þú valið milli 10.
En hvað er ég að eyða orðum í þetta? Þetta verður hvort sem er ekki samþykkt. Það er nefnilega hefð fyrir því að ef eitthvað er óþægilegt fyrir flokkakerfið, þá tekur einn flokkur það að sér að vera svo mikið á móti því að hann stoppar allt í nefnd. Þetta lætur hinn svokallaði "meirihluti" sér afar annt um allt í einu og tekur upp á því að vera skyndilega svakalega lýðræðislegur - allir verða að vera sammála um þetta mál! Svo í næsta máli tekur annar flokkur upp málþóf og í þriðja málinu þriðji flokkurinn osfrv. Um þetta, og þetta eitt, er alger samstaða á milli flokka.
Það er til orð á íslensku yfir þetta: Samráð.
Það er til annað: Samsæri.
Það er því komið svo að Alþingi er farið að lifa sjálfstæðu lífi. Það er engum til gagns nema sjálfu sér, og því er, í hinu nýja ráðvendnisæði sem runnið hefur á þjóðina, best að leggja það niður. Það hefur ekki verið til gagns síðastliðin tuttugu ár og það er ekkert sem bendir til að það sé að breytast. Það þarf nýtt lýðræði - og ætli það sé ekki best að stofna til þess undir nýju þaki og kalla það eitthvað annað en Alþingi til að það smitist ekki af þessum eiginhagsmunavírus sem hefur sundursýkt núverandi Alþingi. Ég sting upp á að hið nýja alþingi (með litlum staf) verði komið fyrir í húsnæði Hugmyndahússins þar sem fólk er vant því að vinna saman að hlutunum í góðum anda - það gæti verið til bóta.
Verst að Ingunn Werners á það hús...
Hjálp!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Daði Ingólfsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Snilldar færsla hjá þér félagi. Segi með þér Hjálp!
Stefán Þór Steindórsson, 19.4.2010 kl. 01:52
Gefum Alþingi frí....góð færsla
Hólmdís Hjartardóttir, 19.4.2010 kl. 01:59
Það versta við þessa færslu er að það er allt of mikill sannleikur í henni. Það óhuggulega er að það eru engar líkur á að þetta breytist. Því miður.
Kári Ólafsson (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 08:21
já, þetta er of sorglegt til að vera satt...
Daði Ingólfsson, 19.4.2010 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.