Alþingi vs. Almenningur

Þá er það ákveðið. Bankarnir vinna, almenningur tapar. Hljómar þetta kunnuglega? En hver býr til reglurnar í þessum bardaga? Hver dæmir? Jú, það er einmitt stofnun sem menn hafa talað digurbarkalega um við hátíðleg tækifæri og kallað elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum: Alþingi.

Á Alþingi er fólk í vinnu við að búa til reglur samfélagsins. Það býður sig fram til verksins og er kosið af almenningi til að sinna þessu. Það þiggur ágætis laun fyrir vikið, og nokkuð mikla virðingu í heitum pottum sundlauganna. Að minnsta kosti að eigin mati.

En til þess að geta sómasamlega boðið sig fram, þarf fólkið ógurlega mikið af peningum til að standa straum af bæði prófkjöri og kosningum. Það þarf að fara í stúdíó og taka myndir af fólkinu með fjöll í bakgrunn. Það þarf að fá auglýsingastofu til að semja slagorð eins og "Göngum hreint til verks" eða "Árangur áfram - Ekkert stopp". Svo þarf að Photoshoppa alltsaman og kaupa dýr svæði í fjölmiðlum til að koma þessum bráðnauðsynlegu upplýsingum á framfæri.

Og einhvers staðar þarf að fá peninga til að borga fyrir þetta allt saman. Fólkið sem vill starfa fyrir almenning getur auðvitað ekki staðið straum af þessu öllu og leitar því til fjársterkra aðila til að gefa sér peninga. Fjársterku aðilarnir gefa þeim svo peninga. Peningarnir eru í sumum tilfellum meiri en sem svarar launum fólksins út kjörtímabilið.

Frambjóðendunum er svo mikið í mun að koma sér í framlínuna til að geta eytt starfskröftum sínum í að verja hag almennings tekur vitanlega fegins hendi við peningunum. Því meira, því meiri líkur á að það geti óhindrað hellt sér út í að sinna lítilmagnanum! Svo kemst það á þing.

Þegar frambjóðendurnir eru svo orðnir að þingmönnum eru þeir auðvitað búnir að steingleyma hver gaf þeim alla peningana til að koma þeim þangað - eða, sem er ennþá heppilegra - hafa aldrei haft hugmynd um hver gaf, því að vinir þeirra sáu um söfnunina.

Fjársterku aðilarnir eru auðvitað líka löngu búnir að gleyma hverjum þeir gáfu hvað í prófkjörum og kosningum, því allir vita að svoleiðis aðilar hugsa ekki um að ávaxta fé sitt, heldur um réttlætið í þjóðfélaginu.

Alþingi er því auðvitað dásamlegur vinnustaður sem allir vilja komast á, því þar eru góðverkin látin tala. Virðing stofnunarinnar vex og dafnar og allir eru vinir.

En af einhverjum ókunnum ástæðum hefur á síðustu árum komist púki í þetta annars fullkomna fyrirkomulag. Upp komst að fjármagnseigendurnir þurftu smávægilega greiða. Auðvitað var orðið við þessum greiðum, því þetta eru einu sinni vinir réttlætisins. En þá vildu frambjóðendur auðvitað svolítið meiri peninga í staðinn, til að þeir kæmust örugglega aftur á góða vinnustaðinn. Fjármagnseigendurnir sáu auðvitað réttlætið í því og gáfu þeim eins mikið af peningum og þeir gátu torgað. En þá var einungis sanngjarnt að þeim væri gerður örlítið stærri greiði næst. Og þannig koll af kolli.

Þá er komið að sögulokum. Þingmennirnir góðu hafa ákveðið að þeir séu frábærir og gefa út sérstakar yfirlýsingar í því tilefni... einn og einn er þó oggolítið skömmustulegur. Fjármagnseigendurnir eru auðvitað frábærir líka, en örfáir hafa leigt sér skáld til að semja dálitlar einræður um að þeim finnist þetta allt saman svolítið pínlegt.

Lánin mín hækka um 200.000 krónur á mánuði (og ég var einn af þeim sem fóru varlega).
Fólk á ekki fyrir mat og stendur í biðröðum.
Það er verið að draga úr heilbrigðisþjónustunni.
Nauðungaruppboð eru nú daglegt brauð.
Það er verið að draga úr þjónustu við börnin.
Menntakerfið er að dragast saman.
Lífeyrir dregst saman.

En nú er ókeypis í sund fyrir atvinnulausa. Þá þarf ekki að horfa upp á þá og börnin þeirra skítug alla vega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Þeir sem tóku við peningum frá bankaræningjunum, eins og Eva Joly hefur kallað þá, tóku við þýfi. Þetta fólk á að skila þýfinu og segja af sér.

Baldvin Björgvinsson, 22.4.2010 kl. 21:16

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Virkilega vel skrifað! Takk fyrir mig.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2010 kl. 22:25

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær greining á starfsháttum alþingismanna undanfarna áratugi. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.4.2010 kl. 00:18

4 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Það sorglega við þennan pistil er að hann er sannur.

Theódór Gunnarsson, 23.4.2010 kl. 07:52

5 identicon

Mælt þú manna heilastur Daði!

Takk fyrir frábæran pistil.

Sigurlaug (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 08:37

6 Smámynd: Einhver Ágúst

Ég vil benda á að VG stal þessari hugmynd um ókeypis sund af okkur í Bezta flokknum! Það er ósiðlegt og mjög í anda umfjöllunnar þeirrar sem Þú kemur með hér að ofan um spillingu og greiðastarfsemi. En einu gleymdu þeir, þeir redda engu handklæði það er álik aumt og þessi "leiðréttingaleið" bankanna sem þú nefnir einmitt, nú stand aatvinnulausir blautir og kaldir í búningsklefum um allann bæ og reyna að þurrka sé rmeð skeinipappír og handþurrkublásurum. VG er skömm af þessu lúalega kosningabragði og við í Bezta flokknum munum eiga mjög erfitt með að stjórna borginni með svona fólki, enn við erum nú að vinna að enn betra kerfi fyrir aumingja og atvinnulausa og mun það verða kynnt síðar en það mun verða í formi einskonar klippikorta þarsem fókk er verðlaunað fyrir að nýta sér kosningaloforð okkar. Jafnvel er rætt um að tattovera atvinnulausa með stjörnu, kannski er það ekki svo galin hugmynd?

 Kv Einhver Ágúst 17 sæti Bezta flokksins og verðandi formaður menningarráðs og Orkuveitu Reykjavíkur.

Einhver Ágúst, 23.4.2010 kl. 13:04

7 Smámynd: GunniS

það er ekki frítt í sund fyrir atvinnulaus í reykjavík

GunniS, 24.4.2010 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband