"Þið í Besta flokknum"

Jæja - þá er maður kominn með stimpil.

Stimpill Ég hef talað fallega um Besta flokkinn um nokkurt skeið og er því opinberlega orðinn "þið í Besta flokknum". Loksins náðist að hólfa mig niður og nú á ég að verja allt sem Besti flokkurinn gerir og gerir ekki. Segir og segir ekki. Stendur fyrir og stendur ekki fyrir. Ég er kominn á sinn stað. Ástæðan er eitthvað sérkennilegt hópamyndunarblæti sem þátttakendur í stjórnmálaumræðu virðist haldnir. Einn fyrir alla og allir fyrir einn!

 


Flokkshundar

Ég hef tekið eftir því að þegar maður talar við einhvern sem er viðriðin stjórnmálaflokk á einhvern hátt, þá setur viðkomandi sig strax í varnargírinn og ver út í rauðan dauðann allt sem flokkurinn hefur nokkru sinni gert og byrjar að kenna öðrum um. VG kenna Samfylkingunni um það sem miður fer í landsstjórninni, Samfylkingingarfólk kennir VG um. Framsókn kennir Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum um, Sjálfstæðisflokkurinn reynir að klína sem mestu á bæði Framsókn og Samfylkinguna, en allir kenna þeir "gáleysislegri hegðun bankamannana" um. (útlendingar sem setja þetta í Google translator - þessir "flokkar" sem ég er að lýsa að ofan eru ekki deildir á leikskóla - þetta eru hópar fólks sem stjórna landinu). Það er reyndar svolítið merkilegt að gerast núna, því þeir sem halda með framsóknarflokknum hafna fortíð flokksins með öllu og fussa sumir og sveia yfir þeim hryllilegu voðaverkum sem forverar þeirra hafa framið - en áfram skal haldið, stefnan er svo meiriháttar góð að það er ekki hægt að leggja niður flokkinn og byrja á nýjum grunni.

Alla vega. Ég er kominn með stimpil. Nú er hægt að klína gerðum annarra á mína persónu. Ég hef misst sjálfstæði mitt. En því miður verð ég strax að tilkynna  að ég ætla ekki að verja einn einasta verknað Besta flokksins, hvorki fyrir né eftir kosningar. Ef þeir gera eitthvað sem mér finnst vera vitleysa, þá gagnrýni ég þá, rétt eins og ég gagnrýni hina flokkana. Ég ætla að mótmæla kröftuglega ef þeir ætla til dæmis að rífa gömul falleg hús í miðbænum og reisa hallir - eins og hinir flokkarnir hafa verið duglegir við að gera og enn duglegri við að sverja af sér.  Ég ætla að mótmæla ef þeir ætla í alvöru að loka ísbjörn í búr í húsdýragarðinum. Og ég verð brjálaður ef þeir skipa ófaglega í nefndir og ráð og fara að einkavinavæða kerfið - eins og hinir flokkarnir hafa gert hingað til og finnst djöfullegt að geta ekki haldið áfram að gera. Ég ætla með öðrum orðum ekki að halda með þeim eins og fótboltaliði - eins og ég hef reyndar lofað hátíðlega sem partur af gríninu.

Það versta sem gæti gerst

Árangur Besta flokksins er hins vegar óumdeilanlega stórfenglegur það sem af er. Forsprakkar hinna flokkanna reyna ekki einu sinni að neita því. Þeir (auðvitað sérstaklega Jón Gnarr) hafa sameinað Reykvíkinga (og örugglega landsmenn alla) að baki sér gegn óheilbrigðri stjórnmálahefð. Bara það að þeir hafi í trúverðugri skoðanakönnun mælst með meirihluta í borginni viku fyrir kosningar er blátt áfram kraftaverk. 

En hvað gæti gerst ef þeir ná meirihluta? Hvað gerist ef þeir ná ekki meirihluta? Jú, ef þeir ná meirihluta fáum við að sjá hvort þeir leyfa hinum borgarfulltrúunum að vera memm. Við fáum að sjá hvort þeir standi faglegar að málum og ópólitískar. Ég hef miklar vonir um að það verði betra en nú er. En ef þeir ná ekki meirihluta gerist líka svolítið kraftaverk. Það þýðir einfaldlega að þeir verða annað hvort í borgarstjórnarmeirihluta með öðrum flokki (sem er fróðlegt og vafalaust gott fyrir fjölbreytileikann sem á að vera í lýðræðisþjóðfélagi), eða þeir verða einir í stjórnarandstöðu. Ef þeir verða einir í stjórnarandstöðu þurfa allir hinir flokkarnir að vinna saman. Það hefur ekki gerst áður, og ef það er þetta sem þarf til til, þá er það hið besta mál og ágætasta útkoma. 

Með öðrum orðum, það versta sem gæti gerst er frábært! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Úff !!!!

Guðmundur Júlíusson, 22.5.2010 kl. 23:22

2 Smámynd: Þór Saari

Fjórflokkurinn hefur á þessu ári sem nýt þing hefur starfað endanlega gengið af hinu s.k. fulltrúalýðræði dauðu. Það væri vel að "þið í Besta flokknum" köstuðuð rekunum á kistuna. Ég óska að vísu Félaga Badda í Reykjavíkurframboðinu enn betra gengis en "Besta" en fjórhöfða þursinn þarf að slá af.

Þór Saari, 23.5.2010 kl. 00:26

3 identicon

"Ég ætla að mótmæla kröftuglega ef þeir [Besti flokkurinn] ætla til dæmis að rífa gömul falleg hús í miðbænum og reisa hallir"

Þú ættir að kynna þér hvað helsti skipulagsfræðingur Besta flokksins segir:

http://www.bestiflokkurinn.is/frambjoeendur/pall-hjaltason

"Hinsvegar, þegar stefnan er orðin sú að halda í allt gamalt og auk þess að byggja ný hús með útliti þeirra gömlu erum við komin á vafasama braut".

Dæmi um arkitektúr Páls í miðbænum er að finna hér:

http://www.t18.is/gallery/gallery/4.jpg

http://www.plusark.is/Arkitektar/Islenska/Verkefni/Samkeppnir/

Páll er líklegur til að vera formaður skipulagsnefnd Rvk ef kosningar fara eins og nýjustu skoðannakannanir benda til. Það er þegar kominn hrollur í suma miðbæjarbúa.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 02:04

4 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Góður pistill Daði. Þar sem ég hef nú menntun á þessu sviði þá veit ég að það er alveg öruggt, héðan í frá, viku fyrir kosningar, að Besti flokkurinn mun fá gífurlegt fylgi. Ef hann toppaði í þessari viku þá fær hann amk. 1/3 allra atkvæða, ef fer sem horfir þá fær hann hreinan meirihluta. Það er tölfræðilega útilokað að Besti flokkurinn fari illa út úr þessum kosningum. Ég gæti best trúað að þeir sem ekki treysta sér til að kjósa Besta kjósi Reykjavíkurframboðið. Hálfvitarnir sem hafa verið að sýna allar sínar verstu (eða voru það kannski bestu?) hliðar í Reykjavík eiga að pakka saman og finna sér aðra vinnu. Kjósendur eru ekki með gullfiskaminni þegar á reynir.

Baldvin Björgvinsson, 23.5.2010 kl. 07:53

5 Smámynd: Daði Ingólfsson

Takk fyrir þessa athugasemd Geir - þetta er nákvæmlega það sem ég er að tala um. Ég mun ekki verja eitthvað ummæli sem einhver frambjóðandi segir einhvers staðar - sama þótt ég ætli að kjósa flokkinn. Mér dettur það ekki í hug í eitt einasta augnablik.

Mér er frjálst að vera á móti því - og ég set spurningamerki við að Páll ráði öllu í skipulagsmálum Reykjavíkur. Ég treysti hins vegar listamönnunum í hópi frambjóðenda til að gera ekki stórvægileg skipulagsmistök - eins og til dæmis húsið sem þú bendir á á bak við gamla Naustið.

Af hverju talar fólk eins og einn eða annar í einhverju framboði fái alræðisvald í einhverjum málaflokki? Hversu málefnalegt er það?

Daði Ingólfsson, 23.5.2010 kl. 10:14

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Allskonar fyrir aumingja og óvissuferðir fyrir aldraða. 

Hinir flokkarnir eiga ekki séns.  Einu sinni var gaman að búa á Íslandi.  Svo varð það afburða leiðinlegt.  Nú getur orðið gaman aftur. 

Anna Einarsdóttir, 23.5.2010 kl. 10:17

7 identicon

Nákvæmlega Daði.

Að sjálfsögðu mun Besti flokkurinn þurfa aðhald og föðurleg ráð frá, ja hverjum nema íbúunum sjálfum.

Það erum við Íbúarnir sem komum þeim inn, til að vinna fyrir okkur. Þess vegna ætlum við ekki að kjósa 4flokkinn sem hefur verið alt of miðstýrður af eiginhagsmunaklíkum innanfrá. Klíkum örfárra einstaklinga sem hafa matað krókinn.

 Íbúalýðræði og samráð við kjósendur alstaðar er komið til að vera.

Hjartanlega sammála Anna. Nú getur aftur orðið gaman, og framtíðin er bjartari í dag en í gær. 

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 11:46

8 identicon

Amma mín er 87. Hún ætlar að kjósa Besta flokkinn.

Þórir Jónsson Hraundal (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 01:09

9 identicon

Besti er bestur. Þetta er byltingin sem heldur áfram. Fyrir næstu alþingiskosningar kemur vonandi framboð eins og síðast og fleiri Hreyfingar-þingmenn og nýtt fólk sem stendur utan 4-flokksins. Það virðist vera það eina sem skiptir máli. Að fólk sé ekki úr fjórflokknum.

Rósa (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 12:03

10 identicon

Kári Ævarsson (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og þrettán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband