Flöskustútur og samtalsmeðferðir

ForystufólkFólkið sem ég sá í "Spjallið með Sölva" í kvöld er undarlegur samsöfnuður. Öll eiga þau það sameiginlegt að vilja stjórna einhverju. Það kom ekki alveg fram í þættinum hvers vegna þetta fólk vildi stjórna. Ég saknaði þess svolítið. Ég veit heldur ekki hvort þau séu dugleg að stjórna. Sennilega ekki - því það er allt í klessu, bæði í landinu, borginni og flokkunum (nema nýju framboðunum - ennþá að minnsta kosti). 

Þau voru hins vegar dugleg að benda á hvað hin væru vond í að stjórna. Og tækju í sífellu vitlausar ákvarðanir - í það minnsta flokkarnir þeirra. Það fyllti mig heldur ekki ró, né sannfærði mig um stjórnunarhæfileika fólksins. Lengst til vinstri í salnum var kona sem virtist vilja fólki vel almennt, en var ekki sleip í þrætubókarlist. Maður sem stóð við hlið hennar var sleipari, og virtist vilja fólki að minnsta kosti jafnvel. Sá þriðji var mjög ókurteis - ekki náungi sem maður vildi setjast við hliðina á í fermingarveislu. Svakalega óþægilegur maður - vá. Fjórði virtist hafa það á tilfinningunni að hann þyrfti að tala sig út úr öllum spurningum... eins og hann væri nýkominn frá því að halda framhjá. Svo var kona sem var rosalega sjænuð í talandanum. Ég mundi vilja hafa hana sem lögfræðing í skilnaðarmáli. En ef hún væri móðir mín væri ég alger taugahrúga. Svo kom dagfarsprúðasti kandídatinn. Hann reyndi að svara spurningunum sem að honum voru beindar án mikilla málalenginga. Þessi maður hefur bersýnilega tekið fermingarfræðsluna mjög alvarlega. Við hlið hans var mjó stúlka sem ég var hræddur við. Svo lengst til hægri var Altunga lifandi kominn. Ég var ekki hræddur við hann - hann var bara krúttlegur.

SjónvarpsmaðurÞetta fólk sat og svaraði spurningum um hvert af hinu fólkinu það vildi vinna saman með. Stemningin var svolítið svipuð og í leiknum flöskustút, þar sem maður þarf stundum að kyssa mjög ljóta stúlku. 

Það kom ekki beinlínis fram í þættinum, en íbúum í Reykjavík stendur til boða að velja hver af ofantöldum á að stjórna bænum næstu fjögur árin. Mér fannst ég ekkert sérstaklega nær um það eftir að hafa horft á þetta, en veit nú heilmikið meira en áður um hvernig þessir einstaklingar koma fram við annað fólk. Það var í flestum tilfellum ekki eftir stöðlum sem ég mundi ala barnið mitt upp eftir. Nema fermingardrengurinn og þessi tvö lengst til vinstri - nýja fólkið. Það virtist vera prýðisfólk. Hin voru öll frekar reið og pirruð yfir þessu öllu saman og ættu að fara í samtalsmeðferð. 

Svona þættir eru mjög skrýtnir. Þarna stóðu átta fullorðnar manneskjur við skrýtin lítil borð með skrýtin lítil vatnsglös og svöruðu skrýtnum litlum spurningum. Öll horfðu þau framávið (ekki í hring um hringborðin) og áttu í erfiðleikum með hvar þau áttu að vera með hendurnar. Þeim hefur áreiðanlega liðið mjög illa. Ætli einhver hafi þurft að pissa? Kannski var það þessvegna sem það voru svona mörg auglýsingahlé?

Æ ég er þreyttur á þessu öllu. Ég vildi óska að það væru einhverjar fréttir af því hvað fólkið er að meina. Það virðist ekki treysta hvert öðru. Það er leiðinlegt. En það er ekkert í fréttum nema um hraðamet slátturvéla. Ég var vongóður um að heyra um hvað frambjóðendunum finnist um leikskólamál í frétt um fund þeirra með leikskólakennurum. En fréttin var bara um að fundurinn hafi verið haldinn og að það sé nú verri sagan þetta með niðurskurðinn til leikskóla.

Ég átti einu sinni kött sem hét Branda. Hann var svart fress. Mér líður svolítið þannig núna. Samt er ég búinn að ákveða hvað ég á að kjósa! Aumingja hinir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og sjö?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband