Hinn einlægi áhugi stjórnmálamanna á stjórnmálum

Mestu pólitísku snillingar síðustu áratuga hafa notað dáleiðandi aðferðir til að tala sig í kringum hlutina - svara út í hött og einhverju allt öðru en spurt var um. Fjölmiðlamenn hafa margir haldið að þeir séu rosalega harðir og flottir þegar þeir spurja já / nei spurninga um flókin mál og eru svo fullir vandlætingar þegar viðmælendur þeirra láta ekki móðga vitsmuni sína eða annarra með slíku lýðskrumi. Áhorfendur sitja svo eftir með óbragð í heilanum og skipta yfir á Seinfield eða annað deyfandi.

Engin pólitík

Þeir bestu reyna að koma sér markvisst framhjá því að fjalla um óþægileg mál. Fyrsta regla pólitíkusa er að ræða ekkert óþægilegt nema að þeir komist ekki upp með annað, og þá jafnvel ekki. Niðurstaðan er einn stanslaus fagurgali um eitthvað sem skiptir engu máli. Fáir taka afstöðu til neins opinberlega. Ef málin gerast gruggug er stofnuð nefnd sem á að fara yfir málið (og væntanlega móta afstöðu pólitíkusana) og svo eru jól og svo kosningar. Engin afstaða, engin ábyrgð, engin stjórn, engar aðgerðir.

Takið til dæmis eftir því hversu iðnir alþingis- og sveitastjórnarmenn eru á bloggsíðum, á Facebook og í athugasemdakerfum netmiðlanna. Þeir tala um veðrið og yndislega æskuna í grunnskólum landsins, fótbolta, börnin, tónlist, bíómyndir osfrv. í færslum sínum á Facebook en eru fullkomlega fjarverandi annars staðar. Það er eins og þetta fólk hafi ekki snefil af áhuga á stjórnmálum!

Facebook

Ég er til dæmis með alla þingmenn sem nota Facebook sem vini auk margra annarra pólitíkusa. Þar varpa ég oft og iðulega fram skoðunum og legg upp í pólitíska samræðu. Það spinnast oft góðar umræður um það, en aldrei taka stjórnmálamennirnir þátt. Tugir sjálfstæðismanna, VG-fólks, framsóknar- og Samfylkingarfólks þegja þunnu hljóði um landsins gagn og nauðsynjar, en nota miðilinn til að koma á framfæri gleði sinni með einhvern lit á Esjunni á ákveðnum tíma eða auglýsa eftir fari fyrir frænku sína sem er á leið norður. (Ég undanskil þingmenn Hreyfingarinnar þegar ég tala um hefðbundna stjórnmálamenn, því það eru þau ekki).

Stjórnmálamenn bera það eflaust fyrir sig að þau noti Facebook miðilinn sem sitt einkarými til að halda sambandi við fjölskyldu og vini... en þegar nálgast kosningar kemur nú aldeilis annað hljóð í strokkinn - fyrir nú utan að flest þeirra eiga þúsundir "vina" á þessum vettvangi. Alger fjarvera þeirra frá nútímalegum samskiptamátum eins og athugasemdakerfum bloggsíðna og fjölmiðla rennur stoðum undir þetta. Eru þau of fín fyrir svona samskipti? Hafa þau vondan málstað að verja? Hafa þau kannski bara ekki áhuga á að taka þátt í stjórnmálaumræðum nema í sjónvarpssal? Vilja þau ekki gefa upp afstöðu sína í einstökum málum? Af hverju ekki? Af hverju eru þau ekki ofurnotendur síðna eins og betrireykjavik.is og skuggathing.is? Er þetta ekki fólkið sem á að leita sér fanga sem víðast? Er eitthvað ófínt að spjalla opinberlega við fólk á þessum vettvangi? Fyrir nú utan að þeir sem eyða tíma sínum í að senda þingmönnum sínum úr hefðbundnu stjórnmálaflokkunum tölvupóst geta verið 99.9% vissir um að fá aldrei svar.

Ég veit ekki hvert svarið er við þessu. Mér finnst bara undarlegt að í þessu einkennilega ástandi í þjóðfélaginu þegar allir vita allt í einu allt um verga landsframleiðslu, AGS, fjármálakerfi, auðlindir og dómsmál og pólitísk umræða blómstrar alls staðar sem hún brýst fram, þá þegja yfirmenn landsins og stjórnendur þunnu hljóði nema í fínum sjónvarps- og útvarpsviðtölum og birta einstaka sinnum greinar í blöðum.

Nýja Ísland er með stjórnmálamönnum sem þora að tjá sig um stjórnmál hvar og hvenær sem er. Maður bíður og vonar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og átta?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband