Hverju breytir ný stjórnarskrá? 1/3

Til eru þeir sem ekkert vilja frekar en að halda í okkar löngu úreltu stjórnarskrá og finnst bara aldeilis fínt plagg. Þeir hinir sömu vilja eyða peningunum í annað og tala digurbarkalega um að ný stjórnarskrá hefði engu breytt um hrunið. Þeir hafa nokkuð til síns máls. Ný stjórnarskrá - jafnvel besta stjórnarskrá sem hægt er að hugsa sér - gerir ekkert gagn, nema eftir henni sé farið. En hvað er það sem ekki er farið eftir í okkar núverandi stjórnarskrá, hvernig er hægt að gera nýja stjórnarskrá þannig úr garði að farið verði eftir henni og hverju gæti ný stjórnarskrá breytt? Þessum þremur spurningum ætla ég að leitast við að svara í jafnmörgum greinum á næstu dögum, en hér er sú fyrsta. Lesendum er bent á að skrifa athugasemdir um fleiri stjórnarskrárbrot, og mun ég leitast við að bæta þeim við plaggið eftir því sem tilefni er til. Stjórnarskránna má finna hér.

Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, brotin ákvæði

"2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið."Í praxis kemur forseti nánast ekkert nálægt hvorki löggjafarvaldi né framkvæmdavaldi. Hann hefur nánast einungis táknrænt hlutverk í skipan framkvæmdavaldsins (einungis forsætisráðherra - hann skiptir sér ekkert að hinum ráðherrableðlunum). Forsetinn kemur heldur eiginlega ekkert nálægt löggjafarvaldinu, með tveimur undantekningum í sögu lýðveldisins - þegar núverandi forseti neitaði að skrifa undir lög um fjölmiðla annars vegar og Icesave hins vegar. Þetta er býsna alvarlegt því í þessari grein er í raun eini staðurinn sem hefur með þrískiptingu valds að gera - og er býsna mikilvægt atriði í lýðræðisríkjum. Eins og staðan er núna sér löggjafarvaldið (eða svokallaður meirihluti (orð sem hvergi er í stjórnarskránni, ekki frekar en minnihluti eða stjórnarandstaða eða stjórn) um framkvæmdavaldið. Þetta er klárt stjórnarskrárbrot.

"15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim." Þetta þýðir að forsetinn getur skipað Soffíu frænku sína sem ráðherra, sýnist honum svo. Hann getur líka ákveðið að fækka ráðherrum eða fjölgað og ákveðið hvað þeir geri. Fyrir venjulegt fólk þýðir þetta að löggjafarvaldið eigi alls ekki að koma nálægt skipan ráðherra, heldur forsetinn. Þessu er þveröfugt farið og því skýrt brot á annari grein eins og talað er um hér á ofan. Í staðinn ákveður einhver óskilgreindur meirihluti löggjafarvaldins hver á að vera ráðherra yfir hverju, hversu margir ráðherrar eigi að vera og hvað þeir eiga að gera. Furðulegt. Svo fær forseti bara lista yfir ráðherra, kvittar á blaðið í ægilega fínni athöfn og svo er tekin litmynd. 

"16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði." Seinna ákvæði þessarar greinar er brotið eftir behag. Nægir að nefna ákvörðun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að styðja herför Bandaríkjanna gegn Írak.

"41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum." Þetta ákvæði er strangt til tekið ekki brotið, en það er sveigt hressilega framhjá því með "skúffupeningum" ráðherra. Það eru fjármunir sem hafa verið notaðir markvisst í sérhagsmuna- og kjördæmapot ráðherra.

"48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum." Þetta er sú grein sem mest er brotin. Þegar svokallaður meirihluti verður til verður til eitthvað sem heitir "stjórnarsáttmáli" sem er enn eitt fyrirbærið sem á sér hvergi stoð í stjórnarskrá eða öðrum lögum. Þessi sáttmáli er einhvers konar málamiðlun fyrir flokkana sem eru í meirihluta - og þar með útþynning á stefnuskrá flokksins fyrir kosningar ("stefnuskrá" er líka annað orð sem ekki á sér stað í stjórnarskrá eða lögum). Með öðrum orðum, þinmenn eru látnir gangast undir stefnuskrá flokks, sem er meira eða minna í takt við þeirra eigin sannfæringu, og svo er þeirri stefnuskrá blandað saman við eina eða tvær aðrar stefnuskrár - og þar með orðið frekar ógeðfelt jukk sem ekkert hefur með sannfæringu eins einasta þingmanns að gera. Svo eru sett lög um þetta og stjórnarþingmenn nánast þvingaðir til að kjósa í takt. Í málum sem ekki eru í stjórnarsáttmála flokka gildir heldur ekki samviska þingmanna í praxis, heldur útkoma úr pólitísku baktjaldamakki formanna og annarra framámanna stjórnmálaflokka. Þegar alþingismenn ekki fara eftir þessum óskrifuðu reglum fá þeir stimpilinn "óstjórnhæfir", sem er býsna athyglivert hugtak séð í samhengi þessa ákvæðis stjórnarskránnar. 

"67. gr. [Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess." Set þetta hér inn með vísan í mál Helgu Bjarkar sem var svipt frelsi nýlega fyrir engar sakir fyrir framan stjórnarráðið. Hún fékk ekki að vita ástæður þess að hún var svipt frelsi. Fleiri dæmi mætti auðveldlega týna til.

"75. gr. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa." Kvótalögin takmarka rétt þegnanna til að stunda fiskveiðar og hvað sem mönnum kann að finnast um iðnaðarlögin ("2. gr. Enginn má reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi lögum þessum samkvæmt."), þá er vandséð að þessi lög standist fyrrgreinda stjórnarskrárgrein. Þetta þýðir í raun að það er hægt að takmarka atvinnuþátttöku með lagasetningu og yfirskrifa þannig stjórnarskránna.

Hægt er svo að deila um aðrar greinar, og sjálfsagt væri hægt að sýna fram á með sannfærandi rökum að margar aðrar greinar stjórnarskrárinnar séu brotnar reglulega. Bið ég lesendur um að setja það fram og rökstyðja í athugasemdum.

Næsta grein verður um hvernig verður hægt að gera stjórnarskrá sem farið verður eftir, og þriðja greinin mun fjalla um hverju ný stjórnarskrá geti breytt fyrir okkur - og fengist verður við spurninguna hvort önnur stjórnarskrá, sem farið væri eftir, hefði bjargað okkur frá hruni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

snildar blogg :-) svo rétt svo satt :-) eins og talað úr mínum :-) stel og dreyfi :-) þessi stjórnarskrá er ekki bara slæm heldur er skautað svo framhjá henni að allir blæða !

m 48gr sem er MJÖG allvarlega brottinn á hverjum einasta degi er þing starfar, er allgert lykilatriði að komið verði á óbundnu persónukjöri þvert á alla lista og niðurfellingu 5% reglunnar, svo EINSTAKLINGAR en ekki flokkar séu kosnir.

GretarEir (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 11:05

2 identicon

Góð byrjun Daði, sem ætti að gera öllum ljóst að þetta er ekkert áhlaupaverk og þarf að vanda vel.

Því sannarlega er víða pottur brotinn þarna. Og sorglegt hvernig FLOKKSRÆÐIÐ hefur fengið að kengbeygja Stjórnarskránna að sínum þørfum, og þá oftast á kostnað lýðræðis þjóðarinnar.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 11:42

3 identicon

það er eitt sem er hryllingur, og tel að brot á stjórnarskrá sé ! en það að svifta fólk framfærslu ef segir upp atvinnu eða einfaldlega líkar ekki við það starf er boðið er !

"Fyrstu sjö mánuði þessa árs hafa rúmlega fjögur þúsund fengið synjun um atvinnuleysisbætur vegna þess að þeir hafa ekki náð bótarétti eða hafa ekki svarað bréfum Vinnumálastofnunar. Um átta hundruð hafa á árinu sagt upp vinnu eða orðið valdir að uppsögn og því misst bótaréttinn í fjörutíu eða sextíu daga, eftir fjölda brota. Rúmlega sex hundruð hafa á árinu verið sviptir bótum í tvo mánuði því þeir höfnuðu boði um starf eða mættu ekki á námskeið Vinnumálastofnunar."

og svör Gizzurar ÓTRÚLEGA fordæmandi !

"Spurður um mögulegar skýringar á því að atvinnulausir hafni boði um starf segir Gissur að fólk kunni að vera í svartri vinnu eða hafi ekki áhuga eða vilja til að standa undir þeirri skylduvirkni sem er í lögunum."

http://www.ruv.is/frett/sviptir-atvinnuleysisbotum

GretarEir (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 12:16

4 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

71. gr. :

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Það er alþekkt að lögregla, og ekki bara lögregla, leitar á fólki og í eigum þess án sérstakrar ástæðu. Nú á að breyta þessu ákvæði þannig að það megi hlera síma og önnur samskipti án þess að sérstök ástæða sé til...

Baldvin Björgvinsson, 21.8.2010 kl. 13:32

5 identicon

Finnst þú taka frekar lélegt dæmi og sleppir aðal hluta 75.gr.

"75. gr. [Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Kvótakerfið var einmitt til að vernda almannahagsmuni en síðari breytingar á því kerfi hafa skemmt það og nú orðið nauðsynlegt að breyta því.

En ef þú villt taka gott dæmu um brot á 75.gr. þá er það þegar áhugaljósmyndarar eru dæmdir fyrir að taka ljósmyndir og auglýsa sína þjónustu. Þá ertu kominn með dæmi um að dómstólar virða ekki einu sinni stjórnarskránna. Það er til einn dómur þar sem stúlka í keflavík minnir mig er dæmd en þar er ekkert minnst á hvaða almanna hagsmunir eru í húfi. Enda er það í öllum löndum sem ég hef kannað leyfilegt fyrir hvern sem er að taka myndir og selja. Hvort sem þeir auglýsa eða ekki og hvort sem þeir starfrækja stúdíó eða ekki.

Sigurður Jónas Eggertsson (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 15:44

6 Smámynd: Daði Ingólfsson

Takk Sigurður. Ég er ekki nógu kunnugur þessu dæmi sem þú tekur. Gætir þú útskýrt eilítið betur og ég skal glaður bæta því við í færsluna.

Bestu þakkir fyrir ábendinguna.

Daði.

Daði Ingólfsson, 21.8.2010 kl. 16:18

7 identicon

Hér er umfjöllun um dóminn
http://www.ljosmyndarafelag.is/frettir%20/2010/01/27/hugaljosmyndari-daemdur-i-keflavik

Sem sagt samkvæmt honum er bannað auglýsa að þú getir tekið ljósmyndir fyrir fólk og þegið fyrir það greiðslu. Þetta tel ég ver gróft brot á stjórnarskránni. Enginn haldbær rök hef ég fundið sem styðja að almanna hagsmunir séu í húfi.

Það gæti hafa verið góð rök áður fyrr að ljósmyndarar fóru með hættuleg efni við framköllun í myrkrakompum en þá á alls ekki við um stafræna ljósmyndun. Hvergi í heiminum er ljósmyndun með svona takmörkunum og ef þær hafa verið þá hefur þeim verið breytt t.d. eins og í Þýskalandi. Íslenska einokunin á að taka gjald fyrir ljósmyndaþjónustu virðist vera einsdæmi.

Bannið virðist einskorðað við rekstur á stúdíó því ljósmyndara félagið gerði samning einhver tímann að þeir leyfðu blaðaljósmyndurum að starfa óáreyttir. Hvar gaf Ljósmyndarafélaginu þetta vald?

Sigurður Jónas Eggertsson (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 22:18

8 Smámynd: Heimir Tómasson

GretarEir.

Ég er sammála þér á vissan hátt. En ég er ekki til í að borga undir Jón þegar að Siggi fiskverkandi er með lausa vinnu en borgar 50 kr. minna á tímann en ríkið. Hverjum er þá um að kenna, ríkinu, Sigga eða Jóni?

Ríkinu - atvinnuleysisbætur eiga að vera bætur, ekki koma í staðinn fyrir fulla vinnu. Jóni, því að það á að vera hverjum manni skylda (ég tala bara frá eigin sannfæringu hér) að leita sér að vinnu. Mér finnst það vera neyðarúrraæði að þiggja aðstoð frá samborgurum, þú átt að fá þér vinnu og frekar hjálpa þeim. Sigga - vinnuveitendur eiga að hvetja fólk til að vinna, ekki letja. Það hjálpar báðum.

Þetta eru bara mín 2 cent, eins og sagt er, mér er slétt skítsama þó einhverjir séu ekki sammála mér. En ég er til í að hlusta á rök.

Heimir Tómasson, 22.8.2010 kl. 10:54

9 Smámynd: Daði Ingólfsson

Takk Sigurður. Ég bætti við greinina.

Daði Ingólfsson, 22.8.2010 kl. 10:55

10 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mjög áhugaverð og gagnleg samantekt - takk

Birgitta Jónsdóttir, 22.8.2010 kl. 11:05

11 Smámynd: Heimir Tómasson

Og nota bene - greinin er snilld. Ég leyfði mér að vísa á hana á snoppuskinnu.

Heimir Tómasson, 22.8.2010 kl. 11:15

12 identicon

Frábært Daði, kærar þakkir fyrir þessa mjög svo upplýsandi samantekt. Tek mér það bessaleyfi að dreifa henni áfram.

Hlakka til framhaldsins.

Þórir Baldursson (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 16:20

13 identicon

Já, góð dæmi.

Eflaust er rétt að ný stjórnarskrá ein og sér fer ekki langt, en ég held að hún sé nauðsynlegur grunnpunktur.

Valgarður Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 20:08

14 identicon

Þetta kallar maður glæsilega byrjun!

Cilla (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 03:09

15 identicon

Góð við bót Daði.

Sigurður Jónas Eggertsson (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og níu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband