Hverju breytir ný stjórnarskrá? 2/3

Það er ljóst að ekki er farið eftir núverandi stjórnarskrá í veigamiklum atriðum eins og farið er í hér. Meðal annars eru þau ákvæði sem þó eru um þrískiptingu valds þverbrotin og stjórnarsáttmálinn og stigskipting valds innan flokkakerfisins er samvisku þingmanna æðri. Það er því von að spurt sé hvaða máli það skipti hvort það verði búin til ný stjórnarskrá eða ekki - hún gagnast lítið ef ekki er farið eftir henni. Hvernig væri þá hægt að gera nýja stjórnarskrá sem farið væri eftir?

Ekki okkar stjórnarskrá

Fyrsta, og augljósasta svarið er að þetta er alls ekki okkar stjórnarskrá til að byrja með, og því ættum við þá að fara eftir henni? Núverandi stjórnarskrá var gjöf til okkar frá Kristjáni IX árið 1874 og hét þá „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Það er sama stjórnarskrá og við höfum núna, með óverulegum breytingum. Þær breytingar sem eru þó, snúast um kjördæmaskiptingu, forsetafyrirbærið og mannréttindaákvæði - allt litlar breytingar sé litið til heildarmyndarinnar. 

Stjórnarskráin okkar er dönsk tilraun til að halda friðinn við Íslendinga, en þó án þess að missa yfir þeim völdin. Það er ekki nema furða að Íslendingar séu tregir við að halda tryggð við svoleiðis samsetning. Til að Íslendingar fari eftir stjórnarskrá er fyrsta skilyrðið að það sé íslensk stjórnarskrá.

Endurspegla skal vilja og hagsmuni almennings

Vandamálið með  núverandi kerfi, og ástæða þess að einungis 10-13% landsmanna treysta alþingi, er að reglurnar hafa ekki verið búnar til fyrir almenning. Þær hafa verið gerðar af valdhöfum fyrir valdhafa. Og er þá sama um hvor verið er að ræða, stjórnarskrá eða lög. Í sinni öfgakenndustu mynd hafa valdhafar tekið eignir af almenningi, svo sem banka, fjarskiptafyrirtæki, orkuver og bifreiðaskoðun og afhent það vinum sínum og flokksfélögum til afnota gegn vægu gjaldi, gjarnan lánum. Þeir festa í lög ríflegar eftirlaunareglur fyrir sig sjálfa, neita öllum lýðræðisumbótum og brjóta mannréttindi. Svo hrynur spilaborgin og þá neita þeir að axla ábyrgð, svara út í hött og bjóða sig aftur fram til að sinna almannahagsmunum. 

Stjórnarskráin þarf því að vera samin af fólki sem er algerlega ótengt valdhöfum. Þá er sama hvort við er átt stjórnmálamenn eða talsmenn auðstéttanna. Það er við búið að hagsmunavélarnar fari í gang og þeir sem vanir eru að fara með völdin komi sínum kandídötum á framfæri og nota öll tæki til að rægja þær persónur sem ekki samrýmast þeirra skoðunum og hagsmunum. Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar munu koma sínu fólki á framfæri, LÍÚ mun koma sínum manni að, fjármagnseigendur sínum osfrv. Því er afar mikilvægt að sem flestir mæti á kjörstað til að kjósa til stjórnlagaþings og kjósi þá fulltrúa sem þjóna hagsmunum almennings, en ekki þröngra hagsmuna. 

Ef valdhafar ná sínu fram og annað hvort komi nógu mörgum að á stjórnlagaþingi, eða alþingi breyti stjórnarskránni sem kemur frá stjórnlagaþingi á nokkurn hátt, fer að lokum fyrir nýju stjórnarskránni eins og þeirri gömlu. Það fer enginn eftir henni.

Raunverulegt aðhald

Það hefur sýnt sig að á Íslandi búa ábyrgðarlausustu stjórnmálamenn í hinum vestræna heimi. Þeir bera ekki ábyrgð á nokkrum hlut, hvorki siðferðislega né lagalega. Þetta þarf að fyrirbyggja með nýrri stjórnmálastétt (það er reyndar ekki efni þessarar greinar að fjalla um það vandamál), nýrrar siðferðisvitundar þjóðarinnar allrar og regluverks þar sem stjórnmálastéttin er þvinguð til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Til þess að svo megi vera þarf að tryggja sjálfstæði dómsvalda og fjölga dómstigum. Það þarf að stofna til sérstakas stjórnlagadómstóls sem borgarar geti leitað til telji þeir stjórnarskrárbundin réttindi sín hafi verið brotin. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að kosningalögum og meðferð alþingis á valdi sínu. Eins og stjórnarskráin er núna er það alþingi sem sker úr um eigið hæfi, í versta falli landsdómur, sem aldrei hefur verið kallaður saman í sögu landsins... því það er alþingi sem ber ábyrgð á að kalla hann saman. Umboðsmaður alþingis hefur síðan vald til að skamma alþingismenn.

Allir geti tekið þátt í að semja nýja stjórnarskrá

Aðgengi að upplýsingum og auðveldar samskipta- og boðleiðir fyrir þá sem hafa eitthvað til málana að leggja við gerð eða endurskoðun nýrrar stjórnarskrár með sérstaka áherslu á að landsbyggðarfólk geti jafnauðveldlega haft áhrif og borgarbúar er svo nauðsynlegt til að tryggja jafnræði, sameiginlegan skilning og eykur líkurnar á því að niðurstaðan verði sem best. Eins og er virðist reglan vera að upplýsingar séu lokaðar nema að það sé sérstaklega ákveðið að opna þær og birta. Þessu þarf að snúa við. Upplýsingar eiga að vera algerlega opnar nema það sé sérstaklega rökstutt með vísan til almannahagsmuna að þær séu lokaðar. Það ætti þó að vera alger undantekning að opinberir aðilar haldi upplýsingum frá borgurum sínum. Það er erfitt að leggja nægilega áherslu á þetta atriði - upplýsingar eru upphaf og endir allra valda.

Til að mark verði tekið á nýrri stjórnarskrá verða allar upplýsingar og forsendur að liggja fyrir bæði fyrir og eftir í aðgengilegu formi. Allir, ekki bara lýðræðislega kosnir fulltrúar almennings, eiga að geta haft áhrif á ferlið og geta auðveldlega komið á fram athugasemdum og hugmyndum. Ef þetta verður lokað ferli fyrir takmarkaðan hóp, verður stjórnarskráin líka bara tekin alvarlega af takmörkuðum hóp. 

Auðlæsileg stjórnarskrá

Niðurstaðan verður að vera þannig úr garði gerð að venjulegt, ólöglært, óstjórnmálaskólað fólk geti lesið hana og skilið. Það ætti að vera auðvelt að leggja greinar hennar á minnið og innihald hennar á að vera sem minnst túlkanlegt - þannig að andi hennar skíni heiður og klár í gegn. Ekkert lögfræðijargon, ekkert stofnanamál, engin formlegheit - bara venjuleg íslenska. Íslendingar fara ekki eftir stjórnarskrá sem þeir geta ekki lesið og skilið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og ellefu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband