5.9.2010 | 00:20
Lægstvirtir stjórnlagaþingmenn
Jæja. Nú er komið að stóru stundinni. Það á að kjósa á stjórnlagaþing það fólk sem er besti samnefnari fyrir þjóðina til að búa til nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrst á að finna þverskurð af þjóðinni (eitt þúsund enni), sem eiga að sleppa af sér beislinu og skila undirstöðum nýrrar stjórnarskrár til stjórnlagaþingsins góða, sem kosið verður seint í nóvember. Það er gott. Knappur tími, en gott.
18. október næstkomandi rennur út frestur til að bjóða fram til þingsins - það er, að safna 30-50 undirskriftum meðmælenda og skila til landskjörstjórnar ásamt yfirlýsingu um framboð. Hljómar ákaflega einfalt, næstum því of gott til að vera satt: Ef þú vilt bjóða þig fram þarftu bara að safna örfáum undirskriftum og voila - þú ert kandídat til að breyta grunnlögum Íslendinga.
En bíðum nú aðeins við - athugum málið örlítið betur. Hverjir eru það sem geta raunverulega boðið sig fram? Það er, þegar betur er að gáð, ýmislegt sem ekki stenst æpandi ofbirtu hins raunverulega heims þegar maður opnar Pandóruboxið. Skoðum fyrst hverjir komast, og útilokum svo smá saman þá sem ekki af einhverjum ástæðum geta látið slag standa - við hljótum þá að enda með þá sem raunverulega bjóða sig fram.
Hinir útvöldu
Fyrst skal það tekið skýrt fram fyrir húmorslausa að stærðfræðin hér fyrir neðan er vond. MJÖG vond.
Allavega.
Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing mega allir sem eru kjörgengir til Alþingis bjóða sig fram, ef frá eru taldir "Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd". Jæja, allir nema 137 stk.
- Það gera 227.896 - 137 = 227.759 manns (miðað við kjörgengi í síðustu alþingiskosningum)
Eitt er fjarskalega óheppilegt við þetta allt saman, en tími þingsins er frekar óræður. Samkvæmt lögunum á þingið að starfa í tvo mánuði, en getur fengið tvo mánuði í viðbót, sá það þægt. Flestum ber reyndar saman um að tveir mánuðir er býsna stuttur tími til að berja saman stjórnarskrá og því er nokkuð öruggt að gera ráð fyrir fjórum mánuðum. Það breytir því hins vegar ekki að venjulegur launamaður á afar erfitt að fara til yfirmanns síns og biðja um frí í tvo til fjóra mánuði sisona. Segjum að helmingur launamanna hrjósi hugur við þessu því þeir a) óttast um starf sitt eða b) vilja ekki stökkva burt frá ábyrgð af skyldurækni. (Þar missum við þá launamenn sem eru sérstaklega skylduræknir)
- það gera þá 227.759 - 167.800 / 2 = 143.859 manns (miðað við vinnuafl á landinu árið 2009)
Nú eru þeir sem persónulegra haga sinna vegna geta ekki tekið þátt. Það á auðvitað sérstaklega við úti á landi þar sem stjórnlagaþinginu mun ætlaður staður á höfuðborgarsvæðinu eftir því sem fregnir herma. Þetta getur verið út af börnum, kúm eða kindum eða einhverju allt öðru, en það er nokkuð ljóst að ábyrgðarfullt fólk rýkur ekki bara af stað í tvo til fjóra mánuði eftir því sem vindar blása og skilur eftir sig sviðna jörð. Ég geri ráð fyrir að það sé um fjórðungur kjörgengra sem svona er ástatt fyrir, en hefur aðstöðu að öðru leyti. (Þar missum við ábyrgðarfulla fólkið).
- Það gerir 143.859 - 227.759 / 4 = 86.919 manns
Svo eru það greyin sem ekki hafa nennu né geð til að fara í skítabransann pólitík. Hvorki verður sagt um kosningabaráttu né opinbert skítkastleyfi á kjörna fulltrúa hvers konar sé sjarmerandi upphafspunktur fyrir að vilja vinna þjóðþrifaverk. Það eru ekki margir sem hreinlega hafa geð í þennan ljóta bransa, og ég ætla að vera djarfur og segja að innan við 5% Íslendinga sem láta hafa sig út í þá vitleysu. Þeir ábyrgðarfullu og skylduræknu hér að ofan eru örugglega nánast allir í hinum 95 prósentunum, þannig að ég sker ekki jafnmikið niður í fjöldanum og ég hefði viljað... en duglega þó.
- Það gerir 86.919 - 80% = 17.384 manns
Þá er komið að stóra niðurskurðinum. Neðst í 8. grein lagananna segir að "Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu má að hámarki nema 2 millj. kr." Þetta þýðir að sá sem ekki á tvær milljónir til að eyða í framboð - og sá sem ekki á sterka fjárhagslega bakjarla (svokallaða hagsmunaaðila, sbr. FL group og Landsbankann þegar ballið var að ná þannig hæðum að ALLIR fóru heim með sætustu stelpunni) á mun minni möguleika, og þar með ólíklegra að viðkomandi bjóði sig fram. Rýnum aðeins í tölurnar. Stjórnlagaþingmenn verða á þingfararkaupi: kr. 520.000. Það er ca. kr. 375.000 eftir skatta. Þetta þýðir að til að vinna upp tapið - 2.000.000 kr. Þarf frambjóðandinn (nái hann kjöri yfirleitt) að vinna í meira en 5 mánuði til að standa á sléttu. En sennilega nokkur ár til að ná upp í mannsæmandi laun að meðaltali... sem er ekki í boði. Hver vill leggja 2.000.000 af eigin peningum að veði að ná kjöri? Ekki margir, og spurning hvort svoleiðis áhættufíklar séu þær týpur sem eigi erindi á þingið. Þá eru eftir þeir sem ætla að auglýsa sig ókeypis og treysta á hlutlausa úttekt fjölmiðlanna (sem er býsna hugrökk hugmynd) og þeir sem hafa hagsmunaaðila á bak við sig.
Ég geri ráð fyrir svakalegum niðurskurði hér, því fáir eiga 2.000.000 til að eyða í veðmál sem er öruggt að þeir tapi á, fáir (en flottir) eiga aðgang að "bakjörlum sem hafa trú á þeim og fyrir hvað þeir standa" og fáir gera sér þá grillu um að komast að með ókeypis auglýsingum.
- Það gera 17.384 - 90% = 1.738 manns (gert er ráð fyrir að þeir ábyrgðarfullu, skylduræknu og þeir með pólitískt antípat séu undanskildir frá byrjun)
Þá er eftir að útiloka þá sem alls engan áhuga á að fara í þessa vinnu. Það er mjög stór meirihluti þjóðarinnar miðað við áhugann sem þessum málaflokki er sýndur. Undirritaður hefur verið með í nánast öllum umræðum, þingum og opinberum skoðanaskiptum um þetta mál, og þar er býsna fáliðaður bekkurinn að öllu jöfnu. Myndast hafa nokkrir hópar stjórnarskrárnörda hér og þar sem hópa sig saman í mismunandi veðrum og gapa hver ofan í annan, en tala þessa fólks fer ekki yfir 100 - og fáir þeirra ætla að bjóða sig fram af ofantöldum ástæðum. Með því er ég ekki að segja að það séu einungis 100 manns sem hafa áhuga á málinu, heldur einungis að verkefnið er óvinsælt með endemum af einhverjum ástæðum. Kráareigandi væri dapur með minni aðsókn að barnum sínum en 100 manns, ef hann hefði stórskjá og það væri merkilegur knattspyrnuleikur í beinni.
Það gera 1.738 - 95% = 87 manns
Verði ykkur að góðu.
Þverskurður af þjóðinni
Það verða sem sagt þeir ábyrgðarlausu, lítt skylduræknu, pólitískt beiða, með stórt og blakandi nef fyrir styrkjum og af einhverjum ástæðum svakalegan áhuga á stjórnarskránni sem munu bjóða sig fram. Jú og þeir sem geta verið á launum á meðan, svo sem háskólafólk á rannsóknarstyrkjum, embættismenn sem hafa verið ráðnir pólitískt og auðmenn sem leiðist. Svo skal ekki gleyma þeim sem munu koma inn á flokkspólitískum forsendum og treysta á umbun í formi embætta og bitlinga í framtíðinni - og vilja þar af leiðandi ekki breyta neinu í stjórnarskránni. Fróðleg útkoma úr þeirri samkomu.
Já og svo verður einn og einn ódrepandi hugsjónamaður.
Þið munið þekkja þá - þeir verða með leiðindi og tala um þrískiptingu valds og þjóðaratkvæðagreiðslur. Ekkert sjónvarpsefni.
Ég fyllist andakt og brjóstið blæst út þegar ég segi: Þetta er stærsta tækifæri sem Íslendingar munu nokkurn tíman sjá til að laga kerfið að sínum hagsmunum í stað hagsmuna kerfisins og kerfiskallanna.
Svo fer bara úr mér allur vindur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:13 | Facebook
Um bloggið
Daði Ingólfsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er skemmtileg úttekt hjá þér Daði og hefði þess vegna getað byrjað á því síðast nefnda tveggja milljóna heimildinni til að auglýsa sig.
Þessi splunkunýju lög frá alþingi sem beinlínis gera ráð fyrir að frambjóðandi eyði allt að tveim milljónum í að kynna sig til að ná kosningu á stjórnlagaþing sýnir hugarfar þeirra sem útbjuggu þessi lög. Þetta er reyndar í samræmi við lög sem eru á leiðinni í gegnum þingið núna sem festa í sessi nafnleysi og styrki til stjórnmálaflokka. Þar inni hefur ekkert breyst, enda er þar að stórum hluta sama fólkið og var þar fyrir hrun. (Fyrir utan Hreyfinguna). Nýjir þingmenn gera bara eins og foringinn segir þeim að gera og breytir þá litlu hvort nýtt andlit er á duglausum og hugsunarlausum jáliðum.
Hver setur tvær milljónir í framboð til stjórnlagaþings? Hjá mér kemur ekkert annað upp í hugann en mútugreiddur leigu-lobbíisti sértækra hagsmunaaðila, til dæmis frá LÍÚ. Vill þjóðin svoleiðis fólk í þann hóp sem á að búa til nýja stjórnarskrá fyrir alla íslendinga?
Baldvin Björgvinsson, 5.9.2010 kl. 07:22
Já Baldvin. Mér líst afar illa á nýju lögin um fjárdrætti flokka. Mér finnst til dæmis mjög skrýtið að allir flokkar þurfi að vera sammála um þessi lög - en það var afsökun Róberts Marshall, að það þurfti að finna "lægsta samnefnara" og vinna út frá því. Svoleiðis er það ekki með önnur mál af einhverjum ástæðum... Þetta er eftirlaunafrumvarpið all over again.
Daði Ingólfsson, 5.9.2010 kl. 09:28
Ég er sammála, stærðfræðin er mjög vond. Stærsta vandamálið er mengjafræðin og þær forsendur sem þú gefur þér. Vona að þetta sé aðallega grín grein en alvara.
Svavar Kjarrval Lúthersson (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 10:44
Grín útilokar ekki alvöru Svavar.
Daði Ingólfsson, 5.9.2010 kl. 11:09
Þó stærðfræðin sé "vond" og gangi út frá forsendum sem eru gefnar út í loftið, þá er innihaldið engu að síður nærri lagi, möguleikar margra eru takmarkaðir og þess vegna minni líkur á einhvers konar þverskurði.
Ég ætla að láta reyna á þetta án þess að kosta til krónu, ja, eða amk. takmarka við fáeina þúsund kalla í versta falli.
Það verður erfitt að láta þetta samræmast vinnu, en það tekst.
Valgarður Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 13:25
Já og svo verður einn og einn ódrepandi hugsjónamaður. Þið munið þekkja þá - þeir verða með leiðindi og tala um þrískiptingu valds og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Ekki fjórskiptingu eða aðra skiptingu? Ertu hræddur um að þeir sem vilji ná inn einhverjum alvöru breytingum verði alltof fáir til að bjóða sig fram?
Fyrir nokkru síðan var ég að skrifa um þessar tvær millur á mínu bloggi. Eigum við ekki að bíða og sjá frumvarpið um fjármál stjórnarflokka fara í gegn, því eftir það munu allir þeir sem bjóða sig fram eiga rétt á endurgreiðslu frá ríkinu (eða á það að vera allir þeir sem bjóða sig fram og komast inn?). Samanber úr lögunum: Ákvæði laga um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra gilda um framlög eða styrki til frambjóðenda eftir því sem við á.
Eða hvernig er hægt að túlka þetta öðruvísi?
Guðni Karl Harðarson, 6.9.2010 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning