Flamingóar - yfirlitsgrein

Flamingóar, stundum kallaðir flæmingjar, eru bleikir fuglar sem standa á einni löpp og búa í öllum löndum heims nema Danmörku og Súdan. Gríðarlegur innflutningur er á fuglunum hingað til lands, en margir eru einnig innfæddir  og fluttir aftur út og eru kallaðir einu nafni Iceflamincos.
Fólk skiptist í andstæðar fylkingar í skoðunum á flamingóum, og allir virðast hafa talsvert til málana að leggja. Sumir dásama fegurð þeirra, öðrum þykja þeir glæsilegir, jafnvel tignarlegir, en ónytsamlegir, og svo eru það þeir sem finnast þeir einfaldlega asnalegir. Enginn málsmetandi maður hefur þó haldið fram að þeir séu beinlínis skaðlegir, enda gera þeir fátt annað en að vera bleikir og standa saman í hóp á einum fæti út í grunnu vatni.

Klassískur flamingóaismi

Bleiki litur fuglanna hefur reynst vísindamönnum torleyst ráðgáta, en flestir telja þó að roðinn stafi af vandræðagangi þeirra yfir þessu með löppina. Því beindist orka rannsóknahópa fyrst að því að finna ástæður fyrir áráttunni að standa í hóp á einni löpp ofan í grunnu vatni – sem er af mörgum talið óvenjulegt samfélagslegt athæfi.
Lítill árangur hefur fengist með viðtals-aðferðinni, því flamingóar geta ekki talað, greyin, og varð því eftirlits-aðferðin fljótlega ofan á. Með því að horfa mjög lengi á fuglana standa á einni löpp, eins og fyrr getur – ofan í grunnu vatni, töldu sérfræðingar sig geta fullyrt eftirfarandi:
1. þeir vilja ekki bleyta báða fæturna í einu
2. þeir eru ekki nógu stórir til að standa í djúpu vatni, og mundu umsvifalaust drukkna ef þeir reyndu
3. ef krókódíll borðar fót A væri fótur B strax til reiðu til að halda þeim fyrir ofan vatnið
Útskýringum var tekið fagnandi, en efasemdarmenn bentu á að öll gátan væri ekki leyst: Hvað mundi til dæmis gerast ef krókódíll borðaði fót B líka (vissulega mikið til fræðileg spurning), og hvers vegna standa fuglarnir úti í vatni, en ekki á þurru landi, þar sem eru mun færri krókódílar.
Allir vita þó að svona spurningum er ómögulegt að svara, enda hafa þær ekki raskað ró neins áhrifamanns að teljandi marki.

Forsögulegi flamingóinn

Hópur grúskara leitaði á sjöunda áratug síðustu aldar milljarða ára aftur í tímann til að finna skýringu á þeirri áráttu fuglanna að standa í vatni - og hefur vinna þeirra leitt margt forvitnilegt í ljós, reyndar að mestu óskylt upphaflegu spurningunni. Þeir komust meðal annars að því að flamingóinn varð til langt fyrir sköpun jarðar, sumir segja fyrir stóra-hvell, í svokölluðum miðlungs-hvelli þar sem einnig varð til sérkennileg tegund af karlmönnum með hatta sem jafnan eru kallaðir lífs-kúnstnerar. Einnig varð uppi fótur og fit þegar í ljós kom að gríðarstórt nef flamingóa (sem fáir höfðu talið markvert fram að því) var af sama erfðastofni og minnihlutaeigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi. Ekki hefur þó enn tekist að nýta þær upplýsingar í nokkurn skapaðan hlut, frekar en aðrar upplýsingar varðandi þessa dularfullu fuglstegund.

Nýjustu kenningar

Nú hefur það komið á daginn í flúnkunýrri rannsókn, að flamingóar eru þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera þriðja óákveðnasta dýrategund jarðar. Helstu fræðimenn eru alveg bit, enda lenda þessir þeir þar með í flokki með óæðri lífsformum eins og amöbum, þangi og chihuahua hundum. Fuglarnir, sem alþjóðasamfélagið hefur hingað til álitið yfirvegaða tegund með hlutina undir þolanlegri stjórn, virðast hafa lifað af sem dýrategund þrátt fyrir, eða kannski einmitt vegna  þeirra eiginleika að hver fugl aðhefst nákvæmlega það sama og næsti fugl honum við hlið. Þannig hafa líkur verið leiddar að því að einn fugl hafi í árdaga verið rekinn út í grunnt vatn af rándýrum, sterkum vindi eða mjög vondri lykt. Síðan hafi krókódíll étið á honum annan fótinn – og voila - erfðamengi hinna fuglanna krafðist þess að þeir gerðu nákvæmlega það sama. Síðan hafa ármilljónir liðið, ekkert hefur rekið þá á land aftur. Enda hafa menn rifjað upp í kjölfarið, að engin dæmi eru af frumlegri hugsun, frumkvæði eða nýsköpun af hendi flamingóa, sama hversu langt aftur í söguna er leitað.
Aðferðirnar sem notaðar voru afar nýstárlegar, enda fylgir skemmtileg saga af einni tilraunanna þar sem reynt var að varpa hugsanaferli flamingóa á tölvuskjá. Ekki tókst betur til en svo að tölvan þverneitaði að birta annað en beina útsendingu frá bæjarstjórnarfundi í smábænum Sylhet í Bangladess (um 1,3 milljónir íbúa), þar sem rifist var heiftarlega um eitthvað varðandi gosbrunn.

Að lokum

Flamingóar eru dásamleg dýr, sem ættu að vera til á hverju heimili. Þeir fara vel við postulín og geta verið dýrindis standlampi ef á þarf að halda. Þeir eru auðtamdir og neyslugrannir en veita fjölskyldunni gleði og ánægju á víðsálverðum tímum í þjóðfélaginu. Því er ekki auðvelt að fyllast þakklæti og andakt yfir sköpunarverkinu þegar maður lítur í heimskuleg augu þeirra og hugsar til þess að hérna sé þó alla vega einhver kominn sem ekki er hægt að kenna um nokkurn skapaðan hlut.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband