Ég er hamstur

Ég hleyp og hleyp í rauða fína hlaupahjólinu mínu með vísindamenn horfandi góðlátlegum vorkunaraugum á mig. Þeir pota í mig, minnka matarskammtinn minn, minnka búrið mitt og mála það svart. Þeir föttuðu fyrir löngu að nota orkuna úr hlaupahjólinu til að knýja safapressuna sína, og til að hlaða rafmagnstannburstann - en svo tengdu þau fleiri og fleiri græjur við þetta og nú kný ég meira og minna allt fyrir þá og vini þeirra. En þau passa sig á því þegar ég heyri til að tala um að nú sé þetta allt að koma, bráðlega þurfi ég ekki að hlaupa meira.

Um daginn var fjögurra ára hátíðin. Þá gerist það að vísindamennirnir spyrja mig hvort ég vilji vera áfram hjá þeim eða hinu teyminu, sem er vont fólk og mundi sprauta í mig eitri. Þetta er alltaf besti tíminn fyrir mig því vísindamennirnir koma alltaf í fínu fötunum í vinnuna, svara öllum spurningum mínum og gantast við mig. Mér finnst þetta alltaf svolítil skrýtið því í rauninni hef ég ekkert val - þau hafa nefnilega komið hlutunum þannig fyrir að hin teymin komast ekki einu sinni til mín til að tala við mig, þannig að ég veit ekki hvort það sé vont fólk eða gott. En þó mig þó hálfpartinn grunar að hin teymin séu góð og sprauti ekki í mig eitri (að minnsta kosti ekki jafn miklu og mitt teymi) get ég ekki tekið áhættuna. Hvað ef hinir væru lostafengnir hamstraperrar eða sadistar eða með rosalega lélegan tónlistarsmekk! Hvað gerði ég þá? Ég sæti uppi með þá í fjögur ár í það minnsta!

Þá er nú betra að bara hlaupa áfram í hlaupahjólinu mínu.

Um daginn sögðu vísindamennirnir mér að ótrúlega vondir menn hefðu rænt öllu hamstrafóðrinu. Og ekki nóg með það - þeir tóku líka allt sagið og öll fínu leiktækin sem þau voru búin að lofa að gefa mér fljótlega (væru bara að athuga hvort þau samrýmdust ekki Evrópustöðlum - svo fengi ég þau). Ég sá að þau hálfskömmuðust sín fyrir þetta.

Ég skildi það ekki alveg fyrst af hverju þau voru svona vandræðaleg með þetta allt saman - en komst smám saman að allri sólarsögunni með því að hlusta vel þegar þau héldu að ég væri ekki að hlusta, og með því að lesa pappírana sem þau notuðu í staðinn fyrir sag, núna þegar þau höfðu ekki efni á svoleiðis munaði lengur. Málið var að tvennt hafði gerst.

Það fyrra var að nokkrir vísindamennirnir voru ferlega óöruggir með sjálfa sig og fóru að reyna að eignast vini utan tilraunastofunnar. Það gekk vel í fyrstu, en fljótlega fóru vinirnir að koma með kröfur. Þeir komust sem sagt að því að vísindamennirnir lágu á ógnarbirgðum af þessu líka prýðishamstrafæði og báðu um að fá að smakka... og það var auðvitað auðsótt mál. Vinirnir komust svo upp á bragðið og gerðust æ áleitnari. Vísindamannanördarnir voru auðvitað ekkert vanir svona löguðu og gáfu þeim flissandi barasta það sem þeir vildu, því þetta voru stórir og flottir vinir sem var ægilega gaman að fara í tívolí með. Svo kláraðist hamstramaturinn og þá var veislan búin... og ég ferlega svangur. Vísindamennirnir sögðu mér þá að ég hafi bara verið orðinn fullgráðugur sjálfur og hefði gott af því að líta í eigin barm... svo veitti mér ekkert að megrun eftir allt þetta taumlausa át!

Hitt var að nokkrir vísindamenn höfðu sjálfir farið út að skemmta sér og tóku með leikföngin sem þeir höfðu lofað að gefa mér. Þeir sögðust ætla að prófa þau til að vera alveg viss um að þau væru mér ekki skaðleg (þau eru svo hugulsöm - er nema von að ég vilji bara þau?). Síðan, þegar þau ætluðu að koma til baka með allt dótið, uppgötvuðu þau að þau höfðu lagt það frá sér út um allan bæ, og fundu ekki aftur! Þau gátu í fyrstu ekki komið sér saman um hver hafði lagt hvað hvar, eða hvers vegna þau höfðu gleymt þeim út um allt (höfðu fengið sér smá rauðvín með matnum). En að lokum komust þau að þeirri bjargföstu niðurstöðu að þessu hafi öllu saman verið stolið. Það gæti engan vegin verið þeirra mál þótt fólk tæki bara hluti upp af götunni sem það ætti ekki! Alla vega gat það alls ekki fundið neitt af þessu aftur.

Sagið síðan týndist meira og minna allt þegar allt fór upp í háa loft vegna hamstrafóðursins og dótsins. Best að gera ekki veður út af því.

Nú eiga vísindamennirnir mínir hins vegar bágt. Nokkrum vísindamönnum hefur reyndar verið skipt út - og þeir redduðu smá mat fyrir mig. Hins vegar eru þeir svo fastheldnir á hann að ég er farinn að telja rifbeinin. Áður stóð matarkrúsin bara við hliðina á búrinu mínu, og smá slurkur var settur í skammtarann þegar hann var að tæmast, en núna er matarkrúsin orðin að kistli með hengilás læstur inn í peningaskáp sem er geymdur inni í dimmasta herbergi dýfstu dýflissu kastala prinsessunar mögru. Og ég er svangur og langar einna helst að éta bréfsnifsin sem dugar nú sem sag í búrinu mínu. En ég get það ekki, þau eru ekki matur...

Ég held bara áfram að hlaupa og reyna að finna leið... kannski ef ég hleyp hraðar?

Hvorki vísindamennirnir né ég áttum okkur á því af hverju ég hætti ekki bara að hlaupa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband