Ég, flokkurinn, kjósendur flokksins

Hei - tók enginn eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn rændi bankamálavöldum frá Samfylkingunni? Ekki að mér sé ekki skítsama, Samfylkingin hefði ekkert staðið sig betur, en valdarán er það og valdarán skal það heita. Eru engin viðurlög við svoleiðis háttsemi hérlendis? Svar: Nei.

Annað, áður en við komum að Ingibjargar þætti Sólrúnar, sem kom upp í huga mér í dag og er sérstaklega viðeigandi þessa dagana er það ógeðslega fyrirkomulag í lögum (og dómum) að það að ræna fáeinum milljónatugum hefur meiri afleiðingar í dómskerfinu en nauðgun. Þetta er undirrót ansi stórrar hugsanavillu, og er sprottið af þeirri umdeilanlegu hugmynd að einhver geti átt eitthvað, og ef einhver annar reynir að taka það "ófrjálsri hendi" er það eitt mikilvægasta mál samfélagsins að refsa viðkomandi. Jafnvel þó fjármunir séu auðveldlega endurheimtanlegir, en afleiðingar nauðgunar ekki. Þetta segir líka ansi mikið um það hver samdi lögin og hverra hagsmuna þeir voru að gæta. Það voru sem sagt ekki ungar konur sem sömdu lögin, heldur gamlir (og ég leyfi mér að bæta við) frekar óviðurkvæmilegir og gersamlega siðlausir karlar. Enda hefur það komið á daginn að áhugi þeirra var ekki á réttlæti, heldur sérhagsmunagæslu. Þessi hugsun hefur sem sagt komið þjóðinni í gjaldþrot og rúið hana alþjóðlegu trausti, en það er allt í fína og engum að kenna.

Nú þurfum við því að spyrja okkur hver á að semja lögin í framtíðinni, og ekki síður, hver á að dæma. Ég held að það kerfi sem nú er við lýði hafi alla vega afsannað tilverurétt sinn rækilega. Það vill svo til að ég er nýkominn af 50 manna fundi þar sem reynt var að komast að því hvað væru góð efnistök fyrir nýja stjórnarskrá Íslands. Flestir þar voru bara ósköp venjulegt fólk með áhyggjur af því hvert við værum að stefna - og vildu gera eitthvað uppbyggilegt fyrir sína parta. Og viti menn -það komu ekki bara frábærar niðurstöður, heldur var líka fáránlega gaman. Ég get því ekki annað en dregið þá niðurstöðu að fólkið getur fullvel komið að lagagerð og stjórnarskrárgerð og hvaða gerð sem því lystir... þetta er bara texti á blaði sem segir hvernig fólk eigi að haga sér hvert við annað þannig að öllum líði sem best! Ekkert sem hver einasta móðir í Vesturbænum og Kópaskeri þarf ekki að kljást við á hverjum einasta degi. Af hverju þarf þetta að vera svona flókið og á svona ægilega tyrfnu embættismannamáli? Hagsmunir hverra eru þar að baki? Lögfræðinga? Dómara? Stjórnvalda? Já, já, já.

Og svo kom dagurinn þegar Ingibjög Sólrún biðst afsökunar. Eða gerði hún það? Nei. Þetta var allt saman afskaplega hjartnæmt, og ég vona að ég sé ekki of harðbrjósta þegar ég segi að hún hafi algerlega og endanlega komið upp um sig og þann óhugnað sem við lifðum í og lifum enn í. Hún segist hafa brugðist sér sjálfri, flokknum og kjósendum sínum. Í þessari upptalningu kjarnast vandinn; ég, flokkurinn, kjósendur flokksins. Forgangsröðunin er kristaltær: Ég, flokkurinn, kjósendur flokksins. Takið eftir því að þjóðin sem hún var kosin til að stjórna er ekki nefnd - og í því liggur hundurinn grafinn. Stjórnmálamönnum er einfaldlega skítsama um þjóðina og hennar hagsmuni. ÉG, flokkurinn og kjósendur flokksins. En hvað hún gerði rangt - það er ekki nefnt heldur. Ekki nema það að hún fór í stjórnarsamstarf með vitlausum flokki. Svo segir hún "Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf sem var þess ekki umkomið að taka á fjármálakerfi, sem við vissum að var stofnað til með pólitískri spillingu og helmingaskiptum." Ókei. Hún semsagt vissi um spillingu og ákvað að koma ekki upp um það. Eru ekki lög við svoleiðis hegðun? Er það ekki kallað að vera samsekur eða sekur um yfirhylmingu? Af hverju er þetta ekki rannsakað sem sérstakt sakamál? HVAÐA SPILLINGU INGIBJÖRG SÓLRÚN? Tárin gera engum gagn en hún gæti gert þjóðinni ómetanlegt gagn með því að fletta ofan af þessari spillingu sem hún talar svo fjálglega um. En gerir hún það? Nei. Mun einhver yfirheyra hana út af þessum spillingarmálum? Nei. Kemst einhvern tíman upp um þessa spillingu? Nei. Heldur hún áfram? Já - af því að Ingibjörg Sólrún og hennar líkar hafa ákveðið að "hverfa léttstíg af fundinum á vit hins kalda en fallega vors".

Og þá er ekkert eftir nema afsagnirnar. Eða voru einhverjar afsagnir? Nei. Það er eins og fólki sé fyrirmunað að detta það í hug að það eigi að taka ábyrgð á eigin gerðum! Þessar afsagnir (sem eru ágætar út af fyrir sig, en eru bara ekki afsagnir) eru nefnilega allar þvingaðar. Þetta er eins og að harðneita því að hafa keyrt á bíl fullan af börnum þangað til lögreglan kemur og sýnir þér það á myndbandi. Þegar þú hins vegar sérð myndbandið ferðu að efast um að það sé tekið frá réttum vinkli, hvort þetta sé nú ekki bara maðurinn þinn sem er í ökusætinu, hvort bíllinn þinn hafi ekki bara verið ekinn af þjófum sem þig gruni að hafi stolið honum og hvaða ankannalegu hvatir liggi eiginlega að baki hjá lögregluþjóninum að hafa tekið þetta upp á myndband yfirleitt. Svo athugarðu í hvaða flokki vesalings lögregluþjónninn er, og ef hann er óvart í þínum eigin flokki sendir þú út harmræna tilkynningu að í ljósi nýliðinna atburða sem þú hafir lent í þurfir þú því miður að skreppa í sjö mánaða frí til Kanarí.

Guð minn góður hvað við erum í slæmum málum!

Hjálp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill hjá þér Daði og ég hefði svo viljað vera með ykkur í dag :( Þið eruð frábær og standið ykkur svo vel.

Sigurlaug (IP-tala skráð) 18.4.2010 kl. 01:57

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær hugleiðing hjá þér.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.4.2010 kl. 02:02

3 identicon

Flottur pistill. Svoooo sannur.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 19.4.2010 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 468

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband