... en hvað get ÉG gert?

Þegar maður spyr venjulegt fólk í dag hvernig því lítist á ástandið í þjóðfélaginu eru viðbrögðin venjulega á einn hátt - það snýr lófunum upp, horfir á mann opnum spurnaraugum og segir... "ég veit ekki hvað ég á að segja, þetta er allt í rugli" eða eitthvað álíka.

Þá spyr ég venjulega í mínu eigin vonleysi: "hvað ert þú að gera í þessu"? Og það stendur ekki á svari: "...hvað get ÉG svosem gert?".

Það er nefnilega það. Hvað get ÉG gert?

Ég heyrði einu sinni sögu af því hvernig farið er að því að temja fíla. Það er gert þannig að þegar þeir eru agnarlitlir er bundið við þá risavaxin keðja. Keðjan er svo bundin við stærðarinnar tré eða aðra óbifandi jarðfestingu. Litli fíllinn togar og togar (og togar og togar) þar til hann að lokum játar sig sigraðan og gefst upp. Upp frá því togar hann ekki meir í bönd sem eru fest í fótinn á honum og því óhætt að binda hann með litlum snærisspotta við hríslu - hann fer ekki neitt.

Það má færa fyrir því rök að við Íslendingar erum eins og fíllinn. En öfugt við fílinn, þá höfum við ekki verið líkamlega tjóðruð - heldur andlega. Við erum bæld og kunnum ekki að tjá okkur. Okkur er ekki kennt það, og menntakerfið leggur höfuðáherslu á að við séum þæg og góð við yfirvaldið. Þessu er nauðsynlegt að breyta.

En við getum ekki beðið eftir því að yfirvaldið kenni börnunum okkar að gagnrýna yfirvaldið (því það mun ekki gerast). Við þurfum að kenna þeim þetta sjálf, og ekki nóg með það - við þurfum að breyta yfirvaldinu, því þegar börnin okkar eru orðin nógu gömul til að stuðla að breytingum verðum við annað hvort dauð eða lífeyrislaus hokrandi upp á náð og miskun þeirra sem við kusum síðast yfir okkur.

Ég vil því stinga upp á nokkrum aðferðum sem fólk getur beitt til að leggja sitt af mörkum svo þessi bitra mynd verði ekki að veruleika:

1. Segðu það sem þér finnst - hvar sem er, hvenær sem er. Þegar þú heldur að meiningar þínar gætu komið þér illa, þá eru allar líkur á að það sé einmitt nauðsynlegt að segja þær upphátt!

2. Vertu óhrædd/ur. Ef þú pælir í því - eru ekki allar líkur á því að hlutirnir batni ef þú lætur vaða? Hvað er svona hræðilegt sem gæti gerst?

3. Vertu pólitísk/ur. Skrifaðu á Facebook eða blogg stuttar færslur um hvernig þér finnst farið með fjármuni þína og það vald sem þú hefur framselt í hendur annarra. Þú getur líka skrifað langar blaðagreinar eða bækur um þetta, en sennilega best að byrja á smáum skrefum.

4. Farðu á fundi eða stofnaðu til funda. Leitaðu uppi vettvang fyrir þig til að hlusta eða tala. Það er allt fullt af þessu - á morgun (þriðjudag) er fundur í Hugmyndahúsinu á Granda um nýja stjórnarskrá fyrir alla. Á laugardaginn er mótmælafundur á Austurvelli. Á sunnudaginn er kaffihúsafundur á Gallerí Horninu. Það er pottþétt hundrað aðrir fundir í gangi (auglýsi eftir fundum úti á landi - ég þekki ekki til) - leitaðu þá uppi og TAKTU ÞÁTT!

5. Sendu þingmönnum eða sveitastjórnarfólki tölvupóst, sendibréf, sms með því sem þú vilt koma á framfæri. Þeir eru í vinnu fyrir þig - og þeir sem eru starfi sínu vaxnir VILJA RAUNVERULEGA heyra frá þér - hinir geta bara étið það sem úti frýs hvort sem er. Þú finnur allar upplýsingar um þá á Alþingi.is eða á heimasíðum sveitafélaga. Ef þú ert hikandi með þetta - sjá punkt 2.

6. Talaðu / rökræddu æsingarlaust við fólk í kringum þig um hluti sem skipta raunverulegu máli. Sumum finnst það asnalegt - en það er bara vegna þess að þeir halda að öllum hinum finnist það asnalegt. Brjóttu ísinn.

7. Aldrei, aldrei, aldrei, aldrei tala bara til þess að tala. Leyfum stjórnmálamönnum að eiga þá aðferð alveg sjálfa.

8. Hlustaðu vel á það sem allir hinir segja. Þetta er erfiðasta og sennilega mikilvægasta atriðið.

Vinsamlegast bætið við aðferðum. Þetta gengur ekki eins og það er - þú verður að breyta þessu, það er enginn annar sem gerir það fyrir þig. Við verðum að brjóta af okkur þessa ómerkilegu og agnarsmáu hlekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Takk fyri góðan pistill  

Ásgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 01:12

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.5.2010 kl. 01:32

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég verð að segja þetta, þú varst frábær í Silfri Egils á sunnudaginn.  Þú ert ferskur andblær í íslenskri pólitík.....  Ég sendi þessa færslu þína á fésbókina mína...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.5.2010 kl. 01:44

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sammála, en því miður mun erfiðara í framkvæmd en margur heldur.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.5.2010 kl. 02:02

5 Smámynd: Daði Ingólfsson

Takk Jóna.

Kjartan - hvað er svona erfitt við þetta? Ég skil að maður hagar sér öðru vísi í mismunandi félagskap, og ekki alltaf hægt að hella úr skálum reiði sinnar, en hvað með að mæta á fundi, vera pólitískur í orði og á borði, senda tölvupósta osfrv? Það væri gaman ef þú útskýrðir hvað þú ert að pæla!

Daði Ingólfsson, 4.5.2010 kl. 08:08

6 identicon

Fínn pistill Daði..og þarfur.

Fólk þarf að fara að gera sér grein fyrir kraftinum sem býr í því að láta vandlætingu sína í ljós. Það verður aldrei vinsælt að synda á móti straumnum en nauðsynlegt í þessu tilfelli ef við viljum sjá breytingar.

Vertu með!!!

Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 09:38

7 identicon

Góðir punktar hjá þér Daði, en Það sem er kanski erfiðast er að hlusta og þá sérstaklega að heyra það sem verið er að segja.

Lilja Skaft (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 09:42

8 Smámynd: Daði Ingólfsson

Fullkomlega sammála þér Lilja! Það vantar á listann - ég bæti því strax við.

Daði Ingólfsson, 4.5.2010 kl. 09:47

9 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

ÉG get verið eftirlitið sem áður brást

Aðalheiður Ámundadóttir, 4.5.2010 kl. 10:09

10 identicon

Góður pistill Daði.

Þú nálgast einmitt vandamálið í kjarna þess, og þetta hef ég einnig verið að upplifa. Og það er með þetta eins og með sjónvarpið í gamla daga. Maður verður að berja það ögn í hausin til að stilla myndina og vona ég að það slag sé nú þegar komið í þjóðfélagið og að nú snúist þetta um að upplýsa og alla upp á nýtt þjóðina, svipað eins og að stilla takkana á sjónvarpinu. kv Birgir 

Birgir Grimsson (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 10:37

11 identicon

Heyrru, mig langar stundum að senda svona tölvupóst á fólk sem er í vinnu fyrir mig en ég hef bara ekki hugmynd um hvar ég á að leita uppi svona netföng, any ideas? Ég sendi einu sinni póst á umboðsmann alþingis og fékk ekkert svar :(

Sigga (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 11:29

12 Smámynd: Morten Lange

Sigga:  Það er því miður reynsla margra.  En ég hef sent mikið af sekytum og fæ oft svar, þó als ekki altaf.

Daði : Spurning hvort að ekki stórt hlass af þolinmæði  eða kannski frekar af þrautsegju  vanti sem eiginleika sem komi sér vel.   Þrautsegjuna má efla með því að vinna saman með öðrum að málunum. Og gleðjast yfir litlu sigrarnir ! 

Morten Lange, 4.5.2010 kl. 18:48

13 Smámynd: Daði Ingólfsson

Sæl Sigga

Já, þeir svara seint og illa blessaðir.

Smelltu á nafn þingmanns á þessari slóð - og þá sérðu netfang og símanúmer hans auk annarra upplýsinga: http://www.althingi.is/dba-bin/thmn.pl?lthing=.&tegund=%DE&nuvam=1

Borgarfulltrúana finnur þú á þessari slóð - netföngin þeirra eru þar: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-2784/4398_view-603/

Prófaðu og sjáðu hver svarar... venjulega svara fáir, en þá er bara að finna þá sem svara, hinir, eins og ég segi í pistlinum, geta bara étið það sem úti frýs.

Daði Ingólfsson, 4.5.2010 kl. 19:58

14 Smámynd: Daði Ingólfsson

Morten - ég er búinn með mína þolinmæði, ég væri alveg til í að fá svolítið af þinni að láni :-)

Daði Ingólfsson, 4.5.2010 kl. 20:14

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þennan pistil! Mig langar þó til leggja nokkuð til umræðunnar varðandi þetta: „menntakerfið leggur höfuðáherslu á að við séum þæg og góð við yfirvaldið“. Það má e.t.v. til sanns vegar færa að námskráin geri ekki ráð fyrir að nemendum sé í reynd kennt það að vera „virkir þegnar í lýðræðissamfélagi“ eins og kemur þó fram í námskráni að sé eitt höfuðmarkmið menntunar.

Ég er framhaldsskólakennari og stend frammi fyrir þeirri dapurlegu staðreynd að í nemendahópnum sem ég kenni þykir það ekki flott að hafa skoðun. Það er sennilega við fleiri að sakast en skólana. Hins vegar finnst mér ástæða til að leggja miklu meiri áherslu á rökfærsluritsmíðar og tjáningu en tjáningin var tekin út úr námsskránni árið 2000. 

Tjáningin var aldrei vinsælt fag á meðan hún var í námsskránni en hún var gagnlegt fag. Rökfærsluritgerðir eru það líka en auk þess vildi ég að í námsskránni væri gert ráð fyrir að nemendum væri kennd myndlæsi. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.5.2010 kl. 20:31

16 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Sæll og takk fyrir þennan pistil Daði.

Sammála er ég þér í flestum atriðum og hef tamið mér flest.

Þú kemur þessu afar vel frá þér.

Það er mjög rótgróið viðhorf í ungmenni þessa lands að það sé ekki hægt að breita neinu og það sé ekki hægt að hafa áhrif á neitt.

Svona pistlar hjálpa til að mínu mati.

Vilhjálmur Árnason, 5.5.2010 kl. 01:13

17 identicon

Nákvæmlega! Þannig verður þátttökulýðræði til. Það er ekki hægt að stofna þátttökusamfélag, það þróast aðeins út frá sjálfsprottinni samvinnu og frjálsri tjáningu. Við getum tekið einhver skref innan stjórnkerfisins, t.d. komið á stjórnlagaþingi en það verður aldrei til alvöru lýðræði nema almenningur tjái sig og taki ábyrgð á þróun samfélagsins.

Varðandi það sem Rakel segir þá er ekki við því að búast að námsgrein verði vinsæl á meðan kennararnir hafa takmarkaðan skilning á henni. Kennararnir hafa heldur ekki vanist gagnrýninni hugsun og ég býst við að margir þeirra líti á tjáningarkennslu sem undirbúning fyrir leiklistarnám eða ræðumennsku. Það tekur kannski 2-3 kynslóðir að gera tjáningu að jafn sjálfsögðu fagi og lestri og reikningi og brýnt mál að taka slíka kennslu upp aftur.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 05:42

18 identicon

Tek undir með þér, Daði; ég undrast hvað borgarar landsins eru lítið fyrir að taka þátt í að breyta samfélaginu og bæta það miðað við hvað maður heyrir víða af óánægju.

Gisli Tryggvason (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 20:07

19 identicon

Sammála þér í ýmsu Daði, einkum fyrsta atriðinu sem þú nefnir.

Jakob Frímann (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 518

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband