Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Varðhundar

Hrunið á sér margar ljótar hliðar. Ein þeirra eru auðvitað siðleysingjarnir sem ollu því og eru að reyna að koma sér undan ábyrgð núna - stjórnmálamenn og viðskiptavitleysingjar. Annað er fátækt fólk að betla sér til nauðþurfta. Þriðja hliðin eru venjulegar fjölskyldur skyndilega lokaðar og læstar í skuldafangelsi í boði félagsmálaráðherra. Fjórða eru viðbjóðarnir sem skríða undan steinum núna til að græða á öllu saman, gjaldeyrisbraskarar og aðrir tækifærissinnar. Ég vil hins vegar tileinka þennan pistil þeim verstu af þeim öllum, þeim sem ekkert víla fyrir sér í þeirri viðleytni að verja glæpamennina sem rændu þjóðina ærunni og öllum fjármunum: Varðhundunum.

Í kvöld bárust fregnir af því að gæsluvarðhaldsdómur tveggja höfuðpaura stærsta bankarás veraldar hafi verið staðfestur af hæstarétti á Íslandi. Strax þegar þessir menn eru komnir bak við lás og slá byrjar viðbjóðurinn og sérhagsmunagæslan á fullu, ódulin í þetta skiptið. Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður listar upp ægilega fín lagaákvæði og túlkar þau Hreiðari Má í vil. Röksemdin er um hvort það sé ekki of seint að hneppa þá í gæsluvarðhald þegar þeir hafi tímans vegna geta étið öll gögnin með gullkryddi stráð yfir, hann hafi gefið sig fram sjálfviljugur (og meira að segja flogið til yfirheyrslu í lítillæti sínu) og hann hafi haft nægan tíma til að hafa áhrif á vitni. Hann gleymir því (auðvitað) að Hreiðar Már getur auðveldlega ennþá haft áhrif á vitni, þótt langur tími sé liðinn. Hannes Hólmsteinn fyllist heilögu réttlæti yfir orðum sem Steingrímur J. sagði aldrei um gæsluvarðhaldið. Í leiðara Morgunblaðsins má svo finna þessi smekklegu ummæli um almenning í þessu samhengi: "það verður auðvitað að gæta þess að ganga ekki í neinu á lögmætan rétt þess sem sætir rannsókn eða ákæru hverju sinni. Þegar ró færist yfir verður það einnig skoðun alls almennings."

Ókei - fyrirsjáanlegt. Innmúraðir, valdspilltir, siðlausir og hrokafullir menn eru það sem þeir eru og lítið um það að segja. Má ég segja hrokafullir aftur? Takk. Hrokafullir. Það er hins vegar verulega ógeðfellt þegar hæstaréttadómari sem fékk embætti sitt í gegnum þessa sömu klíku (og þar að auki maður sem af einhverjum sérstökum ástæðum finnur hjá sér hvatir til að véfengja nánast hvern einasta nauðgunardóm sem fallið hefur), skilar séráliti í staðfestingu hæstaréttar um gæsluvarðhald yfir þessum mönnum. Hei, ég styð gagnrýnina hugsun og allt það og er sannfærður um að skortur á henni í bland við hugleysi sé rót þess vanda sem við enn glímum við, en þetta er fáránlegt. Það er algerlega útilokað að þessi maður, Jón Steinar Gunnlaugsson, hefði skilað inn sératkvæði í nákvæmlega eins máli gegn jahh, til dæmis fólki frá Saving Iceland. Jafnvel þó hundrað ár hefðu verið liðin frá atburðinum.

Þetta er það sem við fáum með því að dómarar eru skipaðir með pólitískum hætti. Þetta er það sem við fáum með því að pólitíkusar selja eignir okkar til vina sinna. Þetta er það sem við fáum þegar við kjósum yfir okkur siðlausa valdasjúklinga styrkta af siðspilltum peningasjúklingum.

Djöfull er þetta allt saman ógeðslegt.

HJÁLP!


Súrrealísk stjórnmál fyrir byrjendur

Rosaleg tíðindi bárust frá fyrrverandi forsætisráðherra Íslands - Halldóri Ásgrímssyni: Stjórnvöld stóðu sig fantavel og gerðu allt rétt! Geir Haarde fannst etv. stjórnvöld hafa farið heldur geyst, en Davíð Oddsson virðist halda að allir nema hann séu fullkomnir hálfvitar. Ingibjörg Sólrún finnst hún hafa brugðist flokknum (skítt með restina af þjóðinni), Þorgerður Katrín er í endurmenntun (hlýtur það ekki að vera?), Guðlaugi Þór finnst ekkert eðlilegra en að semja lög og brjóta þau í sömu andrá (það er kostnaðurinn við lýðræðið) og Steinunn Valdís er saklaust fórnarlamb regluverksins.

Á meðan brotnar heiðarlegt fólk saman þegar það segir frá hvernig fyrir því er komið.

Viðtalið við Halldór Ásgrímsson var þörf áminning. Svona voru svörin þegar eitthvað óþægilegt kom upp í viðtalinu: "Það er nú ósköp leiðinlegt að vera í þessu stagli" og "allt þetta verður að skoðast í samhengi en það er mjög erfitt að skoða einn hlut fyrir sig" og "Þetta er bara út í hött" - og til að kóróna allt (eins og það sé einhver afsökun eða komi málinu yfir höfuð eitthvað við): "kristin trú og kristin gildi hafa alltaf verið mér mikilvægt veganesti". Svo er manninum hulin ráðgáta hvers vegna menn tengi sölu bankana við flokkadrætti... það hafi allir vitað að Finnur Ingólfsson hafi verið Framsóknarmaður (og þar af leiðandi er allt í himnalagi). Ég auglýsi eftir fólkinu sem kaus þennan mann til að sitja á Alþingi til að hlúa að hagsmunum almennings - það þarf að biðjast afsökunar líka.

En blaðrið heldur áfram og kerfið breytist ekkert. Gamla flokkspólitíkin ríður húsum - eitthvað skrýtið fyrirbæri sem stjórn og stjórnarandstaða virðist gagngert hamla því að fólk geti talað sig saman um að gera gagn. Fólk kallar sig "flokkshunda" og virðist vera stolt af þeim titli! Það er talað um fólk í öðrum stjórnmálaflokkum sem andstæðinga - hvers vegna er mér fullkomlega hulið, eru ekki allir að stefna að sama markmiði? Eru ekki allir saman í liði? Svo kemur allt í einu upp hugtakið "þjóðstjórn" í sveitarstjórnarmálum... rétt fyrir kosningar - ekkert grunsamlegt. Þjóðstjórn í augum flokkana er hins vegar ekki annað en að flokkarnir vinni saman. Frábær hugmynd - en hvers vegna ættu þeir EKKI að vinna saman? Og hvers vegna kemur þetta upp rétt fyrir kosningar.

Blablablablabla.


Hlutdræg fegurð

Það er eitthvað óumræðilega fallegt við að hugsa sér mann í jakkafötum sitjandi á trébekk, innilokaður á bak við rimla - horfandi í gaupnir sér. Á veggjunum eru teikningar eftir aðra glæpamenn (mikið til portrett af kynfærum) og skilaboð á borð við "löggufíbbl" og "rassgat".

Hann er reiður. Honum finnst á sér brotið. Nú á að gera mann að blóraböggli. Hugsar engin til þess að maður á börn? Djöfulsins amatörar. Lúserar. Bara svekktir í að hafa ekki fengið að vera með... andskotinn.

Heima situr konan. Einhvers staðar aftan í gráum afkimum hugarfylgsnanna leynist hugsunin ... gerði hann þetta? En restin af heilanum leitar að öðrum sökudólgum - eigendur bankans, stjórnarmenn, stjórnvöld, helvítis almenningur sem tók bara lán og lán og lán og vill nú hengja einhvern.

Börnin halda með pabba.

Mikið er þetta allt hrikalega hrikalega sorglegt.


... en hvað get ÉG gert?

Þegar maður spyr venjulegt fólk í dag hvernig því lítist á ástandið í þjóðfélaginu eru viðbrögðin venjulega á einn hátt - það snýr lófunum upp, horfir á mann opnum spurnaraugum og segir... "ég veit ekki hvað ég á að segja, þetta er allt í rugli" eða eitthvað álíka.

Þá spyr ég venjulega í mínu eigin vonleysi: "hvað ert þú að gera í þessu"? Og það stendur ekki á svari: "...hvað get ÉG svosem gert?".

Það er nefnilega það. Hvað get ÉG gert?

Ég heyrði einu sinni sögu af því hvernig farið er að því að temja fíla. Það er gert þannig að þegar þeir eru agnarlitlir er bundið við þá risavaxin keðja. Keðjan er svo bundin við stærðarinnar tré eða aðra óbifandi jarðfestingu. Litli fíllinn togar og togar (og togar og togar) þar til hann að lokum játar sig sigraðan og gefst upp. Upp frá því togar hann ekki meir í bönd sem eru fest í fótinn á honum og því óhætt að binda hann með litlum snærisspotta við hríslu - hann fer ekki neitt.

Það má færa fyrir því rök að við Íslendingar erum eins og fíllinn. En öfugt við fílinn, þá höfum við ekki verið líkamlega tjóðruð - heldur andlega. Við erum bæld og kunnum ekki að tjá okkur. Okkur er ekki kennt það, og menntakerfið leggur höfuðáherslu á að við séum þæg og góð við yfirvaldið. Þessu er nauðsynlegt að breyta.

En við getum ekki beðið eftir því að yfirvaldið kenni börnunum okkar að gagnrýna yfirvaldið (því það mun ekki gerast). Við þurfum að kenna þeim þetta sjálf, og ekki nóg með það - við þurfum að breyta yfirvaldinu, því þegar börnin okkar eru orðin nógu gömul til að stuðla að breytingum verðum við annað hvort dauð eða lífeyrislaus hokrandi upp á náð og miskun þeirra sem við kusum síðast yfir okkur.

Ég vil því stinga upp á nokkrum aðferðum sem fólk getur beitt til að leggja sitt af mörkum svo þessi bitra mynd verði ekki að veruleika:

1. Segðu það sem þér finnst - hvar sem er, hvenær sem er. Þegar þú heldur að meiningar þínar gætu komið þér illa, þá eru allar líkur á að það sé einmitt nauðsynlegt að segja þær upphátt!

2. Vertu óhrædd/ur. Ef þú pælir í því - eru ekki allar líkur á því að hlutirnir batni ef þú lætur vaða? Hvað er svona hræðilegt sem gæti gerst?

3. Vertu pólitísk/ur. Skrifaðu á Facebook eða blogg stuttar færslur um hvernig þér finnst farið með fjármuni þína og það vald sem þú hefur framselt í hendur annarra. Þú getur líka skrifað langar blaðagreinar eða bækur um þetta, en sennilega best að byrja á smáum skrefum.

4. Farðu á fundi eða stofnaðu til funda. Leitaðu uppi vettvang fyrir þig til að hlusta eða tala. Það er allt fullt af þessu - á morgun (þriðjudag) er fundur í Hugmyndahúsinu á Granda um nýja stjórnarskrá fyrir alla. Á laugardaginn er mótmælafundur á Austurvelli. Á sunnudaginn er kaffihúsafundur á Gallerí Horninu. Það er pottþétt hundrað aðrir fundir í gangi (auglýsi eftir fundum úti á landi - ég þekki ekki til) - leitaðu þá uppi og TAKTU ÞÁTT!

5. Sendu þingmönnum eða sveitastjórnarfólki tölvupóst, sendibréf, sms með því sem þú vilt koma á framfæri. Þeir eru í vinnu fyrir þig - og þeir sem eru starfi sínu vaxnir VILJA RAUNVERULEGA heyra frá þér - hinir geta bara étið það sem úti frýs hvort sem er. Þú finnur allar upplýsingar um þá á Alþingi.is eða á heimasíðum sveitafélaga. Ef þú ert hikandi með þetta - sjá punkt 2.

6. Talaðu / rökræddu æsingarlaust við fólk í kringum þig um hluti sem skipta raunverulegu máli. Sumum finnst það asnalegt - en það er bara vegna þess að þeir halda að öllum hinum finnist það asnalegt. Brjóttu ísinn.

7. Aldrei, aldrei, aldrei, aldrei tala bara til þess að tala. Leyfum stjórnmálamönnum að eiga þá aðferð alveg sjálfa.

8. Hlustaðu vel á það sem allir hinir segja. Þetta er erfiðasta og sennilega mikilvægasta atriðið.

Vinsamlegast bætið við aðferðum. Þetta gengur ekki eins og það er - þú verður að breyta þessu, það er enginn annar sem gerir það fyrir þig. Við verðum að brjóta af okkur þessa ómerkilegu og agnarsmáu hlekki.


Eru þingmenn hræddir um að missa vinnuna?

Nú þegar öll spjót standa á þeim þingmönnum Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem voru við völd á síðasta kjörtímabili vegna styrkjamála og óheppilegra fjárhagslegra tengsla við ýmsa hagsmunaaðila er ekki úr vegi að athuga hvaða möguleika þeir hefðu á hinum almenna vinnumarkaði. Hér tel ég stjórnmálamönnunum ekki sérstaklega til tekna pólitísk störf (með undantekningu af bæjarstjórastöðu), enda er þessi úttekt miðuð að almennum vinnumarkaði, ekki þægilegt starf í opinbera geiranum fyrir uppflosnaða þingmenn.

Ég geri hér heldur ekki sérstakan greinarmun á ráðherrum og þingmönnum né "styrkþegum" eða fjárfestum, heldur set alla við sama borð og styðst eingöngu við gögn frá vef Alþingis.

Niðurstöðurnar eru dregnar saman neðst.

Árni Páll Árnason (S): 43 ára lögfræðingur. Lögmaður með eigin rekstur og ráðgjafi í 9 ár og lítilsháttar kennslureynsla.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikið að gera hjá lögfræðingum í skilanefndum og að þrífa upp eftir fyllerí síðustu ára.

Árni Johnsen (D): 66 ára gamall, ómenntaður með reynslu af blaðamennsku og kennslu.
Atvinnuhorfur: slæmar - færi sennilega beint á eftirlaun.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (S): 60 ára stúdent - hefur sótt ýmis námskeið. Hefur starfað við dagskrárgerð og kennslu og verið plötusnúður.
Atvinnuhorfur: Slæmar - nú þarf kennaramenntun til að starfa við kennslu og nóg af fólki um hituna í dagskrárgerðarbransanum.

Birgir Ármannsson (D): 42 ára lögfræðingur.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikið að gera hjá lögfræðingum í skilanefndum og að þrífa upp eftir fyllerí síðustu ára.

Bjarni Benediktsson (D): 40 ára lögfræðingur.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikið að gera hjá lögfræðingum í skilanefndum og að þrífa upp eftir fyllerí síðustu ára.

Björgvin Guðni Sigurðsson (S): 40 ára með BA-próf í sögu og heimspeki - hefur starfað sem blaðamaður.
Atvinnuhorfur: Slæmar. Helsti starfsvettvangur sagnfræðinga og heimspekinga er kennsla eða rannsóknir og það þarf meiri menntun en BA til að komast í slíkt. Blaðamannastéttin á auk þess undir högg að sækja og mikið af reyndu fólki atvinnulaust.

Einar Kristinn Guðfinnsson (D): 54 ára með BA-próf í stjórnmálafræði og reynslu við útgerð.
Atvinnuhorfur: Slæmar. Útgerðin er ekki í góðum málum og vantar síst fleiri stjórnendur.

Guðbjartur Hannesson (S): 59 ára með Meistarapróf frá kennaraskóla.
Atvinnuhorfur: sæmilegar. Er með góða menntun og reynslu af kennslu og ætti því að lágmarki að fá vinnu við að kenna í grunnskólum.

Guðlaugur Þór Þórðarson (D): 42 ára með BA-próf í stjórnmálafræði og reynslu sem sölumaður, kynningarstjóri, framkvæmdastjóri og forstöðumaður fjárfestingasjóðs.
Atvinnuhorfur: Góðar. Þrátt fyrir takmarkaða menntun er hann með ágæta starfsreynslu.

Helgi Hjörvar (S): 42 ára með grunnskólapróf og reynslu sem framkvæmdastjóri.
Atvinnuhorfur: Slæmar. Frekar fábreytt starfsferilsskrá og nánast algerlega pólitísk.

Illugi Gunnarsson (D): 42 ára með BS-próf í hagfræði og MBA próf.
Atvinnuhorfur: Góðar. Þrátt fyrir afar takmarkaða (ópólitíska) starfsreynslu er hann hagfræðingur og mikið er að gera hjá þeim í skilanefndum og að þrífa upp eftir fillerí síðustu ára.

Jóhanna Sigurðardóttir (S): 67 ára með verslunarpróf. Reynsla sem flugfreyja og skrifstofumaður.
Atvinnuhorfur: Slæmar. Aldur og lítil (ópólitísk) starfsreynsla. Færi sennilega beint á eftirlaun.

Jón Gunnarsson (D): 53 ára með próf frá Iðnskólanum í Reykjavík. Reynsla sem bóndi, yfirmaður auglýsingadeildar, markaðsstjóri, framkvæmdastjóri og reynsla af eigin rekstri.
Atvinnuhorfur: Góðar. Þrátt fyrir takmarkaða menntun er hann með ágæta starfsreynslu.

Katrín Júlíusdóttir (S): 35 ára með stúdentspróf. Reynsla sem innkaupastjóri verkefnastjóri og framkvæmdastjóri.
Atvinnuhorfur: Sæmilegar. Sæmilegasta reynsla þrátt fyrir takmarkaða menntun.

Kristján Þór Júlíusson (D): 52 ára með skipstjórnar- og kennsluréttindapróf. Reynsla sem stýrimaður, skipstjóri, kennari og bæjarstjóri auk mikillar stjórnarsetu.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikil stjórnunarreynsla er alltaf verðmæt.

Kristján Lúðvík Möller (S): 56 ára með íþróttakennarapróf. Reynsla sem íþróttakennari, verslunarstjóri og af verslunarrekstri.
Atvinnuhorfur: Sæmilegar. Það vantar etv. íþróttakennara úti á landi eða verslunarstjóra.

Ólöf Nordal (D): 43 ára lögfræðingur með MBA próf. Reynsla sem lögfræðingur og við kennslu lögfræði, yfirmaður og framkvæmdastjóri.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikið að gera hjá lögfræðingum í skilanefndum og að þrífa upp eftir fyllerí síðustu ára.

Pétur H. Blöndal (D): 65 ára doktor í tryggingastærðfræði. Reynsla sem forstjóri, framkvæmdastjóri, rannsakandi og kennari.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikil reynsla og mikil menntun hlýtur að skila góðu starfi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir (D): 42 ára með MS-próf í alþjóðasamskiptum. Vandséð að mikil ópólitísk reynsla sé til staðar en segjum að hún hafi unnið sig upp í að vera viðskiptafulltrúi.
Atvinnuhorfur: Sæmilegar. Ágætis menntun í alþjóðasamskiptum gæti riðið baggamuninn.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (D): 60 ára með próf í uppeldis- og kennslufræði og BA-próf í íslensku. Reynsla sem kennari, skólastjóri og bæjarstjóri.
Atvinnuhorfur: Góðar. Svona mikil reynsla af kennslu og tengdum störfum hlýtur að skila sér.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (S): 45 ára með BA-próf í sagnfræði. Engin ópólitísk reynsla.
Atvinnuhorfur: Slæmar. Lítill möguleiki á kennslu nema með auknu námi. Lítill möguleiki á vinnu við rannsóknir nema eftir frekara nám.

Valgerður Bjarnadóttir (var varaþingmaður) (S): 60 ára með Cand.oecon.-próf og MS-próf í heilsuhagfræði. Starfsmaður og yfirmaður hagdeildar, yfirmaður hótelrekstrar, Deildarstjóri efnahagsrannsókna og fleiri sérfræðingsstörf. Þar að auki framkvæmdastjóri, yfirmaður, sviðsstjóri.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikil reynsla, þekking og menntun.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (D): 44 ára lögfræðingur. Stutt reynsla sem lögfræðingur og yfirmaður deildar.
Atvinnuhorfur: Góðar. Mikið að gera hjá lögfræðingum í skilanefndum og að þrífa upp eftir fyllerí síðustu ára.

Þórunn Sveinbjarnardóttir (S): 44 ára stjórnmálafræðingur. Reynsla sem starfsmaður og upplýsingafulltrúi.
Atvinnuhorfur: Slæmar. Frekar lítið að hafa fyrir stjórnmálafræðinga, en gæti fengið vinnu vegna reynslu.

Össur Skarphéðinsson (S): 56 ára doktor í lífeðlisfræði. Reynsla sem ritstjóri, kennari og aðstoðarforstjóri.
Atvinnuhorfur: Góðar. Góð menntun og reynsla af ritstjórn og kennslu fleytir mönnum langt.

Niðurstöðurnar eru Samfylkingarfólki afar mikið í óhag eins og sjá má að neðan.

Samfylking 12 þingmenn:
Góðar atvinnuhorfur 3 þingmenn
Sæmilegar atvinnuhorfur 3 þingmenn
Slæmar atvinnuhorfur 6 þingmenn

Sjálfstæðisflokkur 13 þingmenn:
Góðar atvinnuhorfur 9 þingmenn
Sæmilegar atvinnuhorfur 1 þingmaður
Slæmar atvinnuhorfur 3 þingmenn

Dæmi nú hver fyrir sig. Eru þingmenn hræddir við að missa þægilegu innivinnuna sína? Eru þeir hræddir um að fá ekki vinnu "við hæfi" ef þau hættu á þingi? Ég fyrir mitt leyti vill ekki dæma um það - en einhverjar skýringar hljóta vera á þessum einbeitta setuvilja... ég held áfram að leita.


Alþingi vs. Almenningur

Þá er það ákveðið. Bankarnir vinna, almenningur tapar. Hljómar þetta kunnuglega? En hver býr til reglurnar í þessum bardaga? Hver dæmir? Jú, það er einmitt stofnun sem menn hafa talað digurbarkalega um við hátíðleg tækifæri og kallað elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum: Alþingi.

Á Alþingi er fólk í vinnu við að búa til reglur samfélagsins. Það býður sig fram til verksins og er kosið af almenningi til að sinna þessu. Það þiggur ágætis laun fyrir vikið, og nokkuð mikla virðingu í heitum pottum sundlauganna. Að minnsta kosti að eigin mati.

En til þess að geta sómasamlega boðið sig fram, þarf fólkið ógurlega mikið af peningum til að standa straum af bæði prófkjöri og kosningum. Það þarf að fara í stúdíó og taka myndir af fólkinu með fjöll í bakgrunn. Það þarf að fá auglýsingastofu til að semja slagorð eins og "Göngum hreint til verks" eða "Árangur áfram - Ekkert stopp". Svo þarf að Photoshoppa alltsaman og kaupa dýr svæði í fjölmiðlum til að koma þessum bráðnauðsynlegu upplýsingum á framfæri.

Og einhvers staðar þarf að fá peninga til að borga fyrir þetta allt saman. Fólkið sem vill starfa fyrir almenning getur auðvitað ekki staðið straum af þessu öllu og leitar því til fjársterkra aðila til að gefa sér peninga. Fjársterku aðilarnir gefa þeim svo peninga. Peningarnir eru í sumum tilfellum meiri en sem svarar launum fólksins út kjörtímabilið.

Frambjóðendunum er svo mikið í mun að koma sér í framlínuna til að geta eytt starfskröftum sínum í að verja hag almennings tekur vitanlega fegins hendi við peningunum. Því meira, því meiri líkur á að það geti óhindrað hellt sér út í að sinna lítilmagnanum! Svo kemst það á þing.

Þegar frambjóðendurnir eru svo orðnir að þingmönnum eru þeir auðvitað búnir að steingleyma hver gaf þeim alla peningana til að koma þeim þangað - eða, sem er ennþá heppilegra - hafa aldrei haft hugmynd um hver gaf, því að vinir þeirra sáu um söfnunina.

Fjársterku aðilarnir eru auðvitað líka löngu búnir að gleyma hverjum þeir gáfu hvað í prófkjörum og kosningum, því allir vita að svoleiðis aðilar hugsa ekki um að ávaxta fé sitt, heldur um réttlætið í þjóðfélaginu.

Alþingi er því auðvitað dásamlegur vinnustaður sem allir vilja komast á, því þar eru góðverkin látin tala. Virðing stofnunarinnar vex og dafnar og allir eru vinir.

En af einhverjum ókunnum ástæðum hefur á síðustu árum komist púki í þetta annars fullkomna fyrirkomulag. Upp komst að fjármagnseigendurnir þurftu smávægilega greiða. Auðvitað var orðið við þessum greiðum, því þetta eru einu sinni vinir réttlætisins. En þá vildu frambjóðendur auðvitað svolítið meiri peninga í staðinn, til að þeir kæmust örugglega aftur á góða vinnustaðinn. Fjármagnseigendurnir sáu auðvitað réttlætið í því og gáfu þeim eins mikið af peningum og þeir gátu torgað. En þá var einungis sanngjarnt að þeim væri gerður örlítið stærri greiði næst. Og þannig koll af kolli.

Þá er komið að sögulokum. Þingmennirnir góðu hafa ákveðið að þeir séu frábærir og gefa út sérstakar yfirlýsingar í því tilefni... einn og einn er þó oggolítið skömmustulegur. Fjármagnseigendurnir eru auðvitað frábærir líka, en örfáir hafa leigt sér skáld til að semja dálitlar einræður um að þeim finnist þetta allt saman svolítið pínlegt.

Lánin mín hækka um 200.000 krónur á mánuði (og ég var einn af þeim sem fóru varlega).
Fólk á ekki fyrir mat og stendur í biðröðum.
Það er verið að draga úr heilbrigðisþjónustunni.
Nauðungaruppboð eru nú daglegt brauð.
Það er verið að draga úr þjónustu við börnin.
Menntakerfið er að dragast saman.
Lífeyrir dregst saman.

En nú er ókeypis í sund fyrir atvinnulausa. Þá þarf ekki að horfa upp á þá og börnin þeirra skítug alla vega.


Leggjum niður Alþingi - útskýringar á íslensku

Nú er svo komið að Alþingi gerir meiri skaða en gagn. Flokksmenn forgrangsraða á eftirfarandi hátt: 1. Hvað kemur mér og mínum pólitíska frama vel? 2. Hvað lítur best út í augum forvígismanna flokksins (sem kemur frama mínum vel)? 3. Hvað kemur flokknum mínum vel (sem kemur frama mínum vel)? 4. Hvað lítur best út fyrir kjósendur flokksins (sem kemur frama mínum vel). 5. Hvað kemur þjóðinni vel (sem gæti komið frama mínum vel)?

Það eru til orð á íslensku yfir þessa tegund af hegðun: sérhagsmunapot.

Það eru til önnur orð á íslensku: spilling, undirlægjuháttur, ósjálfstæði, sveitamennska (afsakið ágæta fólk í sveitum landsins), mafía.

Þrjú frumvörp hafa komið fram sem eiga að bæta lýðræði hér á landi. Samfylkingin og VG berja sér rosalega á brjóst. Kíkjum aðeins á hver staðan er:

1. Stjórnlagaþingsfrumvarpið - http://www.althingi.is/altext/138/s/0168.html

Fyrst á íslensku: Stjórnlagaþing er hópur af fólki sem semur nýja stjórnarskrá eða breytir þeirri gömlu til betri vegar. Stjórnarskrá er það skjal sem skilgreinir grunnreglurnar í samfélaginu okkar. Stjórnarskrá er ekki endilega flókið skjal - bara nokkrar góðar reglur um skipulag sem við erum sammála um að við viljum lifa í. Til dæmis er ekki flókið að lýsa því að það þarf að skúra einu sinni í viku á heimili okkar... á sama hátt er ekki flókið að lýsa því að það þarf einhver að horfa yfir öxlina á embættismönnum til að tékka á því hvort þeir eru að gera einhverja vitleysu.

Og nú að hinu háleita "stjórnlagaþingsfrumvarpi" (flókið nafn á einföldu fyrirbæri). Það er mikið hagsmunamál fyrir flokkana að það sé einfalt að koma þeirra fólki að á stjórnlagaþingi. Af miklu örlæti hafa þeir hins vegar komið inn í frumvarpið að þingmenn mega ekki bjóða sig fram. Hins vegar er ekkert um að sveitastjórnarfólk, embættismenn sem ráðnir eru af flokkunum, fólk sem starfar innan flokkana, fólk sem styður flokkana með ráðum og dáðum og eru skráð í flokkinn, fólk sem hefur dælt peninga inn í flokkana osfrv. býður sig fram. Planið er að stjórnlagaþingið verði bitlingur fyrir duglega húrrahrópara. Og það á ekki að breyta miklu í stjórnarskránni - meira um það síðar.  Frumvarpið sem nú liggur fyrir er algerlega hannað fyrir kosningamaskínur flokkakerfisins. Hver annar en hefðbundinn stjórnmálaflokkur hefur tækifæri á að kynna kandídata sína fyrir þjóðinni? Þetta hafa þeir gert í áratugi og hafa sérstakt fólk sem eru sérfræðingar í þessu. Flokkarnir hafa nefnilega svokallaða "spin" sérfræðinga starfandi hjá sér, sem sérhæfa sig í að hanna sýndarraunveruleika - nákvæmlega sömu tegund af raunveruleika og rústaði íslensku þjóðfélagi fyrir skömmu. 

Það á ekki að leyfa almenningi að koma að gerð stjórnarskránnar.

Það á ekki að leyfa þjóðinni að kjósa um stjórnarskránna eða segja álit sitt á neinn hátt.

Alþingi ætlar síðan að ráða niðurstöðunni (ef eitthvað væri á móti hagsmunum flokkana) - því þetta plagg verður "ráðgefandi". 

Svo er það tíminn sem frumvarpið gerir ráð fyrir að fara í þetta smotterí (að búa til nýjar leikreglur fyrir allt samfélagið sem allir eru sáttir við og sem flestir getir skrifað undir): 8-11 mánuðir. Og það er hvergi tekið fram að þessir 25-31 nefndarmaður (afsakið, stjórnlagaþingmaður) eiga að vinna í þessu í fullri vinnu - þeir geta allt eins sleppt því að vinna þetta eða tekið þetta með sveitarstjórnardjobbinu sínu eða öðru embættisverki sem hann eða hún er ráðin í af flokkakerfinu - sem sagt tvöföld laun. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þetta fólk semji í hjáverkum nýjar grunnreglur fyrir alla Íslendinga. Eða er planið etv. að breyta sem minnstu í núverandi stjórnskipan? Hmmmm látum okkur nú sjá - hverjum mundi það gagnast mest? Jú, ráðandi stjórnvöldum - því þeir eru við völd, kunna á kerfið eins og það er og sveigja það og beygja eftir kúnstarinnar reglum (eða óreglum). 

Það er til íslenskt orð yfir þetta líka: óheiðarleiki

En þetta er ekki nóg. Frumvarpið inniheldur fundardagskrá stjórnlagaþingsins. Það er sem sagt ekki nóg fyrir valhafa að stytta þingið, hafa sitt fólk þar og ráða hvort það yfirleitt samþykkir þetta - það þarf líka að ráða dagskránni. Það er búið að ákveða að þingið eigi að hittast þrisvar. Já - þetta er ekki misritun - þingið á að hittast þrisvar. Þrisvar. ÞRISVAR! Á þeim fundum (og vonandi á milli þeirra) á að ákveða allt gúmmelaðið. Ég veit ekki um ykkur, en miðað við hversu sammála flokksfólk og stjórnmálamenn eru um hlutina er ég býsna svartsýnn á að það takist einu sinni að vera sammála um tegund af kleinuhringjum í kaffiteríunni á þeim tíma, hvað þá meira. 

Svo er líka ákveðið í frumvarpinu um hvað eigi að fjalla á stjórnlagaþinginu. Ef einhver velkist í vafa um að núverandi valdhafar ætli að ráða nákvæmlega hvað eigi að vera í nýrri stjórnarskrá, vinsamlegast lesið 3. grein frumvarpsins: "Viðfangsefni". 

Það er til orð yfir þetta á íslensku: hagsmunagæsla

Það er margt annað hægt að segja um þetta makalausa frumvarp - en kíkjum nú á næsta stórkostlega skref sem flokkakerfið ætlar að taka í lýðræðisátt:

2. Þjóðatatkvæðagreiðslufrumvarpið - http://www.althingi.is/altext/138/s/0118.html

Frábært - á nú virkilega að leyfa þjóðinni að skera úr um sín eigin mikilvægu málefni? Nei. Það er ekkert í frumvarpinu sem bendir til þess. Það eina sem þetta frumvarp fjallar um er hvernig á að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslur ef meirihluti á Alþingi krefst þess að það skuli ganga til þeirra.

Fyrsta spurning: Hversu oft hafa ráðandi stjórnvöld óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum hingað til? Svar: Aldrei

Önnur spurning: Hvenær gæti komið upp sú staða að ríkjandi stjórnvöld óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í núverandi kerfi? Svar: Aldrei - það væri "veikleikamerki".

Þriðja spurning: Hvað bendir til þess að þessi hegðun sé að breytast með nýtilkominni vinstri stjórn? Svar: Ekkert - enginn hefur talað þjóðaratkvæðagreiðslu jafn mikið niður og Jóhanna og Steingrímur töluðu niður Icesave atkvæðagreiðsluna... og það þrátt fyrir að hver einasti vanur samningamaður sem er hefði getað sagt þeim (og sagði þeim vafalaust) að þetta gæti styrkt samningsstöðu þeirra í viðræðum við Breta og Hollendinga. 

Og bara til þess að allt sé á tæru: Almenningur á EKKI að eiga möguleika með NEINUM hætti að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkurt einasta mál samkvæmt þessu frumvarpi. Minni hluti þingmanna á EKKI að eiga möguleika með NEINUM hætti að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkurt einasta mál samkvæmt þessu frumvarpi.

Það er til orð yfir þetta á íslensku: Valdagræðgi

Ólíkt við stjórnlagaþingsfrumvarpið er fátt fleira hægt að segja um þetta frumvarp - það er ósköp einfaldlega skelfilegt að sjá þetta eftir allt sem á undan hefur gengið. En þá að næsta máli:

3. Persónukjörsfrumvarpið - http://www.althingi.is/altext/138/s/0109.html

Bara til að byrja með - þetta frumvarp verður aldrei að veruleika. Til þess er "tíminn til sveitastjórnakosninga of skammur". En bara til að halda því til haga - það hafa aldrei verið breytingar á kosningalögum nema rétt fyrir kosningar. 

Ókei - þetta er skref í rétta átt... nema að því leyti (eins og segir að ofan) að þetta skref verður ekki stigið. 

Á íslensku þýðir þetta frumvarp (í guðana bænum ekki lesa það - það er hryllileg lesning hönnuð af lögfræðingum fyrir lögfræðinga - ekki fyrir fólkið sem á að fara að lögunum) að það á náðugsamlegast að leyfa fólki að velja í hvaða röð það vill raða fólkinu í þeim flokki sem það kýs. Sem sagt - þú kýst flokk X og getur sett 1, 2, 3 osfrv. fyrir framan það fólk sem þú vilt helst kjósa. 

Þetta er frábært skref framávið (ef það verður einhvern tíman tekið - sem ég persónulega stórefast um) - en lítum á það sem er EKKI í frumvarpinu:

1. Það má ekki kjósa þvert á lista. Þetta þýðir að þú kýst einn flokk - og getur raðað fólki í þeim flokki. Þú getur ekki kosið PERSÓNUR sem bjóða sig fram (óháð flokkum). Því er hugtakið persónukjör í besta falli takmarkað til að lýsa þessu frumvarpi.

2. Það er ekki hægt að bjóða sig fram framhjá flokkakerfinu. Persónur geta með öðrum orðum ekki boðið sig fram (er einhver byrjaður að hlæja að persónukjörshugtakinu núna?)

3. Það er einungis hægt að raða (1, 2, 3 osfrv. mannstu) helmingnum af listanum. Hinn helmingurinn er bókaður fyrir "heiðurssæti" fyrir afdankaða flokksmeðlimi. Þetta þýðir að í stað þess að geta valið milli 20 manns  getur þú valið milli 10. 

En hvað er ég að eyða orðum í þetta? Þetta verður hvort sem er ekki samþykkt. Það er nefnilega hefð fyrir því að ef eitthvað er óþægilegt fyrir flokkakerfið, þá tekur einn flokkur það að sér að vera svo mikið á móti því að hann stoppar allt í nefnd. Þetta lætur hinn svokallaði "meirihluti" sér afar annt um  allt í einu og tekur upp á því að vera skyndilega svakalega lýðræðislegur - allir verða að vera sammála um þetta mál! Svo í næsta máli tekur annar flokkur upp málþóf og í þriðja málinu þriðji flokkurinn osfrv.  Um þetta, og þetta eitt, er alger samstaða á milli flokka.

Það er til orð á íslensku yfir þetta: Samráð.

Það er til annað: Samsæri.

Það er því komið svo að Alþingi er farið að lifa sjálfstæðu lífi. Það er engum til gagns nema sjálfu sér, og því er, í hinu nýja ráðvendnisæði sem runnið hefur á þjóðina, best að leggja það niður. Það hefur ekki verið til gagns síðastliðin tuttugu ár og það er ekkert sem bendir til að það sé að breytast. Það þarf nýtt lýðræði - og ætli það sé ekki best að stofna til þess undir nýju þaki og kalla það eitthvað annað en Alþingi til að það smitist ekki af þessum eiginhagsmunavírus sem hefur sundursýkt núverandi Alþingi. Ég sting upp á að hið nýja alþingi (með litlum staf) verði komið fyrir í húsnæði Hugmyndahússins þar sem fólk er vant því að vinna saman að hlutunum í góðum anda - það gæti verið til bóta. 

Verst að Ingunn Werners á það hús...

Hjálp!

 


Ég, flokkurinn, kjósendur flokksins

Hei - tók enginn eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn rændi bankamálavöldum frá Samfylkingunni? Ekki að mér sé ekki skítsama, Samfylkingin hefði ekkert staðið sig betur, en valdarán er það og valdarán skal það heita. Eru engin viðurlög við svoleiðis háttsemi hérlendis? Svar: Nei.

Annað, áður en við komum að Ingibjargar þætti Sólrúnar, sem kom upp í huga mér í dag og er sérstaklega viðeigandi þessa dagana er það ógeðslega fyrirkomulag í lögum (og dómum) að það að ræna fáeinum milljónatugum hefur meiri afleiðingar í dómskerfinu en nauðgun. Þetta er undirrót ansi stórrar hugsanavillu, og er sprottið af þeirri umdeilanlegu hugmynd að einhver geti átt eitthvað, og ef einhver annar reynir að taka það "ófrjálsri hendi" er það eitt mikilvægasta mál samfélagsins að refsa viðkomandi. Jafnvel þó fjármunir séu auðveldlega endurheimtanlegir, en afleiðingar nauðgunar ekki. Þetta segir líka ansi mikið um það hver samdi lögin og hverra hagsmuna þeir voru að gæta. Það voru sem sagt ekki ungar konur sem sömdu lögin, heldur gamlir (og ég leyfi mér að bæta við) frekar óviðurkvæmilegir og gersamlega siðlausir karlar. Enda hefur það komið á daginn að áhugi þeirra var ekki á réttlæti, heldur sérhagsmunagæslu. Þessi hugsun hefur sem sagt komið þjóðinni í gjaldþrot og rúið hana alþjóðlegu trausti, en það er allt í fína og engum að kenna.

Nú þurfum við því að spyrja okkur hver á að semja lögin í framtíðinni, og ekki síður, hver á að dæma. Ég held að það kerfi sem nú er við lýði hafi alla vega afsannað tilverurétt sinn rækilega. Það vill svo til að ég er nýkominn af 50 manna fundi þar sem reynt var að komast að því hvað væru góð efnistök fyrir nýja stjórnarskrá Íslands. Flestir þar voru bara ósköp venjulegt fólk með áhyggjur af því hvert við værum að stefna - og vildu gera eitthvað uppbyggilegt fyrir sína parta. Og viti menn -það komu ekki bara frábærar niðurstöður, heldur var líka fáránlega gaman. Ég get því ekki annað en dregið þá niðurstöðu að fólkið getur fullvel komið að lagagerð og stjórnarskrárgerð og hvaða gerð sem því lystir... þetta er bara texti á blaði sem segir hvernig fólk eigi að haga sér hvert við annað þannig að öllum líði sem best! Ekkert sem hver einasta móðir í Vesturbænum og Kópaskeri þarf ekki að kljást við á hverjum einasta degi. Af hverju þarf þetta að vera svona flókið og á svona ægilega tyrfnu embættismannamáli? Hagsmunir hverra eru þar að baki? Lögfræðinga? Dómara? Stjórnvalda? Já, já, já.

Og svo kom dagurinn þegar Ingibjög Sólrún biðst afsökunar. Eða gerði hún það? Nei. Þetta var allt saman afskaplega hjartnæmt, og ég vona að ég sé ekki of harðbrjósta þegar ég segi að hún hafi algerlega og endanlega komið upp um sig og þann óhugnað sem við lifðum í og lifum enn í. Hún segist hafa brugðist sér sjálfri, flokknum og kjósendum sínum. Í þessari upptalningu kjarnast vandinn; ég, flokkurinn, kjósendur flokksins. Forgangsröðunin er kristaltær: Ég, flokkurinn, kjósendur flokksins. Takið eftir því að þjóðin sem hún var kosin til að stjórna er ekki nefnd - og í því liggur hundurinn grafinn. Stjórnmálamönnum er einfaldlega skítsama um þjóðina og hennar hagsmuni. ÉG, flokkurinn og kjósendur flokksins. En hvað hún gerði rangt - það er ekki nefnt heldur. Ekki nema það að hún fór í stjórnarsamstarf með vitlausum flokki. Svo segir hún "Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf sem var þess ekki umkomið að taka á fjármálakerfi, sem við vissum að var stofnað til með pólitískri spillingu og helmingaskiptum." Ókei. Hún semsagt vissi um spillingu og ákvað að koma ekki upp um það. Eru ekki lög við svoleiðis hegðun? Er það ekki kallað að vera samsekur eða sekur um yfirhylmingu? Af hverju er þetta ekki rannsakað sem sérstakt sakamál? HVAÐA SPILLINGU INGIBJÖRG SÓLRÚN? Tárin gera engum gagn en hún gæti gert þjóðinni ómetanlegt gagn með því að fletta ofan af þessari spillingu sem hún talar svo fjálglega um. En gerir hún það? Nei. Mun einhver yfirheyra hana út af þessum spillingarmálum? Nei. Kemst einhvern tíman upp um þessa spillingu? Nei. Heldur hún áfram? Já - af því að Ingibjörg Sólrún og hennar líkar hafa ákveðið að "hverfa léttstíg af fundinum á vit hins kalda en fallega vors".

Og þá er ekkert eftir nema afsagnirnar. Eða voru einhverjar afsagnir? Nei. Það er eins og fólki sé fyrirmunað að detta það í hug að það eigi að taka ábyrgð á eigin gerðum! Þessar afsagnir (sem eru ágætar út af fyrir sig, en eru bara ekki afsagnir) eru nefnilega allar þvingaðar. Þetta er eins og að harðneita því að hafa keyrt á bíl fullan af börnum þangað til lögreglan kemur og sýnir þér það á myndbandi. Þegar þú hins vegar sérð myndbandið ferðu að efast um að það sé tekið frá réttum vinkli, hvort þetta sé nú ekki bara maðurinn þinn sem er í ökusætinu, hvort bíllinn þinn hafi ekki bara verið ekinn af þjófum sem þig gruni að hafi stolið honum og hvaða ankannalegu hvatir liggi eiginlega að baki hjá lögregluþjóninum að hafa tekið þetta upp á myndband yfirleitt. Svo athugarðu í hvaða flokki vesalings lögregluþjónninn er, og ef hann er óvart í þínum eigin flokki sendir þú út harmræna tilkynningu að í ljósi nýliðinna atburða sem þú hafir lent í þurfir þú því miður að skreppa í sjö mánaða frí til Kanarí.

Guð minn góður hvað við erum í slæmum málum!

Hjálp!


Ég er hamstur

Ég hleyp og hleyp í rauða fína hlaupahjólinu mínu með vísindamenn horfandi góðlátlegum vorkunaraugum á mig. Þeir pota í mig, minnka matarskammtinn minn, minnka búrið mitt og mála það svart. Þeir föttuðu fyrir löngu að nota orkuna úr hlaupahjólinu til að knýja safapressuna sína, og til að hlaða rafmagnstannburstann - en svo tengdu þau fleiri og fleiri græjur við þetta og nú kný ég meira og minna allt fyrir þá og vini þeirra. En þau passa sig á því þegar ég heyri til að tala um að nú sé þetta allt að koma, bráðlega þurfi ég ekki að hlaupa meira.

Um daginn var fjögurra ára hátíðin. Þá gerist það að vísindamennirnir spyrja mig hvort ég vilji vera áfram hjá þeim eða hinu teyminu, sem er vont fólk og mundi sprauta í mig eitri. Þetta er alltaf besti tíminn fyrir mig því vísindamennirnir koma alltaf í fínu fötunum í vinnuna, svara öllum spurningum mínum og gantast við mig. Mér finnst þetta alltaf svolítil skrýtið því í rauninni hef ég ekkert val - þau hafa nefnilega komið hlutunum þannig fyrir að hin teymin komast ekki einu sinni til mín til að tala við mig, þannig að ég veit ekki hvort það sé vont fólk eða gott. En þó mig þó hálfpartinn grunar að hin teymin séu góð og sprauti ekki í mig eitri (að minnsta kosti ekki jafn miklu og mitt teymi) get ég ekki tekið áhættuna. Hvað ef hinir væru lostafengnir hamstraperrar eða sadistar eða með rosalega lélegan tónlistarsmekk! Hvað gerði ég þá? Ég sæti uppi með þá í fjögur ár í það minnsta!

Þá er nú betra að bara hlaupa áfram í hlaupahjólinu mínu.

Um daginn sögðu vísindamennirnir mér að ótrúlega vondir menn hefðu rænt öllu hamstrafóðrinu. Og ekki nóg með það - þeir tóku líka allt sagið og öll fínu leiktækin sem þau voru búin að lofa að gefa mér fljótlega (væru bara að athuga hvort þau samrýmdust ekki Evrópustöðlum - svo fengi ég þau). Ég sá að þau hálfskömmuðust sín fyrir þetta.

Ég skildi það ekki alveg fyrst af hverju þau voru svona vandræðaleg með þetta allt saman - en komst smám saman að allri sólarsögunni með því að hlusta vel þegar þau héldu að ég væri ekki að hlusta, og með því að lesa pappírana sem þau notuðu í staðinn fyrir sag, núna þegar þau höfðu ekki efni á svoleiðis munaði lengur. Málið var að tvennt hafði gerst.

Það fyrra var að nokkrir vísindamennirnir voru ferlega óöruggir með sjálfa sig og fóru að reyna að eignast vini utan tilraunastofunnar. Það gekk vel í fyrstu, en fljótlega fóru vinirnir að koma með kröfur. Þeir komust sem sagt að því að vísindamennirnir lágu á ógnarbirgðum af þessu líka prýðishamstrafæði og báðu um að fá að smakka... og það var auðvitað auðsótt mál. Vinirnir komust svo upp á bragðið og gerðust æ áleitnari. Vísindamannanördarnir voru auðvitað ekkert vanir svona löguðu og gáfu þeim flissandi barasta það sem þeir vildu, því þetta voru stórir og flottir vinir sem var ægilega gaman að fara í tívolí með. Svo kláraðist hamstramaturinn og þá var veislan búin... og ég ferlega svangur. Vísindamennirnir sögðu mér þá að ég hafi bara verið orðinn fullgráðugur sjálfur og hefði gott af því að líta í eigin barm... svo veitti mér ekkert að megrun eftir allt þetta taumlausa át!

Hitt var að nokkrir vísindamenn höfðu sjálfir farið út að skemmta sér og tóku með leikföngin sem þeir höfðu lofað að gefa mér. Þeir sögðust ætla að prófa þau til að vera alveg viss um að þau væru mér ekki skaðleg (þau eru svo hugulsöm - er nema von að ég vilji bara þau?). Síðan, þegar þau ætluðu að koma til baka með allt dótið, uppgötvuðu þau að þau höfðu lagt það frá sér út um allan bæ, og fundu ekki aftur! Þau gátu í fyrstu ekki komið sér saman um hver hafði lagt hvað hvar, eða hvers vegna þau höfðu gleymt þeim út um allt (höfðu fengið sér smá rauðvín með matnum). En að lokum komust þau að þeirri bjargföstu niðurstöðu að þessu hafi öllu saman verið stolið. Það gæti engan vegin verið þeirra mál þótt fólk tæki bara hluti upp af götunni sem það ætti ekki! Alla vega gat það alls ekki fundið neitt af þessu aftur.

Sagið síðan týndist meira og minna allt þegar allt fór upp í háa loft vegna hamstrafóðursins og dótsins. Best að gera ekki veður út af því.

Nú eiga vísindamennirnir mínir hins vegar bágt. Nokkrum vísindamönnum hefur reyndar verið skipt út - og þeir redduðu smá mat fyrir mig. Hins vegar eru þeir svo fastheldnir á hann að ég er farinn að telja rifbeinin. Áður stóð matarkrúsin bara við hliðina á búrinu mínu, og smá slurkur var settur í skammtarann þegar hann var að tæmast, en núna er matarkrúsin orðin að kistli með hengilás læstur inn í peningaskáp sem er geymdur inni í dimmasta herbergi dýfstu dýflissu kastala prinsessunar mögru. Og ég er svangur og langar einna helst að éta bréfsnifsin sem dugar nú sem sag í búrinu mínu. En ég get það ekki, þau eru ekki matur...

Ég held bara áfram að hlaupa og reyna að finna leið... kannski ef ég hleyp hraðar?

Hvorki vísindamennirnir né ég áttum okkur á því af hverju ég hætti ekki bara að hlaupa.


Ajax, Ólafur, Björgúlfur, Valgerður og dvali skynseminnar

Mér líður eins og fábjána.

Stærsti þjófur í sögu Íslands biðst innvirðulegrar afsökunar á stórfenglegri íslensku - gullaldarmáli. Hann ætlar að gera upp við lánadrottna sína. Á einhvern undraverðan hátt hefur þessi óíslenskutalandi ribbaldi breyst í iðrandi skáld á einni nóttu.

Forseti Íslands, sem eignaðist stuðningsmenn úr óvæntustu áttum þegar hann neitaði að skrifa undir skuldaviðurkenningu, hoppar hæð sína í loft upp þegar á hann er borið að hann hafi átt hlut að máli, verið partur af vandamálinu, beri ábyrgð.

Ráðherra á sjálfteknum ráðherraeftirlaunum sem gaf banka til sinna nánustu samflokksmanna neitar því staðfastlega að eitthvað hafi verið óeðlilegt við hennar vinnubrögð - það voru jú útlendingar (sérfræðingar) sem sögðu henni að allt væri í himnalagi. Það var ekki eins og hún bæri einhverja ábyrgð.

Formaður flokksins sem kom landinu í kalda kol og skuldar fjármuni sem enginn venjulegur maður skilur segir að þjóðin þurfi að siðvæðast. Alþingi muni síðan örugglega fylgja í kjölfarið. Hann segir að flokkurinn sinn hafi axlað ábyrgð með því að færri kusu hann í síðustu kosningum.

Allt þetta á einum degi - og ég hef ekki einu sinni fylgst sérstaklega vel með í dag - auk þess sem aðalfréttin var um gos.

Hvernig getur staðið á því að þau þrjú hérna að ofan hafi komist til metorða hér á landi? Hefur þetta fólk eitthvern snertiflöt við raunveruleikann? Hver er lærdómurinn sem börnin okkar geta dregið af þessu? Jú - hann er svona: Þú lýgur, svíkur og prettir, skammtar sjálfum þér laun úr vasa almennings, blandar geði við siðleysingja, mælir með þeim, veitir þeim orðu, selur þeim eigur almennings fyrir slikk og svo er alveg sama hvað þú gerir - biðst slepjulega afsökunar, réttlætir gerðir þínar, stekkur upp á nef þér... þú vinnur alltaf. Engar afleiðingar. Ekkert bögg. bíða bíða bíða. Allt gleymt. Replay.

Ajax eins og hvítur stormsveipur í eldhúsi með svörtum og hvítum flísum.

Hvað þarf til að þetta pakk vakni úr dvalanum og stígi þó ekki væri nema hálft skref inn í raunveruleika þeirra sem búa við afleiðingar gerða þeirra. Fatta þau ekki að um leið og þau opna munninn eru þau að móðga fólk út um allt land? Ólafur og Valgerður eru táknmyndir þeirrar stjórnmálatísku sem hefur riðið húsum síðustu tuttugu árin í það minnsta hér á landi. Þau gætu talað sig út úr læstu gluggalausu húsi með rimlum og skilið þungvopnaða verðina eftir í sjálfsásakandi tilvistarkreppu með tárin í augunum. Allt í lagi með það. En Björgúlfur Þór er bara vitleysingur! Hvernig má það vera að þessi stamandi hálfbjáni nái að sölsa undir sig hálft konungsríkið og lagt hinn helminginn að veði? Hvar voru látúnstungur Alþingis þá? Það eru nákvæmlega tveir möguleikar: Þeir voru annað hvort að grilla eða græða.

Og undir þessu er framtíð okkar falin. Strigakjaftar Alþingis halda áfram að þiggja mútur frá stórfyrirtækjum - því á ekki að breyta. Þeir vilja ekki að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna - því á ekki að breyta. Þeir vilja ekki að almenningur hafi aðkomu að því að semja eigin stjórnarskrá - því á ekki að breyta. En það á að fara gaumgæfilega í gegnum skýrsluna og draga af henni lærdóm - það er að segja af mistökunum sem allir hinir gerðu.

Ég er þreyttur. Ég er ringlaður. Er eitthvað sem ég er bara ekki að skilja? Vill einhver aumka sig yfir mig og útskýra þetta fyrir mér? Eða getur verið að þið séuð jafn ringluð og ég?

HJÁLP!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband