Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég get þetta ekki lengur...

Siðlaust fólk stjórnar þessu landi. Siðlaust fólk sem uppalið er í ungliðahreyfingum sérhagsmunaflokka - þjálfað í stjórn vs. stjórnarandstaða skrípaleiknum í Háskóla Íslands, komið til metorða innan flokksins með þátttöku í nefndum, hefur sagt já við fólkið sem er hærra uppi í metorðastiga flokkakerfisins nógu oft.

Fyrir hrun var þetta fólk við stjórnartaumana. Eftir hrun er þessi tegund af fólki við stjórnartaumana. Nemendaráðstýpurnar.

Svo kom skýrsla sem sagði þeim að þau höfðu framið stórkostleg afglöp. Þau sögðu að það væri í raun og veru ekki þau sem skýrsluhöfundar voru að tala um (en eru sammála um að skýrslan væri að öðru leyti frábær).

Þetta fólk er komið með sitt fólk í dómstólana, í gervalt embættismannakerfið og það skipar fólk í nefndir, ráð og stjórnir eftir eigin geðþótta. Fagleg sjónarmið ráða engu - hvorki nú né þá. Minni á stórfenglegar breytingar í stjórn RÚV hér um daginn... einn framsóknarmaður tekinn út - annar settur í staðinn. Allt í boði VG og Samfylkingarinnar. Enginn í stjórn þessa mikilvæga fyrirtækis hefur græna glóru um rekstur fjölmiðils.

Háskólinn er ónýtur. Hann hefur alið upp og menntað fólkið sem arðrændi okkur. Ef einhver stofnun ætti að fara í ruslflokk - þá er það Háskóli Íslands. Heimspekingar stofnunarinnar tala fjálglega um gagnrýna hugsun. Lögfræðingar stofnunarinnar tala um réttarríki. Hagfræðingar tala um stöðugleika. Stjórnmálafræðingar tala um lýðræði. Og svo tala þeir og tala og tala og tala og tala. Og á meðan þeir tala, þá fara nemendur þeirra og ræna. Þá er brugðið á það ráð að greina það sem úrskeiðis fór og tala svolítið meira. En að bregðast við og taka afstöðu... NEI. Þá færi fræðilegur trúverðugleiki þeirra. Ég spyr: hver er fræðilegur trúverðugleiki þeirra sem trúa ekki einu sinni á eigin skoðanir?

Okkur er talið í trú um að við búum í réttarríki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur skipað ALLA hæstarréttadómara landsins. Lögin síðustu 18 árin eru samin af Sjálfstæðisflokknum eða með góðkenningu hans ef frá er talið síðasta rúma árið. Okkur er boðið að fara að lögum. Fyrirgefið - en hvernig getur staðið á því að okkur beri að fara að lögum sem spilltir, óhæfir stjórnmálamenn sömdu, sem skáru eld að eigin köku allan tímann? Fyrirgefið - en hvernig eigum við að treysta lögum sem eru samin með styrkjum frá bönkum og fjárfestingafélögum sem skófu efnahagskerfi landsins að innan og losuðu þjóðina við allar þeirra eignir? Hefði ekki verið rétt að skrifa framan á lög um fjármálastarfsemi að þau séu "í boði bankana" eins og tíðkast að spila á undan öðrum sápuóperum? Samfylkingin fór til dæmis í eitthvað makalausasta kennitöluflakk þegar kom að styrkjum til flokksins sem sést hefur - og ekki hefur einu sinni séð fyrir endan á því. Steinunn Valdís, sem nú situr sem formaður allsherjarnefndar og á að stuðla að bættu lýðræði meðal annars þáði gífurlegar upphæðir frá bönkunum í hinum ýmsu prófkjörum. Er henni treystandi til að leiða umræðuna um stjórnlagaþing, sem gæti endað í því að hún og hennar flokkur missi völd? Spyr sá sem ekkert veit - en veit þó það mikið að þau lög verða ekki að veruleika á þessu þingi, þrátt fyrir yndislegan fagurgala allra flokka þar um fyrir kosningar.

Hvað með allt þetta frelsi sem við eigum að standa uppi með eftir þessa frjálsræðisbyltingu Chicago-hópsins og hans æðsta prests hér á Íslandi? Hannes Hólmsteinn má þó eiga það að hann var sá í hinu akademíska umhverfi sem þorði að standa við sannfæringu sína og predika það sem hann hafði trú á. Skömm Háskóla Íslands að hafa ekki staðið uppi í hárinu á honum með gagnrýninni umræðu er ævarandi. En hvar er allt frelsið? Nú höfum við frelsi til að borga upp skuldir auðmanna. Við höfum frelsi til að hrópa húrra þegar svínbeygð ríkisstjórn neyðist til að hækka skatta og minnka þjónustu. Við höfum frelsi til að fara í aðra af tveimur biðröðum í neyðarhjálpinni ef við eigum ekki fyrir mat.

Við erum umkringd frelsi annarra.

Ég vil að siðlausa og vanhæfa fólkið fari úr alþingi: Allir sem eru með óhófleg lán, allir sem sátu í hrunríkisstjórninni, allir sem voru óhóflega styrktir til framboðs, allir sem láta út úr sér setningar eins og "nú er kominn tími til að hugsa um hag þjóðarinnar og láta flokkshagsmuni víkja" (hvað í andskotans fjandanum hafa þau verið að gera hingað til?).

Ég vil nýja stjórnarskrá samin af fólkinu á Íslandi.

Ég vil nýtt embættismannakerfi og endurnýjun í dómarastéttina. Ráðið á faglegum forsendum.

Ég vil ekki lifa í sýndarveruleika lengur. Ég get það ekki. Ég vil ala upp börnin mín í raunverulegum heimi með góðum gildum.

Þetta endar ekki vel ef þetta heldur svona áfram.

HJÁLP!


Samþykktir (lög) Hreyfingarinnar

Félagið heitir Hreyfinginog er starfsvæði þess Ísland. Heimili Hreyfingarinnar og varnarþing er íReykjavík.

Hreyfingin skal lútalögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og umupplýsingaskyldu þeirra. Öll fjármál Hreyfingarinnar skulu vera opinber ogaðgengileg almenningi.

Markmið

1.  Markmið Hreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandistefnuskráar í framkvæmd og hún skal leggja sig niður og hætta störfum þegarmarkmiðunum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð. Þessarigrein má einungis breyta með samþykki að lágmarki 9/10 atkvæða á landsfundi.

2.  Aukamarkmið Hreyfingarinnar er að aðstoðagrasrótarhreyfingar á Íslandi.

3.  Hreyfingin býður fram til alþingiskosningatil að ná fram markmiðum sínum.

Skipulag

Framkvæmdastjóri

1.  Þegar fjárráð leyfa skal Hreyfingin ráðaframkvæmdastjóra. Starfslýsing hans er eftirfarandi:

  • Framkvæmdastjóra ber að starfa með grasrótarhreyfingum á Íslandi og hjálpa þeim að koma boðskap sínum á framfæri:
    • við þingmenn Hreyfingarinnar.
    • við þingmenn annarra stjórnmálaafla.
    • við aðra grasrótarhópa.
    • við stofnanir og fyrirtæki eftir því sem þurfa þykir.
    • við almenning í gegnum fjölmiðla og rafræna miðla.
  • Framkvæmdastjóra ber að auðvelda grasrótarhópum starfsemi sína með því að útvega fundaraðstöðu og annað sem þarf og er á færi Hreyfingarinnar auk þess að miðla reynslu annarra hópa.
  • Framkvæmdastjóra ber að halda utan um hópa sem vilja starfa fyrir Hreyfinguna á einn eða annan hátt og halda opnum samskiptaleiðum á milli þeirra og annarra sem tengjast Hreyfingunni.
  • Framkvæmdastjóra ber að sjá um fjármál Hreyfingarinnar, bæði uppgjör og áætlanir.
  • Framkvæmdastjóra ber að skipuleggja atburði sem tengjast stefnumálum Hreyfingarinnar s.s.:
    • auglýsa eftir framboðum á vegum Hreyfingarinnar til nýrra alþingiskosninga ef þurfa þykir.
    • skipuleggja opinn landsfund Hreyfingarinnar.
    • aðrir atburðir.

2.  Framkvæmdastjóri skal ráðinn á faglegumforsendum ofannefndrar starfslýsingar af þeirri af þremur stærsturáðningarstofum landsins hverju sinni er best býður í verkið. Önnur ráðningarstofaeða fagaðili skal skila mati á störfum framkvæmdastjóra mánuði fyrir landsfundeða þegar stjórn Hreyfingarinnar óskar sérstaklega eftir því. Ef matsaðilinnmetur framkvæmdastjórann vanhæfan til að starfa áfram skal honum sagt upp ognýr framkvæmdastjóri ráðinn í hans stað á sama hátt og áður er getið, þó ekkiaf þeirri ráðningarskrifstofu sem mat fráfarandi framkvæmdastjóra vanhæfan.

3.  Ekki skal haldið sérstaklega utan umfélagaskrá Hreyfingarinnar.

4.  Framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt íneinu máli sem kosið er um á vegum Hreyfingarinnar og skal ekki hafa frumkvæðiað stofnun hópa innan hennar. Framkvæmdastjóri skal einnig leitast við að verahlutlaus í öllum málum.

5.  Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegu starfiHreyfingarinnar og er talsmaður hennar.

6.  Framkvæmdastjóri skal gæta trúnaðar gagnvartHreyfingunni í störfum sínum.

Stjórn

1.  Stjórn Hreyfingarinnar skal mynduð af fjórumaðalmönnum auk fjögurra varamanna. Aðalmenn og varamenn sitja í tvö ár í senn.Tveir nýir aðalmenn og tveir nýir varamenn skulu kosnir í stjórn ár hvert.

Á fyrsta kjörtímabilistjórnar skulu fjórir aðalmenn og fjórir varamenn kosnir, en þeir tveiraðalstjórnarmanna með fæst atkvæði á bak við sig skulu víkja að ári liðnu ogvaramenn taka þeirra stað.

Þingmenn og fyrstuvaraþingmenn skulu ekki taka þátt í kjöri til stjórnar.  Nú nær stjórnarmaður kjöri til þingmennsku þáskal varamaður taka sæti hans.

Að auki skal stjórninskipuð einum þingmanni Hreyfingarinnar sé þingstyrkur fyrir hendi.Þingmennirnir skulu skipta jafnt með sér stjórnarsetu, eitt ár í senn.

2.  Stjórnin skal hittast minnst einu sinni ímánuði. Til stjórnarfundar skal boða alla stjórnarmenn með minnstsólarhringsfyrirvara.

3.  Stjórnin skal leitast við eftir fremsta megniað vera sammála í niðurstöðum sínum. Náist ekki samstaða um mál skal því frestað til næsta stjórnarfundar ogþá skal málið afgreitt.

4.  Stjórn skal bera ábyrgð á fjárreiðumHreyfingarinnar, skuldbindingum hennar og fullnustu þeirra. Stjórnin skal ekkifela öðrum en framkvæmdastjóra fjárreiður eða ábyrgð á rekstri Hreyfingarinnar.

6.  Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætarskulu að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn. Fundargerðir stjórnarfunda,þar með talið fundir stjórnar og þinghóps, skal birta á netinu strax að fundiloknum og athugasemdir við þær skulu vera opinberar.

7.  Stjórnin skal gæta trúnaðar gagnvartHreyfingunni í störfum sínum.

8.  Stjórnarmönnum er heimilt að gegnastjórnarsetu í mesta lagi tvö ár samfellt, með tveggja ára hléi þar áeftir.  Enginn skal sitja í stjórn lenguren samtals fjögur ár.  Stjórnarseta skalvera launalaust sjálfboðastarf án nokkurra fríðinda. Leitast verður við aðjafna ferðakostnað.

Nefndir

1.  Landsfundarnefnd er eina fasta nefndHreyfingarinnar. Öllum er heimilt að taka þátt í henni.  Landsfundarnefnd skal vinna meðframkvæmdastjóra að skipulagningu landsfundar.

2.  Aðrir sem vilja starfa að þeim málefnumHreyfingarinnar sem koma fram í stefnuskrá eða aðstoða við innra starf getamyndað hópa innan hennar og skulu njóta stuðnings framkvæmdastjóra við störfsín.

3.  Hópar, eða meðlimir hópa tengdir Hreyfingunnieru ekki talsmenn hennar.

Landsfundur

1. Landsfundur hefuræðsta vald í öllum málum Hreyfingarinnar. Allir sem hafa kosningarétt samkvæmtgildandi lögum um kosningar til Alþingis hafa seturétt, málfrelsi, tillöguréttog kosningarétt á landsfundi Hreyfingarinnar.

Þessari grein má einungisbreyta með samþykki að lágmarki 9/10 atkvæða á landsfundi.

2.  Landsfund skal halda einu sinni á ári. Þarskal kosið um hvort Hreyfingin verði lögð niður, og nægja tveir þriðju hlutaratkvæða til þess. Að öðru leyti setur framkvæmdastjóri dagskrána í samstarfivið landsfundarnefnd Hreyfingarinnar.

3. Landsfundur skalhaldinn að minnsta kosti á tveggja ára fresti. Auk þess skal boða tillandsfundar óski tveir af fimm stjórnarmönnum þess. Einnig er hægt að kallafram landsfund með undirskriftum sem telja 7% af atkvæðafjölda á bak viðþingmenn Hreyfingarinnar. Landsfundur er löglegur ef til hans er sannanlegaboðað með sex vikna fyrirvara. Í landsfundarboði skal koma fram dagskrá fundarog breytingartillögur á samþykktum þessum sem leggja á fyrir fundinn.  Framkvæmdastjóri eða stjórn skal boða tillandsfundar.

4.  Landsfund skal boða með tilkynningu á vefsíðuHreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráða netfangalista á vegumHreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddumprentmiðli. Stjórn hefur heimild til að fresta landsfundi um viku frá auglýstridagsetningu.

5.  Landsfundur samþykkir fundarsköp og skallandsfundi og öðrum fundum Hreyfingarinnar stjórnað í samræmi við þau.

6.  Boða skal til aukalandsfundar óski tveir affimm stjórnarmönnum þess. Einnig er hægt að kalla fram aukalandsfund með undirskriftumsem telja 7% af atkvæðafjölda á bak við þingmenn Hreyfingarinnar.Aukalandsfundur er löglegur ef til hans er sannanlega boðað með tveggja viknafyrirvara.

Reglur um aukalandsfunderu samhljóða reglum um landsfund nema óheimilt er á aukalandsfundi að breyta samþykktumþessum.

7.  Á landsfundi skulu kjörnir tveir fulltrúar ístjórn og tveir til vara til tveggja ára í senn.

Hver kjósandi skal skrifanöfn fjögurra eða færri frambjóðenda til stjórnar á kjörseðil. Atkvæði skulutalin fyrir opnum tjöldum. Þeir tveir sem hljóta flest atkvæði skulu teljastrétt kjörnir í stjórn. Næstu tveir að atkvæðavægi taka sæti í varastjórn. Allirsem hafa kosningarétt samkvæmt gildandi lögum um kosningar til Alþingis getagefið kost á sér til setu í stjórn.

Þinghópur

1.  Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálumHreyfingarinnar á Alþingi.

2.  Í öllum málum skulu þingmenn vera í tengslumvið þau grasrótaröfl sem hafa með viðkomandi málaflokk að gera. Þingmenn skuluboða til opins fundar a.m.k. einu sinni í mánuði. Slíkir fundir skulu einnighaldnir utan höfuðborgarsvæðisins þegar hægt er.

Starfsfólk

1.  Framkvæmdastjóri skal ráðinn þegar fjárráðleyfa til að sjá um daglegan rekstur Hreyfingarinnar auk annarra verkefna sbr.starfslýsingu. Framkvæmdastjóri getur ráðið starfsmenn í samráði við stjórn.Allir trúnaðarmenn Hreyfingarinnar (þ.m.t. þingmenn, stjórn ogframkvæmdastjóri) skulu gera grein fyrir tengslum sínum við fólk og fyrirtæki semþiggja greiðslu frá Hreyfingunni.

2. Stjórn Hreyfingarinnarskal semja við framkvæmdastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri enþrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3.  Framkvæmdarstjóri skal semja við annaðstarfsfólk um laun sem skulu þó eigi vera lægri en eins og hálffaldur lægstitaxti ríkisstarfsmanna og ekki hærri en þrefaldur sami taxti.

Alþingiskosningar

1.  Hlutverk frambjóðenda til alþingiskosninga erað koma fyrirliggjandi stefnumálum Hreyfingarinnar á framfæri samkvæmt gildandilögum um kosningar.

2.  Kosningastjóri skal ráðinn á sama hátt ogframkvæmdastjóri, eigi síðar en þremur mánuðum fyrir alþingiskosningar.Stjórnin semur við kosningastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri enþrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3.  Allir kjörgengir Íslendingar geta gefið kostá sér á framboðslista í hvaða kjördæmi sem er. Framboðsfrestur rennur út áttavikum áður en skila þarf framboðslistum til kjörstjórna. Þegar framboðsfresturrennur út skal kosningastjóri kanna í hvaða kjördæmi og sæti frambjóðendurvilja bjóða sig fram og gera drög að framboðslista eftir þeirra óskum. 

Eigi síðar en sjö vikumfyrir kosningar skal kosningastjóri boða til opins fundar sem ákveður endanlegauppröðun framboðslistana.  Í fundarboðiskal koma fram dagskrá fundar og drög að framboðslistum. Á fundinn skal boðameð tilkynningu á vefsíðu Hreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráðanetfangalista á vegum Hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kostieinum útbreiddum prentmiðli. Allir sem hafa kosningarétt samkvæmt gildandilögum um kosningar til Alþingis hafa þar auk seturéttar, málfrelsi, tillöguréttog kosningarétt.

Við ákvörðun á uppröðunframboðslista skal fundurinn starfa í anda jafnræðis hvað varðar kyn, aldur ogbúsetu. Ef alþingiskosningar bera brátt að má kosningastjóri í samráði viðstjórn hliðra til tímamörkum eins og nauðsyn krefur.

Þessari grein má einungisbreyta með einróma samþykki landsfundar.

Dagskrá fundar semákveður framboðslista skal vera:

1. Kosning fundarstjóra

2. Kynning á drögumframboðslista

3. Umræður um uppröðunframboðslista

4. Breytingar áframboðslistum

5. Kosning umframboðslista

Fjárreiður

1.  Hreyfinguna má ekki skuldsetja meðlántökum.  Þó má taka skammtímalán efalgerlega er tryggt að tekjur Hreyfingarinnar geti staðið undir því.

2.  Framkvæmdastjóri Hreyfingarinnar skal gerafjárhagsáætlun um nauðsynleg fjárútlát og fjárskuldbindingar Hreyfingarinnar ákomandi almanaksári og bera undir stjórn. Öllu fé Hreyfingarinnar skal varið ísamræmi við tilgang hennar.

3.  Bókhald Hreyfingarinnar skal vera opið öllumog sýna hverjir styrkja hreyfinguna.

4.  Þeir sem fara með fjárreiður Hreyfingarinnarskulu ávallt leita tilboða sem víðast. Öll fjárútlát og fjárskuldbindingar, umfram upphæð sem miðast við lægstalaunataxta ríkisstarfsmanna, þurfa undirskrift framkvæmdastjóra og gjaldkera.

Félagsslit

1.  Þegar markmiðum Hreyfingarinnar er náð eðaaugljóst er að þeim verði ekki náð mun Hreyfingin hætta starfsemi og hún lögðniður. Þessari grein má ekki breyta nema með einróma samþykki landsfundar.

2.  Ákvörðun um slit Hreyfingarinnar verður tekiná landsfundi með atkvæðum a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna. Við slitHreyfingarinnar skal skila afgangsfé til ríkissjóðs.

Lagabreytingar

1.  Samþykktum Hreyfingarinnar má aðeins breyta álandsfundi.

Breytingartillaga telstsamþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi nema annað sé tekiðfram í samþykktum þessum.

2.  Allar tillögur til breytinga á lögum þessumskulu sendar til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðun landsfundar.Allir kjörgengir Íslendingar geta lagt fram breytingartillögur á samþykktumþessum.  Stjórn skal sannanlega birtabreytingartillögurnar á vefsíðu Hreyfingarinnar og með skeyti á alla á skráðumnetfangalistum á vegum Hreyfingarinnar eigi síðar en sex vikum fyrir þann landsfundsem þær skulu teknar fyrir á.


Umsögn um margboðað stjórnlagaþing...

Umsögn um Þskj. 168  —  152. mál.:Frumvarp til laga um stjórnlagaþing.
(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
Daði Ingólfsson - 6. desember 2009

Hreyfingin telur það aðalatriði í hugmyndinni um stjórnlagaþing að aðkoma stjórnmálaflokka og Alþingis verði sem allra minnst. Það stjórnkerfi sem nú er við lýði hefur ýmist með aðgæsluleysi eða einbeittum vilja brugðist trausti þjóðarinnar, eins og bersýnilega hefur komið fram í skoðanakönnunum síðustu misseri, og það ber að fyrirbyggja með öllum tiltækum ráðum að það vantraust smitist inn í þetta æðsta stjórnsýsluplagg.

Hreyfingin telur mörg alvarleg álitamál órædd í frumvarpi þessu og hefur leitað erlendrar sérfræðiaðstoðar m.a. hjá aðilum sem komu að gerð S-Afrísku stjórnarskrárinnar, og bíður enn niðurstaðna úr því. Þessi athugun kemur m.a. inn á tímaramman sem væntanlegt stjórnlagaþing kemur til með að starfa innan (8-11 mánuðir), sem og fyrirkomulag skipunar á þingið, ráðgefandi eðli þingsins (sbr. 1 gr.), fyrirfram ákveðna fundartíma (sbr. 2. gr), fyrirfram ákveðin umfjöllunarefni (sbr. 3. gr.) og fleira sem reifað er hér að neðan. Hreyfingin gerir þá kröfu að sérfræðingar sem hafa tekið þátt í gerð nýlegra stjórnarskráa verði fengnir til ráðgjafar við gerð þessa frumvarps og að almenningur verði hvattur og gefið tækifæri til að hafa áhrif bæði á frumvarpið og stjórnarskrárþingið sjálft þegar þar að kemur.

Frumvarpið eins og það liggur fyrir fer allt of langt í þeirri viðleitni að skipuleggja starf stjórnlagaþingsins. Það er skoðun Hreyfingarinnar að löggjafarvaldið eigi í engu að segja fyrir um vinnu stjórnlagaþingsins, heldur einungis segja til um tilgang þess (að semja nýja stjórnarskrá), veita til þess fjármagn og aðra aðstöðu og tryggja að almenningur í landinu hafi aðgengi að öllum gögnum bæði í ferlinu og fyrir kosningar um nýja stjórnarskrá. Einnig vantar grein í frumvarpi þessu sem hnykkir á rétti almennings til tillöguréttar.

Athugasemdir við 1. gr.:
Orðskrípið "ráðgefandi stjórnlagaþing" er mótsögn í sjálfu sér. Það er absolút krafa Hreyfingarinnar að stjórnlagaþingið verði ekki ráðgefandi, heldur skili frá sér stjórnarskrá sem kjósa mætti beint um án aðkomu löggjafarvaldsins. Einar eða tvennar kosningar til Alþingis til eða frá eru smáatrið við hliðina á þessari kröfu þar sem um æðsta skjal stjórnskipulagsins er um að ræða. Ef það þarf að blása til Alþingiskosninga fyrr en áætlað er til að gera þetta mögulegt skal það gert.

Athugasemdir við 2. gr.:
Í athugasemdum um 2. gr. í frumvarpinu er greint frá að tala þeirra sem sátu á Þjóðfundinum 1851 hafi verið hærri en tala fulltrúa skv. þessu frumvarpi. Mun fleiri sátu á austurríska stjórnlagaþinginu og enn fleiri í svissneskum fyrirmyndum. Það er vandséð hvers vegna tala fulltrúa á þessu þingi skuli vera svo lág sem raun ber vitni (25-31 fulltrúar), nema ef það skyldi kalla það röksemd að "með því ætti að nást nokkur [sic.] breiður hópur fulltrúa þjóðarinnar auk þess sem halda má kostnaði í skefjum." Að fá nokkuð breiðan hóp fulltrúa þjóðarinnar er einfaldlega ekki nægilega metnaðarfullt, hvað þá að bera kostnað á borð sem röksemd fyrir takmörkun á fjölda fulltrúa. Leggur Hreyfingin til að fjármunir sem vantar upp á verði sóttir til dæmis í fjárframlög til stjórnmálaflokka á fjárlögum næstu ára, en það stendur ekki til að draga úr þeim skv. frumvarpi um fjárlög ársins 2010.

Það er ekki löggjafarvaldsins að setja stjórnlagaþingi tímaramma né aðrar takmarkanir - eggið skal ekki kenna hænunni. Löggjafarvaldið skal heldur ekki ákveða hvenær stjórnlagaþingið kemur saman né ákveða skipulag sbr. 16. og 17. grein. Því skyldi endurskoða 1. málsgrein verulega og fella aðrar málsgreinar 2. gr. út.

Athugasemdir við 3. gr.
Löggjafarvaldið skyldi ekki tilgreina sérstaklega hvað stjórnlagaþingið taki til umfjöllunar. Það er stjórnlagaþingsins sjálfs að ákveða og leita sér sérfræðiþekkingar þegar það á við. Frelsi stjórnlagaþingsins til að athafna sig og ákveða eigið fyrirkomulag er lykillinn að góðri útkomu í sátt við þjóðina. Því skyldi fella 3. grein alfarið út úr frumvarpi þessu.

Athugasemdir við 4. gr.
Það góða við að halda stjórnlagaþingskosningar samhliða sveitastjórnarkosningum er að þá væri tryggt að stjórnlagaþingið tæki til starfa fljótt, en verði ekki frestað eins og hefð hefur skapast um þegar lýðræðisumbætur bera á góma á Alþingi. Röksemdin um betri kosningaþátttöku hlýtur að falla á jöfnu við þá staðreynd að umfjöllun um sveitastjórnarkosningar mun drekkja umfjöllun um stjórnlagaþing - eða í besta falli að hvort drægi úr mikilvægi hins. Varðandi kostnað skal hér vísað í athugasemd við 2. gr.

Hér skal leitað fanga í reynslu annarra landa og sérfræðinga í blönduðum kosningum af þessu tagi áður en ákvörðun er tekin. Takmörkuð umsögn um 4. grein gefur til kynna að litlar rannsóknir séu hér að baki.

Athugasemdir við 8. gr.
Áttunda grein er sennilega sú mikilvægasta í frumvarpinu enda ýmsar leiðir færar í tilhögun framboða til stjórnlagaþingsins. Sú sem valin hefur verið er ekki rökstudd í umsögn um frumvarpið umfram aðrar leiðir né vísað til fordæma hérlendis né erlendis. Það er hins vegar einsýnt að þetta fyrirkomulag hentar kosningavélum stjórnmálaflokka afar vel og á sama hátt til mikils vinnandi að stjórnmálaflokkar hafi ekki forskot á almennan borgara í þessu tilliti. Það er því tillaga Hreyfingarinnar að valið verði á stjórnlagaþing í stóru slembiúrtaki allrar þjóðarinnar, og meldi fólk sig frá stöðunni frekar en til hennar. Þannig væri sjálfstæði stjórnlagaþingsins hafið yfir allan vafa og tryggt eins og vera má að þverskurður þjóðarinnar tæki þátt. Vinnunni yrði svo stýrt (nb. ekki stjórnað) af sérfræðingum, en lögð skyldi sérstök áhersla á að erlendir sérfræðingar skipi þar veigamikin sess.

Fyrir hönd Hreyfingarinnar
Daði Ingólfsson

Hefðarfjötrar forsetans og þrískipting valds

Embætti forseta Íslands hefur breyst nokkuð í áranna rás, sérstaklega við forsetaskipti, en hlutverk þess sem nú situr hefur þróast út í landsföðurímynd sem endurspeglast í ýmsum táknrænum athöfnum sem hann tekur þátt í. Praktískt gildi embættisins er nánast horfið og eftir stendur hátt sett „sameiningartákn“ fyrir tæpar 200 milljónir á ári. Þetta fyrirkomulag er í besta falli bagalegt þegar allt þjóðskipulagið leikur á reiðiskjálfi, stjórnvöld njóta ekki trausts almennings, niðurskurður er nýja tískuorðið og allur óþarfi er fjarlægður með nákvæmni skurðlækna.

Forsetinn 2009 og 2007

Lítum á hvað forsetinn hefur tekið sér fyrir hendur á þessu ári, á tímum sem verða sennilega settir á stall með móðuharðindunum þegar fram líða stundir. Ólafur Ragnar hefur ekki setið auðum höndum. Á vefsíðu forsetans eru tiltekin tæplega 300 embættisverk sem af er árinu og hefur hann flutt við þau tækifæri 12 formleg ávörp og kveðjur. Það vekur sérstaka athygli að eina embættisverkið sem tengist neyðarástandinu á Íslandi er spjall forsetans við „Charles H. Ferguson sem vinnur að gerð heimildamyndar um hina alþjóðlegu fjármálakreppu“ 23. maí sl. Vissulega minnist Ólafur í einstaka ávarpi á ástandið, en það er afar almennt orðað. Starf forsetans hefur m.ö.o. ekkert breyst frá hinu mjög svo táknræna ári 2007.

Hefðir og stjórnarskrá

Svo virðist sem tvennt ráði mestu um hlutverk forsetans; hefðir og stjórnarskrá í þessari röð. Þegar hefðir standa í vegi fyrir því að forsetinn geri þjóð sinni gagn á ögurstundu, eins og samanburður embættisverka áranna 2007 og 2009 ber með sér, þarf að athuga hvort bókstafur stjórnarskráarinnar eða laga hindri hann beinlínis. Það þarf ekki langan lestur til að komast að hinu gagnstæða. Í annari grein stjórnarskráarinnar segir að „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld [...] fara með framkvæmdarvaldið.“ Forsetinn fer m.ö.o. með löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið í félagi við Alþingi og ráðherra og er því vafalaust valdamesti maður ríkisins ef bókstafur stjórnarskráarinnar er tekinn alvarlega. Lög taka til að mynda ekki gildi fyrr en forsetinn hefur samþykkt þau.

Þrískipting valds

Í tillögu til þingsályktunar um rannsókn á þróun valds og lýðræðis sem m.a. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson fluttu árið 2004 segir að „Meðan Alþingi hefur ekki fullkomið sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu verða valdmörkin óljós og hingað til hefur framkvæmdarvaldið nýtt sér það til að styrkja stöðu sína gagnvart löggjafarþinginu.“ Þetta er innlegg í umræðuna um nauðsyn á þrískiptingu valds, sem þingsályktunartillögunni er ætlað að hvetja til rannsóknar á. Ályktunin var samþykkt samhljóða á Alþingi og vísað til allsherjarnefndar, þar sem hana dagaði uppi.

Nú liggur fyrir að semja þurfi nýja stjórnarskrá, enda er það hávær krafa almennings og kosningaloforð allra stjórnmálaflokka fyrir síðastliðnar kosningar. Þar verður væntanlega skerpt á þrískiptingu valdsins og reynt að aðskilja löggjafar-, dóms- og framkvæmdavaldið. Stjórnlagaþing sem stofna á til verður „ráðgefandi“ og munu því stjórnarflokkarnir segja endanlega til um hvaða breytingar verði gerðar á stjórnarskránni ef einhverjar, en stjórnarskrárnefndir hafa verið starfandi nánast frá stofnun lýðveldisins með rýrum árangri. Þannig treystir framkvæmdavaldið sjálfu sér fyrir því að endurskipuleggja ríkjandi valdastrúktúr og rýra í leiðinni pólitískt vægi sitt og sinna flokka. Það þarf ekki mikinn svartsýnismann til að efast um þessa skipan mála.

Öryggisventill?

Það kemur því á óvart að forseti lýðveldisins sitji aðgerðalaus, því hann á að vera öryggisventill til að koma í veg fyrir að valdakerfið fari út af sporinu, og hefur til þess öll tæki. 15. grein stjórnarskrárinnar kveður afdráttarlaust á um völd forsetans yfir framkvæmdavaldinu: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“ Það er því forsetinn sem skv. stjórnarskránni hefur úrslitaáhrif á það hver situr í ráðherrastólum og hefur þar með tæki til að slíta framkvæmdavaldið frá löggjafarvaldinu ef honum sýnist svo. Forsetinn lætur ráðherra „framkvæma vald sitt“ (13. grein), en þeir bera fyrir sitt leyti ábyrgð á stjórnvaldsframkvæmdum sbr. 14 grein. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að forsetinn velji ríkisstjórn eftir faglegum, ópólitískum leiðum nema sú hefð að ráðandi hluti löggjafarvaldsins hefur tekið það að sér hingað til, og útdeilt ráðherraembættum sem og öðrum mikilvægum embættum eftir sínum hentugleikum.

Þrískipting valds er sem sagt nú þegar tryggð í stjórnarskránni, það hefur bara verið litið framhjá möguleikanum hingað til. Hitt er svo annað mál að núverandi forseti er ekki kosinn undir þeim formerkum, og þyrfti því að boða til nýrra forsetakosninga þar sem valinn væri forseti til að gegna embættinu eins og það er skilgreint í stjórnarskránni. Forsendur setu núverandi forseta eru brostnar því hann getur ekki hjálpað þjóð sinni í neyð – hann er bundinn sjálfskipuðum hefðarfjötrum.


Dauð þjóð

Í dag skulda ég 2.2 milljónum meira en í gær. Það gerir sonur minn líka og einnig konan mín. Mamma líka, bróðir minn og konan hans auk barna þeirra. Allir vinir mínir á landinu skulda líka 2.2 milljónum meira í dag en í gær, foreldrar þeirra og börn, vinir barna þeirra og allir á leikskólanum. Vinnufélagar mínir skulda 2.2 milljónir í viðbót hver og einn, samstarfsmenn mínir í öðrum fyrirtækjum, allir strákarnir sem ég spila fótbolta með, makar þeirra og allir sem þau þekkja. Fólkið sem keppti fyrir okkar hönd á Ólympíuleikunum skuldar nú 2.2 milljónir meira og allir Íslendingar á smáþjóðaleikunum. Allir íbúar sjávarþorpana sem ég þekki ekkert, bændur, sjúklingar, öryrkjar, sjálfstæðismenn, fimleikafólk og háskólaborgarar - allir eiga það sameiginlegt að skulda sem svarar andvirði nýs smábíls meira í dag en í gær.

Ég segi í dag, en ekki eftir að samningar eru undirritaðir, því nú verður ekki aftur snúið. Þetta er búið. Viðskiptasnilli Björgúlfanna, ævintýraleg hagstjórnarfærni bankastjóra Landsbankans og undraverðir stjórnunarhæfileikar stjórnmálamanna hafa leitt þetta yfir okkur og við sitjum heima í fýlu. Búsáhaldabyltingin er í orlofi, fjölmiðlafólk er svo gott sem dautt (það kallast hlutleysi á tungumáli fávita), bankastjórar og viðskiptajöfrar vilja, en geta ekki koma með auðævi sín til landsins (svo vitnað sé í einn höfuðsökudólginn) og framámenn braska með villur í Ameríku.

Kæru vinir. Það er bannað að upplýsa um skilmála Icesave skuldbindinganna. Það er bannað að upplýsa um stöðu þjóðarbúsins. Stór fyrirtæki komast upp með að skila ekki ársskýrslum. Þjóðin má ekki eignast auðlindir sínar.  Við fáum ekkert að vita, við fáum enga rödd í málinu, við mótmælum ekki.

Við erum dauð þjóð.


Flamingóar - yfirlitsgrein

Flamingóar, stundum kallaðir flæmingjar, eru bleikir fuglar sem standa á einni löpp og búa í öllum löndum heims nema Danmörku og Súdan. Gríðarlegur innflutningur er á fuglunum hingað til lands, en margir eru einnig innfæddir  og fluttir aftur út og eru kallaðir einu nafni Iceflamincos.
Fólk skiptist í andstæðar fylkingar í skoðunum á flamingóum, og allir virðast hafa talsvert til málana að leggja. Sumir dásama fegurð þeirra, öðrum þykja þeir glæsilegir, jafnvel tignarlegir, en ónytsamlegir, og svo eru það þeir sem finnast þeir einfaldlega asnalegir. Enginn málsmetandi maður hefur þó haldið fram að þeir séu beinlínis skaðlegir, enda gera þeir fátt annað en að vera bleikir og standa saman í hóp á einum fæti út í grunnu vatni.

Klassískur flamingóaismi

Bleiki litur fuglanna hefur reynst vísindamönnum torleyst ráðgáta, en flestir telja þó að roðinn stafi af vandræðagangi þeirra yfir þessu með löppina. Því beindist orka rannsóknahópa fyrst að því að finna ástæður fyrir áráttunni að standa í hóp á einni löpp ofan í grunnu vatni – sem er af mörgum talið óvenjulegt samfélagslegt athæfi.
Lítill árangur hefur fengist með viðtals-aðferðinni, því flamingóar geta ekki talað, greyin, og varð því eftirlits-aðferðin fljótlega ofan á. Með því að horfa mjög lengi á fuglana standa á einni löpp, eins og fyrr getur – ofan í grunnu vatni, töldu sérfræðingar sig geta fullyrt eftirfarandi:
1. þeir vilja ekki bleyta báða fæturna í einu
2. þeir eru ekki nógu stórir til að standa í djúpu vatni, og mundu umsvifalaust drukkna ef þeir reyndu
3. ef krókódíll borðar fót A væri fótur B strax til reiðu til að halda þeim fyrir ofan vatnið
Útskýringum var tekið fagnandi, en efasemdarmenn bentu á að öll gátan væri ekki leyst: Hvað mundi til dæmis gerast ef krókódíll borðaði fót B líka (vissulega mikið til fræðileg spurning), og hvers vegna standa fuglarnir úti í vatni, en ekki á þurru landi, þar sem eru mun færri krókódílar.
Allir vita þó að svona spurningum er ómögulegt að svara, enda hafa þær ekki raskað ró neins áhrifamanns að teljandi marki.

Forsögulegi flamingóinn

Hópur grúskara leitaði á sjöunda áratug síðustu aldar milljarða ára aftur í tímann til að finna skýringu á þeirri áráttu fuglanna að standa í vatni - og hefur vinna þeirra leitt margt forvitnilegt í ljós, reyndar að mestu óskylt upphaflegu spurningunni. Þeir komust meðal annars að því að flamingóinn varð til langt fyrir sköpun jarðar, sumir segja fyrir stóra-hvell, í svokölluðum miðlungs-hvelli þar sem einnig varð til sérkennileg tegund af karlmönnum með hatta sem jafnan eru kallaðir lífs-kúnstnerar. Einnig varð uppi fótur og fit þegar í ljós kom að gríðarstórt nef flamingóa (sem fáir höfðu talið markvert fram að því) var af sama erfðastofni og minnihlutaeigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi. Ekki hefur þó enn tekist að nýta þær upplýsingar í nokkurn skapaðan hlut, frekar en aðrar upplýsingar varðandi þessa dularfullu fuglstegund.

Nýjustu kenningar

Nú hefur það komið á daginn í flúnkunýrri rannsókn, að flamingóar eru þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera þriðja óákveðnasta dýrategund jarðar. Helstu fræðimenn eru alveg bit, enda lenda þessir þeir þar með í flokki með óæðri lífsformum eins og amöbum, þangi og chihuahua hundum. Fuglarnir, sem alþjóðasamfélagið hefur hingað til álitið yfirvegaða tegund með hlutina undir þolanlegri stjórn, virðast hafa lifað af sem dýrategund þrátt fyrir, eða kannski einmitt vegna  þeirra eiginleika að hver fugl aðhefst nákvæmlega það sama og næsti fugl honum við hlið. Þannig hafa líkur verið leiddar að því að einn fugl hafi í árdaga verið rekinn út í grunnt vatn af rándýrum, sterkum vindi eða mjög vondri lykt. Síðan hafi krókódíll étið á honum annan fótinn – og voila - erfðamengi hinna fuglanna krafðist þess að þeir gerðu nákvæmlega það sama. Síðan hafa ármilljónir liðið, ekkert hefur rekið þá á land aftur. Enda hafa menn rifjað upp í kjölfarið, að engin dæmi eru af frumlegri hugsun, frumkvæði eða nýsköpun af hendi flamingóa, sama hversu langt aftur í söguna er leitað.
Aðferðirnar sem notaðar voru afar nýstárlegar, enda fylgir skemmtileg saga af einni tilraunanna þar sem reynt var að varpa hugsanaferli flamingóa á tölvuskjá. Ekki tókst betur til en svo að tölvan þverneitaði að birta annað en beina útsendingu frá bæjarstjórnarfundi í smábænum Sylhet í Bangladess (um 1,3 milljónir íbúa), þar sem rifist var heiftarlega um eitthvað varðandi gosbrunn.

Að lokum

Flamingóar eru dásamleg dýr, sem ættu að vera til á hverju heimili. Þeir fara vel við postulín og geta verið dýrindis standlampi ef á þarf að halda. Þeir eru auðtamdir og neyslugrannir en veita fjölskyldunni gleði og ánægju á víðsálverðum tímum í þjóðfélaginu. Því er ekki auðvelt að fyllast þakklæti og andakt yfir sköpunarverkinu þegar maður lítur í heimskuleg augu þeirra og hugsar til þess að hérna sé þó alla vega einhver kominn sem ekki er hægt að kenna um nokkurn skapaðan hlut.

Kæra atkvæði - erindi til þín frá flokkakerfinu

Nú líður að því að þú leggir lóð þitt á vogarskálarnar, eins og gerist alla jafna einu sinni á fjögurra ára fresti. Ég vil nota tækifærið til að þakka þér þitt síðasta verk 12. maí 2007, og óska þér góðrar hvílda fram á 2013, strax og næsta viðviki er lokið. Ég veit að ég er að vekja þig af værum blundi, það átti ekki að vera þörf fyrir þig fyrr en eftir tvö ár, en því miður hafa nú utanaðkomandi aðstæður þvingað mig til að fá þína vottun á ný. Því langaði mig til að fara yfir málin með og útskýra fyrirkomulagið, sem er hannað til að auka hugarró og valda þér sem minnstu raski.

Síðustu áratugina hef ég þróað og fínslípað aðferðir til að stýra samfélaginu okkar með það að meginmarkmiði að létta þér og þínum lífið. En til að þær virki, þarf ég þó starfsfrið. Til dæmis er augljóst að ég get ekki unnið að velferð þinni ef sífellt eru að koma ný framboð með nýjar meiningar; minnihlutahópar sem ekkert vilja frekar en að rjúfa starfsfriðinn og efna til uppþota. Þess vegna hef ég búið til reglur sem veita mér einu fjármagni - sem gagnast til dæmis í kosningabaráttu við næstu kosningar. Og svo þú missir ekki svefn yfir að ég hafi ekki úr nógu að moða í þessu árferði, get ég róað þig með því að ég skar ekki krónu niður í framlagi til mín sjálfs á fjárlögum. Ég fæ nákvæmlega það sama í ár og í fyrra – 371.500.000 kr. Skar bara oggulítið meira niður í heilbrigðis- og menntamálum í staðinn.

Kerfið virkar þannig að flokkar sem eru í sama liði á hverjum tíma, í stjórn eða stjórnarandstöðu, álíta samstarfsflokka sína góða – en hina vonda. Flokkarnir eru hver um sig sameinuð og sterk rödd, en þar er þó líka pláss fyrir allar skoðanir, þó bara svo lengi sem þær heyrast ekki. Til að halda meðlimum hamingjusömum eru haldnir stórir fundir, fólk skipað í nefndir og ráðið í embætti. Vitanlega er einungis hæfasta fólkið valið, en sérstaklega er passað upp á að ættartengsl og flokkshollusta standi ekki vegi fyrir hæfum embættismannaefnum. Minni spámenn meðal flokksmeðlima fá vingjarnlegt klapp á bakið. Þessu fylgir vitanlega að ég er með mitt fólk í öllum opinberum embættum sem einhverju máli skipta – sem er mjög þægilegt fyrirkomulag fyrir mig. En vitanlega eru það svo aðeins fáir sem taka allar raunverulegar ákvarðanir. Flokksmeðlimir mæna upp til stjórnar flokksins, stjórn flokksins mænir upp til þingmanna hans, þingmenn mæna upp til ráðherra og ráðherrar mæna upp til forsætisráðherra. Hann ræður svo öllu, en auðvitað með vinalegu samráði við forsætisráðherra hins flokksins í stjórn – sem líka er forsætisráðherra, bara tímabundið kallaður öðrum titli til aðgreiningar.

Þannig hef ég komið því fyrir að vinsælasta fólkið innan raða flokkana fær að taka allar ákvarðanir fyrir alla landsmenn. Þeir sem hafa komið sér upp flestum vinum innan síns flokks ráða. Frábært og einfalt kerfi, og fýlupokar sem ekki vilja klappa neinum á bakið eiga enga möguleika að komast að. Því verður flokksstarfið eitt samfellt klapp á bakið, sem gerir það ánægjulegt og upplífgandi. Þar lærum vil líka að klappa mönnum sem eiga peninga á bakið – og bingó – þeir gefa okkur svolítið af peningunum sínum í staðinn. Vinsælasta fólkið fær líka hæstu stöðurnar með hæstu launin og mest völd. Það er alþýðlegt og með þeim hætti er öruggt að æðstu stjórnendur þjóðarinnar hafa í mesta lagi meðalþekkingu á málaflokknum, enda er það undantekning ef viðkomandi hefur viðeigandi menntun að baki. Sannkallaður þverskurður af þjóðinni. Því þarf þetta góða fólk að nota fyrstu árin í embætti til að koma sér inn í hlutina og alls ekki sanngjarnt að ætlast til að það geri neitt að viti fyrr en eftir fimm ár í það minnsta – sem svarar þeim tíma sem það tekur að klára meistaragráðu í háskóla; krafa sem gerð er á nánast alla sem ráðnir eru í stjórnunarstöður í hinum vestræna heimi.

Ég veit hvað þú ert að hugsa núna. Er þetta ekki of mikið álag á þetta aumingja fólk, sem er að bisa við að gera landið okkar að betri stað og þegnana hamingjusamari? Örvæntu ekki. Ég passa að þingmenn og ráðherrar fái eins mikið frí og þeir vilja. Til dæmis fengu þeir þriggja vikna jólafrí fyrir skömmu til að sinna fjölskyldum sínum og hugðarefnum. Þeir fá líka langt sumarfrí og páskafrí og frí til að fara í réttir og alls konar önnur frí sem ekki er sanngjarnt að veita öðru fólki. Ráðherrarnir okkar og þingmenn fá meira að segja svo mikið frí, að margir hverjir eru í öðrum vinnum líka! Til dæmis hafa sumir verið meðfram í fullri vinnu í borgarstjórn, stjórnum fyrirtækja, stjórn stofnana eða svolítilli kennslu. Svo hafa þeir þar að auki nægan tíma til að sinna fjármálaveldi sínu og sinna nánustu ef svo ber undir.

Jæja elsku atkvæði. Afsakaðu aftur ónæðið. Helst vildi ég búa til kerfi sem tryggði að ég þyrfti aldrei að vekja þig. En til er fólk í þessum heimi sem vill koma hlutunum þannig fyrir að ég geti ekki verndað þig. Því vildi ég bara minna þig á að þú ert æðislegt og ég mun veita þér allt – bara að þú fellur fram og tilbiður mig bara einu sinni á fjögurra ára fresti.

Þitt næstu fjögur árin:
Flokkakerfið

Verkalýðsforystan lemur í borðið

Mér var nóg boðið þegar kom upp að bankastarfsmenn, og sér í lagi stjórnendur banka, þurfi nú að fara að greiða lánin sín eins og fólk sem aldrei hefur starfað í banka, og hefur því ekki hugmynd um hversu flókið og mikil ábyrgð það er. Það var nógu slæmt eitt og sér, en þegar grandvar formaður stéttarfélagsins VR (Virðing, Réttlæti), hann Gunnar okkar Páll Pálsson er vændur um að þjóna hagsmunum annarra en hans eigin félagsmanna er mér nóg boðið. Og þó hann þiggi örfáar milljónir fyrir það ómerkilega viðvik að gefa stjórnendum banka og öðrum starfsmönnum eftir sárafáa milljarða í skuldir breytir það ekki því að hér er án nokkurs vafa talsmaður launþega sem ekki má vamm sitt vita.

Þessu til staðfestingar verður að koma fram að Gunnar boðaði trúnaðarmenn VR til fundar við sig með örfárra klukkustunda fyrirvara (það er alger firra að halda því fram að það hafi verið gert til að enginn gæti undirbúið sig) til að sýna þeim fram á að hann sé frábær gæi með allt sitt á þurru. Stjórn VR tók auðvitað vel í röksemdir gæðings síns og endað með því að sú lýðræðislega kosningaraðferð "klapp" var notuð til að samþykkja ályktun fundarins. Svo voru fundarmenn beðnir um að segja ekkert við fjölmiðla - en ekki af því að þeir væru ekki nógu viti bornir til að hafa eigin skoðanir á hlutunum, heldur vegna þess að það var mikilvægt að standa saman. Allir vita að samstaða er mikilvægari en sannleikur - um það verður ekki tekist á hér. 

En mikilvægast er að Gunnar er og verður talsmaður okkar launþega. Hans prívatkjör og setur í ráðum fyrirtækja úti í bæ eru ekki okkar mál og við þurfum að læra að halda okkur á mottunni. Hann var bara að vernda 60 milljarðana sem hann hafði keypt með okkar peningum í fyrirtækinu sem hann sat í stjórn í. Nú er nóg komið af því að leita að sökudólgum; lítum í eigin bar - mundir þú kannski segja nei við 550.000 kr. fyrir að mæta á tvo stutta fundi í mánuði - með fríu gosi?


Elsku drengurinn

Óskaplega er fallegt þegar einn valdamesti maður landsins lýsir áhyggjum yfir þróun réttarríkisins. Ef það er einhver manneskja á þessu landi sem gæti verið persónugerfingur réttarríkisins um þessar mundir væri það sami elsku drengurinn. Hann reynir að hafa áhrif á kjósendur með sínum hætti, andskotar hans með öðrum. Báðir eru löglegir en guð minn góður ef Björn Bjarnason ætlar að fara að kvarta undan siðleysi.

Ef þú þolir ekki hitann elsku vinur, ekki vera þá að þvælast í eldhúsinu. 


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið í eigin barm

Það hefur aldrei neinn kvartað þegar Skandinavíubúar gefa okkur stig í keppninni hingað til. Það hefur verið talað um Skandinavísku klíkuna meira að segja. Elsku vinir. Þetta snýst um kúltúrmun. Ef Íslendingar vilja vinna þurfa þeir að verða ENN (ég veit að það er til mikils mælst) hallærislegri en næsti keppandi. Svo sakar örugglega ekki að melda sig í Varsjárbandalagið... væri það ekki líka gott til að verja landið gegn ágangi vestrænna gilda? 

Austur-Evrópsku gildin eru inn núna. Ride the wave.


mbl.is „Austurblokkin á þetta"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband