Símskeyti - hagfræðilegt tjáningarform

Um daginn voru vinkonur konunnar minnar að kryfja til mergjar eitt það dauðans ómerkilegasta sms sem ég hef nokkru sinni vitað um.

Þannig er nefnilega mál með vexti að ein stúlknanna er einhleyp og stendur í því að tjá sig við náunga (sem væntanlega er pótential uppþvottavél) með hjálp símans síns. Hún hafði skrifað honum einhverja spurningu, sem hann svaraði eins blátt áfram og honum var unt með orðunum "já, sjáumst þá". Bíngó basta. Ekki eitt aukatekið orð í viðbót...

Í veröld þar sem ekki telst til stórtíðinda að jarðskjálfti bani tvöhundruð og súrkál kínverjum þætti manni eðlilegt að skilaboð sem þessi féllu í gleymskunnar dá eins fljótt og hálfvankað þorskígildisgrey skiptir um sílspikaðan sægreifa. En neibbs. Það var eins og stóri hvellur hefði skyndilega verið afsannaður með óyggjandi rökum um að heimurinn hafi orðið til fyrir misskilning í HotSpot safapressu af ódýrustu tegund í ferðabar á leiðinni milli Milwakee og Winnepeg eina síðsumarnótt í febrúar árið 2001. Stúlkurnar voru bergnumdar. "já, sjáumst þá" fékk lækni, sálfræðing, guðfræðing og tónlistarkennara til að gleyma áhyggjum hversdagsins í fleiri klukkutíma. Hverjum einasta steini í hugarfylgsnum þessa unga manns var snúið af mikilli alúð og nákvæmni, hlutverk hans sem vonbiðils mannfræðilega tekið út, félagsþverfaglegar aðstæður ræddar og þetta svo allt sett í heimspekilegt og þekkingarfræðilegt samhengi við allt sem nokkurn tíman hefur dinglað milli eyrnana á nokkrum lifandi manni, fyrr eða síðar.

Ungi maðurinn fékk hiksta.

Sögulok urðu auðvitað þau að vesalings drengurinn hitti ekki stúlkuna sem hann var hálfpartinn að vonast eftir að kynnast. Það hefði verið of augljóst. Til að hægt væri að fá aðgang að þessari tilteknu stúlku þurfti, kom upp úr dúrnum, að gefa skilaboð sem væru ekki jákvæð, ekki beinlínis neikvæð, ekki augljós, ekki hikandi, ekki djörf, ekki feimin, ekki löng, ekki stutt, ekki of frumleg, ekki leiðinleg og ekki ekki ekki (ég þori varla að segja það) - ekki hrein og bein. Það þarf ekki að fjölyrða um hvaða lokameðferð "já, sjáumst þá" fékk í þessari nefnd. Maðurinn var augljóslega fremur vanþroskað illmenni.

Þetta kemur mér að móral sögunnar.

Mórall sögunnar er að aukið aðgengi manna að samskiptatólum hvers konar er ekki til þess fallið að auka fólksfjölda. Það er sem sagt hagfræðilega óæskilegt.

Því legg ég hér með til að miðstjórnin banni svoleiðis hátterni og leyfi fólki héðan í frá einungis að tjá sig skriflega með símskeytum stopp

eða morsi stopp

eða stopp

stopp

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband