Ég vísa þessum dylgjum alfarið á bug

Ekki það hafi nokkurn tíma verið leyndarmál, en um páskana blottuðu Fréttablaðið og Mogginn sig fyrir alþjóð sem anti- og pro-ríkisstjórnarmálgögn. Fréttablaðið spilaði út því snilldarspili að daginn sem Mogginn kom ekki út (laugardaginn fyrir páska), og því alveg ljóst að lesendahópurinn yrði stór - að birta dómsdagsgreinina "Mörg kosningaloforð svikin á tímabilinu" á forsíðu. Þar eru tíunduð 20 kosningaloforð hvors stjórnarflokks, talið upp við hvað ekki var staðið og fjallað sérstaklega um nokkur loforðin. Samkvæmt þessari (fremur óvísindalegu) úttekt stóðu stjórnarflokkarnir aðeins við 17 loforð af 40 - sem sagt 42,5% loforða.

Mogginn birtir hins vegar á Páskadag (þegar Fréttablaðið kemur ekki út) grein um könnun Gallup á síðu fjögur undir fyrirsöginni "Geir nýtur mestra vinsælda" með millifyrirsögninni "Flestir neikvæðir gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu". Það verður þó að teljast vafasöm fyrirsögn þar sem stuðningur við Geir er alls engin frétt í sjálfu sér, og engin breyting frá því sem verið hefur, sérstaklega í ljósi þess að Geir er formaður flokks með yfir 40% fylgi. Hins vegar er athyglivert að sjá að Steingrímur J. Sigfússon (sem er formaður flokks með rétt um 20% fylgi) fær litlu minni stuðning, eða 50,8%. En það sem er verulega fréttnæmt er að Ómar nokkur Ragnarsson, fréttamaður og sprelligosi, fær hvorki meira né minna en 43% "fylgi" í þessari viðhorfsvog! Maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta. Með fullri virðingu fyrir þessum ágæta manni, sem vill öllum og ömmu hans vel, þá er hér um að ræða einstakling sem er nýkominn út úr skápnum sem pólitíkus og náttúruverndarsinni, með þeim fyrirvara þó að hann er annálaður áhugamaður um land og þjóð. En hversu langt það kemur honum í gerð stjórnarsáttmála, umræðum á alþingi um lög gegn barnaklámi eða annari umræðu um fjárlög ársins 2008 verða aðrir að dæma um.

Morgunblaðið birtir þar að auki í sama blaði í því undarlega elementi "Staksteinum" - sem er skrifað af ónafngreindum aðila sem heitir Styrmir - dómsdagsspá yfir forystufólki Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fari kosningarnar á þann veg að ríkisstjórnin haldi velli (eins og einungis ein könnun hefur gefið til kynna sl. mánuði). Ég man ekki eftir slíkri grein um forystumenn stjórnarflokkana, fari kosningar á þann veg sem flestar skoðanakannanir benda til.

Þetta þýðir einfaldlega að fjölmiðlum er valt að treysta. Efnistök þessara tveggja miðla yfir hátíðarnar eru dæmigerðar fyrir það sem á undan hefur gengið og á ekki að koma neinum á óvart. Ef hins vegar eitthvað er að marka efni greinanna sjálfra er niðurstaðan sú að kosningaloforð eru lítils virði og fólk treystir skemmtikröftum jafn vel til stjórnmálastarfa og reyndum pólitíkusum. Hversu æðislegt er það? Það væri reyndar athyglivert að sjá stjórnarsáttmála sem væri skrifaður af Spaugstofumönnum, Tvíhöfða og Strákunum og Stelpunum - með dyggri aðstoð Flosa Ólafssonar og Ómars Ragnarssonar. Kanski mundu þau efna loforðin... bara spurning um hverju þau mundu lofa.

En hverjum er ekki sama um það? Það er alltaf hægt að kenna þenslu, stjórnarandstöðunni, óstöðugu gengi, óstöðugu olíuverði, fáum fiskum í sjónum, hækkandi lyfjaverði, bönkunum (sem koma fólki alltaf gersamlega í opna skjöldu með viðleytni sinni til að græða peninga), veðrinu, landslaginu og bla bla bla bla um. Alla vega er eitt alveg á kristaltæru: Ríkisstjórnin gerir aldrei mistök. En þegar þeir gera mistök, eru það ekki mistök heldur "óviðráðanlegar aðstæður" eða "breyttar forsendur" og öllu saman er "vísað á bug", því það eru augljóslega "dylgjur".

Rosalega er annars langt síðan ég hef vísað einhverju á bug. Geri það hér með. Vísa öllu draslinu á bug.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 446

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband