Nýr staður - dadi.is

Ég hef fært mig yfir á mitt eigið svæði - dadi.is

Bestu kveðjur Daði Ingólfsson


Stjórnlagaþing - einkunnargjöf

Þá eru kosningar til stjórnlagaþings afstaðnar og tími til að gefa aðilum sem komu að málinu einkunn fyrir frammistöðuna. Einkunnir eru gefnar á skalanum 1-10.

Fjölmiðlar: 2

Fjölmiðlar sýndu málinu fádæma áhugaleysi. Mun meiri kraftur hefur farið undanfarið í slúður um kynferðismál presta og íþróttaumfjöllun útlenskra spriklara. Ríkissjónvarpið féll fullkomlega á prófinu. Fyrir utan einn ágætis þátt á fimmtudaginn var ekkert fjallað um stjórnlagaþingskosningar ef frá er talinn þáttur Egils Helgasonar. Útvarpið tók við sér undir lokin, en hafði þó staðið sig sæmilega - í það minnsta sýnt áhuga. Stóru fjölmiðlar fá þessar einkunnir: Fréttablaðið: 2, Stöð 2: núll, Morgunblaðið: núll, Fréttatíminn: núll, DV: 5, Bylgjan: 1. Fjórða valdið er ónýtt.

Stjórnmálaelítan: 1

Enginn alþingismaður / kona gaut svo mikið sem hornauga að málinu. Stjórnarskrárfélagið hélt vikulega fundi síðustu tvo mánuðina og mættu uppundir 100 manns á hvern fund. Þar af voru 0 (núll) alþingismenn. Almennt flokksfólk var álíka fjölmennt á fundina. Áhugi stjórnmálastéttarinnar af stjórnarskrármálum er nánast enginn - þau vita að þau fá tækifæri til að eyðileggja niðurstöður stjórnlagaþingsins fyrr eða síðar. Jóhanna Sigurðardóttir var einna helst spræk í greinarskrifum. Hún fær 1 í sinni viðleytni - aðrir fá núll.

Háskólinn: núll

Það er skemmst frá því að segja að Háskóli Ísland, hvers tilgangur er samkvæmt lögum að "miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar" gerði ekkert (já, ekki nokkurn skapaðan hlut) til að fræða almenning um stjórnarskrármálefni. Skömm Háskóla Íslands er ævarand og það er ljóst að sú stofnun hefur ekki tekið hlutverk sitt alvarlega, hvorki fyrir hrun né eftir. Eftir hrun hélt Háskóli Íslands fyrirlestraröð þar sem starfsmenn skólans kepptust við að benda á hvað aðrir eru vondir í að sinna aðhaldshlutverki sínu. Á aðra háskóla á þessu landi tekur ekki að minnast að öðru leyti en því að stjórnlaganefndin fékk aðstöðu í Bifröst fyrir 1 fund.

Stjórnlaganefnd: 10

Enn sem komið er er stjórnlaganefndin eina apparatið sem hefur staðið sig í þessum prósess, og hefur gert það með láði. Nánast launalausir nefndarmenn (já - stjórnvöld GLEYMDU að gera við þau samning - nefnd sem átti að vinna vinnu sem sparar 50 milljónir í undirbúning og kynningu) hafa staðið sig með einstakri prýði. Þeir hafa keppst við að vinna faglega, koma fram þar sem það hefur átt við, tala stjórnarskrármálefni upp og almennt sýnt af sér stórkostlega ósérhlífni og metnað í hvívetna. Ef fálkaorðan væri ekki orðin skammarverðlaun ætti umsvifalaust að prýða þessu fólki þeirri orðu.

Dómsmála og mannréttindaráðuneytið: 2

Þetta ráðuneyti gerði það sem lög ætluðust til af því, en ekki meir. Þar var enginn metnaður til að veita þessu máli þá athygli sem það á skilið. Það eina sem ráðuneytið gerði sem ekki var beinlínis krafist af þeim í lögum var að búa til virkni á heimasíðu þar sem kjósendur gátu búið til sinn eigin kjörseðil. Slegið var á útréttar hjálparhendur.

 

Og svo er fólk hissa yfir dræmri kjörsókn!


Samtal við Davíð Oddsson um stjórnarskrána

Davíð: Þá er lokið þjóðfundi, þar sem þúsund manns settu saman á einum degi undirbúningslaust það sem á að vera inntakið á nýrri stjórnarskrá. Þjóðfundurinn sat í kringum 100 borð og var því í rauninni líkari velheppnaðri erfidrykkju en fundi, en mikil og almenn ánægja var sögð hafa verið með þetta fyrirkomulag.

Lýður: Já, góð líking. Fólk er einmitt einlægt og gott á erfidrykkju og lítur yfir farinn veg með opnum hug, rétt eins og við þurfum að gera núna - gera upp við fortíðina og horfa fram á við... Maður spyr til dæmis sjálfan sig grundvallarspurninga eins og "hef ég breytt rétt" og "hvað get ég gert betur" og "hvað skil ég eftir mig".

Davíð: Nú hefur enginn getað komið með frambærilega skýringu á því hvaða nauðsyn reki menn til þess að gera sérstaka atlögu að stjórnarskránni einmitt núna.

Lýður: Ha? Atlögu að stjórnarskránni? Já, hún hefur auðvitað öðlast helgisess því hún hefur gagnast okkur svo vel. Verst að það er ekki aaaaalveg farið eftir henni... en það er annað mál.

Davíð: En það er látið liggja í loftinu að það megi með einhvers konar dulrænum hætti kenna stjórnarskránni um að bankakerfið fór á höfuðið á Íslandi. Og því skuli henni breytt í grundvallaratriðum.

Lýður: Ha? Hver hefur gert það? Já, nei - þú meinar að það sé stjórnarskránni að kenna að siðferði stjórnmálamanna hafi farið á hausinn... er það ekki fulllangt gengið? Þeir hafa alveg séð um það sjálfir hjálparlaust er það ekki? Mestu grautarhausarnir halda því meira að segja fram að það þyrfti að breyta stjórnarskránni til þess að hún gæti veitt valdhöfum aðhald. En við vitum að góðir og sterkir valdhafar þurfa ekki aðhald, bara meiri völd. Þá farnast öllum svakavel.

Davíð: Það er ánægjulegt til þess að vita að engin önnur þjóð sem lent hefur í efnahagslegum ógöngum síðustu tvö árin skuli hafa fattað þetta.

Lýður: Það er nú aðallega ánægjulegt til þess að vita að engin önnur þjóð sem flaggar lýðræðisfánum hefur verið jafn óheppin með valdhafa. Hjúkk fyrir það!

Davíð: Ekki verður þó í fljótu bragði séð að þau nýmæli sem kynnt hafa verið að þjóðfundi loknum hefðu af öryggi komið í veg fyrir bankahrun ef þau hefðu verið komin í stjórnarskrána fyrir haustið 2008.

Lýður: Nei, satt er það Davíð minn. Það hefði þurft grundvallarbreytingu í siðferði og vinnubrögð stjórnmálamanna. Skrambinn að það skuli hafa vikið fyrir sérhagsmunapoti og vanhæfni. En svona er lífið, lítið sem við smælingjarnir gátum gert í því.

Davíð: Upplýst hefur verið að þjóðfundurinn vilji að „stjórnarskráin ávarpi þjóðina“, sem er nýung, því hún hefur ekki sagt neitt upphátt svo vitað sé frá 1874.

Lýður: Hahahahahahahahahaha. Ég dey... Þetta er svo fyndið ÞVÍ ÞAÐ ER SATT! Stjórnarskrár geta ekki talað! Það vita allir! Hahahaha. Hm. En hvað sagði hún annars árið 1874? Töluðu stjórnarskrár þá?

Davíð: Það á einnig að skrifa inn í stjórnarskrána að á Íslandi „búi samheldin þjóð“. Það er sniðug hugmynd. Ekkert hefur bent til þess upp á síðkastið að sú fullyrðing sé rétt, en það gæti lagast ef stjórnarskráin segir það.

Lýður: Já - best að skrifa bara ekki neitt í stjórnarskránna sem ekki er hægt að dæma menn í fangelsi eftir. Til dæmis finnst mér þetta mannréttindarugl í henni alger steypa. Og landsdómur! Bjarni Ben SAGÐI að þetta væri úreld og gamaldags lumma. Verst að hann gat aldrei breytt því... því bara þingmenn geta lagt fram frumv... æjá. Æ sleppum því.

Davíð: En má ekki skrifa líka að á Íslandi búi gáfuð þjóð og árétta í annarri málsgrein að hún sé í raun stórgáfuð miðað við höfðatölu? Og svo á að taka fram í stjórnarskrá að allir eigi rétt á atvinnu, og húsnæði. Hver ætlar að vera á móti því? Hvað á svo að gera í framhaldinu þegar einhver missir vinnunna? Fer sá í biðröð hjá nýjum umboðsmanni stjórnarskrárinnar? Eða munu Umboðsmaður Alþingis, Umboðsmaður neytenda, Umboðsmaður skuldara, Umboðsmaður barna og Umboðsmaður hljómsveita ásamt Umboðsmanni stjórnarskrár setjast niður á auka þjóðfund og fjalla um málið og vísa því til sérstakrar rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem rannsaki í leiðinni aðdraganda þess að landhelgin var færð út í 50 mílur?

Lýður: EINMITT! Það sem þjóðin þarf er ekki ný stjórnarskrá með allskonar bulli í. Hún þarf sterkan leiðtoga sem segir henni hvenær hún á að fara í stríð og hvað er gott fyrir börnin og neytendurna - til dæmis stjórnanda sem segði að frjálshyggjan sé í raun hið týnda testament og að allir skuli vera frjálsir til að græða á kvöldin og grilla á nóttunni... eða hvernig sem þetta var nú aftur. Og ALLIR eiga að fylgja honum í blindni því hann er mátturinn og dýrðin að eilífu (eða þangað til allt hrynur - þá er það í raun fjölmiðlafrumvarpinu og vinstri mönnum að kenna) AMEN.

Davíð: Þjóðfundur vill að tekið verði fram í stjórnarskránni að tryggja beri algjört jafnrétti. Hver á að leggja á endanlegan úrskurð um hvenær því sé náð? Jafnframt er tekið fram að í stjórnarskránni eigi sérstaklega að tryggja rétt minnihlutahópa. Þarf það ef áður er búið að tryggja algjört jafnrétti? Og hvað eru minnihlutahópar? Aðeins 1% þjóðarinnar er í Frímúrarareglunni og ekki nema 0,5% í Viðskiptaráði. Á stjórnarskráin að tryggja sérstaklega rétt þeirra umfram til að mynda aldraðra, sem eru um 30 prósent landsmanna eða kvenna sem eru yfir 50%?

Lýður: Nei, vitanlega ekki. Viðskiptaráð á að halda áfram að hafa 100% rétt umfram alla. Annað væri kommúnismi.

Davíð: Meginniðurstaðan virðist vera sú að inn í stjórnarskrána skuli hrúga óskilgreindum óskalistum í veikburða tilraun til að gera landið algjörlega stjórnlaust. Finnst einhverjum að á meðan ríkisstjórn situr undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur þurfi sérstakt átak til að gera landið stjórnlausara en það er?

Lýður: Nákvæmlega. Hefurðu til dæmis lesið þýsku stjórnarskránna? Pældu í því - þeir halda því blákalt fram að reisn mannsins sé eitthvað ægilega fínt og lekkert. Og hver á að ákveða hvað reisn sé? Jóhanna Sigurðardóttir? Nei onei. Það er meira að segja talað um að þýska stjórnarskráin sé sú besta í heimi! Og sú franska! Frelsi, jafnrétti, bræðralag... hvílík endemis þvæla! Amatörar.

Davíð: Tekið er fram að í stjórnarskránni eigi að fyrirskipa að öll verk eigi að byggjast á heiðarleika. Leggja beri áherslu á manngildi og mannvirðingu. Þarf ekki hundrað síðna viðauka til að útskýra hvað menn eru að fara. Af hverju er ekki sagt berum orðum að allir eigi að fara að lögum? Er það kannski vegna þess að það liggur í augum uppi? Og það sem liggur í augum uppi þarf ekki að setja í stjórnarskrá. En fara menn að lögum yfirleitt? Það er stór spurning.

Lýður: Hárrétt. Það fer enginn eftir lögum. Tökum sem dæmi ákvæðið í stjórnarskránni að þingmenn skuli fara eftir eigin sannfæringu. Bull. Þeir fara bara eftir því sem leiðtoginn segir eða því sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Annars væri landið líka stjórnlaust. Þegar ekki einusinni þingmenn geta farið eftir lögum - hví ættu þá venulegir borgarar að gera það?

Davíð: Til þjóðfundarins átti að velja 1.000 manns af handahófi úr þjóðskrá, sagði í lögunum. Var það gert? Það var nefnilega í heimildarleysi ákveðið að þúsund aðalfulltrúar samkvæmt lögum skyldu eiga 4.000 varamenn. Þetta byrjar satt best að segja ekki mjög vel.

Lýður: Það stendur reyndar "Miða skal við að þátttakendur á þjóðfundi verði um eitt þúsund talsins". Það stendur sem sagt að þátttakendurnir eigi að vera 1000 - ekki hversu margir skyldu valdir, eins og þú segir. Það var algerlega lagt stjórnlagaþingnefndinni í hendur hvernig hún fengi þessa þúsund á fundinn - bara að það skyldi gert með slembiúrtaki. Þetta byrjaði því ekki bara vel, heldur endaði vel líka. Hundleiðinlegt mál fyrir þá sem vilja þessu ferli illt.

Davíð: Og svo skal landið verða eitt kjördæmi. Því bankahrunið var auðvitað ekki síst því að kenna að vægi landsbyggðarinnar er örlítið of mikið. Eða er það ekki öruggt? Engin skýring hefur komið fram á því að einmitt nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni.

Lýður: Hver hefur sagt að bankahrunið hafi verið vegna vægi landsbyggðarinnar? Æjá, ég gleymdi að þú ert skáld í hjáverkum. Þau eru svo ægilegir sprelligosar þessi skáld. En þú ert nú lögfræðingur líka er það ekki... Er venjulega talað um að "gera atlögu að" lögum þegar þeim er breytt? Hvað gerðir þú atlögu að mörgum lögum þegar þú varst forsætisráðherra? Bíddu bíddu - stofnaðir þú ekki sjálfur til nefndar undir forystu Jóns Kristjánssonar til að "gera atlögu að" stjórnarskránni? Hvers vegna var það nú aftur? Æjá - því þú vildir breyta stjórnarskránni svo forsetinn gæti ekki verið að vasast með skítugum puttunum í frumvarpi sem þú vildir gera atlögu að. Jæja. Kominn tími til að gera atlögu að kvöldmatnum og leggjast svo í stórsókn við heimilisbókhaldið. Bæó.


Vilja þau þjóðinni vel?

Þingmenn hafa ekki beinlínis staðið sig stórkostlega í því undarlega verkefni að "auka virðingu alþingis". Þeir hafa algerlega sannað það að þeim er öldungis skítsama um þjóðina, skítsama um hvernig fer fyrir aumingjum þessa lands og skítsama um framtíð þeirra sem landið byggja. Þeim er með öðrum orðum skítsama um allt nema eigin rass. Þetta hefur ekki breyst frá því að ég man eftir mér, og þó er yfirstaðin hrun og bylting, enduruppgjör, skýrsla, önnur skýrsla og heimsmet í klagi - því hvað er það annað en að klaga þegar hver bendir á annan og enginn kannast við ábyrgð? Svo segja þau (ennþá): það hefur ekkert upp á sig að rannsaka meira, við skulum setja punkt og halda áfram, kvótakerfið - flott kerfi mar, herflugvélar - auðvitað, annað væri atvinnufjandsamlegt, virkjanir - útilokum ekkert... bla bla bla. 

Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu - auðvitað, niðurskurður í félagslega kerfinu - auðvitað, hækka verð á raforku til álvera - ekki vera barnaleg, leyniframlög til stjórnmálaflokka - já já já, þjóðaratkvæðagreiðslur - nei nei nei, persónukjör - enga vitleysu, nýja stjórnarskrá - hmmm ekki nema fjársvelt og í tímaskorti svo við getum pillað við það eftir á, afnám óréttlátra eftirlauna - NEI, lögsækja vanhæfa ráðherra - bara úr hinum flokkunum, endurskoða þingsköp - já (og okkur er alveg treystandi til þess og munum geta þess í hátíðarræðum hvað við erum frábær), hækka skólagjöld - jessss, sameina háskóla - neineinei (það mundi einhver missa bitling), ráða vini sína í embætti - vitanlega, taka málstað skuldara - fokk jú.

Og svo situr Sjálfstæðisstóðið og þegir í fyrsta sinn í tuttugu ár. Allt í einu steinheldur það sér saman - og fylgið eykst og eykst. Ef maður missti orðið félagsleg ábyrgð úr sér fyrir þremur árum síðan safnaðist umsvifalaust SUS, Heimdallur og alls konar óværa í kringum mann og gelti, beit og gólaði. Nú hafa þeir vit á því að þegja - og lýðurinn snýst á sveif með þeim. Skrýtið - nei. Ekki ef miðað er við hvað snillingarnir í ríkisstjórninni láta úr sér á hverjum einasta degi. Tussufínt? Nei. Þeir geta bara hoppað upp í rassgatið á sér - þeir gerðu meira gagn þar alla vega. Og nú ofan í allt saman mæta til vinnu styrkjakóngur og afskriftadrottning eins og ekkert hafi í skorist og svo tala þeir um virðingu alþingis?!? Þau eru nefnilega að fara að vinna að hag þjóðar sinnar. Hvers konar eiginleg bíó er þetta? Sannsöguleg gamanhryllingsmynd?

Svo segja þau þegar hætta er á að dæma eigi drykkjufélaga þeirra á þingi að lögin séu bara vond. Hvað í andskotanum voru þau þá að gera á þingi fram að því? Byggja upp heilbrigt þjóðfélag? Nei. Hver mundi hlusta á innbrotsþjóf sem segði að lögin um eignarrétt séu bara gömul og úrelt? Samband íslenskra innbrotsþjófa? Nei - það er bara hlægilegt, svoleiðis glæpasamtök eru ekki til - en flokkakerfið er orðið að glæpasamtökum með þessum gerningi og það heldur verndarhendi yfir sínum félögum. Og á meðan á þessu stendur eigum við hin að treysta á að þau séu að vinna í okkar þágu! Hvílíkt allsherjar djöfulsins grín!

Nú byrjar enn ein morfískeppnin á alþingi, að því virðist til að vanvirða vinnuveitendur þingmanna og veiða ódýr atkvæði frá þeim fíflum sem alþingismenn halda að almennur borgari í þessu landi sé. Nú er allt í einu ægilega mikilvægt að hlúa að mannréttindum þeirra ráðherra sem stendur til að kæra, en ekkert er minnst á brot á mannréttindum sem er innifalið í kvótakerfinu, og þegar er búið að dæma íslenska ríkið fyrir. Þingmenn allsherjarnefndar "gleymdu" til dæmis að minnast á að það þyrfti að vera mannréttindakafli í nýju stjórnarskránni - kafli sem er #1 í öllum betri nýjum stjórnarskrám. En nú er það svakalega mikilvægt að troða ekki á mannréttindum þeirra sem settu landið í drullusvaðið og lugu alla leiðina í púltið, lugu í púltinu og lugu í sjónvarpsviðtalinu eftir á. Buhuhu. Aumingja eftirlaunasjálftökupakkið. 

Svo er gerð ægilega fín breyting í ráðherrastóðinu. Þessi fer hingað, hinn fer þangað, allir faglegir eru reknir og við sitjum enn einu sinni uppi með fólk sem er algerlega ómenntað hvert í sínu fagráðuneyti sem æðsta vald landsins og fjölmiðlar spyrja ekki í eitt einasta skipti hver fagleg ástæða var fyrir ráðningu þessa fólks sem yfirmanna! Það er ekki nema von að gloríurnar hrannast upp hver af annari - það er að segja það sem ekki er Haarderað. Rosalega hlýtur þetta fólk að hlæja í hvert skipti sem það fær útborgað. Ég er kominn með nóg af þessu. Aftur. Hvað þarf til núna til að þessir starfsmenn okkar fari að haga sér eins og fólk í siðuðu þjóðfélagi? Af hverju getur það ekki bara komið eðlilega og heiðarlega fram? Til hvers eru allir þessir frasar? Fyrir hvað heldur það að það fái borgað? 

Fyrirsögn þessarar greinar er "Vilja þau þjóðinni vel?" - Ég veit hvert mitt svar er.  Ég vil reka þetta fólk og fá heiðarlegt, óflokksbundið fólk í staðinn sem þarf ekki að verja gamlar syndir pólitíkusa sem kenndu þeim öll trixin í bókinni. Ég vil að bókinni sé grýtt út í hafsauga og byrja algerlega frá grunni:

"Einu sinni var hnípin þjóð í vanda..."


Lægstvirtir stjórnlagaþingmenn

Jæja. Nú er komið að stóru stundinni. Það á að kjósa á stjórnlagaþing það fólk sem er besti samnefnari fyrir þjóðina til að búa til nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrst á að finna þverskurð af þjóðinni (eitt þúsund enni), sem eiga að sleppa af sér beislinu og skila undirstöðum nýrrar stjórnarskrár til stjórnlagaþingsins góða, sem kosið verður seint í nóvember. Það er gott. Knappur tími, en gott.

18. október næstkomandi rennur út frestur til að bjóða fram til þingsins - það er, að safna 30-50 undirskriftum meðmælenda og skila til landskjörstjórnar ásamt yfirlýsingu um framboð. Hljómar ákaflega einfalt, næstum því of gott til að vera satt: Ef þú vilt bjóða þig fram þarftu bara að safna örfáum undirskriftum og voila - þú ert kandídat til að breyta grunnlögum Íslendinga. 

En bíðum nú aðeins við - athugum málið örlítið betur. Hverjir eru það sem geta raunverulega boðið sig fram? Það er, þegar betur er að gáð, ýmislegt sem ekki stenst æpandi ofbirtu hins raunverulega heims þegar maður opnar Pandóruboxið. Skoðum fyrst hverjir komast, og útilokum svo smá saman þá sem ekki af einhverjum ástæðum geta látið slag standa - við hljótum þá að enda með þá sem raunverulega bjóða sig fram.

Hinir útvöldu

Fyrst skal það tekið skýrt fram fyrir húmorslausa að stærðfræðin hér fyrir neðan er vond. MJÖG vond.

Allavega. 

Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing mega allir sem eru kjörgengir til Alþingis bjóða sig fram, ef frá eru taldir "Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd". Jæja, allir nema 137 stk.  

  • Það gera 227.896 - 137 = 227.759 manns (miðað við kjörgengi í síðustu alþingiskosningum)

Eitt er fjarskalega óheppilegt við þetta allt saman, en tími þingsins er frekar óræður. Samkvæmt lögunum á þingið að starfa í tvo mánuði, en getur fengið tvo mánuði í viðbót, sá það þægt. Flestum ber reyndar saman um að tveir mánuðir er býsna stuttur tími til að berja saman stjórnarskrá og því er nokkuð öruggt að gera ráð fyrir fjórum mánuðum. Það breytir því hins vegar ekki að venjulegur launamaður á afar erfitt að fara til yfirmanns síns og biðja um frí í tvo til fjóra mánuði sisona. Segjum að helmingur launamanna hrjósi hugur við þessu því þeir a) óttast um starf sitt eða b) vilja ekki stökkva burt frá ábyrgð af skyldurækni. (Þar missum við þá launamenn sem eru sérstaklega skylduræknir)

  • það gera þá 227.759 - 167.800 / 2 = 143.859 manns (miðað við vinnuafl á landinu árið 2009)

 Nú eru þeir sem persónulegra haga sinna vegna geta ekki tekið þátt. Það á auðvitað sérstaklega við úti á landi þar sem stjórnlagaþinginu mun ætlaður staður á höfuðborgarsvæðinu eftir því sem fregnir herma. Þetta getur verið út af börnum, kúm eða kindum eða einhverju allt öðru, en það er nokkuð ljóst að ábyrgðarfullt fólk rýkur ekki bara af stað í tvo til fjóra mánuði eftir því sem vindar blása og skilur eftir sig sviðna jörð. Ég geri ráð fyrir að það sé um fjórðungur kjörgengra sem svona er ástatt fyrir, en hefur aðstöðu að öðru leyti. (Þar missum við ábyrgðarfulla fólkið).

  • Það gerir 143.859 - 227.759 / 4 = 86.919 manns 

Svo eru það greyin sem ekki hafa nennu né geð til að fara í skítabransann pólitík. Hvorki verður sagt um kosningabaráttu né opinbert skítkastleyfi á kjörna fulltrúa hvers konar sé sjarmerandi upphafspunktur fyrir að vilja vinna þjóðþrifaverk. Það eru ekki margir sem hreinlega hafa geð í þennan ljóta bransa, og ég ætla að vera djarfur og segja að innan við 5% Íslendinga sem láta hafa sig út í þá vitleysu. Þeir ábyrgðarfullu og skylduræknu hér að ofan eru örugglega nánast allir í hinum 95 prósentunum, þannig að ég sker ekki jafnmikið niður í fjöldanum og ég hefði viljað... en duglega þó.

  • Það gerir 86.919 - 80% = 17.384 manns

Þá er komið að stóra niðurskurðinum. Neðst í 8. grein lagananna segir að "Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu má að hámarki nema 2 millj. kr." Þetta þýðir að sá sem ekki á tvær milljónir til að eyða í framboð - og sá sem ekki á sterka fjárhagslega bakjarla (svokallaða hagsmunaaðila, sbr. FL group og Landsbankann þegar ballið var að ná þannig hæðum að ALLIR fóru heim með sætustu stelpunni) á mun minni möguleika, og þar með ólíklegra að viðkomandi bjóði sig fram. Rýnum aðeins í tölurnar. Stjórnlagaþingmenn verða á þingfararkaupi: kr. 520.000. Það er ca. kr. 375.000 eftir skatta. Þetta þýðir að til að vinna upp tapið - 2.000.000 kr. Þarf frambjóðandinn (nái hann kjöri yfirleitt) að vinna í meira en 5 mánuði til að standa á sléttu. En sennilega nokkur ár til að ná upp í mannsæmandi laun að meðaltali... sem er ekki í boði. Hver vill leggja 2.000.000 af eigin peningum að veði að ná kjöri? Ekki margir, og spurning hvort svoleiðis áhættufíklar séu þær týpur sem eigi erindi á þingið. Þá eru eftir þeir sem ætla að auglýsa sig ókeypis og treysta á hlutlausa úttekt fjölmiðlanna (sem er býsna hugrökk hugmynd) og þeir sem hafa hagsmunaaðila á bak við sig.

Ég geri ráð fyrir svakalegum niðurskurði hér, því fáir eiga 2.000.000 til að eyða í veðmál sem er öruggt að þeir tapi á, fáir (en flottir) eiga aðgang að "bakjörlum sem hafa trú á þeim og fyrir hvað þeir standa" og fáir gera sér þá grillu um að komast að með ókeypis auglýsingum. 

  • Það gera 17.384 - 90% = 1.738 manns (gert er ráð fyrir að þeir ábyrgðarfullu, skylduræknu og þeir með pólitískt antípat séu undanskildir frá byrjun)

Þá er eftir að útiloka þá sem alls engan áhuga á að fara í þessa vinnu. Það er mjög stór meirihluti þjóðarinnar miðað við áhugann sem þessum málaflokki er sýndur. Undirritaður hefur verið með í nánast öllum umræðum, þingum og opinberum skoðanaskiptum um þetta mál, og þar er býsna fáliðaður bekkurinn að öllu jöfnu. Myndast hafa nokkrir hópar stjórnarskrárnörda hér og þar sem hópa sig saman í mismunandi veðrum og gapa hver ofan í annan, en tala þessa fólks fer ekki yfir 100 - og fáir þeirra ætla að bjóða sig fram af ofantöldum ástæðum. Með því er ég ekki að segja að það séu einungis 100 manns sem hafa áhuga á málinu, heldur einungis að verkefnið er óvinsælt með endemum af einhverjum ástæðum. Kráareigandi væri dapur með minni aðsókn að barnum sínum en 100 manns, ef hann hefði stórskjá og það væri merkilegur knattspyrnuleikur í beinni.

Það gera 1.738 - 95% = 87 manns 

Verði ykkur að góðu. 

Þverskurður af þjóðinni 

Það verða sem sagt þeir ábyrgðarlausu, lítt skylduræknu, pólitískt beiða, með stórt og blakandi nef fyrir styrkjum og af einhverjum ástæðum svakalegan áhuga á stjórnarskránni sem munu bjóða sig fram. Jú og þeir sem geta verið á launum á meðan, svo sem háskólafólk á rannsóknarstyrkjum, embættismenn sem hafa verið ráðnir pólitískt og auðmenn sem leiðist.  Svo skal ekki gleyma þeim sem munu koma inn á flokkspólitískum forsendum og treysta á umbun í formi embætta og bitlinga í framtíðinni - og vilja þar af leiðandi ekki breyta neinu í stjórnarskránni. Fróðleg útkoma úr þeirri samkomu.

Já og svo verður einn og einn ódrepandi hugsjónamaður.

Þið munið þekkja þá - þeir verða með leiðindi og tala um þrískiptingu valds og þjóðaratkvæðagreiðslur. Ekkert sjónvarpsefni. 

Ég fyllist andakt og brjóstið blæst út þegar ég segi: Þetta er stærsta tækifæri sem Íslendingar munu nokkurn tíman sjá til að laga kerfið að sínum hagsmunum í stað hagsmuna kerfisins og kerfiskallanna.

Svo fer bara úr mér allur vindur. 


Stjórnlagaþing - líka fyrir fjölmiðla

Síðastliðinn laugardag var haldið málþing í Skálholti um efnið "Hvernig verður góð stjórnarskrá til?". Þar var mætt valinkunnugt sómafólk sem ekki hefur verið hægt að berja áhugann á nýrri stjórnarskrá úr ennþá. Haldin voru fróðleg erindi og unnið í hópum þess á milli. Mættust þar lærðir og leikir, ungir og ungir í anda til að auka skilning sinn á fyrirbærinu og ekki síður til að leggja sitt á vogarskálarnar í umræðunni. Til að gera langa sögu stutta voru þarna komið einvala lið stjórnarskrárnörda í stórfenglegri umgjörð Skálholts á yndislegum haustdegi til að bítta.

Hópavinnan var svo með endemum áhugaverð að undirritaður skráði sig í tvo hópa af fjórum, en endaði svo með að vera í hinum tveimur. Umræðuefnin í hópavinnunni voru eftirfarandi:

  1. Hvernig nýtum við reynslu annarra þjóða?
  2. Samráð við þjóðina
  3. Getur stjórnarskrá breytt pólitísku siðferði?
  4. Rammi um innihald stjórnarskrár

Allt afar mikilvæg umræðuefni og því fór fjarri að nokkur hlutur hafi verið ræddur í botn. Umræðuefnin eru enda bæði óteljandi innan þessara flokka, og hvert og eitt í sjálfu sér þar að auki tilefni til sérstaks þings. Fyrir nú utan alla þá flokka sem ekki voru ræddir. Það var sérstaklega áhugavert að innihald stjórnarskrárinnarn tilvonandi var nánast ekkert rædd. Heldur einungis ramminn utan um hana, hvernig staðið ætti að gerð hennar og hverju hún gæti hugsanlega áorkarð. 

Eftir fundinn fóru hópstjórar yfir niðurstöður hópana, og það var fyrst þá sem maður áttaði sig á fáránlegu umfangi umræðuefnisins. Það tók hópstjórana klukkustund að romsa á ógnarhraða úr sér helstu punktunum sem höfðu komið upp, slepptu nauðugir mörgu og afsökuðu lítilræðið, eins og kellingin sem bara bauð upp á sautján hnallþórur með kaffinu. Að því loknu dró formaður stjórnlagaþingsnefndarinnar ályktun af þinginu og svo sleit rektor þessu þingi, enda var farið að rjúka svoleiðis upp úr hausunum á spekingum samkomunnar að ólíft þótti innivið. 

Nú er kannski ekki sérlega áhugavert að telja upp nöfn þeirra sem mættu - þeir vita það sem þar voru, og mun það nóg. Hitt er aftur vænna að íhuga hverjir það voru sem ekki mættu, og mun ég gera mér mat úr því hér, en tek fram að þegar ég skrifa hér orðið maður, þá á ég við bæði kynin, geng sem sagt út frá því að konur séu menn:

  • Enginn þingmaður
  • Sár skortur á fjölmiðlamönnum
  • Enginn úr ungliðahreyfingu stjórnmálaafls
  • Enginn með framavonir í hinum svokallaða fjórflokki (Ragna Árnadóttir er góðfúslega undanskilin þessari skilgreiningu)

Ekki það að ég saknaði stjórnmálamanna eða -kandídata sérstaklega - tel reyndar að þeir væru óæskilegt kompaní í þessari umræðu þar sem umræðuefnið er núverandi eða verðandi valdastrúktúr þeirra sjálfra. En áhugaleysi þeirra er hins vegar sláandi - sérstaklega þar sem ég veit að póstur til kynningar á málinu var sendur öllum þingmönnum - innan frá þinginu sjálfu.

Áhugaleysi fjölmiðla og fjölmiðlafólks er líka sorglegt. Ég vona heitt að þetta gefi ekki vísbendingar um þá umræðu sem verður um þjóðfundinn og stjórnlagaþingið, hvað þá stjórnarskrárbreytingarnar sjálfar eða þjóðaratkvæðagreiðslu þar um - en það fer alla vega ekki mikið pláss í þessi mál eins og stendur. Það væri hrikalegt ef þetta mál yrði kæft í kjaftæði um keisarans skegg í fjölmiðlum og æsispennandi kosningabaráttu, sem snérist um hvort þessi eða hin sjónvarpsþulan eða líkamsræktarfrömuðurinn kæmist á þingið... en hættan er vissulega til staðar í þjóðfélagi þar sem litlir fjármunir eru til vandaðrar fréttamennsku, og fréttamenn þar að auki nánast undantekningalaust undir fallöxi trúverðugleika miðilsins sem þeir vinna hjá, hvort sem það er verðskuldað eða ekki.

Til að ný stjórnarskrá sem Íslendingar geta verið stoltir af verði til þarf vandaða umfjöllun. Fjölmiðlar bera gríðarlega ábyrgð hér. Það má ekki vera áhlaupsverkefni í eitthvað slot í fréttatíma fyrir ofhlaðna fréttamenn, heldur vönduð umfjöllun manna sem hafa kafað ofan í málið og skoðað frá öllum sjónarhornum. Það var það sem málþingið í Skálholti bauð upp á, og það var tækifæri sem fjölmiðlarnir misstu af. 

Það er því mín einlæg von að framhald verði af þessum fundi í Skálholtsskóla, og að sem flestir sjái tækifæri í að nýta sér það - ekki sér sjálfum til yndisauka, dægrarstyttingar eða framdráttar, heldur til að leggja í púkkið og stuðla að því að auka meðvitund landans í framhaldinu á málinu sem öllu skiptir í framtíð þjóðarinnar.


Hverju breytir ný stjórnarskrá? 3/3

 

Ný íslensk stjórnarskrá breytir öllu

Eftirlætis röksemd þeirra sem ekki vilja endurskoða stjórnarskránna nú um daga er að önnur stjórnarskrá hefði engu breytt um hrunið, enda hefði engum dottið í hug í miðjum ósköpunum að breyta henni eða kenna henni um. Þetta er býsna áhugavert viðhorf og endurspeglar þann núllstatus sem stjórnarskráin hefur í hugum fólks hér á landi, alla vega í vissum kreðsum.

Það má hins vegar til sanns vegar færa að önnur stjórnarskrá hefði engu breytt, það er að segja ef ekki hefði verið farið eftir henni - rétt eins og ekki er farið eftir núverandi stjórnarskrá eins og ég fór yfir í fyrstu grein í þessum flokki. Það er því tvennt sem þarf til - nýja stjórnarskrá og vilja til að fara eftir henni, eins og farið var í í grein númer tvö.

Í fyrsta lagi: Hvað er stjórnarskrá?

Í Danmörku er stjórnarskráin kölluð "Grundlov" - grunnlög eða grundvallarlög, sem endurspeglar býsna vel vægi þessara laga: Þetta eru lög sem eru grundvöllur allra annarra laga landsins. Í þröngum skilningi orðsins "lög" væri hægt að ímynda sér að verið sé að tala um eitthvað sem er auðskiljanlegt og í hendi, jafnvel illtúlkanlegt, en þegar stjórnarskrár annarra landa eru lesnar rekur maður sig fljótlega á það að hér hangir meira á spýtunni. Þar er fjallað um réttindi og skyldur borgara, mannréttindi, hamingju, spillingu, neyðaráætlanir, jafnræði, trúarbrögð, hjónabönd, tjáningarfrelsi, menntun osfrv. osfrv. Margt sem ekkert hefur með stjórnsýslu að gera, heldur lífið sem borgarar landsins lifa. Í sem stystu máli mætti segja að stjórnarskrá eigi að snúast um upplifun borgaranna og daglegt líf, en ekki upplifun lögfræðinga og stjórnvalda af borgurum og hvernig á að deila völdum til að meðhöndla þá. Þegar Ísland eignast svoleiðis stjórnarskrá, þá verður farið eftir henni, og þá getur hún breytt þjóðfélaginu.

Það er nota bene ekki einungis um grundvallarlöggjöf að ræða, heldur grundvöll þess siðferðis sem við viljum lifa eftir og grunnhugsun þess þjóðfélags sem við viljum vera hluti af. Lög- og stjórnskipunarfræði eru góðra gjalda verð - en þær fræðigreinar eru einskis virði fyrir þjóð sem ekki veit eftir hvaða gildum hún ætlar að lifa eftir. Frelsi, jafnrétti og bræðralag eru grunngildi frönsku þjóðarinnar og þau eiga sinn heiðursstað í stjórnarskrá þeirra. Íslendingar þurfa einnig að endurspegla sjálfsmynd sína og þau manngildi sem þeir telja eftirsóknarverð á jafnkraftmikinn hátt og byggja nýtt þjóðfélag á þeim grunni. Það eru hin raunverulegu grundvallarlög.

Stjórnlagaþingfrumvarp setur falskan tón

Texti er aldrei saminn í tómarúmi, hvort sem það er ný stjórnarskrá, lög um stjórnlagaþing, skáldsaga eða hvaða annar texti sem er. Texti er saminn í samfélagslegu og hugmyndafræðilegu samhengi. Þýska stjórnarskráin, svo dæmi sé tekið, var samin að lokinni síðari heimstyrjöldinni. Andrúmsloftið á þeim stað og tíma endurspeglaði nánast fullkomið niðurbrot mannsandans í þjóðfélagi sem þurfti að vinna sig út úr einu mesta óréttlætisástandi sem veröldin hefur kynnst. Enda eru upphafsorðin þessi: "Die Würde des Menschen ist unantastbar. Sie zu achten und zu schützen ist Verpflichtung aller staatlichen Gewalt. Þýðingin gæti væri einhvern vegin svona: Mannleg reisn er friðhelg. Skylda alls ríkisvaldsins skal vera að virða hana og vernda. Þetta væru verðug byrjunarorð í öllum stjórnarskrám heimsins. 

Í okkar tilfelli er verið að semja stjórnarskrá í andrúmslofti tortryggni og vantrúar á stjórnmál og stjórnmálamenn. Það endurspeglast, eins og gefur að skilja, í lögum til stjórnlagaþings sem til stendur að vinna nýja stjórnarskrá eftir. Í lögunum eru sérstaklega til tekin átta atriði sem stjórnlagaþingið á að taka til umfjöllunar. Ekkert þeirra hefur með mannlega reisn eða mannréttindi yfir höfuð að gera, heldur er stjórnskipulag og valddreifing þar í algeru aðalhlutverki (sjá 3 gr. laga til stjórnlagaþings). Það liggur í augum uppi að ný stjórnarskrá verður að innihalda atriði eins og "Undirstöður íslenskar stjórnskipunar", "Skipan löggjafarvalds og framkvæmdavalds…" og ákvæði um sjálfstæði dómstóla - það er að segja að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins, en að þessu slepptu er fátt sem stjórnlagaþinginu er lagt fyrir af lögunum að dæma - ef frá eru talin utanríkismál og auðlindamál (sem var bætt við á síðari stigum frumvarpsins).

Þessar hálfneyðarlegu eyður í lögunum eru í sjálfu sér ekki mikilvægar fyrir stjórnlagaþingið - því það ræður sér auðvitað sjálft ef það kýs að ráða sér sjálft og getur haft allt þetta inni í nýrri stjórnarskrá, en það er góð áminning fyrir verðandi stjórnlagaþingmenn því stjórnlagaþingfrumvarpið endurspeglar einungis ástandið í þjóðfélaginu eins og það er núna, en ekki það sem þarf að standa í grundvallarlögum sem mun þjóna okkur, börnum okkar og barnabörnum og öllum þeim sem kjósa að lifa á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Þó að þýska stjórnarskráin sé af mörgum talin sú besta sem hefur verið skrifuð er hún afsprengi aðstæðna, og enn ein ofvirk viðbrögðin við hruninu er ekki það sem íslenska þjóðin þarf á að halda núna. Við þurfum bestu stjórnarskrá sem hægt er að semja fyrir okkar sérstaka land og landsmenn til framtíðar.

En hverju getur þá ný stjórnarskrá breytt?

Hvers virði væri ný Íslensk stjórnarskrá sem allir Íslendingar geta samsamað sig með? Hún eyðir ekki uppsafnaðri tortryggni til margra ára á einum degi. Hún þurkar ekki á augabragði upp afleiðingar vanhæfni þeirra sem komu okkur í þá vondu stöðu sem við erum í nú eða menntar þjóðina betur eða setur fleiri lærisneiðar í ískápinn eða stærri fiska í sjóinn. Hún gæti hins vegar verið byrjunin á því að Íslendingar uppgötvi sjálfa sig sem þjóð án þess að grípa til óyndisúrræða sem jafnan er gert í hátíðarræðum þegar digrir embættisbarítónar veina ræður í míkrófóna um sterku, fallegu bókaþjóðina sem skarar framúr öllum öðrum þjóðum á langflestum sviðum, að því gefnu að miðað sé við höfuðtölu. Hún getur tryggt mannréttindi, lýðræði og góða stjórnarhætti, jöfnuð, frelsi og tækifæri. Hún getur sagt okkur hver við erum og hvert við viljum stefna. Hún getur verið okkar sköpun og sköpunarverk. Hún getur verið við sjálf eins og við viljum sjálf vera.

Ef þetta tekst - þá getur hún breytt öllu sem einhvers virði er að breyta.

 


Stjórnarskrá - spurningar í MindMap

Hér er að fyrir neðan má finna niðurstöður mini-þjóðfundarins um stjórnarskránna sem haldin var fyrr á þessu ári. Hér hefur Þorgils Völundarson þær dregnar saman í MindMap form sem auðvelt er að átta sig á.

Fyrstu tvær myndirnar eru sérstaklega áhugaverðar, því þar er ekki farið í innihald stjórnarskrárinnar, heldur anda hennar og stíl, sem er ótrúlega mikilvægur þáttur.

thjodfundur-nidurstodur_Page_1web

thjodfundur-nidurstodur_Page_2web

 

thjodfundur-nidurstodur_Page_3web

thjodfundur-nidurstodur_Page_4web

thjodfundur-nidurstodur_Page_5web

thjodfundur-nidurstodur_Page_6web

 

thjodfundur-nidurstodur_Page_7web

thjodfundur-nidurstodur_Page_8web

thjodfundur-nidurstodur_Page_9web

 


Spurningar úr þjóðfundi um stjórnlagaþing

Tilraun til stjórnlagaþings fór fram fyrr á þessu ári. Þátttakendur voru um 50 manns, flestir áhugamenn um nýja Íslenska stjórnarskrá. Markmiðið með fundinum var að athuga hvernig þetta form hentaði þessu umfjöllunarefni, og ég held að flestir hafi verið sammála um að vel hafi tekist til og margt lærst. 

Eitt af aðalatriðunum var að fá ekki svör um hvað ætti að vera í stjórnarskránni, heldur spurningar sem þyrfti að svara áður en eða á meðan á vinnu stjórnarskrárinnar hæfist. Hér eru þær spurningar útlistaðar, en það skal bæði tekið fram að ekki er nándar nærri um tæmandi lista að ræða, heldur aðeins sýnishorn af hvað svona fundur gæti skilað, og að þetta var lokaafurð fundarins, en til að komast að þessum spurningum var farið í gegnum áhugaverðan feril sem skildi eftir sig mikið efni, sem ekki kemur hér fram.

Það er mín von, sem og annarra skipuleggjenda þessa viðburðar, að þessi gögn geti hjálpað, og að reynsla okkar og þeirra sem viðstaddir voru verði til gagns. 

 

Verklag

  1. Á stjórnarskráin að vera – og hvernig má þá tryggja:
    1. Á mannamáli
    2. Ótvíræð
    3. Sveigjanleg
    4. Tímalaus
    5. Tæmandi

Almennt

  1. Þarf að taka fullveldi sérstaklega fram?
  2. Hvert er hlutverk stjórnarskrárinnar?
  3. Hvað er stjórnarskráin?
    1. Samfélagssáttmáli?
    2. Stjórnskipunarrit?
  4. Hver er stjórnarskrárgjafi?
    1. Þjóðin
    2. Alþingi
    3. Dómstólar
  5. Hvert er hlutverk stjórnarskrárinnar?
    1. Vera rammi utan um löggjöf
    2. Stjórnskipun
    3. Tryggja réttindi
    4. Annað
  6. Hvernig tengist stjórnarskráin alþjóðlegum skuldbindingum?
  7. Hvernig er hægt að tryggja almenna þekkingu á stjórnarskránni?
  8. Þarf að setja reglur um starfsemi stjórnmálaflokka og hagsmunafélaga?

Grunngildi

  1. Á skilgreining hugtaka heima í stjórnarskránni eða vera viðhengi við hana?
  2. Á að festa og þá hvernig Hvernig festum við grunngildin í stjórnarskrá?

Vald

  1. Hvaða stjórnarfyrirkomulag á að vera?
    1. Fulltrúalýðræði?
    2. Forseta?
    3. Einræði?
    4. Beint lýðræði?
    5. Annað?
  2. Hvernig er „vald“ kosið / valið / ráðið?
  3. Þarf að skilgreina í stjórnarskrá fyrir valdaaðila hverjar eru:
    1. Réttindi
    2. Skyldur
    3. Ábyrgðir
    4. Markmið
    5. Takmarkanir

Þjóðhöfðingi

  1. Þarf þjóðhöfðingja?
    1. Hvernig?
    2. Nefnd?
    3. Einstakling?
  2. Hvernig á að velja þjóðhöfðingja?
    1. Með beinni kosningu?
    2. Löggjafarvaldið?
    3. Framkvæmdavaldið?
    4. Dómsvaldið?
    5. Annað?
  3. Hvert á valdssvið þjóðhöfðingja að vera?

Öryggisventlar

  1. Á að vera möguleiki fyrir neyðarrétt þjóðarinnar?
  2. Hver er réttur einstaklinga gagnvart meirihluta?

Lýðræði

  1. Á að tilgreina aðferð við kosningar, svo sem að leyfa rafrænar kosningar?
  2. Hvernig tryggjum við vald fólksins?
  3. Hverjir eiga að hafa kosningarétt?

Kosningar

Ef á að kjósa…

  1. Á kjördæmaskipting yfirleitt heima í stjórnarskrá?
    1. Ef svo er, hvernig á kjördæmaskipan að vera?
      1. i.      Á landið að vera eitt kjördæmi?
  2. Hversu margir fulltrúar eiga að sitja á Alþingi?
  3. Hve langt á kjörtímabilið að vera?
  4. Á vægi atkvæða að vera jafnt?
  5. Á að leyfa persónukjör og má það vera þvert á flokka?

Þjóðaratkvæðagreiðslur

  1. Í hvaða tilfellum á að halda þjóðaratkvæðagreiðslur?
    1. Alþingi ákveður
    2. Ákveðinn hluti þjóðarinnar óskar eftir
    3. Allar lagasetningar?
    4. Breytingar á stjórnarskrá?

Stjórnlagaþing

  1. Á stjórnlagaþing að vera reglulegt?
    1. Á ákveðnum fresti
    2. Þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt, td. þing eða ákveðinn hluti þjóðar óskar eftir
  2. Hvernig á að velja á stjórnlagaþing?
    1. Kjósa
    2. Af handahófi
  3. Hvernig á að skilgreina fjölda þátttakenda?
    1. Sem hlutfall af þjóð
  4. Á að tryggja framtíð stjórnlagaþings?
    1. Í stjórnarskránni
    2. Með lögum
  5. Hvernig tryggjum við aðkomu allra við gerð og endurskoðun stjórnarskrárinnar?
  6. Breytist stjórnarskráin með breyttu samfélagi?

Dómstólar

  1. Hvernig á að velja dómara?
    1. Eiga þingnefndir að kjósa?
    2. Á Alþingi að skipa?
      1. i.      Hæstaréttardómara
    3. Á að kjósa í almennum kosningum?
  2. Þarf sérstakan stjórnlagadómstóll?
  3. Hvernig er sjálfstæði og hæfni dómsvalds tryggt?
  4. Hversu mörg eiga dómstig að vera?
  5. Á að skipa kviðdóm?

Framkvæmdavald

  1. Á að kjósa framkvæmdavald beinni kosningu?
    1. Ef svo er á að kjósa verkstjóra/forsætisráðherra fyrst?
    2. Á verkstjóri/forsætisráðherra að skipa stjórn?
  2. Eiga ráðherrar að vera þingmenn?
  3. Á að vera hámarkstími í stóli ráðherra?

Löggjafarvald

  1. Hvernig er tryggt að öll sjónarmið og skoðanir komi fram hjá löggjafarvaldi?
  2. Hvert er lagasetningarferlið?

Mannréttindi

  1. Eiga að vera ákvæði um mannréttindi í stjórnarskrá, og þá hvaða?
  2. Eiga að vera ákvæði um jafnrétti í stjórnarskrá?

Velferð

  1. Eiga að vera ákvæði um velferðarmál í stjórnarskránni og þá hvaða?

Frelsi

  1. Eiga að vera ákvæði um frelsi í stjórnarskránnig, og þá hvaða?
    1. Á skilgreiningin á frelsi að vera jákvæð eða neikvæð?

Persónuvernd

  1. Hvaða skilgreiningu á friðhelgi þarf í stjórnarskránni varðandi persónuvernd?

Eignarréttur

  1. Eiga að vera ákvæði um eignarrétt í stjórnarskránnig? Ef svo er hvaða?
  2. Er eignarréttur í núverandi mynd úreltur?
  3. Hvernig skilgreinum við eignarétt einstaklings?
  4. Hvernig skilgreinum við eignarétt ríkis?

Þjóðkirkja

  1. Á að vera þjóðkirkja?

Gagnsæi

  1. Hver á að hafa eftirlit með hverjum?
  2. Á að tryggja tjáningarfrelsi? Hverra?
  3. Eiga opinber gögn að vera opin?
  4. Er gegnsæi tryggt?
  5. Eiga störf þingnefnda að vera opnari?
  6. Hvernig á að tryggja aðgengi fólks að upplýsingum og viðhafa gagnsæi í stjórnsýslunni?
  7. Í hversu miklum mæli eiga opinber gögn að vera opin?
  8. Hvernig geta eftirlitsaðilar verið vörn almennings gegn valdi?
  9. Hvernig má tryggja aðgang almennings að öllum upplýsingum?

Auðlindir

  1. Hvernig eru auðlindir skilgreindar?
  2. Hvernig förum við með auðlindir sem erfast milli kynslóða?
  3. Eiga auðlindir að vera í þjóðareign?
  4. Ef auðlindir eiga að vera í þjóðareign,  hvaða auðlindir?
  5. Skulu vera ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd?
  6. Ef ákvæði um náttúruvernd eru í stjórnarskrá þarf að taka tillit til atvinnufrelsis og verðmætasköpunar?
  7. Er aðgengi að tilteknum auðlindum mannréttindi?
  8. Á að tryggja öllum aðgang að hreinu neysluvatni í stjórnarskránni?

Alþjóðavettvangur

  1. Þarf að takmarka rétt ríkisins til að framselja löggjafar-, framkvæmda- og/eða dómsvald?
  2. Hver er ábyrgð Íslands í alþjóðasasmfélaginu?
  3. Hvernig á að hátta milliríkjasamskiptum?
  4. Hversu langt má ríkið ganga við gerð alþjóðasamninga?
  5. Á Ísland að hafa sjálfbærni í alþjóðasamfélaginu að leiðarljósi?
  6. Má Ísland taka þátt í stríðsátökum?
  7. Á að vera ákvæði í stjórnarskrá um herlaust Ísland og bann við því að segja öðrum ríkjum stríð á hendur?
  8. Á Ísland að standa utan hernaðarbandalaga?
  9. Á að hafa hlutleysisákvæði?

Menning

  1. Eiga að koma fram ákvæði um menningu landsmanna?

Hverju breytir ný stjórnarskrá? 2/3

Það er ljóst að ekki er farið eftir núverandi stjórnarskrá í veigamiklum atriðum eins og farið er í hér. Meðal annars eru þau ákvæði sem þó eru um þrískiptingu valds þverbrotin og stjórnarsáttmálinn og stigskipting valds innan flokkakerfisins er samvisku þingmanna æðri. Það er því von að spurt sé hvaða máli það skipti hvort það verði búin til ný stjórnarskrá eða ekki - hún gagnast lítið ef ekki er farið eftir henni. Hvernig væri þá hægt að gera nýja stjórnarskrá sem farið væri eftir?

Ekki okkar stjórnarskrá

Fyrsta, og augljósasta svarið er að þetta er alls ekki okkar stjórnarskrá til að byrja með, og því ættum við þá að fara eftir henni? Núverandi stjórnarskrá var gjöf til okkar frá Kristjáni IX árið 1874 og hét þá „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Það er sama stjórnarskrá og við höfum núna, með óverulegum breytingum. Þær breytingar sem eru þó, snúast um kjördæmaskiptingu, forsetafyrirbærið og mannréttindaákvæði - allt litlar breytingar sé litið til heildarmyndarinnar. 

Stjórnarskráin okkar er dönsk tilraun til að halda friðinn við Íslendinga, en þó án þess að missa yfir þeim völdin. Það er ekki nema furða að Íslendingar séu tregir við að halda tryggð við svoleiðis samsetning. Til að Íslendingar fari eftir stjórnarskrá er fyrsta skilyrðið að það sé íslensk stjórnarskrá.

Endurspegla skal vilja og hagsmuni almennings

Vandamálið með  núverandi kerfi, og ástæða þess að einungis 10-13% landsmanna treysta alþingi, er að reglurnar hafa ekki verið búnar til fyrir almenning. Þær hafa verið gerðar af valdhöfum fyrir valdhafa. Og er þá sama um hvor verið er að ræða, stjórnarskrá eða lög. Í sinni öfgakenndustu mynd hafa valdhafar tekið eignir af almenningi, svo sem banka, fjarskiptafyrirtæki, orkuver og bifreiðaskoðun og afhent það vinum sínum og flokksfélögum til afnota gegn vægu gjaldi, gjarnan lánum. Þeir festa í lög ríflegar eftirlaunareglur fyrir sig sjálfa, neita öllum lýðræðisumbótum og brjóta mannréttindi. Svo hrynur spilaborgin og þá neita þeir að axla ábyrgð, svara út í hött og bjóða sig aftur fram til að sinna almannahagsmunum. 

Stjórnarskráin þarf því að vera samin af fólki sem er algerlega ótengt valdhöfum. Þá er sama hvort við er átt stjórnmálamenn eða talsmenn auðstéttanna. Það er við búið að hagsmunavélarnar fari í gang og þeir sem vanir eru að fara með völdin komi sínum kandídötum á framfæri og nota öll tæki til að rægja þær persónur sem ekki samrýmast þeirra skoðunum og hagsmunum. Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar munu koma sínu fólki á framfæri, LÍÚ mun koma sínum manni að, fjármagnseigendur sínum osfrv. Því er afar mikilvægt að sem flestir mæti á kjörstað til að kjósa til stjórnlagaþings og kjósi þá fulltrúa sem þjóna hagsmunum almennings, en ekki þröngra hagsmuna. 

Ef valdhafar ná sínu fram og annað hvort komi nógu mörgum að á stjórnlagaþingi, eða alþingi breyti stjórnarskránni sem kemur frá stjórnlagaþingi á nokkurn hátt, fer að lokum fyrir nýju stjórnarskránni eins og þeirri gömlu. Það fer enginn eftir henni.

Raunverulegt aðhald

Það hefur sýnt sig að á Íslandi búa ábyrgðarlausustu stjórnmálamenn í hinum vestræna heimi. Þeir bera ekki ábyrgð á nokkrum hlut, hvorki siðferðislega né lagalega. Þetta þarf að fyrirbyggja með nýrri stjórnmálastétt (það er reyndar ekki efni þessarar greinar að fjalla um það vandamál), nýrrar siðferðisvitundar þjóðarinnar allrar og regluverks þar sem stjórnmálastéttin er þvinguð til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Til þess að svo megi vera þarf að tryggja sjálfstæði dómsvalda og fjölga dómstigum. Það þarf að stofna til sérstakas stjórnlagadómstóls sem borgarar geti leitað til telji þeir stjórnarskrárbundin réttindi sín hafi verið brotin. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að kosningalögum og meðferð alþingis á valdi sínu. Eins og stjórnarskráin er núna er það alþingi sem sker úr um eigið hæfi, í versta falli landsdómur, sem aldrei hefur verið kallaður saman í sögu landsins... því það er alþingi sem ber ábyrgð á að kalla hann saman. Umboðsmaður alþingis hefur síðan vald til að skamma alþingismenn.

Allir geti tekið þátt í að semja nýja stjórnarskrá

Aðgengi að upplýsingum og auðveldar samskipta- og boðleiðir fyrir þá sem hafa eitthvað til málana að leggja við gerð eða endurskoðun nýrrar stjórnarskrár með sérstaka áherslu á að landsbyggðarfólk geti jafnauðveldlega haft áhrif og borgarbúar er svo nauðsynlegt til að tryggja jafnræði, sameiginlegan skilning og eykur líkurnar á því að niðurstaðan verði sem best. Eins og er virðist reglan vera að upplýsingar séu lokaðar nema að það sé sérstaklega ákveðið að opna þær og birta. Þessu þarf að snúa við. Upplýsingar eiga að vera algerlega opnar nema það sé sérstaklega rökstutt með vísan til almannahagsmuna að þær séu lokaðar. Það ætti þó að vera alger undantekning að opinberir aðilar haldi upplýsingum frá borgurum sínum. Það er erfitt að leggja nægilega áherslu á þetta atriði - upplýsingar eru upphaf og endir allra valda.

Til að mark verði tekið á nýrri stjórnarskrá verða allar upplýsingar og forsendur að liggja fyrir bæði fyrir og eftir í aðgengilegu formi. Allir, ekki bara lýðræðislega kosnir fulltrúar almennings, eiga að geta haft áhrif á ferlið og geta auðveldlega komið á fram athugasemdum og hugmyndum. Ef þetta verður lokað ferli fyrir takmarkaðan hóp, verður stjórnarskráin líka bara tekin alvarlega af takmörkuðum hóp. 

Auðlæsileg stjórnarskrá

Niðurstaðan verður að vera þannig úr garði gerð að venjulegt, ólöglært, óstjórnmálaskólað fólk geti lesið hana og skilið. Það ætti að vera auðvelt að leggja greinar hennar á minnið og innihald hennar á að vera sem minnst túlkanlegt - þannig að andi hennar skíni heiður og klár í gegn. Ekkert lögfræðijargon, ekkert stofnanamál, engin formlegheit - bara venjuleg íslenska. Íslendingar fara ekki eftir stjórnarskrá sem þeir geta ekki lesið og skilið.


Næsta síða »

Um bloggið

Daði Ingólfsson

Höfundur

Daði Ingólfsson
Daði Ingólfsson
Höfundur er vongóður um að þetta sé allt að stóru leyti misskilningur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • thjodfundur-nidurstodur Page 9web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 8web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 7web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 6web
  • thjodfundur-nidurstodur Page 5web

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband