Færsluflokkur: Bloggar
21.4.2007 | 22:50
Orðræða biðarinnar
Þegar ég opna skilningavit mín í því einkennilega samfélagsástandi sem hefur verið kallað "kosningabarátta" fyllist ég alltaf von um að nú ó nú segi einhver eitthvað. Ég verð undantekningalaust fyrir vonbrigðum.
Það er vitað mál að stjórnmálamenn nota fyrst og fremst orðræðu sem er hættulaus fyrir þá og það djobb sem þeir vonst til að fá. Það er fyndið frá því að segja, en umræður á alþingi geta verið talsvert meira krassandi en þetta endalausa kosningamoð sem einkennist mest af bið. Bið eftir að stjórnarliðar taki ábyrgð á gjörðum sínum - eins og td. þátttöku Íslendinga í Íraksstríðinu - bið eftir að stjórnarandstaðan nái að snúa á stjórnina með einhverri snilldarlegri málfærslu, bið eftir að Frjálslyndir segi sem þeim finnist, að Ísland eigi eksklúsíft að vera fyrir aría, bið eftir að einhver tali af sér, bið eftir að einhver hætti þessu dæmalausa moði og segi eitthvað sem lendir utan þessarar vel skilgreindu orðasúpu sem stjórnmálamenn veiða upp úr. Daglegt orðafar eins og td. "djöfull er mér kalt" eða "ég get ekki mætt því litli sonur minn er með niðurgang" mundi fá mann til að sperra eyrun eins og um byltingu hugans væri að ræða. Pælið aðeins í því!
Hins vegar eru gjaldgeingar orðsambandaælur eins og "ég vísa þessum dylgjum alfarið á bug", "ég get ekki tekið afstöðu til málsins að svo stöddu" og "Málið er í góðum farvegi og niðurstaðna að vænta frá nefnd innan fárra mánaða" fullkomlega gjaldgengar. Seinni tvær setningarnar þýða hins vegar á mannamáli "ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala, þó ég ætti að vita það starfs míns vegna, en ég skal spyrja formanninn hvað ég á að segja og láta það leka fljótlega". Semsagt enn eitt dæmi um þessa endalausu bið sem við venjulega fólkið látum yfir okkur ganga. Ekkert af þessu á svo erindi í raunveruleikanum því niðurstöðurnar eru aldrei í takti við hvað viðkomandi telji bestu hugmyndina, heldur hvað passar best að segja undir þessum kringumstæðum. Og svo er skitið á kjósendur undireins og kosningum lýkur, eins og sannaðist best eftir síðustu kosningar þegar launahækkanir alþingismanna dúkkuðu upp meðan leifar af sjónvarpssmikninu voru ennþá á vöngum sigri hrósandi handhafa biðlauna næstu fjögurra ára.
Því kýs ég þetta árið frekar Rockstar eða Kambodias next top model í viðtækinu mínu. Það er alla vega töluvert meiri raunveruleiki í því - og mestu tafir sem maður lendir í er biðin eftir að auglýsingarnar taki enda... kosningaauglýsingarnar í augnablikinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2007 | 15:34
Ég vísa þessum dylgjum alfarið á bug
Mogginn birtir hins vegar á Páskadag (þegar Fréttablaðið kemur ekki út) grein um könnun Gallup á síðu fjögur undir fyrirsöginni "Geir nýtur mestra vinsælda" með millifyrirsögninni "Flestir neikvæðir gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu". Það verður þó að teljast vafasöm fyrirsögn þar sem stuðningur við Geir er alls engin frétt í sjálfu sér, og engin breyting frá því sem verið hefur, sérstaklega í ljósi þess að Geir er formaður flokks með yfir 40% fylgi. Hins vegar er athyglivert að sjá að Steingrímur J. Sigfússon (sem er formaður flokks með rétt um 20% fylgi) fær litlu minni stuðning, eða 50,8%. En það sem er verulega fréttnæmt er að Ómar nokkur Ragnarsson, fréttamaður og sprelligosi, fær hvorki meira né minna en 43% "fylgi" í þessari viðhorfsvog! Maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta. Með fullri virðingu fyrir þessum ágæta manni, sem vill öllum og ömmu hans vel, þá er hér um að ræða einstakling sem er nýkominn út úr skápnum sem pólitíkus og náttúruverndarsinni, með þeim fyrirvara þó að hann er annálaður áhugamaður um land og þjóð. En hversu langt það kemur honum í gerð stjórnarsáttmála, umræðum á alþingi um lög gegn barnaklámi eða annari umræðu um fjárlög ársins 2008 verða aðrir að dæma um.
Morgunblaðið birtir þar að auki í sama blaði í því undarlega elementi "Staksteinum" - sem er skrifað af ónafngreindum aðila sem heitir Styrmir - dómsdagsspá yfir forystufólki Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fari kosningarnar á þann veg að ríkisstjórnin haldi velli (eins og einungis ein könnun hefur gefið til kynna sl. mánuði). Ég man ekki eftir slíkri grein um forystumenn stjórnarflokkana, fari kosningar á þann veg sem flestar skoðanakannanir benda til.
Þetta þýðir einfaldlega að fjölmiðlum er valt að treysta. Efnistök þessara tveggja miðla yfir hátíðarnar eru dæmigerðar fyrir það sem á undan hefur gengið og á ekki að koma neinum á óvart. Ef hins vegar eitthvað er að marka efni greinanna sjálfra er niðurstaðan sú að kosningaloforð eru lítils virði og fólk treystir skemmtikröftum jafn vel til stjórnmálastarfa og reyndum pólitíkusum. Hversu æðislegt er það? Það væri reyndar athyglivert að sjá stjórnarsáttmála sem væri skrifaður af Spaugstofumönnum, Tvíhöfða og Strákunum og Stelpunum - með dyggri aðstoð Flosa Ólafssonar og Ómars Ragnarssonar. Kanski mundu þau efna loforðin... bara spurning um hverju þau mundu lofa.
En hverjum er ekki sama um það? Það er alltaf hægt að kenna þenslu, stjórnarandstöðunni, óstöðugu gengi, óstöðugu olíuverði, fáum fiskum í sjónum, hækkandi lyfjaverði, bönkunum (sem koma fólki alltaf gersamlega í opna skjöldu með viðleytni sinni til að græða peninga), veðrinu, landslaginu og bla bla bla bla um. Alla vega er eitt alveg á kristaltæru: Ríkisstjórnin gerir aldrei mistök. En þegar þeir gera mistök, eru það ekki mistök heldur "óviðráðanlegar aðstæður" eða "breyttar forsendur" og öllu saman er "vísað á bug", því það eru augljóslega "dylgjur".
Rosalega er annars langt síðan ég hef vísað einhverju á bug. Geri það hér með. Vísa öllu draslinu á bug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2007 | 15:31
Símskeyti - hagfræðilegt tjáningarform
Þannig er nefnilega mál með vexti að ein stúlknanna er einhleyp og stendur í því að tjá sig við náunga (sem væntanlega er pótential uppþvottavél) með hjálp símans síns. Hún hafði skrifað honum einhverja spurningu, sem hann svaraði eins blátt áfram og honum var unt með orðunum "já, sjáumst þá". Bíngó basta. Ekki eitt aukatekið orð í viðbót...
Í veröld þar sem ekki telst til stórtíðinda að jarðskjálfti bani tvöhundruð og súrkál kínverjum þætti manni eðlilegt að skilaboð sem þessi féllu í gleymskunnar dá eins fljótt og hálfvankað þorskígildisgrey skiptir um sílspikaðan sægreifa. En neibbs. Það var eins og stóri hvellur hefði skyndilega verið afsannaður með óyggjandi rökum um að heimurinn hafi orðið til fyrir misskilning í HotSpot safapressu af ódýrustu tegund í ferðabar á leiðinni milli Milwakee og Winnepeg eina síðsumarnótt í febrúar árið 2001. Stúlkurnar voru bergnumdar. "já, sjáumst þá" fékk lækni, sálfræðing, guðfræðing og tónlistarkennara til að gleyma áhyggjum hversdagsins í fleiri klukkutíma. Hverjum einasta steini í hugarfylgsnum þessa unga manns var snúið af mikilli alúð og nákvæmni, hlutverk hans sem vonbiðils mannfræðilega tekið út, félagsþverfaglegar aðstæður ræddar og þetta svo allt sett í heimspekilegt og þekkingarfræðilegt samhengi við allt sem nokkurn tíman hefur dinglað milli eyrnana á nokkrum lifandi manni, fyrr eða síðar.
Ungi maðurinn fékk hiksta.
Sögulok urðu auðvitað þau að vesalings drengurinn hitti ekki stúlkuna sem hann var hálfpartinn að vonast eftir að kynnast. Það hefði verið of augljóst. Til að hægt væri að fá aðgang að þessari tilteknu stúlku þurfti, kom upp úr dúrnum, að gefa skilaboð sem væru ekki jákvæð, ekki beinlínis neikvæð, ekki augljós, ekki hikandi, ekki djörf, ekki feimin, ekki löng, ekki stutt, ekki of frumleg, ekki leiðinleg og ekki ekki ekki (ég þori varla að segja það) - ekki hrein og bein. Það þarf ekki að fjölyrða um hvaða lokameðferð "já, sjáumst þá" fékk í þessari nefnd. Maðurinn var augljóslega fremur vanþroskað illmenni.
Þetta kemur mér að móral sögunnar.
Mórall sögunnar er að aukið aðgengi manna að samskiptatólum hvers konar er ekki til þess fallið að auka fólksfjölda. Það er sem sagt hagfræðilega óæskilegt.
Því legg ég hér með til að miðstjórnin banni svoleiðis hátterni og leyfi fólki héðan í frá einungis að tjá sig skriflega með símskeytum stopp
eða morsi stopp
eða stopp
stopp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Daði Ingólfsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar